GÓP-fréttir  
Ferðatorg 
Ferðaskrá 
Vaðatal


Haustferðir 2002 
Ljósmyndir frá GÓP og Vigfúsi Magnússyni

Ath! Fleiri myndir og stærri eru á myndaalbúminu
>> 1. ferðin - afmælisferð Karls T. Sæm
>> 2. - 4. ferð eru allar í einni möppu

Samtals 4 ferlunarferðir haustið 2002
Ferlanetin um Jökulheimasvæðið
Nýja uppsetningin á vestursvæðinu!

24. nóv. -
haustferð 
nr. 4
Ferlunarferð á Jökulheimasvæðið. 
Dagsferð sunnudaginn 24. nóvember.   
Farið úr höfuðborginni kl. 06 og komið heim kl. 21.
Gott veður
góð færð
Fyllt var upp í vega- og slóðanet svæðisins. Veður var gott. Undanfarandi regnveður höfðu þvegið mjög vegi á svæðinu og margt var nýstárlegt eftir. Rásir í vegi höfðu dýpkað og voru nú varhugaverðar nema með aðgát og á hörðum söndum höfðu sums staðar þvegist burt breiður - rétt eins og grunnt hefði verið skafið með grófri hefiltönn.
Snjór var ekki á svæðinu en frost hafði verið nokkurt og pollar vestan hraunjaðarsins á leiðinni niður með Sauðafellslóni að Þórisósi voru ísi lagðir.  
26.-27. okt.
haustferð 
nr. 3
Ferlunarferð á Jökulheimasvæðið. 
Farið úr höfuðborginni kl. 06 á laugardag.
Fjórar ljósmyndir frá GÓP 
Gamla leiðin
úr Illugaveri
í Jökulheima

Leið 16 !!

Ferluð var leiðin úr Illugaveri í Rauðtopp og leiðir að norðan suður til Heljargjár norðan Gjáfjalla og yfir þau til Heljargjár sunnan Gjáfjalla. Margar hinna fornu leiða eru þar með komnar með feril en sumar þeirra eru sífellt óglöggar eftir að hreyfir vind - sem stundum færir til sandinn - og leiðina. 

Gist var í Hrauneyjum. Þar er ástæða til að kveðja hlýlega:
Nú er kvaddur kokkurinn,
kær þökk húsfreyjunum 
þegar ferðaflokkurinn
fer úr Hrauneyjunum.


Hraunin norðan Gjáfjalla eru furðulega brotin og uppstríluð. 
Hér er sáttmálsörkin í hrauninu skammt frá Illugaveri. 
Gríðarstór og jafnþykk hella - upp á rönd!

Gjáfjöll sitja þvers yfir Heljargjá. Svona kemur veggurinn suður frá fjöllunum. 
Botn gjárinnar er sandorpið hraun. 

Magnaðir hamraveggir í Heljargjá - og eldhraunin allt um kring. 

Frábært er að koma að Jökulheimum í logni sólbjarts haustmorguns. 
Hér er miðpunktur þessara fjölbreyttu og spennandi öræfa.
18.-20. okt.
Haustferð nr. 2
Ferlunarferð á Jökulheimasvæðið. 
Farið úr höfuðborginni kl. 06 á laugardagsmorgninum.
Tvær ljósmyndir frá GÓP - úr Heljargjá norðan Gjáfjalla. 
Ein mynd frá Vigfúsi Magnússyni - úr Illugaveri
Gamla
leiðin
suður með
Köldukvísl
Hugað var að fyrstu leiðinni af Sprenigsandsleið til Jökulheima sem liggur úr Illugaveri hjá Rauðtoppi, yfir Heljargjá sunnan Gjáfjalla og til Jökulheima norðan Ljósufjalla. Að þessu sinni var aðeins farið í Illugaver og vaðið kannað. Það reyndist vel fært - sjá nánar í vaðatalinu. Erindi ferðarinnar var þó bundið  leiðinni frá Syðri-Hágöngu niður með Köldukvísl að sunnan og á Rauðtoppsleið. Þar hafa verið nokkrar vinnustöðvar Landsvirkjunar við jarðlagarannsóknir og jarðfræðingar Orkustofnunar hafa farið þar um við öflun gagna fyrir gerð  jarðfræðikorta. 


Horft suður yfir Krókslón.

Músaðu á þessa mynd til að stækka hana. Þú færð hana eina í glugga. 
Láttu músina vera inni á myndinni í þeim glugga. 
Þá færðu bráðlega merki í neðra hægra hornið sem þú músar á og þá stækkar myndin. 
Myndin verður þreföld á hæð og breidd og þá geturðu lesið örnefnin. 


Í frábæru veðri - nokkrum blæstri og litlu frosti - en samt með rauð andlit - !!
Ferðalangar í Heljargjá norðan Gjáfjalla.
*
Einnig voru í þessari ferð Sigurður Magnússon og börn hans 
þau Lára, Erla, Kolbeinn og Þangbrandur en þau fóru beint heim á sunnudagsmorgninum vegna veikinda.


Sýnishorn af Heljargjá. Þetta er einungis litil hliðargja vestan í megin hraunakraðakinu.


Horft yfir hraunbreiðurnar vestur að Heljargjá norðan Gjáfjalla. 
Nei - það sést eiginlega ekki til Kerlingarfjalla - en þetta er áttin!
Myndin er tekin á 64 23.528N og 18 15.902W.


Það er stutt fjalladægrið í októberlok. 
Klukkan er farin að ganga sex og sólsetursroðar komnir í austurhimin. 


Dálítið dubbuð mynd sem gefur góða hugmynd um dýpið og stefnuna.
Dýpst var nærri 70 cm um það bil 6 m frá fjær-bakkanum.
Vaðið er betra suður yfir - eins og hér er horft.


Svona er Illugaver! GÓP að filma.


Þessi mynd Vigfúsar Magnússonar sýnir gamla kofaræksnið í Illugaveri. 
Var hann leitarmannakofi? Skammt frá er rúst af hlaðinni rétt. 

27.-29. sept Fyrsta haustferðin var farin dagana 27. - 29. september. 
Ætlunin var að ferla merkar og skemmtilegar leiðir um Jökulheimasvæðið. 
Þrjár ljósmyndir frá GÓP.
93ja-ára
afmæli
Þetta var jafnframt afmælisferð Karls T. Sæmundssonar. 
Hann varð 93 ára sunnudaginn 29. september.
Yfirlit Að þessu sinni vorum við á fjórum bílum. Með Sverri Kr. Bjarnasyni var Sigurður Flosason. Með Sigurði Magnússyni voru fjögur börn. Með Pétri Erni voru þrjú börn. Með GÓP voru Karl Th. Sæmundsson, Karl Jónsson og Katrín Valgerður Karlsdóttir og hann Jón Egill. 

Um miðnættið á föstudeginum voru allir komnir inneftir. Haldið var af stað klukkan liðlega 08 á laugardeginum og ekið norður um Stafnaskarð og Grjótháls, farið hjá Hamrinum og að Sveðju. Hún var aðlaðandi til yfirferðar og farvegurinn í góðum brotum eftir flóðin í fyrravor - en að þessu sinni var ferðinni ekki heitið lengra norður.

Eftir útikaffi í logni og sól var farin leiðin vestur Sveðjusanda að útfallinu úr Hágöngulóninu. Lónið ljær umhverfinu stórkostlega fegurð og í veðurblíðunni spegluðust fjöll og firnindi svo og hraundrangar og klungurkarlar í vatnsfletinum. Útfallið er breiður vatnsvegur á jafnsléttum botni. Dýpið á yfirfallinu var ef til vill liðlega hálft fet og dýpið niðri á brotinu var frá 40 sm til 65 sm. Nokkuð brattir bakkar eru niður beggja megin - en allir bílar fóru það þó án vandræða. Sjá ítarlegar um þetta vað í vaðatalinu. Um kvöldið var ekið suður og farið hjá Versölum og Þórisvatni og svo Jökulheimaleið.

Á sunnudeginum var enn ekið norður um Stafnaskarð en síðan Blávatnsleið yfir að Dór og svo í Heljargjá sunnan Gjáfjalla. Þaðan var svo ekið að Þröskuldi og frá Lýsingi suð-vestur um Buxnaklaufina að Litlasjó og austasta Hraunvatni. Í þessari ferð var þrisvar ekið innyfir Þröskuld - en aldrei framyfir hann! 

Þetta var frábær könnunarferð um leyndardóma þessa óviðjafnanlega svæðis við vesturjaðar Vatnajökuls, JökulheimasvæðiðNú eiga allir að stilla sér upp fyrir hópmynd sagði Karl Th. Sæmundsson - sá snjalli myndatökumaður og málari og víðförli ferðamaður - og það urðu orð að sönnu - í yndis-veðri með Hamarinn í baksýn. 
Aftari röð: 

Karl Jónsson, Sigurður Flosason, Karl Theodór Sæmundsson, Sverrir Kr. Bjarnason, Pétur Örn Pétursson, Sigurður Magnússon, fyrir framan hann er Katrín Valgerður Karlsdóttir, Aðalbjörg Eir Pétursdóttir, Lilja Hlín Pétursdóttir. 
Fremri röð: 
GÓP, Þórir Pétur Pétursson, Jón Egill Karlsson, Kolbeinn Lárus Sigurðsson, Erla Sigurðardóttir, Þangbrandur Húmi Sigurðsson og Guðbjörg Lára Sigurðardóttir. Fremst stendur tíkin Perla. Myndina sjálftók GÓP. 

 
Bárðarbunga yfir Hágöngulóni - sem svo mjög hefur aukið á fegurð svæðisins og gefið fjöllunum spegil. 


Nyrðri Háganga speglast í Hágöngulóni - en hvað heitir Hágöngu-barnið sem rís framan við hana? 

Hér eru dálítil örnefnafræði: 
Á kortum heita þessi fjöll Hágöngur. Sú syðsta er nefnd Syðri-Háganga (1281 m) og sú nyrsta Nyrðri-Háganga (1267 m) en milli þeirra er ein sem er 1055 m há. Ég spurði marga um nafn á henni og fékk í nóv. 2002 línu frá Jóni Sæmundssyni með nafninu  Miðfell. 
Aðspurður um heimildir segir Jón: 
Ég leitaði til tengdaföður míns, Sveins Tyrfingssonar, bónda í Lækjartúni, Ásahreppi. Hann hefur rekið fé á Holtamannaafrétt í mörg ár og verið þar í leitum á haustin og þekkir þetta svæði því eins og puttana á sér - ef ekki betur. 

Efst á þessa síðu *Forsíða * Ferðatorg * Ferðaskrá * Vaðatal