Forsíða
Ofvirknivefur
Ofvirknibók 
Kjörþögli
Kærleiksspili
Umsagnir 
 

Ofvirkni 
-
bók fyrir kennara og foreldra


Höfundur Ofvirknibókarinnar,
Ragna Freyja Karlsdóttir, sérkennari.

Inngangur

Hér fer á eftir ritfregn Grétars L. Marinóssonar, sem birtist í Netlu - Veftímariti um uppeldi og menntun Rannsóknarstofnunar Kennaraháskóla Íslands þann 9. janúar 2002.  

Hér finnurðu ritfregnina í Netlu en því miður skila séríslensku bókstafirnir sér ekki kurteislega á skjá ritara og því fylgir textinn hér fyrir neðan.

Netla
Veftímarit
um uppeldi
og menntun

Rannsóknar-
stofnun
Kennara-
háskóla
Íslands

Ritfregn
birt
9. janúar
2002

Gretar L. Marinósson

Amorsráð

Ragna Freyja Karlsdóttir
Ofvirknibókin fyrir kennara og foreldra
Höfundur gefur út
Kópavogur 2001

Sumir nemendur eru illa liðnir í skóla eða á eigin heimili vegna mikillar athafnaþarfar, óróleika eða hvatvísi. ,Ofvirkni’, eða AMO (athyglisbrestur með ofvirkni), eins og Ragna Freyja kýs að kalla fyrirbærið í þessari bók, er lýsing á slíkri hegðun sem birtist í mörgum myndum og getur átt sér margvíslegar orsakir. Hún er því ekki til í þeim skilningi að hægt sé að benda á eitt eða fleiri einkenni, orsakir eða afleiðingar sem óyggjandi vísbendingar um tilvist. Þetta er greiningarheiti yfir samsafn hegðunareinkenna sem einstaklingar sýna á ýmsum þroskaskeiðum, í ýmsu samhengi, að ýmsu marki og í ýmsum samsetningum. Það á vissulega við um flesta þá hegðun sem við sýnum einhvern tímann á ævinni, við einhver tækifæri.

En sérfræðingar (aðallega geðlæknar og sálfræðingar) hafa komið sér saman um þetta heiti, með tilheyrandi greiningarviðmiðum, til að lýsa hegðun, sem sé afbrigðileg og talin af líffræðilegum sökum og þarfnist því sérfræðilegrar meðferðar. Áður, og á ólíkum tímaskeiðum, var slík hegðun ýmist talin stafa af siðleysi, agaleysi, taugaveiklun eða frekju og þarfnaðist viðbragða í samræmi við ríkjandi skýringu þess tíma. Það sem ekki hefur breyst er að hegðunin sem um er rætt er talin ganga út fyrir viðurkennd mörk félagslegra siðareglna. Skilgreiningin er því í rauninni siðferðileg og menningarbundin, enda speglast það í miklum mun á tíðni milli landa. Þar sem það er eitt hlutverk skóla og heimila að ala börn upp í góðum siðum er þeim mikilvægt að kunna skil á réttum viðbrögðum við slíkri hegðun. Ekki er verra ef kenningarnar aflétta eilífri sektarkennd skóla og heimila yfir því að ráða illa við uppeldið. Því hafa flestir foreldrar og sérfræðingar skólakerfisins tekið fagnandi samkomulaginu um heilkennið ADHD. Skammstöfunin merkir bókstaflega athyglisbrestur með ofvirkniröskun eða, í beinni þýðingu: AMOR, (sem er jafnframt í betra samræmi við kærleiksboðskap bókarinnar en AMO). Í bók þessari má einnig finna greiningarviðmið fyrir heilkennið. Þessi viðmið hafa verið notuð af Greiningarstöð ríkisins og heilbrigðisstofnunum hérlendis um nokkurra ára skeið. Ragna Freyja fjallar um erfiða hegðun barna undir heiti heilkennisins og bætir jafnframt atferlisgreiningu í verkfærakistu sína. Bókin byggir þannig á því einstaklingslíkani sem einkennir umfjöllun um sérþarfir barna hér á landi og víða erlendis um þessar mundir.

En Ragna Freyja fer engar venjulegar sérfræðilegar leiðir við að útskýra hegðunarerfiðleika eða viðbrögð við þeim. Hún leggur áherslu á að laga umhverfið, ekki síst framkomu annarra, þannig að börnum með erfiða hegðun líði vel og læri. Leiðin sem hún kennir er vitsmunaleg nálgun þar sem gert er ráð fyrir því að barnið hafi skoðun á hegðun sinni og ímynd og geti að marki haft áhrif á hvorutveggja með eigin skynsemi og stuðningi fullorðinna. Áhersla er á sterka þætti í fari barnsins, ekki einungis til að styrkja sjálfsvitund þess heldur ekki síður vegna þess að mikilvægt er, að mati höfundar, að hugsa þannig um annað fólk.

Það sem einkennir bókina er barnvænn skilningur, virðing fyrir rétti einstaklingsins, umhyggja og mannúðleg viðbrögð við erfiðleikum. Bókin er hafsjór af þekkingu, reynslu og visku á sviði mannlegra samskipta, og góðum ráðum í samskiptum við erfið börn. Þetta er siðfræði samskipta af bestu tegund og umfjöllunin er hjartnæm á köflum, enda mynd af hjarta notað til að einkenna svonefndar Örsögur, tilvitnanir í krakka sem segja oft meira en fræðilegi textinn. Þess vegna er á stundum erfitt að samræma boðskapinn flokkunarhugsunarhætti greiningarviðmiða og vélrænum forsendum atferlisgreiningar, sem höfundur fellir inn í umræðuna án sýnilegra vandkvæða.

Bókin er aðallega hugsuð fyrir kennara og foreldra, en er þó þörf lesning öllum sem umgangast börn, og það eru vissulega fleiri en þeir sem eiga börn eða kenna þeim. Hún á við um öll börn einhvern tímann en þó sérstaklega um þau sem ekki hafa nægilegt vald á viðfangsefnum skólans og standa illa undir kröfum hans. Ítarlegur ráðabanki gerir bókina eflaust eftirsótta sem uppflettirit. Óvenjulegt og kærkomið er að sjá fjölmörg góð ráð til barnanna sjálfra, sem uppalendur og kennarar geta miðlað.

Bókin er fallega úr garði gerð og gott að handfjalla hana. Atriðaskrá eykur enn gildi hennar. Hún er hins vegar allt of dýr fyrir vasa venjulegra foreldra eða kennara. Það sló mig jafnframt illa að höfundur nefnir í formála fyrirtæki sitt, sem sinnir ráðgjöf vegna ofvirkni. Þar með missir ritið nokkurn trúverðugleika sem fagleg leiðbeining á forsendum foreldra, kennara eða nemenda. Nokkuð ber á skorti á bókfræðilegri ráðgjöf til höfundar, eins og ósamræmi í skráningu heimilda. Það er heldur ekki auðvelt að átta sig á því hvað af efninu höfundur sækir í rit annarra, þar sem fáar tilvísanir eru í texta eða neðanmáls.

Ath!!

Letur-
breyting

GÓP

Að lokum má gera nokkrar athugasemdir við meðferð staðreynda og hugtaka. Þannig eru tölur um tíðni AMO á reiki (bls. 16) og víða staðhæft að ‘rannsóknir sýna…’ án þess að heimilda sé getið. Neikvæð styrking er rangt útskýrð (bls. 74) sem refsing í stað fjarlægingar á neikvæðu áreiti. Einnig er mótsögn fólgin í því að leggja til að skipt sé um umbun þegar nemendur þreytast á umbunakerfinu (bls. 76). Þá virkar ekkert sem styrking. Á bls. 15 er talað um að þessa nemendur skorti ekki hæfni til náms heldur komi eitthvað, t.d. athyglisbrestur, í veg fyrir að hún nýtist. En hvað er hæfni til náms ef hún nýtist ekki til náms?
 

Spyrja má hvaða hlutverki skólakerfið eigi að gegna í viðbrögðum við börn með slíka hegðun. Hvaða áhrif hafa markaðsviðhorf í menntun á viðbrögð skólanna, t.d. aukagreiðslur til kennara vegna erfiðra nemenda, auknar kröfur um betri árangur í námi og samræmd próf? Hvað um rétt annarra barna til næðis til vinnu? Hvað um sérdeildir, sérskóla, Barna- og unglingageðdeild og önnur úrræði kerfisins? Um þetta er ekki fjallað í þessari bók enda eflaust ekki til þess stofnað. En spurningar af þessu tagi vakna við lesturinn.

Í bókinni tekst Rögnu Freyju frábærlega vel að fjalla um uppeldi og kennslu barna sem falla í greiningarflokkinn AMO, sem vakið hefur athygli á síðust árum. Hún gerir það með því að túlka sjúkdómshugsunarhátt greiningarviðmiðanna og breyta honum þannig í mannúðlegan skilning á lifandi einstaklingum. Þannig glæðir hún hegðunina lífi og gerir merkilappana merkingarbæra. Þess vegna mæli ég með bókinni við alla sem umgangast börn sem þeim þykja erfið.

9. janúar
2002

*   *   *

Efst á þessa síðu * Forsíða * Ofvirknivefur * OfvirknibókUmsagnir