GÓP-fréttir  
Ferðatorg  


Fundið Hófsvað á Tungnaá 

27. ágúst 1950

Úr bókinni:
Hálendið
heillar
Nokkur brot úr frásögn Sæmundar Ólafssonar af því hvernig Hófsvað fannst - tekin úr bók Lofts Guðmundssonar, Hálendið heillar, sem út kom hjá Bókaútgáfu Þórhalls Bjarnasonar í Reykjavík árið 1975.

Svona millifyrirsagnir eru frá GÓP
sem er uppskrifari
og hefur sums staðar hnikað orðum
og breytt greinarmerkjum

Sæmundur
í
Kexinu 
Í bók Lofts er Sæmundur kynntur svona (árið 1975):

Sæmundur Ólafsson er fæddur 7. apríl 1899 að Vindheimum í Ölfusi í Árnessýslu. Hann stundaði venjuleg sveitastörf, síðan sjómennsku á róðraskipum, skútum og togurum. Tók síðan mikinn þátt í Verkalýðshreyfingunni og Alþýðuflokknum og hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa. Hann er forstjóri Kexverksmiðjunnar Esju og einn af Mópokunum, sem ferðuðust víða um hálendið fyrir nokkrum árum.

Leitar-
ferðin

Frásögn Sæmundar: Lagt upp í leit að vaði

Ég vil taka það fram strax að það var Guðmundur Jónasson sem fann bílfært vað á Tungnaá og opnaði þannig bílfæra leið inn á Norður- og Norðausturöræfin. Aftur á móti átti ég nokkurn þátt í því að farin var ferðin þegar vaðið fannst - og þó einungis óbeinlínis. Áður hafði Guðmundur oft minnst á það við mig að sig hefði langað til að leita vaðs á ánni einhvers staðar á milli Svartakróks og Hrauneyjafossa og þá austan Bjallavaðs.

Eggert
Kristjánsson
 
Saman tekin ráð

Fyrri hluta sumars 1950 hafði Eggert heitinn Kristjánsson orð á því við mig að hann hefði mikinn hug á að komast inn í Veiðivötn og talaði helst um að fá flugvél með sig þangað. Ég kvað það óráð. Það yrði mun skemmtilegra að reyna að brjótast þangað á bílum og væri ég fús til að slást í slíka för. Segi ég Eggerti frá því að Guðmund Jónasson hafi lengi langað til að leita að bílfæru vaði á Tungnaá og opna þannig leið inn að Veiðivötum og inn á öræfin. Þarna sé valið tækifæri til að sameina þetta tvennt, Veiðivatnaferðina og leitina að vaðinu, með því að fá Guðmund til fararinnar. Hvort sem við ræddum þetta lengur eða skemur þá varð það að ráði að ég skyldi ræða þetta við Guðmund Jónasson og reyndist það auðsótt mál.

Flekinn
mikli

Guðmundur
Jónasson

og
Egill
Kristbjarnarson
 

Undirbúningur

En nú var því vitanlega ekki að treysta að nokkurt bílfært vað fyndist á Tungnaá. Kom okkur Eggerti því saman um að hafa þann viðbúnað að við kæmumst yfir ána með bíla, fólk og allan farangur eins fyrir það. Í því skyni var gerður fleki mikill sem haldið skyldi uppi af átta stáltunnum. Var hann þannig gerður að flytja mátti hann sundurlausan en setja síðan saman á mjög skömmum tíma ef með þyrfti. Þá voru og gúmbátar fengnir að láni og margt var það annað sem með þurfti svo öruggt mætti kallast að leiðangurinn lenti ekki í neinum vandræðum á hverju sem gengi. Var það mikið hafurtask. Alls vorum við átta talsins sem ákveðið var að tækjum þátt í ferðinni auk Guðmundar Jónassonar - og Egils Kristbjörnssonar  sem slóst í leiðangurinn, en hann var kunnur jöklafari og vatnamaður með afbrigðum.

Vatnaljótur Bílakostur og hafurtask

Brottfarardagurinn var ákveðinn 26. ágúst þá um sumarið. Bílakosturinn var tveir jeppar og ók Eggert Kristjánsson öðrum en ég hinum en Guðmundur Jónasson ók vörubíl miklum með drifi á öllum hjólum. Var það hinn traustasti farkostur en ekki leist öllum hann fallegur að sama skapi og hlaut hann nafnið Vatnaljótur. En það sannaðist líka eins og oft vill verða að meira er undir komið traustleikanum en fegurðinni þegar á reynir því mikið var það hafurtask sem hlaðið var á Vatnaljót við upphaf ferðalagsins. Auk flekans mikla, sem að vísu var sundurtekinn eins og áður getur, voru meðal annars þrír gúmbátar, tveir sex manna og sá þriðji eins manns. Og þegar þess er gætt að Eggert var lagður af stað austur að Hvammi á Landi eftir báti úr áli, sem Eyjólfur bóndi Ágústsson lánaði til ferðarinnar, átti okkur ekki að skorta farkosti yfir ána þótt ekkert fyndist vaðið.

Upp
úr
byggð
Austur að Tröllkonugili

Klukkuna vantaði tíu mínútur í þrjú þegar jeppinn og Vatnaljótur lögðu loks af stað frá Shellstöðinni við Suðurlandsbraut. Klukkan hálfsex komum við á Vatnaljóti og jeppanum að vegamótunum við Skarðsfjall. Hafði Eggert þá beðið þar með bátinn og sitt föruneyti í fullar tvær klukkustundir. Eftir að bátnum hafði verið komið tryggilega fyrir ofan á hafurtaskinu á Vatnaljóti var haldið af stað í besta veðri og nokkrum skúraleiðingum sem leið liggur um hlaðið á Skarði á Landi, fram hjá Leirubakka, Vatnagörðum og Galtalæk, inn á Landmannaleið. Þegar við komum að Tröllkonugili var Sauðafell gráhvítt að sjá í aftanskininu. Við undruðumst þennan ljósa lit og héldum að snjór hefði fallið þarna í skúrunum fyrr um daginn en þegar betur var að gætt var þarna um að ræða ljósgráan vikur, sem liggur í sköflum í giljum og dældum þar um slóðir.

Dyngjuleið  Um Sölvahraun og Dyngjur að Tungnaá við Bjalla

Ekki reyndist Rangá neinn farartálmi og var nú haldið tafarlaust áfram með Guðmund á Vatnaljóti í fararbroddi upp iðgrænt Sölvahraunið með Sauðafell, Skjaldbreið og Klofning á hægri hönd en Valafell með Áfangagili á vinstri hönd, fyrir austan Valahnúka en vestan Hrafnabjörg, um norðurendann á Lambafitjahrauni með undirhlíðar Herbjarnarfells á hægri hönd, austur með Dyngjunum og Eskihlíðum og norður að Tungnaá fyrir austan Vestur-Bjalla. Þar er áin breið og rennur í bugðu til norðvesturs áður en hún skellur á Bjallahorninu en beygir síðan í suðvestur með Bjöllunum.

 Grænikrókur

Náttstaður í Grænakróki

Í þessari bugðu sunnan árinnar er allstór landspilda með grænum mosa sem þekur landið þarna á alla vegu. Við nefndum landspildu þessa Grænakrók en nokkru austar er annar krókur á ánni sem nefndur er Svartikrókur. Klukkan hálfellefu um kvöldið höfðum við tekið okkur náttstað þarna í Grænakróki. Veður var hlýtt en regn. Slegið var upp þremur tjöldum, framreiddur kvöldmatur, spjallað og hlustað á útvarp til miðnættis en þá var gengið til náða. Logn var á og létti til um miðnættið. Ekkert rauf öræfaþögnina nema árniðurinn sem var nokkuð þungur því áin rennur þarna víða á flúðum.


Rauði ferillinn þræðir Hófsvaðið.  

Leitað
á
svæðinu

Fundið Hófsvað

Fyrsta tilraun við Vatnaöldur

Árla morguns þann 27. ágúst fórum við Guðmundur í jeppanum austur með ánni. Þegar við komum austur undir Vatnaöldur þóttumst við sjá stað þar sem allar aðstæður bentu til að bílfært vað væri að finna. Komum við aftur á tjaldstað um dagmálabil og sögðum fréttirnar. Þegar hádegisverður hafði verið snæddur var lagt af stað upp með ánni, austur undir Vatnaöldur. Þeir Guðmundur og Egill fóru svo að kanna ána. Fóru þeir í gúmbát og skiptust á um að róa og vaða með honum. Eftir nokkra athugun kom á daginn að ekki var áin bílfær þarna

Hófsvað
sjá uppdrátt
Sigurjóns Rist
Önnur tilraun: vað fannst þar sem áin rennur í fimm kvíslum

Þeir Guðmundur og Egill fóru nú enn austur með ánni þangað sem hún rennur í fimm kvíslum. Þar fundu þeir loks akfært vað.

 27. ágúst
í
27 stiga hita
Ekið yfir vaðið

Þennan dag var veður heiðskírt með 27 stiga hita móti sól en 18 í skugga. Ekkert kvikt sást þarna nema ein veiðibjalla sem sveimaði yfir ánni og fylgdist þögul með vaðkönnun þeirra félaga. Meðan á þeirri könnun stóð var flekinn mikli settur saman svo hann væri til taks ef vaðið reyndist svo ekki vað þegar á ætti að herða. En til þess kom ekki. Vaðið var fundið og Vatnaljóti ekið yfir ána með mikilli viðhöfn eftir að allur farangur hafði verið tekinn af palli hans í öryggisskyni. Sat Guðmundur undir stýri en við Eggert og Egill fórum sem farþegar í þessari fyrstu bílferð yfir Tungnaá.

Áin hefði tekið meðalmanni í klof þar sem hún var dýpst á vaðinu. Nokkuð var hún straumhörð og grýtt í botninn en Guðmundur og Vatnaljótur brugðust hvergi og ferðin yfir gekk eins og best varð á kosið.

 Rétt
ofan við
Hófinn
Nafnið Hófsvað

Þegar kom á norðurbakka árinnar var Guðmundi að vonum óskað til hamingju með vaðið og vildu sumir skíra það í höfuðið á honum. Hann tók dræmt í það. Seinna varð Guðmundur þess vísari að móbergshnúkur einn lítill norðan árinnar og skammt fyrir vestan vaðið kallaðist Hófurinn þótt ekki væri það nafn að sjá á landabréfi. Hann taldi rétt að vaðið drægi nafn af hnúki þeim og héti Hófsvað. Því nafni heitir það enn.

Guðmundur
kannaði
lönd og
leiðir
Frásögn Sæmundar er mun lengri í bók Lofts. Hann segir frá því að þeir félagar fóru inn í Veiðivötn og veiddu vel. Guðmundur notaði tækifærið og ók um nágrennið og norður fyrir Þórisvatn að leita leiða á Sprengisand. Einnig óku þeir upp um Hraunvötn og að Fonti. Frásögnin er bæði fróðleg og skemmtileg og nær yfir síðurnar frá 158 til 173.

Heim héldu þeir þann 1. september og þá var Hófsvað í fyrsta sinni ekið suður yfir. Þar varð tveimur félaganna á nokkur fljótfærni við að fara yfir með farangur á gúmmíbáti og er ekki alveg víst segir Sæmundur hvernig farið hefði ef Guðmundur Jónasson, sá mikli ferðagarpur, hefði ekki brugðið við skjótt og haldið í öðrum gúmbáti til þeirra og handstyrkti hann sig með ferjustrengnum. Brátt missti hann þó taks á strengnum og flugrak undan straumi. Rak hann þá upp öskur mikið, þrungið galsa og fögnuði, því að nú líkaði honum lífið. Þegar honum fannst nóg komið settist hann undir árar og reri til lands og var hinn ánægðasti með slarkið þegar hann kom til baka. Báturinn með þeim félögum var nú dreginn norðuryfir ...

Heimspeki
allra
Mópoka 
Eftir þessa ferðasögu skrifar Sæmundar dálítinn lokakafla sem ber heitið

Mópokarnir

og finnur margur ferðalangur að þar er talað út úr hans eigin hjarta. Þar segir

....
Ýmsir voru á einskonar könnunarflakki um öræfin þau sumur sem hinir frægu ferðagarpar unnu afrek sín. Þessir náungar sóttu á öræfaslóðir einungis sjálfum sér til ánægju og nokkurrar hvíldar frá hversdagsleika, brauðstriti, þys og þvargi. Þeir unnu sín afrek í baráttunni við torfærurnar og ýmsa örðugleika en þau afrek voru þeirra einkamál sem hvergi komust á blað. Í vissum skilningi voru þeir að safna til komandi ára á þessu ferðalögum, safna skemmtilegum endurminningum og dýrmætum friði og fegurð öræfanna, sem enginn gat frá þeim tekið, um leið og þeir voru að afla sér sólskins til vetrarins og heiðríkju og jökulbirtu fyrir skammdegið.

....
Sæmundur telur upp mópokana sem voru fjórir talsins og fóru fjöll og firnindi í mörg sumur á henni Siggu sem var af Weapon-gerð.
Að lokum segir hann:
....

Við félagarnir lágum inni við Veiðivötn og fórum Sprengisand norður, við lauguðum okkur í logni og sólskini og lágum veðurtepptir í tjöldum. Alltaf komum við sælli og ánægðari aftur til byggða og auðugri en þegar við fórum - af þeim ágóða sem ryð og mölur fær ekki grandað. Og er það ekki einmitt þetta sem mestu varðar?

GÓP-fréttir * Ferðatorg