Forsíða GÓPfrétta


Njála spuni eða sannindi? Hver er höfundur?

Á síðu Sturlu Friðrikssonar

 Staðfræði í Njálu

Í bókinni Brennu-Njáls saga sem Mál og menning gaf út 1991 í bókaflokknum Sígildar sögur, ISBN: 9979-3-0231-3 segir á bls. 252 um ferð Flosa frá Svínafelli vestur sveitir og fjöll til Þríhyrningshálsa. Um miðjan sunnudag heldur hann af stað, fer til Kirkjubæjar.

„ ... Þeir ríða vestur til Skógahverfis og komu í Kirkjubæ. Flosi bað alla menn koma til kirkju og biðjast fyrir. Menn gerðu svo.

Síðan stigu þeir á hesta sína og riðu upp á fjall og svo til Fiskivatna og riðu nokkuru fyrir vestan vötnin og stefndu svo vestur á sandinn. Létu þeir þá Eyjafjallajökul á vinstri hönd sér og svo ofan í Goðaland og svo til Markarfljóts og komu um nónskeið annan dag vikunnar á Þríhyrningshálsa og biðu til miðs aftans."

Skóga-
hverfi
þarf að
skýra
því það
er núna
annars
staðar.
Færst?
Í skýringum á bls. 437 segir:

„Skógahverfi: Síða."

Það merkir að mikil breyting hefur orðið á nafngiptum á síðustu 1000 árum. Ekki er í sögunni sérstök þörf á að segja Skógahverfi eystra til aðgreiningar frá því svæði sem nú ber þetta nafn og er vestan við Sólheimasand undir Austur-Eyjafjöllum. Þar eru örnefni eins og Skógá, Skógaheiði, Skógasandur. Hins vegar eru á korti Landmælinga frá 1973 engin fljótfundin örnefni á Síðu sem tengjast skógi.


Fiskivötn
norðan
Tungnaár
?
Í skýringum á bls. 453 segir:

„Fiskivötn: (eða Veiðivötn) heitir vatnaklasi norðan Tungnaár en hann er heldur langt uppi í landi til þess að Flosi riði þar hjá."

Þessi athugasemd er viðfangsefni þessarar samantektar.

Tungnaá
ekki
til

 

Það er fyrst til þess að taka að Tungnaá varð ekki til fyrr en 400 árum eftir að Njáluhöfundur lauk sögunni - eða öldum eftir að síðasti uppskrifarinn lagði frá sér penna að dável unnu verki. Tungnaá varð til þegar Vatnajökull stækkaði svo til vesturs að hann færðist yfir efsta hluta Breiðbaksins og jökulvatn fór að renna á sumrum eftir lægðinni norðan Breiðbaksins. Þar höfðu áður verið fengsæl fiskivötn - eitt þeirra var Stórisjór.

Fiskivötn
hvar?

Fyrir Veiðivatnagosið sem upp kom um 1477 voru fá vötn - ef til vill aðeins Stórisjór á svæðinu. Í þessu gríðarlega gosi runnu hraun og voru miklar gufusprengingar sem þeyttu gjóskustrokum í vatnsmekki hátt í loft. Gossprungan varð alls nær 70 km á lengd. Þá mótuðust Veiðivötn í núverandi mynd. Þetta var öldum eftir að Njála var rituð.


Hin fornu
Fiskivötn

Tungnaá afmarkar nú Veiðivötn að sunnan en áður fyrr hafa til Fiskivatna talist öll vötnin sem nú er veitt í að Fjallabaki. Þau eru á svæðinu frá þeim slóðum sem Veiðivötn nú eru og allt suður á hálendisbrúnina að Mælifellssandi og að meðtöldu Álftavatni og jafnvel Hólmsárbotnum og Brytalækjum.

Leyndar-
leið

í
Hvanngil?
Goðaland?

Sá sem lagði leið sína norðan Mýrdalsjökuls og ekki vildi fara alfaraleið um Mælifellssand hlaut því að fara aðeins norðar. Hann varð að fara upp á hálendisbrúnina og vera í fjöllunum og fara um sunnan og vestan Fiskivatna.

„ .. svo til Fiskivatna og riðu nokkuru fyrir vestan vötnin og stefndu svo vestur á sandinn. ... "

Þessi lýsing leggur leið þeirra um Álftavatnskrók, vestur fyrir Svartahnúksfjöll, yfir Hólmsárbotna og hjá Strútslaug. Þaðan er farið norðan Strúts og leið um Mælifellssand fylgt aðeins stuttan spöl þangað sem nú heitir Hvanngil og er í krikanum milli Mýrdalsjökuls, sem áður hét Eyjafjallajökull, og Torfajökuls.

Staðfesta
örnefna

 

Þá víkur sögunni að Goðalandi. Hvernig er með örnefni? Er það svo að einhver gefi svæði nafn sem eftir það er öllum ljóst og hnikast ekki? Nei, sú er ekki skoðun þess sem skrifar skýringuna því hann hefur fallist á að Skógahverfi hafi færst um set.

Lítum aðeins á nafnið Þingvallavatn. Búið hafði verið við Þingvallavatn í áratugi áður en bændur þar gáfu af jörðum sínum til þess að þar mætti hafa þingstað. Engin vafi er á því að þetta stóra vatn hafði nafn áður en þing var þar stofnað. Sennilega hefur það heitið Ölfusvatn.


Vatnið -
þú veist -
!?!

Nú vaknar spurningin: Hver er það sem breytir örnefnum? og svarið er: Þeir sem fjarri búa! Það eru þeir sem ekki þekkja örnefnið en þurfa samt að nefna staðinn. Það er góð veiði í vatninu. Þú veist, - vatninu þarna hjá þinginu. Já, við þingvöllinn. Já, ég á við þingvallar - - vatnið, - Þingvallavatnið.
 

 

Reykjar-
dals-
á

Gott dæmi um þetta er í Borgarfirði. Þar hétu dalir tveir Reykjardalur. Annar hét nyrðri en hinn syðri. Sá syðri heitir nú Lundarreykjardalur og hefur dregið nafn af stórbýlinu Lundi sem er við dalsmynnið. Hinn nyrðri hefur hins vegar dregið nafn af örreytiskoti sem ekkert var fyrr en Snorri Sturluson komst yfir það og settist þar að. Það er Reykholt. Samt hefur sá dalur ekki fengið nafnið Reykholtsdalur fyrir tilstilli þeirra sem í þeim dal búa. Það sést á því að enn í dag heitir áin í dalnum Reykjardalsá. Skýringin er sú að þeir sem hafa þurft að nefna dalinn úr fjarska vegna Snorra og hans umsvifa eða minningarinnar um hann hafa enga þörf haft til að nefna ána í dalnum. Þess vegna ber hún enn það nafn sem íbúarnir hafa á henni haft.


Goðaland
Hvanngil
?

Spurningin verður þessi: Hvaða svæði nefndist Goðaland fyrir 1000 árum? Þegar skoðað er að önnur staðfræði Njálu stendur hvarvetna fyrir sínu er full ástæða til að álykta að það Goðaland sem þar er nefnt hafi ekki verið í krikanum norðan Eyjafjallajökuls og vestan Mýrdalsjökuls - þar sem nafnið sést nú á landakortum.

Stað-
kunnugir
höfundar

Niðurstaðan er því sú að höfundur Njálu (ef hann var einn - eða höfundur og uppskrifarar) þekkti vel til leiða norðan þess jökuls sem nú heitir Mýrdalsjökull eða/og hafði um þær áreiðanlegar heimildir.

* *

GÓP - 19. apríl 1998
Efst á þessa síðu * Forsíða GÓPfrétta * Njála spuni eða sannindi? Hver er höfundur? * Á síðu Sturlu Friðrikssonar