Forsíða


Námskrárbreytingaraðferðir

Aðferðir við að taka upp breytingar

Líkön: Innan og utan skóla og samanburður á þeim

Vitnað til Marsh og Willis

Aðferða -

flóra

Ef menntamálaráðuneytið vill koma á breytingu á landsvísu finnst því ef til vill einfaldast að fá háskólafólk eða sérfræðinga í námskrárgerð eða í námsgreininni til að hanna og láta semja hið breytta námsefni, skrifa kennsluleiðbeiningar og senda skólunum í bréfi. Ef sveitarfélagið vill fá fræðslu um heimahagana inn í námsefni skólans fer það kannski þá leið að fela skólanefndinni að annast málið. Hún gæti ráðið sér sérfræðinga og endað með að senda bréf í skólana en einnig gæti hún fengið skólastjórana til þess að veita verkinu forstöðu, eða kennarana sem kenna efnið.
Hvað?

og

hvar?

Námskrárbreytingar eru misjafnar að umfangi - í tvennum skilningi.

 • Efnisleg smábreyting eða stórbreyting?
  Um getur verið um að ræða litla breytingu á einum litlum þætti einnar námskrár - til dæmis að í tölvukennslu er í ritvinnslu ákveðið að nemendur þurfi einnig að læra að búa til neðanmálsgrein - eða mikla breytingu svo sem eins og að hefja kennslu í nýrri námsgrein sem um leið kallar á breytingar á einni eða fleiri öðrum námsgreinum.
 • Staðsetning breyti-starfsins
  Um getur verið að ræða breytingu sem aðeins er ætlað að koma til framkvæmda í einum skóla - eða breytingu sem unnin er utan allra skóla og ætlað er að koma síðan til framkvæmda í öllum skólum landsins.
Utan-
skóla-
breytingar

algengir
starfs-
hættir

Stórþjóðir hafa beitt nokkrum aðferðum við að móta og hrinda í framkvæmd meiriháttar breytingum á námskrám. Yfirleitt hafa þau borið þessi fjögur einkenni:

 • Ráðnir eru margir einstaklingar til verksins. Þeir eru venjulega valdir vegna sérhæfni sinnar og þeir starfa við verkefnið í fullu starfi í nokkur - eða allmörg ár.
 • Þeir nota í ríkum mæli umfangsmiklar kannanir og spurningalista til að gera sér grein fyrir á hverju er þörf.
 • Jafnóðum og þeir komast að einhverjum niðurstöðum eru þær niðurstöður fengnar öðrum hópum sérfræðinga til að vinna úr eða gera tilraunir með og niðurstaða þeirra tilrauna er jafnóðum og kerfisbundið endurskoðuð og könnuð.
 • Þeir nota umfangsmiklar aðgerðir til að koma á framfæri upplýsingum og kynna aðgengi að niðurstöðum sínum og því sem eftir þá liggur. Þeir sjá til þess að notendur fái tækifæri til viðunandi þjálfunar, öll þau gögn sem búin hafa verið til í kjölfar vinnu þeirra fari til allra skóla eða fari í framleiðslu til almennrar útgáfu og dreifingar.
Innan-
skóla-
breytingar

algengir
starfs-
hættir

Þegar unnið hefur verið að námskrárbreytingum í einum skóla eða einu skólahéraði hafa yfirleitt verið viðhöfð nokkuð öðruvísi vinnubrögð. Þau hafa borið eftirtalin fjögur einkenni:

 • Starfshópurinn samanstendur af fáum kennurum sem starfa að breytingunum í hlutastarfi.
 • Þeir meta breytingaþörfina skjótlega og óformlega.
 • Störf þeirra beinast einkum að framleiðslu kennsluefnis.
 • Leiðbeiningar um framgang og notkun geta fylgt með.
Í þrívídd

??

er (1,1,1)

best

??

Short (1983) skoðaði hugsanlegar samsetningar námskrárgerðarhópa eftir þremur víddum sem GÓP hefur hér raðað ögn öðruvísi upp og gefið (x,y,z)-hnit sem ætlað er að láta stefnuvektorinn (1,1,1) merkja skynsamlegasta formið.

 • X Stýrenda - skali:
  * 1 samsettur hópur, notandinn vegur þungt
  * 2 háskólamenn
  * 3 námskrár - sérfræðingar
  * 4 umhverfis - sérfræðingar
 • "Y Staðsetningar - skali
  * 0 Utan skóla - þ.e. fjarri notanda:
  * 1 Innan skóla - þ.e. nærri notanda:
 • Z Notkunar - skali:
  * 1 eftir eigin höfði
  * 2 hagræða má að hluta
  * 3 fylgja ber leiðbeiningum

Þar með er unnt að staðsetja starfs-einkenni námskrárgerðarstarfshóps að námskrárverkefni með þremur hnitum:

 • (x,y,z) = (2,0,3) merkir að í hópnum er ráðandi háskólamanna-hópur, unnið er fjarri þeim sem síðar skal fara eftir því sem ákveðið verður, þegar til kastanna kemur mun notandinn fá nákvæmar leiðbieningar sem hann þarf aðfylgja út í ystu æsar.
 • (x,y,z) = (4,0,2) merkir í hópnum eru umhverfis-sérfræðingar ráðandi. starfið er unnið fjarri þeim sem síðar á að fara eftir því sem ákveðið verður, þegar til kastanna kemur mun notandinn fá leiðbeiningar sem hann mun að hluta til fá að laga að eigin óskum.
 • (x,y,z) = (1,1,1) merkir að hópnum er sameiginlega stýrt af þátttakendum sem hafa misjafnan bakgrunn, verkið er unnið hjá og með þeim sem eiga að hagnýta það, þegar til kastanna kemur verður sjálf framkvæmdin eftir því sem hæfir hverju og einum.

Með þessari hnitagjöf er GÓP raunar að gefa í skyn að þegar vinnslan er staðsett fjarri skólanum og kennaranum sem á að nota breytinguna þá byrji öll framkvæmdin á gólfinu (þ.e. í xy-planinu) og þá sé undir ýmsu komið hvort hún nær að hefja sig til vegs.

Utan-
skóla -
líkön
Margir hafa haft uppi ráð um og sett saman vinnulíkön til að lýsa hvernig standa beri að námskrárbreytingum. Hér verður tæpt á fáeinum. Fyrst eru þrjú líkön að framkvæmd breytinga sem unnar eru
utan skóla:.

 • Stofnunar-breyting - Breytingin er unnin á sérstakri stofnun. Henni er síðan ætlað að flæða yfir aðrar stofnanir.
  * Rannsókn, þróun og látið spyrjast. Clark og Guba, 1965: RDD = Research, Development and Diffusion.
 • Þekkingar-dreifing - Breytingin er unnin á sérstakri stofnun er lögð er vinna í að koma málum svo til leiðar að aðrar stofnanir taki hana upp.
  * Breyting unnin upp og tilraunakennd. Tilteknar stofnanir taka síðan við og kynna niðurstöðurnar í því skyni að koma þeim til framkvæmda í öðrum skólum. Schon, 1971: CPM = Center-Periphery Model.
 • Gagnvirkt - Breytingin er unnin upp á sérstakri stofnun. Eftir það er samt gert ráð fyrir að kringumstæður séu að umtalsverðu marki öðruvísi í hverjum skóla heldur en séð var fyrir við þróun breytingarinnar og því þurfi að gera ráð fyrir að fylgja þeim eftir - eða sætta sig við að þær skili sér ekki eins og til var ætlast.
  * Breytingin er unnin upp en til að koma henni á þarf að ná upp umræðum milli þeirra sem mæla fyrir henni og hinna sem eiga að nota hana. Milli þeir er alltaf skoðanamunur og hann þarf að jafna með umræðu, upplýsingum og skoðaðaskiptum. MacDonald & Walker, 1976: NM = Negotiation Model.
Stofnunar-
breyting

RDD =
Research,
Development
and
Diffusion

Clark og Guba, 1965: RDD = Research, Development and Diffusion er klassiskt líkan í þeim skilningi að það hefur verið notað í miklum mæli þegar um hefur verið að ræða meirháttar námskrárbreytingar. Litið er svo á að námskrárbreyting sé afmarkað verkefni sem Havelock (1971) skiptir í þessi þrep:

Grunnrannsóknir > afmarkaðar rannsóknir > þróun og prófun hugmynda > framleiðsla og frágangur > skipulögð fjöldakynning > notandinn

Á hverju þrepi eru kallaðir til sérfræðingar sem aðstoða við að leysa úr vanda , finna lausnir og síðan að láta lausnirnar spyrjast - eða raunar frekar: kynna lausnirnar. Hið nýja námsefni og námskrárinnlegg líkist háþróaðri iðnaðarvöru að því leyti að það er fyrst hannað, síðan framleitt undir ítarlegu eftirliti og síðan prófað og það má síðan hagnýta það hvar sem er - bæði innanlands og utan. Hægt er að framkvæma yfirgripsmiklar kannanir áður en ráðist er í framkvæmdir. Megináherslan er því lögð á að búa til gæða-nýjung sem gengur sem víðast - en ekki hirt sérstaklega um kennarann sem á hverjum stað er ætlað að taka nýjungina í notkun.

Gagnrýni hefur beinst að þessu verklagi: ... megináhersla á tæknilega fullkomnun og getur í engu breytt skólum, ... vanmetur nýjungagetu kennarans og skólans og hefur skólaandann að engu, ... gerir ráð fyrir óvirkum viðtakendum, ... leggur aðaláherslu á staðlaðar lausnir en hjálpar ekki kennaranum að koma nýjunginni í notkun, ... hjálpar ekki kennurum og öðru skólafólki til að skilja samhengi námskrárbreytinga og námskrárþróunar í viðkomandi skóla.

Þekkingar-
dreifing

CPM =
Center-
Periphery
Model

Schon, 1971: CPM = = Center-Periphery Model er í meginatriðum eins og RDD nema að upplýsingar um breytingarnar - eða kynningin á þeim - er hér í fastari farvegi. Eins og í RDD er hér gert ráð fyrir að nýjungin sé fullmótuð áður en hún er kynnt og að kynningin sé miðlægt verkefni en kynningin er skipulögð sérstaklega. Sjálft breytingarstarfið fer fram í einum stað eða miðstöð. Þaðan er síðan komið upp kynningarmiðstöð á öðrum stað sem er á því landsvæði og skólahverfi sem ætlunin er að láta breytingarnar ná til. Þeir sem stjórna breytingunum ná þá samstarfi við aðila sem hafa aðstöðu til að taka að sér hlutverk útstöðvar eða kynningarmiðstöðvar og ef þetta samstarf gengur upp getur náðst ágætur árangur.

Gagnrýni á þetta verklag beinir athyglinni að því að hér er í raun alveg litið fram hjá sjálfu þróunarferli nýjunganna og ekki tekið tillit til þess hvernig kennarar og skólar raunverulega fara að því að taka upp nýjungar. Gagnrýnin verður í þeim efnum að mörgu leyti sú sama á CPM eins og á RDD.

Gagnvirkt

NM =
Negotioation
Model

MacDonald & Walker, 1976: NM = Negotiation Model er samkomulags-líkan. Það gerir fyrst grein fyrir því að það er munur á veruleika þeirra sem hanna og framleiða námskrárbreytinguna og hinna sem eiga að framkvæma hana. Sama breytingin er því skoðuð undir ólíkum sjónarhornum og það hlýtur til dæmis að leiða það af sér að það er munur á þeirri nýjung sem hönnuðirnir ætluðu að koma á og þeirri sem varð niðurstaðan í kennslustofunni. Ólík sjónarhorn og ólíkur starfsheimur veldur líka ólíkum væntingum. Einnig stasnda kennarar frammi fyrir því að í kennslustofunni þurfa þeir að semja fram niðurstöðu fyrir nemendur sem hver um sig horfir sínum augum á silfrið. Sjónarhorn færast ekki saman nema til komi umræða, samningar og menn slái af með gagnkvæmum hætti. Sá sem trúir því að hann hafi fengið allt sitt fram á eftir að verða fyrir miklum vonbrigðum.
Innan-
skóla -
líkön
Hér koma nokkur vinnulíkön sem notuð hafa verið við að koma í kring námskrárbreytingum á heimaslóðum - þ.e.:
innan skóla:.

Stofnunar-
breyting

PICM =
Proactive /
Interactive
Change
Model

Zaltman ofl 1977: PICM = Proactive/Interactive Change Model á rætur að rekja til fræðilegra rannsókna á þróun kerfa, heilda og stofnana. Líkanið byggir á að innan skólans sé að finna öfl sem geti komið af stað og hrint í framkvæmd námskrárbreytingum en til þess að vel takist til þurfi að koma til rökræn áætlanagerð og kerfisbundin skoðanaskipti um nokkurt skeið. Líkanið áætlar að slík þróun fari gegnum eftirtalin 9 skeið sem taki við hvert af öðru - þótt starfið hrökkvi stundum aftur á bak og endurtaka þurfi einhver skeiðin:

 • (1) Gera sér grein fyrir markmiðum starfseminnar. Með þeim hætti kemur í ljós að einhver þáttur starfseminnar er ekki í heppilegasta samræmi vð heildarmarkmiðin. Það vantar eitthvað.
 • (2) Gera þarf grein fyrir viðfangsefninu. Í hverju er vöntunin fólgin? Fyrsta skrefið til að losa um fasta venju.
 • (3) Tillögur til lausnar. Námskrárbreytinga-starfshópurinn kynnir hugmyndir að því sem hann leggur til að gert verði.
 • (4) Meðbyr og mótbyr. Dregið er fram það sem mælir með þeim tillögum sem lagðar hafa verið fram, hvaða hjálpartæki og stuðning er unnt að fá til breytingarinnar og hvað geti staðið í vegi fyrir henni.
 • (5) Fleiri lausnir. Dregnar fram fleiri leiðir til lausnar.
 • (6) Skoðun, prófun, sýning. Hópurinn kynnir áætlanir sínar um hvernig breytingin skuli framkvæmd.
 • (7) Ákvörðun er tekin. Nú er tekið af skarið um það hvort fara skuli hina boðuðu leið eða reyna einhverja aðra af þeim leiðum sem kynntar hafa verið.
 • (8) Framkvæmd og eftirfylgni. Breytingin er framkvæmd og fylgst er með hvernig til tekst. Ekki er látið staðar numið fyrr en hún hefur algjörlega fest rætur í starfseminni og nýtist eins og til var ætlast.
 • (9) Mat. Strax er fylgst með hvaða áhrif breytingin hefur á það hvernig tekst að uppfylla markmið starfseminnar. Tekið er mið af því mati við lokafrágang breytinganna - eða til að endurbæta þær eftir þörfum.

PICM hefur reynst vel í skólum þar sem kennarahópar vinna stöðugt að þróun námsefnis og námskrár, fá til þess hvatningu og stuðning og lækkaða kennsluskyldu. Þessu líkani fylgir fjöldi gátlista um atriði sem kanna þarf og fylgja eftir á hverju skeiði fyrir sig.

Gagnrýni hefur PICM-líkanið þó fengið um að breytingarnar sem þannig fást fram séu um margt rýrari að rökstuðningi, nái ekki eins góðu fylgi meðal samkennara og séu ekki til jafnmikils gagns og gjarnarn er ályktað af hinni glæsilegu uppsetningu á verkskeiðum þess. Svo virðist sem það sé talsvert bil á milli þeirrar veruleikamyndar sem líkanið skilgreinir og raunveruleikans á sjálfum skólavettvanginum.

Gagnvirkt

AGN =
Aukin
Gæði
Náms

Jón Baldvin Hannesson, Rósa Eggertsdóttir og Rúnar Sigþórsson: AGN er íslenska útgáfan af IQEA - sjá - David Hopkins, Mel Ainscow og Mel West 1994.

Sjá fyrst hér: AGN-líkanið. Líkanið skoðar breytur á

(A) stjórnunarsviði: forysta, samstarf og samábyrgð, starfsþróun, athuganir og mat, áætlanagerð, samhæfing

og (B) í kennslustofunni: sérhæfing kennara, samskipti, bekkjarstjórnun, fjölbreytni kennsluhátta, námsaðlögun, undirbúningur og sjálfsmat kennara,

og áætlar að þegar menn vilji þróa starf skólans sé leiðin sú að starfsfólkið vinni með þessar breytur.

Undir myndinni af AGN-líkaninu segja íslensku höfundarnir sem jafnframt eru ráðgjafar með líkaninu hérlendis: "Eins og AGN-líkanið ber með sér (sjá mynd) eiga skólar að takast á við innra mat á starfi sínu og ákvarða á grundvelli þess forgangsverkefni til umbóta. Athuganir beinast að tveimur meginsviðum í starfi hvers skóla, stjórnskipulagi annars vegar og námi og kennslu hins vegar. Stefnt er að því að festa í sessi ákveðin vinnubrögð sem bætt geta árangur bæði kennara og nemenda. Þessi vinnubrögð leiða ekki sjálfkrafa til skólaþróunar en eru nauðsynleg forsenda hennar - jarðvegurinn sem hún þrífst í. Árangur er skilgreindur mjög vítt og takmarkast engan veginn við mælanlegan árangur sem hægt er að sýna fram á með einkunnum. Meginsvið skólastarfsins fléttast að sjálfsögðu saman og verða ekki aðskilin, því hvorki starfið í kennslustofunni né stjórnskipulagið þróast óháð hvort öðru. "

Með sífelldri viðleitni til umbóta í skólastarfi vill AGN-líkanið þoka skólanum nær árangursríku skólastarfi með því að einkenni skólans nálgist þau sem einkenna árangursríkt skólastarf - en þar um segja AGN-menn í grein í ritinu Uppeldi og menntun í nóvember 1997:

"Fjöldi rannsókna hefur dregið upp mynd af því sem einkennir árangursríkt skólastarf (sjá t.d. Ainscow og Muncey 1988; Stoll 1991). Meðal mikilvægra einkenna eru m.a.:

 • skýr sameiginleg markmið og framtíðarsýn skólasamfélagsins,
 • forysta og stjórnunarhættir einkennast af valddreifingu,
 • samvinna og samábyrgð kennara á öllum sviðum skólastarfsins,
 • vönduð og markviss vinnubrögð við undirbúning og kennslu,
 • stöðug viðleitni til að uppfylla þarfir allra nemenda og trú á að allir nemendur geti náð árangri,
 • kerfisbundnar aðferðir til að skrá og meta árangur starfsins,
 • mikil áhersla á nám kennara og styrkingu í starfi. "
Umsögn
AGN-manna

um AGN-
vinnu sem
fram fór í
4 skólum
og stóð
í 2 ár
Hvað skildi vinnan eftir í skólunum? Þessu má svara almennt og vitna til skoðana ráðgjafa en ekki síst skólanna sjálfra: fagleg umræða jókst, sameiginleg sýn skapaðist, kennarar kynntust betur sem einstaklingar og fengu betri heildarsýn, fjölbreyttari kennsluaðferðir voru teknar upp, kennurum fannst þeir hafa meiri áhrif á stjórnun og stefnumótun, vinnubrögð við skipulagningu urðu markvissari, betri samstaða starfsmanna, foreldrar og nemendur hafa fengið að segja sína skoðun á sumum „innri málum", kennarar fá tækifæri til að taka að sér forystuhlutverk (valddreifing), greiðari boðskipti, nemendur „græddu" ýmislegt í fjölbreytni, bættri hegðun, samskiptum og e.t.v. námsárangri o.fl.

Annmarkar: árekstrar við önnur störf, umbótastörf eru krefjandi og tímafrek, hægfara byrjun, of seint farið í verkefni í kennslustofunni, óöryggi kennara og aðgerðakvíði á stundum, ekki tókst að leysa ágreining einstaklinga/hópa, erfitt að „mæla" ávinning nemenda, betur hefði þurft að virkja nemendur og foreldra, ráðgjöf til þróunarstjórna hefði þurft að ná betur til allra kennara o.fl.

Bæði kostir og gallar sem hér eru taldir geta átt við einn eða fleiri skóla og voru jafnvel mismunandi milli einstakra verkefna. Mismunur á milli skóla var töluverður og árangur í samræmi við það. Um mismunandi skólagerðir var að ræða auk þess sem verkefnaval, vinnuhefðir og tími sem fór í verkefnið hafði áhrif. Skólarnir náðu samt sem áður allir árangri sem hægt er að vera ánægður með þótt hann hefði stundum mátt vera meiri til að allir væru ánægðir. Ekki er auðvelt að festa fingur á hvað helst réði úrslitum en þó virðast samskipti og hreinskilni milli stjórnenda, þróunarstjórn þar með talin, og hins almenna kennara vera grundvallar forsenda þess að ágreiningur sé viðraður og sameiginleg niðurstaða náist.

Gagnvirkt

PS =
Problem Solving

Lippitt 1958: PS = Problem Solving -líkanið er eitt af mörgum sem fram hafa verið sett. Þetta líkan gerir ráð fyrir að ef kennarar við skóla gera sér grein fyrir að upp er komið vandamál eða að námsefninu er ábótavant þá er það hluti af þeirra eigin starfsskilgreiningu að bregða við og leita úrlausna. Dæmigerð framvinda er þá svona:

 • (a) Þeir gera sér grein fyrir hver þörfin er,
 • (b) greina vandamálið,
 • (c) velta upp hugmyndum og afla sér margvíslegra upplýsinga,
 • (d) framleiða lausn - til dæmis: útbúa nýtt námsefni
 • (e) og þegar breytingin er komin til framkvæmda - eða er á prófunarstigi meta þeir hvort hún dugir til að leysa vandann.

Sérstakan áhuga vekur sú áhersla sem þetta líkan leggur á þarfir notendanna: það eru kennararnir sem skynja vandann, taka ákvörðun um úrbætur og framkvæma þær. Utanaðkomandi aðilar eru hér í engu sérstöku hlutverki. Lögð er áhersla á að þetta ferli fer af stað án utanaðkomandi frumkvæðis og er framkvæmt innan húss.

Þetta líkan hefur oft verið notað til að gera sér grein fyrir hvernig framkvæmdir við námskrárbreytingar í tilteknum skólum hafa í raun verið gerðar. Hópar skóla hafa einnig sett í gang námskrárvinnu á þessum grundvelli. Sjá The Coalition of Essential Schools.

Gagnrýni á þetta fyrirkomulag beinist að ábendingum um að ef það á að virka þarf að koma til tími og fé. Nauðsynlegt er að fjalla um málin á tímafrekan hátt, koma saman utan starfstíma og á sumrin og auk mikillar vinnu fara miklar tilfinningar í gang svo starfið er afar krefjandi. Oft er tími alls ónógur til að fara nógu vandlega í gegnum allt undirbúningsferlið og ekki unnt að undirbúa breytingarnar á fullnægjandi hátt.

Gagnvirkt

CM =
Conflict
Model

Schelling 1963: CM = Conflict Model fetar í fótspor fjölmargra líkana sem reyna að kortleggja átök milli einstaklinga og hópa sem nota afl og vald til að ná fram markmiðum sínum. Vald er ekki einskorðað við þá sem sitja á valdastóli. Ljós dæmi um það eru þingmenn sem komast til áhrifa fyrir tilstilli sterkra áróðursmeistara og auðugra stuðningsmanna sem síðan ráða í raun gerðum þeirra.

Átaka - líkön skoða sérstaklega þá samninga og margvíslega afslætti sem verða vegna mismunandi forgangsröðunar og ólíks aðgangs að tækifærum, fjármunum og aðstoð. Samningar geta verið uppi á borðinu í þeim skilningi að fram eru sett tilboð og gagntilboð eða birtist í framferði annars aðilans sem ætlað er að stýra framferði hins aðilans. Ljóst er að þegar deilur eru uppi verða þær ekki leystar nema báðir aðilar slái nokkuð af. Ef afsláttarferlið stansar er líklegt að samningar séu að sigla í strand.

Bent hefur verið á að kennarar séu líklegir til að styðja hver annan ef til átaka kemur og iðulega eru það þeir sem stjórna sínum kennsluheimi hvað svo sem stjórnendur skóla eða fræðsluhéraðs segja. Margs konar samdrættir geta átt sér stað í skólum og rannsóknir styðja þá tilgátu að alls konar þreifingar og tengingar og samningar milli einstaklinga og hópa séu mikilvægt hreyfi- og breytiafl innan skólans.

Ljóst er að ef skólum er falið að annast þróun og breytingar á námskrá verða kennararnir að gera upp við sig hvers konar form þeir telja hagkvæmast á samvinnunni til að ná fram þeim árangri sem þeir telja æskilegan.

Efst á þessa síðu * Forsíða