GÓP-fréttir forsíða * -
Haustferðin 1998:

Hófsvað - Jökulheimar - Miklafell

17.-18. október 1998

Lagt var upp síðdegis á föstudeginum og ekið austur sveitir í frosti og björtu veðri og grámi var í efstu hlíðum Esjunnar. Ætlunin var að gista í Landmannalaugum en töluverður snjór var á svæðinu og færið erfitt. Ákveðið var að fá inni í Áfangagili þar sem er nýuppgert leitarmannahús. Jón Benediktsson í Austvaðsholti léði lykil en hann hefur með húsið að gera.

Í Áfangagili er svefnaðstaða fyrir liðlega 20 manns ef ekki er sofið á gólfum. Að þessu sinni skiptum við hópnum og þeir Ingi, Matti og Steini og farþegar þeirra sváfu í Lambhaga sem er hús sem þeir Ingi hafa með að gera í Skarfanesi.

Hófsvað á Tungnaá

Nú er búið næturhlé
nú er lokið kríu -
enginn trúir að hún sé
orðin 5 að nýju.

Í stjörnubjörtum frostmorgninum klukkan liðlega 06 var rennt frá Áfangagili og inn í Hrauney við Hrauneyjarfoss. Þar er til reiðu gisting, veitingar og allur fararbeini - einnig fyrir bílana.

Þeir Ingi og Matti, en með þeim í för voru þau André og Ása, og þeir Steini og Ernst Guðjón fóru eldri leið (frá 1970) inn með Valafelli á gömlu leiðina yfir Dyngjurnar og komu inn á nýja veginn móts við Vesturbjalla. Þeir létu vel af þessari leið sem styttir enn Dyngjuleiðina sem áður var stysta leiðin inn að Hófsvaði. Dyngjuleiðin sjálf hefur spjallast af Helliskvísl og ekki verið notuð í áratugi.

Inn að Hófsvaði komum við klukkan 08:30. Guðmundur Jónasson fann þetta vað á Tungnaá þann 27. ágúst árið 1950. Nafnið er dregið af litlum hóflaga kletti sem stendur nærri norðurbakkanum neðan vaðsins. Nú lágu ísar og snjóar að ánni en hún var með haustvatni og ljúf yfirferðar. Ingi, Kalli og Jói stóðu í ánni og vísuðu veginn þegar straumállinn var tekinn um það bil 15 metrum ofan við brotið og hylinn - á góðum grófmalarbotni. Hófsvað á virðingarsess í hugum ferðalanga og það var gaman að rifja þar upp gömul kynni.

Pétur Örn, Björg og Friðgeir komu frá Selfossi samtímis okkur að ánni og voru samferða yfir. Klukkan var 10 þegar við ókum frá vaðinu norðaustur að veginum frá Sigöldu. Leiðir skildi aftur þegar komið var á slóðina vestur til Þóristinds og Vatnsfells því þeirra biðu byggðaskyldur.

Jökulheimar - Breiðbakur

Sex bílar héldu sem leið liggur inn í Jökulheima. Færðin var þæfingur en án stórra erfiðleika. Þegar kom inn úr Heimaskarði fór að hvíta verulega svo hvorki sá í Rata né önnur fjöll - enda þótt naumast væri úrkoma. Þetta var þó með uppstyttum og við ókum í Botnaverið og fórum þar yfir Tungnaá, litla og ljúfa. Nokkurt þref var að komast upp á fyrsta ásinn - þar sem hliðarhallinn er mestur í slóðinni. Eftir það var viðstöðulaust ekið upp bröttu brekkurnar á Breiðbakinn.

Færið þyngdist nokkuð svo víðast þurfti að leita leiða og troða slóðir sem jafskjótt fauk í og hvítan var erfið. Veður tók þó að stillast og rofaði í sólarbirtu um klukkan 16:30. Þá var ákveðið að gera hlé á framsókninni en hverfa til náttstaðar í Jökulheima. Veðrið gerðist nú blítt með vindleysu og örlítið fór að bæta í frost. Við komum heim að Jökulheimum í birtubrigðum og áttum þar góða gistingu í öndvegis húsum.

Frábært veður og gott vetrarfæri

Um nóttina herti frostið og himinn var skafheiður með lítilli tunglrönd og stjörnuskara og ekki bærði vind. Slóðirnar biðu okkar skýrar og tærar þegar við lögðum upp klukkan 8 á sunnudagsmorgninum. Sólin roðaði háský yfir jöklinum og þegar við ókum upp á Breiðbakinn setti hún rauða geisla sína hægt og hægt á fleiri fjallatinda og háhnjúkaraðir. Útsýni var um veröld alla. Vetur var genginn í garð og varla dökkan díl að sjá nema í klettum og blásnum fjallatoppum. Sólin gljáði hjarnið og veröldin var hvít. Nokkur blástur var á efstu hæðum Breiðbaksins með 12 stiga frosti en stilltara og 6 stiga frost er ofan var komið. Dagurinn var einmuna fagur og ógleymanlegur og að hefðbundnum hætti kvaddi kvöldsólin okkur með dumbrauðum refli vestur við sjóndeildarhring.

Yfir Breiðbakinn

Í hvítri stillu morgunfrostsins ókum við aftur um Botnaverið upp á Breiðbak. Þar biðu slóðirnar okkar, skírar og tærar og senn vorum við uppi á hæsta tindi við innsta L-ið á kortinu. Útsýnið var tilkomumikið yfir Langasjó og Sveinstindur skar sig upp úr. Úr Vatnajökli brostu þeir til okkar, Skaftárjökull og Síðujökull, Blængur reis handan Fögrufjalla og þar sá til Lakagíga. Vestar risu tindar og fjallaraðir umhverfis Eldgjá.

Hlaup í Skaftá

Við runnum nú undan hlíð og halla og bratta niður á Fögruvöll. Þar var strax ekið fram um jökulruðningana þar sem þeir eru lægstir og niður með fyrri áli Skaftár sem nú var krapahraunuð sandlæna með ísaða bakka. Þegar kom nær Fögru var á henni gott hné-vað og ágætur botn. Seinni állinn rennur sunnar og stefnir beint á Fögru. Sá var ljótur að sjá, kolmórauður og af honum mikil brennisteinsfýla. Hann reyndist þó mestmegnis sprettharður og var ekinn í dýpi á mitt læri en með straumkastið á mjöðm. Þar með vorum við komin yfir Skaftá og ekki komið hádegi.

Ísak

Áð var skamma stund og ísar barðir af bílum. Síðan ekið fram eyrarnar og upp í gilið austan við Sjónaukann. Ekki var lipurt að aka á hann í snjónum en Jóhann Ísak leiddi okkur upp á Ísak, en svo nefnum við hér eftir toppinn austan Sjónaukans. Af Ísaki er glæsilegt útsýni. Yfir gnæfir Fagra og öll hin fögru fjöll. Skammt neðar sér á útfallið úr Langasjó sem fer krókaleiðir niður í Skaftá. Yfir næsta vatnslausa fremri botna Skaftár undan Skaftárjökli sér til Síðujökuls. Fremri Eyrar rísa ávalar í suðri en nær og vestar eru Blængur og Laki. Efst við hraunjaðarinn gnæfir Tröllhamar við Skaftá. Þar eru leiðir niður í Lakagíga.

Um Fremri Eyrar til Miklafells

Farið var hindrunarlaust suður að gömlum jökulurðarhólum handan vatnasvæðisins og farið vestan þeirra. Lækir voru í vegi einir þrír sem voru vinsamlegir yfirferðar. Komið var að gíg einum, glæsilegum, sem á korti er aðeins merktur hæð sinni sem er 699 m. Nokkur nöfn hafa verið boðin fram á þann gíg en verða látin doka því ólíklegt má telja að hann beri ekki eitthvert glæsilegt heiti nú þegar.

Fara verður austan megin við þennan mikla gíg. Allnokkru sunnan við hann er komið að efstu vatnadrögum Hverfisfljótsins og er heppilegt að fara nokkuð staðfastlega áfram niður yfir þau - en við slógum okkur fyrr í átt til Fremri Eyra og þurftum að finna okkur leið niður af grýttum stalli og fórum þá yfir fyrstu upptakakvísl fljótsins. Sú var þó vart nefnanleg.

Fremri Eyrar voru svo eknar frá norðri til suðurs. Á þeim er maður skjótt kominn að braut sem syðst tengist vegi sem ýttur hefur verið gegnum hraunið. Eftir honum liggur leiðin sunnan Laufsalavatns og niður með Miklafelli. Að húsinu undir Miklafelli komum við klukkan 17:30.

Heimferð inn í kvöldroðann

Í kvöldinu ókum við niður á þjóðveginn við Orustuhól og eftir nokkra viðstöðu á Kirkjubæjarklaustri runnum við heim á leið. Til Reykjavíkur var komið fyrir miðnættið.

Frábær ferð

Þessi haustferð var farin á nokkrum áhættutíma. Það var vitað að fara þyrfti svo seint á haustinu að Skaftá yrði fær venjulegum farartækjum. Jafnframt var það vitað að þá færi nærri að kominn yrði vetur inni á hálendinu við rætur Vatnajökuls - þar sem yfir Skaftá skyldi ekið.

Í byggð var snjólaust með öllu. Á afrétti var snjór til tafa. Í Jökulheimum og á Breiðbak var vetur og allar götur niður á Fremri Eyrar. Þegar kom niður fyrir þær var aftur orðið næsta snjólaust. Þetta var því haustferð um vetrarslóðir þar sem vetrarfærðin var þó að mestu viðráðanleg á óbreyttum bílum sem ekið var listavel.

Við reyndumst heppin. Góðar veðurspár virtust ætla að bregðast á laugardeginum sem byrgði stjörnubjartan geim með hlýlegri skýjum um það leyti sem við fórum mildilega yfir Tungnaá á Hófsvaði og sleit að okkur smáfjúk og hvítaði veröldina á ferð okkar um hlað í Jökulheimum. En heppnin hafði ekki gleymt okkur - það var öðru nær. Með því að okkur sóttist förin seint yfir Breiðbakinn fór það saman að veðrið tók að gerast yndislegt og við áttum stuttan spöl að aka í næturstað í Jökulheimum þar sem er aldeilis úrvals aðstaða - nema vatn verður að hafa með sér.
(GÓP: athugasemd í des. 2012:
Vatnsvandinn er löngu frábærlega leystur með rafdælu innanhúss.)

Nóttin var heiðskír og stjörnubjört og frostið mældist yfir 14 stig í morgunsárið.
Í kvæði frá 1965 segir:
Við höfum séð er sunnudagur
settist upp á loftið fagur
sólflóð braut á silfurhæðum
sindraði í litaglæðum:
- hvílík ægifegurð fleyg
er fengum við í einum teyg!

Þessi sunnudagur varð í hópi þeirra úrvals-daga sem aldrei líða úr minni. Logn í morgunbirtunni, rauðir fjallabarmar þegar sólin klifrar hærra og hærra, Langisjór dökkur í hvítri óbyggð undir Fögrufjöllum. Skyggni út um allar jarðir. Skaftá ljúf og skemmtileg. Leiðin löng - en dagurinn dugði - þótt öll værum þreytt að ferðarlokum.

Ritari færir samferðarmönnum hjartans þakkir fyrir samfylgdina.

GÓP-fréttir forsíða