Forsíða
námskrár-torg

Uppfært
15.4.2000


7. og 8. lota námskeiðs fyrir framhaldsskólakennara:

Námskrárfræði og skólanámskrárgerð
(Ágúst 1999-júní 2000) * Stuðst er við bók HogW
> Þróunaráætlun

um breytt námsefni
og endurskoðun kennsluhátta
í tölvunotkun.

Þessi samantekt er ætluð kennurum tölvudeildar. Þar eru sumir kennarar sem hafa meiri menntun og aðrir sem hafa minni menntun - einnig í kennslugreininni sjálfri. Textanum er ætlað að nýtast þeim öllum.

Hér er >> I. Inngangur

Hver er núverandi staða? Í hvaða samhengi hrærist skólinn og kennsla hans? Hvað er það sem kallar á breytingu frá því sem nú tíðkast? Hér eru þessi atriði skoðuð til þess að renna stoðum undir þann boðskap þessarar samantektar að nú þurfi að framkvæma tiltekna breytingu.

>> Efnisyfirlit

Formáli = Eftirmáli

7. lota:

8. lota:

I Inngangur
Hvað og hví? Hvað er verið að kenna - og hvers vegna?
Hvað var kennt?

og hví?

TÖL-102

Notkun notendahugbúnaðar

Næstliðinn áratug hefur nýnemum verið kennt að nota algengan notendahugbúnað á tölvur.

 • Megináhersla hefur verið lögð á þjálfun í ritvinnslu, notkun skólanetsins og
 • samskipti og gagnaleit um internetið.
 • Eftir föngum hefur einnig verið kennd notkun reikniforrits.
 • Hraðfara nemendur hafa náð að kynna sér notkun framsetningarforrits
 • og jafnvel gagnagrunnsforrits.

Þegar skoðað er hvaða námsefni kemur til greina við kennslu í notkun tölva er óneitanlega margt í framboði. Hvernig starfar tölvan? Hvernig fer örgjörvinn að því að skilja skipanir mannsins? Hver er þróunarsaga tölvunnar? Hvað er forrit og hvernig er það búið til? Til hvers getur maðurinn notað tölvur? Til hvers getur þú, nemandi góður, notað tölvu?

>> Tölvunotkun hefur verið kennd í framhaldsskólum landsins í tvo áratugi. Á þeim tíma hafa öll þessi atriði verið kennd. Sum lengur og sum skemur. Hið daglega, árlega og lokaprófslega ans sem kennarinn hefur fengið frá námshópnum hefur smám saman fjarlægt allt þetta úr skyldunámi framhaldsskólans - nema það síðasta: Til hvers getur þú, nemandi góður, notað tölvuna? Þér er nytsamast að kunna að notfæra þér hin svonefndu skrifstofuforrit.

Raunar hefur nemandinn ekki verið spurður þessarar spurningar heldur hefur tölvudeildin haft vit fyrir honum og gert honum að kynna sér - fyrst og fremst ritvinnslu, næst notkun reikniforrits og í þriðja lagi notkun framsetningarforrits. Tími áfangans hefur verið of knappur til að umtalsverður hluti nemendanna nái að fara yfir allt þetta efni.

Á allra síðustu árum hefur notkun vefsins og gerð vefsíðna bæst við og sest einna fremst í forgangsröðina - til dæmis með því að nemendur hafa þurft að fara inn á vefinn til að sækja sér námsgögn. Síðasta viðbótin er svo fólgin í eflingu siðvitundar við notkun vefsins sem einnig reynist nauðsynlegt nám þegar nemendur geta sótt hvað sem er með því einu að velja einn bókstaf í stað annars á hnappaborðinu en sumt af því sem þeir geta sótt meiðir hug og viðhorf nærstaddra.

Rökin fyrir þessari þróun felast í þeirri staðreynd að allir tölvunotendur nota ritvinnslu og flestir vildu kunna meira í notkun töflureiknis og gagnagrunnsforrits - alveg sérstaklega á vinnustað. Hins vegar eru það fáir sem vinna við forritun. Þá hafa forvitnileg atriði úr þróunarsögu tölvunnar dottið burt vegna þess að sífellt hafa aukist kröfur um færni í notkun skrifstofuforritanna. Vefnotkunin hefur síðan jafnt og þétt færst upp forgangslistann og situr nú raunar fremst í hópi skrifstofuforritanna.

Hvert
stefnir?
Hver er þróunin í samfélaginu?
Hver er þróunin í lögum, reglugerðum og aðalnámskrá?
Þróunin er Allir þurfa að kunna að nota tölvu. Innreið tölvunnar í samfélagið líkist helst innreið bílsins - en samlíkingin yrði þó raunhæfari ef allir áratugir tuttugustu aldarinnar hefðu liðið hver um sig á einu ári með allri bifreiða- og vegaþróun landsmanna þess áratugar. Sem sagt, bílvæðing tuttugustu aldarinnar samanþjöppuð á tíu ár. Þetta veldur því að enginn getur í raun ákveðið að sofa þá þróun af sér. Ég er þreytt. Ég ætla aðeins að létta á huganum með því að skreppa inn á vefinn áður en ég legg mig, segir áttræða konan sem lærði á tölvuna og vefinn í september í haust.

Án frekari rökstuðnings er hér sett fram sú tilgáta að innan fimm ára stundi fimmti hver Íslendingur viðskipti á vefnum og að hlutfallið verði mun hærra í árgöngum undir fertugu. Það verður því bein lífskjaraskerðing að kunna ekki að nota tölvuna í því skyni. Sú notkun mun flokkast til skrifstofuforrita og teljast almenn.

>> Hægt er að greina námsatriði á tölvu í tvö svið:

 • Almenn atriði. Þar til heyrir notkun skrifstofuforrita, leikjaforrita og það að læra að nota nýtt forrit.
 • Sérhæfð atriði. Það tekur til forritunar, tölvutækni sem lýtur að samtengingum og samsetningum bæði vélarhluta og hugbúnaðar, svo og tölvuviðgerða.

Hingað til hefur hið almenna nám verið viðfangsefni framhaldsskólans á meðan grunnskólinn hefur í minna mæli kynnt þau sumum nemenda sinna. Nú hefur aðalnámskrá lagt grunnskólum þá skyldu á herðar að kynna öllum nemendum sínum notkun ritvinnsluforrita og fleiri skrifstofuforrita eftir því sem unnt reynist.

Hér er tvennt að athuga. Það fyrra er að óraunhæft er að gera ráð fyrir að grunnskólanemendur nái umtalsverðu valdi á hinum öflugri ritvinnsluforritum og jafnframt er það svo að eftir því sem þau eru öflugri er kunnáttulítil notkun þeirra lítið augnayndi. Það er hins vegar eðli þessa markaðar að skrifstofuforrit verða sífellt öflugri, geta meira og þar er meira um að læra.

Hið síðara er að það verður sífellt fleira sem mun falla undir almenna notkun.

Sennilegt er að sá minnihluti nemenda sem leggur stund á sérhæft tölvunám muni ekki vaxa frá því sem nú er. Hins vegar muni koma til margs konar hugbúnaður sem leysir viðfangsefni sem áður þurfti forritunarkunnáttu til. Hér er vefþjónustan STRIK.IS ágætt dæmi. Hún opnar þeim sem ekki kunna að vefa vefsíður færi á að útbúa sínar eigin síður án kunnáttu í vefsíðugerð.

Þar með verður unnt að leysa fleiri flókin atriði með notendaforritum. Þar með viðhelst hinn stóri meirihluti þeirra einstaklinga sem dugar almenn tölvumenntun. Sú menntun mun ekki rúmast innan grunnskólans.

Það verður því bæði þörf fyrir almenna tölvumenntun í framhaldsskólanum og það verður yfrið nóg að gera fyrir fjölmarga tölvu-einkaskóla.

Hvernig
breyting?
Hvaða breyting á kennslu og kennsluefni
heldur í við - eða fer fyrir
nytsamri og nauðsynlegri þróun á notkun þekkingar í þessari grein?
Hvert skal
stefna?
Forritunarkennsla, tölvutækninám og tölvuviðgerðir verða áfram kenndar í framhaldsskólum. Þótt sífellt verði endurskoðað námsefni veldur það ekki stærri byltingum í þróun kennslunnar heldur en verið hefur í þessari kennslu undanfarinn áratug. Hér verður ekki fjallað meira um þetta sérhæfða tölvunám en athyglinni beint að almenna náminu.

Nauðsynlegt er að hver einstaklingur framhaldsskólans geti nýtt sér tæki og tengingar skólans og skilji hvernig þar skal bera sig að. Hann þarf líka að vita hvaða notendaforrit hann getur þar haft til notkunar og hvernig hann getur aflað sér kunnáttu í að nota þau á góðan hátt. Þessa kunnáttu þarf hann að nota til að koma námsgögnum sínum frá sér á tölvutækan hátt til annarra nemenda og til kennara.

>> Ritvinnslukunnátta mun raða fólki í flokka á sama hátt og lestrarkunnátta gerir nú. Þeir sem kunna til verka munu taka að sér verkin og vera metnir meira en hinir sem eru síðri í þeirri list. Það verður því keppikefli að ná á henni tökum.

Reikniforrit nýtast ekki nema með kennslu í notkun þeirra. Sama á við um framsetningar- og gagnagrunnsforrit.

Vefsjár-notkun er svo einföld að hún mun í raun ekki standa í neinum manni. Samt munu fjölmargir, bæði yngri og eldri, vilja fá liðsinni við að taka fyrstu skrefin. Þetta mun ekki verða áberandi í framhaldsskólanum og þar munu hverjum nemanda duga 4 kennslustundir.

Á vefnum er gríðarlegt magn upplýsinga og leit að nytsömu efni verður senn að sérstakri námsgrein. Þar verður tekið fyrir hvernig unnt er að leita skipulega, hvernig unnt er að greina nytsamt efni frá því sem er minna nytsamt eða óáreiðanlegra og hver er eignarréttur á efninu - og hver eru einkenni sjálfrar siðfræði þeirrar notkunar sem til stendur.

Kenna
hvað?
Hvað skal kenna?
Hver er stuttyrt lýsing hinnar breyttu kennslu?
UTN-nám UTN-nám er skilgreint í aðalnámskrá um upplýsinga- og tæknimennt. Tilgreindur er áfanginn UTN-103 en auk þess er lagt til að framhaldsskólar bjóði fram nám undir samheitinu UTN.

Til þess að gera sér grein fyrir viðfangsefnum þess náms er nauðsynlegt að fletta hér upp á markmiðum UTN-námsins sem rakin eru ítarlega í markmiðs-hluta IV. kafla.

UTN-103 Í aðalnámskrá er lýst innihaldi námsáfangans UTN-103. Heppilegt fullt heiti á skammstöfuninni UTN er Upplýsinga- og TölvuNotkun. Þau markmið sem í aðalnámskránni eru tiltekin fyrir þennan áfanga eru talin hér upp. Með skáletri er skotið inn atriðum sem ætluð eru til frekari fyllingar.
UTN-103

Bls. 22-28
í Aðalnám-
skrá UT'99

Notkun upplýsinga, tölva og netsamskipta í námi

TÖLVUNOTKUN: Nemandi

 • þekki skólanetið og tiltækan hugbúnað og geti nýtt hugbúnaðinn við nám sitt
  Hér verður að telja að nytsamt sé fyrir alla nemendur að fá þjálfun í að ganga verulega vel frá ritsmíðum sínum. Ef til vill er það heppilegast í samstarfi þess kennara sem leggur ritsmíðina fyrir og þess sem leiðbeinir um ritvinnslu. Sama á við um framsetningarforrit.
  Þegar nemandinn fer í námsáfanga þar sem stærðfræði er kennd og hann á að nota reikniforrit þá er nauðsynlegt að kennarinn kenni jafnframt á reikniforritið.
  Sama á við um önnur skrifstofuforrit.
 • geti sjálfur aflað sér nauðsynlegrar þekkingar til að nýta skólanetið og tengingar við internetið til að afla sér viðeigandi upplýsinga í námi sínu.
  Í því samhengi virðist að minnsta kosti sjálfsagt að á skólanetinu - og ekki síður á vefnum - verði námskeið í notkun forritanna sem nemendur geti sótt sér og fylgt af eigin rammleik.
 • setji lausnir sínar og upplýsingar fram á tölvutækan hátt
 • geti rætt um tæki og viðfangsefni á íslensku
 • sýni ábyrgð og siðvit í vinnu sinni á skólaneti og interneti.

UPPLÝSINGALÆSI: Nemandi

 • þekki helstu atriði í sögulegri þróun upplýsingamála
 • fái innsýn í tilurð, eðli og hagnýtingu upplýsinga
 • þekki helstu aðferðir við skráningu og miðlun upplýsinga og helstu tegundir upplýsingasafna
 • geti aflað sér upplýsinga eftir margvíslegum leiðum
 • þjálfist í að meta gæði, áreiðanleika, uppruna og gildi upplýsinga
 • þekki lagaleg, siðferðileg og félagsleg atriði er varða söfnun og miðlun upplýsinga.

Þess ber að gæta að hér er æði margt talið til og einungis um að ræða 6 kennslustundir í viku eina önn. Örðugt mun að óbreyttu að komast yfir nema hluta þess sem þyrfti til að allir nemendur nái viðunandi tökum á hverju einu. Nauðsynlegt er sífellt að leita hraðvirkari leiða til að miðla námsefninu - og ekki síst að fella námsvinnuna inn í svið efldrar umbunar. Með því er átt við atriði eins og framsetningar í heyranda hljóði og á vef og persónulegt og félagslegt ans við ritvinnslufrágangi á ritgerðum og reiknilausnum í töflureikniforriti. Sjá frekari umfjöllun um kennsluaðferðir í 4. kafla.

TÖK Tölvu-ökuskírteinið er evrópskur staðall sem er að festa rætur á Íslandi. Hugmyndin er sú að einstaklingur sem sækir um vinnu á evrópska efnahagssvæðinu og hefur gilt tölvu-ökuskírteini hafi tiltekna þekkingu á tölvum og notkun þeirra án tillits til þess í hvaða landi hann aflaði sér skírteinisins. Hér verður litið yfir helstu efnisþættina í innihaldi þessa náms en gert er ráð fyrir að einstaklingurinn geti aflað sér námsins í áföngum og þreytt próf í hverjum áfanga þegar hann er til þess búinn. Á vef Skýrslutæknifélags Íslands eru rækilega tíundaðar námskröfur þær sem gerðar eru um hvern eftirtalinna þátta. Þær lýsingar verða teknar inn í 4. kafla þessarar samantektar. • Grunnatriði upplýsingatækni
  > Grundvallarhugtök er tengjast tölvunni, einstökum hlutum hennar, hugbúnaði og notkun.
  > Tölvunotkun: munur á tölvukerfi og forriti.
  > Upplýsingasamfélagið.
  > Ákvæði, lögggjöf og gagnaöryggi.
  > Vélbúnaður, hugbúnaður og vinnustellingar.
  > Internetið -Vefurinn.
 • Tölvan og stýrikerfi hennar
  > Undirstöðuatriði um virkni tölvunnar, geymslu og eftirlit með geymdum skrám.
 • Ritvinnsla
  > Notkun ritvinnsluforrits og hinna ýmsu aðgerða sem þar bjóðast til að ganga frá meðal-verkefni.
 • Töflureiknir
  > Notkun töflureikniforrits og hinna ýmsu aðgerða sem þar bjóðast til að leysa einföld verkefni.
 • Gagnagrunnur
  > Einföld notkun gagnagrunnsforrits.
 • Gerð kynningarefnis
  > Útbúa einfalt kynningarefni.
 • Internetið
  > Umgangast tölvupóst og tengjast og nota internetið.
TÖK - UTN
eðlismunur
Eðlismunur á TÖK og UTN

UTN er skóla-áfangi: UTN er námsáfangi sem skilgreindur er innan skólans. Skólinn ákveður umfang hans og matsreglur. Hluti af námi í UTN er nátengdur þeim skóla þar sem nemandinn stundar námið. Hvernig virkar nærnet þess skóla? Hver er tiltækur hugbúnaður á því neti? Hvaða skilareglur gilda um tölvutæk gögn í þeim skóla? Allt eru þetta atriði sem nemandinn verður að kynnast og þekkja en eru aðeins að hluta í innihaldi TÖK-námsins.

TÖK er réttindaáfangi: Þessu er öðru vísi varið með TÖK-námið. Það er ákveðið og skilgreint í höfuðstöðvum þess í Evrópu og það er samræmt í öllum löndum. Breytingar á innihaldi þess eru ekki á valdsviði skólans og matsreglur eru einnig ákveðnar utan skólans.

UTN-nám til undirbúnings fyrir TÖK-nám: Af þessum ástæðum er ekki ráðlegt að taka TÖK-námið upp sem skilgreindan námsáfanga. Betri leið er sú að miða kennslu í UTN-áföngum við það að þeir geti orðið nemendum markviss undirbúningur undir að taka á eigin vegum próf í hinum ýmsu hlutum TÖK-námsins. Framhaldsskólinn semji við rétthafa um að verða fullgild prófmiðstöð fyrir TÖK-réttindin og gefi nemendum færi á að taka þau próf sem þeir óska svo títt sem þarf.

TÖK-námshlutar metnir til fulls í framhaldsskólanum: Þar er TÖK-námið er í hverjum þætti sínum ítarlegra heldur en kröfur eru gerðar um í kynningar- og undirbúningsnámi nýnema við framhaldsskóla er ljóst að sá sem kemur til náms í framhaldsskóla og hefur lokið einhverjum viðurkenndum áfanga TÖK-námsins fær þann áfanga að fullu viðurkenndan og metinn í framhaldsskólanum.

Sem
sagt ...
Sem sagt:
Samandregin rök fyrir nytsemi og nauðsyn breytingarinnar.
Nauðsyn-
legt að
breytaÞótt ekki sé seilst nema til nýmælis í aðalnámskrá er ljóst að ekki verður komist hjá því að breyta námi að nokkru frá því sem nú er í skylduáfanga nýnema í framhaldsskólum.
Þörfin
verður
áfram
breytileg
Ljóst er auðvitað að nemendur munu áfram koma í framhaldsskólann með mismunandi undirstöðu í notkun skrifstofuforrita. Til dæmis munu áfram koma eldri einstaklingar sem hvergi hafa haft færi á að afla sér slíkrar þekkingar og ennfremur koma margir úr tölvunámi sem þeir hafa ekki náð tökum á - en eiga að beita í framhaldsskólanum. Það verður því áfram nauðsynlegt að þeir geti aflað sér þeirrar þekkingar sem á vantar í framhaldsskólanum. Hjá sumum verður það viðbót ofan á góðan grunn en hjá öðrum nánast byrjendanám.
Álit
annarra
er góð
vísbending
Þegar framhaldsskólinn skipuleggur námsframboðið tekur hann í senn mið af því sem er í notkun og þeim þróunarmerkjum sem grillt verður í. Tölvunotkun þróast og breytist með nýjum hugmyndum og nýjum hugbúnaði. Það er því nauðsynlegt fyrir tölvukennslu í framhaldsskólum að festast hvergi - ekki heldur í því sem reynst hefur vel - því fyrr en varir getur það verið orðið úrelt.

Það er líka vert að hafa í huga að annarra álit á því hver þróunin muni verða er í besta falli leiðbeinandi en aldrei algild forspá um það sem verður. Sífellt verður að endurskoða eigin álit og annarra með tilliti til þess sem upp kemur - því enn þekkir enginn mörkin á möguleikum tölvunnar.

TÖK
er
starfsnám
Tölvuökuskírteinið er skilgreint af aðilum sem tengjast atvinnulífi og tölvunýtingu á afar stóru atvinnusvæði. Það er mjög mikill hagur af því fyrir einstaklinginn að hafa fullgilt Tölvuökuskírteini fram að vísa þegar hann sækir um starf þar sem tölvur eru notaðar. Þó ekkert annað komi til þá er þetta mjög nytsamt skírteini og þess vegna nytsöm menntun sem til þess þarf.

TÖK-áfanginn er starfsréttindanám.

Skynsam-
legt er
hvetja
til
TÖK-prófa
Skynsamlegt er að skilgreina námsáfanga undir samheitinu UTN þannig að þeir nýtist nemendum bæði við að læra á nærnet skólans og þau tæki sem hann hefur fram að bjóða og einnig að nám í þeim nýtist nemendum sem vilja taka hin skilgreindu próf TÖK-námsins.

Þegar litið er til þess hagræðis sem það er fyrir nemandann að geta aflað sér þeirra réttinda sem TÖK veitir er það sjálfsagt mál að taka upp prófaþjónustu fyrir hið skilgreinda TÖK-nám.

.. en kenna
skilgreinda
UTN-áfanga

UTN-103

og

UTN-203

Með því að skilgreina UTN-námið með annað augað á TÖK-skilgreiningum og hitt opið fyrir annarri þróun í þessum þekkingargeira hefur skólinn alla möguleika á að halda frumkvæði sínu til hagsbóta fyrir nemendur sína og umhverfi. Skólinn er á engan hátt bundinn af skilgreiningum annarra aðila á TÖK-náminu en veitir nemendum sínum tækifæri til að afla sér þeirra réttinda sem það býður.

Ljóst er að efni UTN-103 er skilgreint að verulegu leyti. Gert er ráð fyrir að sú skilgreining aðalnámskrár geti farið saman við skilgreiningu TÖK-námsins á þremur fyrstu hlutunum:

 • Grunnatriði upplýsingatækni
  > Grundvallarhugtök er tengjast tölvunni, einstökum hlutum hennar, hugbúnaði og notkun.
  > Tölvunotkun: munur á tölvukerfi og forriti.
  > Upplýsingasamfélagið.
  > Ákvæði, lögggjöf og gagnaöryggi.
  > Vélbúnaður, hugbúnaður og vinnustellingar.
  > Internetið -Vefurinn.
 • Tölvan og stýrikerfi hennar
  > Undirstöðuatriði um virkni tölvunnar, geymslu og eftirlit með geymdum skrám.
 • Ritvinnsla
  > Notkun ritvinnsluforrits og hinna ýmsu aðgerða sem þar bjóðast til að ganga frá meðal-verkefni.

Skilgreindur verði áfanginn UTN-203 sem undirbúi nemendur undir próf í seinni fjórum hlutum TÖK-prófsins: • Töflureiknir
  > Notkun töflureikniforrits og hinna ýmsu aðgerða sem þar bjóðast til að leysa einföld verkefni.
 • Gagnagrunnur
  > Einföld notkun gagnagrunnsforrits.
 • Gerð kynningarefnis
  > Útbúa einfalt kynningarefni.
 • Internetið
  > Umgangast tölvupóst og tengjast og nota internetið.

Efst á þessa síðu * Forsíða GÓP-frétta * Efnisyfirlit þessarar samantektar