* * GÓP-fréttir - forsíða * Vaðatal * Ferðatorg * Ferðaskrá

Öræfaleiðir haustið 1957

© fjölsk. Sigurjóns Rist

Meðfylgjandi kort er úr Ferðum, blaði Ferðafélags Akureyrar, 17. árgangi í Júni 1958. Blaðið flytur greinina Öræfaleiðir eftir Sigurjón Rist. Á teikningunni eru númer sem vísa til skýringa sem fylgdu með í blaðinu. Skýringar Sigurjóns fylgja hér með. Inn er skotið auðkenndum athugasemdum þar sem við á - en nokkur breyting hefur orðið á sumum leiðum á þeirri senn hálfu öld sem liðin er frá því að Sigurjón tók þetta saman.

Úr inngangi

Sigurjón Rist ritar fróðlegan inngang að slóðayfirlitinu þar sem hann segir meðal annars:

...

Ferðatæknin hefur breyst og breytist hratt, svo að sögulega séð virðist eðlilegt að tala hér um þrjú þróunarstig:

  • 1. Fjallvegirnir gömlu, hestatroðningar.
  • 2. Vegir eða öllu heldur vegleysur, sem kóklast er nú á bifreiðum.
  • 3. Vegir upphleyptir, sem byggðir verða í framtíðinni milli landshluta.

Í greinarstúf þessum skal einvörðungu fjallað um lið 2 og hversu ætla megi að hann tengist við 3. þróunarstigið.

...

Hér er birt teikning af Miðhálendinu með helstu bifreiðaslóðunum, eins og þær voru haustið 1957. Leiðirnar eru færar bifreiðum með drifi á öllum hjólum. Í skýringu myndarinnar er lýst sérkennum hvers vegarhluta, er þeir eru 41 talsins. Vegalengdir eru mældar með kílómetramælum bifreiða, oft við erfið skilyrði, og getur því skeikað nokkru.

Reynt er að gera grein fyrir hvenær á sumrinu hver einstakur vegarspotti verður fær. Sá hængur er á að þetta er verulega breytilegt frá ári til árs. Hér hef ég lagt árin 1952 - 1957 til grundvallar, en þá hefur yfirleitt vorað fremur snemma. Í fersku minni er vorið 1949 en þá tók snjóa loks að leysa um 20. júní á þeim leiðum sem hér eru taldar færar í maí. Alltaf má búast við afbrigðilegum árum, ólíkum árunum 1952-57, á annan hvorn veginn, þannig að vegirnir opnist löngu síðar eða nokkru fyrr. Þetta þurfa lesendur Ferða að hafa í huga, og því aðeins geta þeir haft meira gagn en skaða af tímaákvörðuninni.
...

 1 *  2 *  3 *  4 *  5 *  6 *  7 *  8 *  9 * 10 * 11 * 12 * 13 * 14 * 15 * 16 * 17 * 18 * 19 * 20 * 21 * 22 * 23 * 24 * 25 * 26 * 27 * 28 * 29 * 30 * 31 * 32 * 33 * 34 * 35 * 36 * 37 * 38 * 39 * 40 * 41
 1 *  2 *  3 *  4 *  5 *  6 *  7 *  8 *  9 * 10 * 11 * 12 * 13 * 14 * 15 * 16 * 17 * 18 * 19 * 20 * 21 * 22 * 23 * 24 * 25 * 26 * 27 * 28 * 29 * 30 * 31 * 32 * 33 * 34 * 35 * 36 * 37 * 38 * 39 * 40 * 41
1. Vatnahjallavegur

Hólsgerði - Laugafell - 45 km.
Ferðafélag Akureyrar ruddi veginn en hefur ekki haldið honum við hin allra síðustu ár. Sneiðingarnir upp með Hafrárgili því illfærir. Í fjallsbrúninni hjá Sankti-Pétri liggur fönn á veginum fram í ágústmánuð. Á síðastliðnu sumri hugaði FFA að vegarstæði upp úr Sölvadal. * Aftur í kortið.

2. Sprengisandsvegur

Frá Mýri í Bárðardal og suður um Sprengisand.
Mýri - Tómasarhagi - 100 km.

Leiðin er fremur seinfarin en án verulegra hindrana. Verður fær um mánaðamótin júní - júlí, en þá eru fyrst í stað aurblettir í Kiðagilsdrögum því að vatn sígur þar úr fönnum fram á slóðina og jarðvegur er víða móleðjublandinn. Nyrsti hluti leiðarinnar hefur verið ruddur og lagaður lítils háttar. Nauðsynlegt er að kanna rækilega nágrenni leiðarinnar og taka svo af henni ýmsa óþarfa króka og leggja hana þar sem vegarstæði er betra. Hlaða vörður meðfram henni og setja niður vegvísa. Segja má að þessi athugasemd eigi við allar leiðirnar hér á eftir. Frá Fjórðungsvatni og suður í Tómasarhaga er hörð og slétt sandbrekka, hin greiðfærasta leið. * Aftur í kortið.

3. Kiðagilsdrög - Laugafell - 22 km

Leið FFA að sæluhúsinu við Laugafell,. Leiðin hefur verið vörðuð að nokkru. Verður fær um miðjan júlí. * Aftur í kortið.

4. Laugafell - Sprengisandsvegur - 23 km

Sæmilega greiðfærir melar og giljadrög. Eina vatnsfallið á leiðinni er Bergvatnskvísl Þjórsár. Í Ferðum 1947 sagði skáldið Baldur Eiríksson um þessa leið meðal annars:

Farið um ótal ókunn drög,
yfir Þjórsá, en grunna mjög,
í hófskegg - í hæsta lagi.

- -

Viðbót GÓP - endurskoðuð 22. nóv. 2004
eftir ábendingu frá Grétari G. Ingvarssyni:

5. Tómasarhagi - Ódáðahraun.

Tómasarhagi - Gæsavötn - 45 km.
Vatnsföll á leiðinni eru upptökukvíslar Skjálfandafljóts. Þær eru litlar og enginn verulegur farartálmi fyrir stóra bíla en kanna þarf þær rækilega í hvert sinn. Í þeim kunna að leynast örlitlir en illir sandbleytupyttir í skjóli stórgrýtis. Verður fær síðast í júlí eða snemma í ágúst. Þessi leið, "Gæsavatnaleið", tengir Sprengisandsveg við leiðir um Ódáðahraun.

- -

Viðbót GÓP: Í þessum kvíslum geta verið hlaup og aukið vatnsmagn um stundarsakir. Árið 1984 fórust 5 menn á vaðinu yfir Rjúpnabrekkukvísl. Þetta voru erlendir ferðamenn einbíla á ferð. Bíllinn fannst í vatnsfallinu en þeir ekki. * Aftur í kortið.

6. Tómasarhagi - Hnöttótta alda - 50 km

Vatnsfall á leiðinni er Fjórðungskvísl í nokkrum kvíslum. Hún er enginn verulegur farartálmi vegna vatnsdýpis en sýna þarf varkárni vegna sandbleytu. Bifreiðaslóðir liggja inn í Jökuldal. Þar eru varasamar sandbleytur að ánni. Þegar sólfar er mikið er rennsli árinnar mest um nónbil en minnst snemma á morgnana. Norðaustur af Kistuöldu eru þurrir en grýttir vatnsfarvegir. Af þeim sökum tekur skemmri tíma að fara leiðirnar nr. 8 og 9, þótt þær séu til samans nokkru lengri. Verður fær fyrstu daga júlímánaðar. * Aftur í kortið.

7. Á Sprengisandi

eru greiðfærir sandar og melaflákar og liggja bílaslóðir þar víða. Leið nr. 7 sýnir eina af þessum slóðum, 30 km.
Þá er farið yfir Fjórðungskvísl á gamla hestavaðinu. Þar er hún í einu lagi og nokkuð djúp, en botn fastur. Grýttur kafli sunnan árinnar. Nál. 3 km ofan við vaðið er besta brúarstæðið á Fjórðungskvísl þar sem hún er í gili. * Aftur í kortið.

8. Tómasarhagi - Eyvindarkofaver - 35 km

Greiðfær leið. Verður fær snemma í júlí. * Aftur í kortið.

9. Eyvindarkofaver - Kistualda - 15 km

Greið leið. Farið hefur verið á bílum frá Eyvindarkofaveri og suður yfir Þúfuverskvísl, en sú leið er illfær vegna bleytu. Betri er krókur en kelda. * Aftur í kortið.

10. Hnöttóttaalda - Ferðamannaalda -Kjalvötn - 35 km

Greiðfær leið. Lítið vatn er í Svartá og botn fastur. Aðgæslu þarf við lækjardrög á kaflanum Ferðamannaalda - Svartá. Verður fær um mánaðamótin júní - júlí. * Aftur í kortið.

11. Ferðamannaalda - Sóleyjarhöfði - 5 km

Grýtt á stöku stað. Komið að Sóleyjarhöfðavaði sem er ófært bílum fyrr en seint á hausti. * Aftur í kortið.

12. Þveralda - Kjalvötn - 20 km

Sæmilega greiðfær leið en bleytudrög á stöku stað. Einnig er fært sunnan Kjalvatna en suðaustur af þeim er æði grýtt á kafla. * Aftur í kortið.

13. Kjalvötn - Hald - 50 km

Á þessari leið eru litlar torfærur, en nokkrir kaflar seinfarnir, sjá greinina "Suður að Tungnaá" í Ferðum 1949. Við Hald hefur verið mælt fyrir 83 m langri hengibrú á Tungnaá. Nú eru þar bátar sinn hvorum megin árinnar. Varðandi brú á Tungnaá sjá nr. 35 og 36.

- -

Viðbót GÓP: 7 árum síðar - 1964 - var settur bílakláfur í hengibrú á Haldi. Það var eina leiðin þurrum hjólum yfir Tungnaá uns byggð var brú við Sigölduvirkjun 1970. * Aftur í kortið.

14. Hnöttóttaalda - Illugaver - Kaldakvísl - Þórisós - Vatnaöldur - 90 km

Þessi leið er nú farin milli Norður- og Suðurlands. Nyrsti hluti þessa vegar verður fær um mánaðamótin júní - júlí en sunnan við Þórisvatn hefur reynst fært snemma í júní. Aðal farartálminn er Kaldakvísl. Bílavaðið er auðratað því að farið er nær þvert yfir ána, aðeins þó undan straumi þegar haldið er suður yfir. Greinilegar slóðir eru að ánni beggja vegna. Venjulegt sumarrennsli Köldukvíslar er þarna 30 - 60 rúmmetrar á sekúndu. Hún fer að vaxa eftir kl. 17 og verður mest seint á kvöldin (til samanburðar er Laxá, S.-Þing., hjá Brúum 45 rúmmetrar á sek.). Breidd Köldukvíslar er 60 metrar og mesta dýpi 80 - 100 sm. Mest er vatnsdýpið nálægt norðurbakkanum. Botn er fremur grýttur en fastur, nema norðurbakkinn kann að vera laus.
Þórisós getur ekki talist verulegur farartálmi en hefur þó leikið margan ferðamanninn grátt. Þar má ekki fara þvert yfir milli slóðanna í bökkunum heldur verður að fara í boga undan straumi þá ekið er út í. Rennslið er jafnaðarlega nálægt 15 rúmmetrum á sek. og tekur litlum breytingum. Sunnan Þórisóss er þessi slóð greiðfær.

- -

Viðbót GÓP: Nú er þarna allt orðið breytt. Köldukvísl hefur verið veitt í Þórisvatn og komnar eru brýr yfir vatnsföllin. * Aftur í kortið.

15. Vatnaöldur - Jökulheimar - 45 km

Greiðfær leið. Hefur reynst fær um mánaðamótin maí - júní. * Aftur í kortið.

16. Leið yfir Veiðivatnahraun - 35 km

Er seinfarin og óglögg á köflum. Heljargjá er örðugasti hluti leiðarinnar. * Aftur í kortið.

17. Jökulheimar - Snæheimar - 50 km

Leið snjóbíla. Í Fremri-Tungnaárbornum er Tungnaá lítil, 10 - 15 rúmmetrar á sek., og er hægt að aka vörubifreiðum með drifi á öllum hjólum fast að jökuljaðri og taka snjóbílana af þeim beint inn á jökulinn. * Aftur í kortið.

18. Vatnaöldur - Tjarnarkot - Tungnaá - 20 km

Greið leið. Fossvatnakvíslin er ekin á fossbrún neðan Litla-Fossvatns. Kvíslin er engin veruleg hindrun en þó þarf að hafa þar fulla gát á þegar brotið er þrætt. Rennslið er um 3 rúmmetrar á sek.. Áfram liggur svo slóðin að Tröllinu og hreysinu við Tungnaá. * Aftur í kortið.

19. Vatnaöldur - Tungnaá - 15 km

Ein greiðfærasta leið í óbyggðum. Sléttir foksandar. Tungnaá er mikill farartálmi. Sumarvatn árinnar um 100 rúmmetrar á sekúndu. Tekur fremur hægum breytingum og engu skiptir hvenær á sólarhringnum farið er yfir því að dagsveiflur eru óverulegar. Ekið er yfir Tungnaá á svonefndu Hófsvaði. Það er einnig nefnt Gvendarvað og er þá kennt við Guðmund Jónasson, öræfabílstjóra, sem fann vaðið og fór þar yfir með fyrsta bílinn í ágúst 1950. Botninn er stórgrýttur hraunbotn og mesta vatnsdýpi áþekkt og í Köldukvísl. Í þurrkum seint á hausti hefur verið klöngrast yfir Tungnaá á jeppum en með venjulegu sumarvatni er hún alófær slíkum bifreiðum. Þegar venjulegt sumarvatn er í henni má þó fara hana á svonefndum "Guddum". Sjá myndir af Hófsvaði.

- -

Viðbót GÓP: Sjá hér frásögn Sæmundar í Kexinu af ferðinni þegar Guðmundur fann Hófsvað. * Aftur í kortið.

20. Leið norðan við Dyngjur - 35 km

Fremur greiðfær. Hraunhöft og foksandsskaflar þó á stöku stað. Helliskvísl er grunn með öruggum botni. Verður fær í maílok. * Aftur í kortið.

21. Dyngjur - Frostastaðavatn - 10 km

Greiðfær leið. * Aftur í kortið.

22. Frostastaðavatn - Landmannalaugar - 8 km

Farartálmi er Jökulgilskvísl. Fara þarf tvisvar yfir ána. Að henni eru líparíteyrar og breytir áin vöðunum stöðugt. Þess vegna þarf að kanna ána rækilega í hvert sinn. Neðan til á brotunum eru oft lausir blettir, ein bíllengd eða svo, sem þarf að varast. Rennslið breytilegt. Venjulegt sumarvatn á bilinu 7 - 20 rúmmetrar á sekúndu.

- -

Viðbót GÓP: Nokkur ár eru síðan ruddur var vegur meðfram hlíð Suður-Náms þannig að ekki þarf lengur að aka yfir Jökulgilskvísl til að komast í Landmannalaugar. Fara þarf þó yfir læk sem rennur fram milli hrauns og Suður-Náms og á vaðinu myndast oft mikill og djúpur pollur sem er varhugaverður fyrir minni bíla. Ennfremur er brú yfir Jökulgilskvísl á leiðinni austur í Eldgjá. Athugasemdir Sigurjóns um Jökulgilskvísl eiga vel við fyrir þá sem vilja aka inn Jökulgilið því þá þarf oft að fara yfir Jökulgilskvíslina. * Aftur í kortið.

23. Fjallabaksvegur nyrðri:
Landmannalaugar - Búland - 60 km

Hann liggur að Búlandií Vestur-Skaftafellssýslu. Hefur verið lagfærður nokkuð á síðustu árum. * Aftur í kortið.

24. Fjallabaksvegur nyrðri:
Frostastaðavatn - Valahnjúkar - 35 km

Fær nálægt miðjum júlí. * Aftur í kortið.

25. Fjallabaksvegur nyrðri:
Landmannaleið um Sölvahraun - 18 km

Farið yfir Ytri-Rangá þar sem hún er vatnslítil og hraunhella í botni. Fær síðast í maí. * Aftur í kortið.

26. Rangárbotnar - Hald við Tungnaá (ferjustaður/kláfur) - 22 km

Greiðfær leið. Leirbornar sandsléttur með hraunhöftum á milli. Getur vart talist fær framdrifslausum bifreiðum og veldur því laus sandur. Sennilega mun framtíðarvegur liggja nær Þjórsá. * Aftur í kortið.

27. Rangárbotnar - Galtalækur á Landi - 15 km

Greiðfær leið sem tengir öræfaslóðirnar við vegakerfi Suðurlands. Slóðin að norðan, Mýri - Galtalækur, er þessi:
2 - 6 - 14 - 19 - 20 - 25 - 27
eða
2 - 7 - 8 - 9 - 6 - 14 - 19 - 20 - 25 - 27
nálægt 330 km. Frá Akureyri að Mýri eru 80 km og 120 km frá Galtalæk til Reykjavíkur svo að leiðin er alls 530 km eða 80 km lengri en leiðin um byggðir vestur. Af þessu má glöggt sjá að miklir eru krókarnir. Leiðin suður um Vatnahjalla er t.d. 50 km styttri en Bárðardalsleið. * Aftur í kortið.

28. Laugafell - Kjalvegur - 100 km

Vestan Ásbjarnarvatna er leiðin nálægt Eyfirðingavegi hinum forna. Seinfarin leið vegna vatnsfalla. Í jökulánum kunna að leynast litlir en illir sandbleytupyttir. Austari-Jökulsá er versti farartálminn. Áin tekur miklum dagssveiflum, er minnst snemma á morgnana og fram undir hádegi. Að áliðnu sumri (ágúst) setur snögglega niður í henni ásamt öðrum jökulkvíslum þegar frystir á jökli. Slóð víða óglögg. Verður fær í ágúst. Er nálægt því að mega teljast alltaf ófær. Sjá Árbók F.Í. 1950, bls. 143.

- -

Viðbót GÓP: Austari-Jökulsá hefur verið brúuð. Vötnin vestan Ingólfsskála (við Ásbjarnarvötn) eru óbrúuð og þar þarf að sýna fulla gát. * Aftur í kortið.

29. Biskupstungur - Bláfellsháls - Kjölur.
Hvítárbrú 160 km frá Reykjavík.

Um Bláfellsháls er ekki fært fyrr en í júlí en nálægt mánuði áður er orðið fært á Kili. Vegurinn er fær háum bifreiðum án framhjóladrifs. Vegur austan Hvítár myndi haldast opinn mun lengri tíma úr árinu. * Aftur í kortið.

30. Blöndudalur - Hveravellir.
Eiðsstaðir - Hveravellir - 80 km.

Seinfarin og grýtt leið og víða mjög sundurskorin. Slæm eða ófær í langvarandi bleytum. Verður venjulegast fær nálægt miðjum júlí. Mjög breytilegt frá ári til árs. * Aftur í kortið.

31. Leið til Arnarvatns - 60 km

Hún liggur um stórþýfða móa og er seinfarin. * Aftur í kortið.

32. Kjalvegur - Árskarð - 9 km

Vegurinn er fær bifreiðum án framhjóladrifs en hann er ekki eins greiðfær og leið 29. * Aftur í kortið.

33. Árskarð - Norðlingaalda - Ásólfsstaðir - 150 km

Erfið leið austur Illahraun. Farið er niður brattar brekkur suður á Fjórðungssand. Eru þær slæmar þegar haldið er norður. Fjórðungssandur er greiðfærasti hluti leiðarinnar. Leiðin er öll seinfarin frá Miklalæk að Ásólfsstöðum. Stórgrýtt vað á Dalsá en þó kastar fyrst tólfunum þegar komið er suður undir Fossá. Koma þar ýmsar leiðir til greina en allar slæmar. Fara má suður Fossheiði og niður á Haf. Þegar farið er norður er möguleiki á að klöngrast upp vestan í Fossöldu, vestur fyrir Fossölduver og austur hjá Kistu. Í Eystri-Hrepp er áhugi fyrir að opna leið inn að Gljúfurleit. Nú er búið að ryðja með jarðýtu inn í Skúmstungur. - Rétt er að telja þessa leið ófæra norður, þar til ruddur hefur verið vegur að minnsta kosti upp í Fremri-Hnappöldu. Vöð á Þjórsá á svæðinu meðfram leið 33 eru slæm. Þó hefur síðla sumars verið ekið yfir Þjórsá skammt neðan við Svartá. Þá var lítið í vötnum. Ekki er hægt að mæla með því vaði. Þegar fara þarf Norðlingaöldu er Illahraunsleiðin venjulegast valin. - Austur um Illahraun verður fært um mánaðamótin júlí - ágúst.

- -

Viðbót GÓP: Þessi leið hefur verið lagfærð og er önnur aðalleiðin inn í Setur sem er hús Ferðaklúbbsins 4x4 sunnan undir Hofsjökli. Ekið er upp Sandafell og svo áfram inn með Þjórsá. Leiðin af Kjalvegi um Illahraun í Setrið var stikuð haustið 2000. * Aftur í kortið.

34. Fjórðungssandur - Blautakvísl - 15 km

Hnífá er fremur slæm yfirferðar. Bleytur verða stöðugt meiri því austar sem dregur og gróðurlendið vex. Síðasti kaflinn að Bólstað má teljast ófær. Auravötnin sunnan Hofsjökuls eru alófær bifreiðum. Sjá Árbók F. Í. 1951, bls. 65. * Aftur í kortið.

35. Hald - Tungnaá gegnt Þóristungum - 12 km

Hraunhöft með sléttum melum á milli. Framtíðarvegur er líklegur á þessum stað ef Tungnaá verður brúuð undan Þóristungum, sjá "B" á teikningunni. Brú á Tungnaá undan Þóristungum yrði nálægt því 20 m styttri heldur en niður við Hald, sjá nr. 26. * Aftur í kortið.

36. Þórisvatn - Hrauneyjarfoss - brúarstæði Tungnaár - 18 km

Greiðfær leið. Framtíðarvegur (samanb. leið 35) mun liggja inn Þóristungur nokkru norðar. Á þeirri leið helst snjólaust mun lengur frameftir hausti heldur en upp í hæðunum í suðri eða norður á Búðarhálsi. "B" á teikningunni sýnir bræuarstæði á Köldukvísl. * Aftur í kortið.

37. Fjallabaksvegur nyrðri - Hrafntinnuhraun

Fremur ógreiðfært. Brattar brekkur. Verður fært í ágúst. * Aftur í kortið.

38. Hveravellir - Þjófadalir

Ógreiðfær leið. * Aftur í kortið.

39. Svartárkot - Dyngjufjöll

Seinfarið um mólendi í Suðurárbotnum. Síðan greiðfærara. Verður fær snemma í júlí. * Aftur í kortið.

40. Goðdalir - Skiptabakki - Laugafell - 95 km

Fremur ógreiðfær, sjá leið nr. 28 og greinina "Skiptabakki" í Ferðum, 15. árg., 1954. * Aftur í kortið.

41. Jökulheimar - Langisjór - Skaftártunga - 50 km

Tungnaá er vatnslítil inn við Jökulheima, sjá leið nr. 17, en botn ótraustur. Erfið leið upp á Tungnaárfjöll. Einnig hefur verið farið vestast úr Botnaveri. Slæm leið fyrir þunga bíla. Greiðfærara er þegar komið er suður á Breiðbak. Þá liggur leiðin um Faxasund og á vatnaskilum milli Grænafjalls og Skuggafjalla. Verður fær seint í ágúst. * Aftur í kortið.

Efst á þessa síðu * forsíða * Vaðatal * Ferðatorg * Ferðaskrá