*   

Gísli Ólafur Pétursson  * Námskrár-torg  

Þessa síðu hef ég fengið lánaða úr vefsetri námskeiðsins í því skyni að geta haft hana tiltæka og skrifað inn í hana athugasemdir og viðhorf til spurninga sem í henni er að finna. Síðan er samin af Guðrúnu Geirsdóttur - en innsetningar mínar eru merktar stöfunum GÓP hverju sinni.

Forsíða


 

Námskeið fyrir framhaldsskólakennara:

Námskrárfræði og skólanámskrárgerð
(Ágúst 1999-júní 2000)

1. lota: Lykilhugtök í námskrárfræðum - staða námskrár - starfskenning

Markmið lotunnar

Þátttakendur:

 • kunni nokkur skil á stöðu námskrárgerðar í hér á landi og erlendis
 • þekki lög og reglugerðir varðandi námskrár og önnur meginverkefni skóla
 • hafi kynnst stöðu endurskoðunar námskrár á grunn- og framhaldsskólastigi og lagt gagnrýnið mat á hana
 • þekki helstu stefnur í námskrárfræðum
 • hafa hugleitt eigin starfskenningu og tengi hana stefnum í námskrárfræðum
 • þekki helstu skilgreiningar á námskrárhugtakinu og tengi þær eigin starfi
 • geri sér grein fyrir því hvaða aðilar helst hafa áhrif á námskrá og ígrundi álitamál sem því tengjast

Verkefni:

1. Lestur grunnbókar - leiðarbók.

2. Lestur nýrrar aðalnámskrár fyrir framhaldsskóla (0,5e)

3. Starfskenning: Þátttakendur leggja drög að eigin starfskenningu (0,5e)

 
1. Lestur grunnbókar - leiðarbók
Um grunnbókina:

Bókin Curriculum. Alternative Approaches, Ongoing Issues er eftir Colin Marsh prófessor við Curtin University í Vestur-Ástralíu og George Willis prófessor við Rhode Island-háskólann í Bandaríkjunum. Báðir eru þeir þekktir námskrárfræðingar.

Við þessar leiðbeiningar um lestur bókarinnar verður lögð áhersla á:

 • Gagrýna afstöðu til efnisins
 • Tengingu við aðstæður hér á landi, bæði á landsvísu sem og í þeim skólum þar sem þið starfið. Þar má sérstaklega nefna eigin námskeið og námsgreinar
 • Stöðugt endurmat á eigin kennslu og námskrárgerð
 

Námskrárfræði:

Námskrárfræðin fjalla um einhverjar miðlægustu spurningar í kennslu og skólastarfi sem unnt er að afmarka:

 • Hvað á að kenna? Hvers vegna? Hvernig?
 • Hvernig á að standa að ákvörðunum um nám og kennslu?
 • Hvert á að sækja þá þekkingu sem fengist er við í skólum?
 • Hverjir eiga að koma að þeim ákvörðunum?
 • Hvaða námsgreinar og námskeið á að kenna?
 • Hvernig er best að standa að undirbúningi og skipulagningu náms- og kennslu?
 • Hvernig verður ákvörðunum um nám og kennslu hrint í framkvæmd og hvers ber að gæta?
 • Hvernig er unnt að standa að nýmælum í kennslu?
 • Hvernig verða umbætur á kennslu best framkvæmdar?
 • Hvað er efst á baugi á þessu sviði?

Þess er vænst að í lok námskeiðsins hafið þið velt fyrir ykkur margvíslegum svörum við þessum spurningum?

Áríðandi er að efnið sé lesið vandlega og inntak og spurningar ígrundaðar. Þessar leiðbeiningar beinast að því að fá ykkur til að staldra við efnið, hugsa um það, tengja og draga ykkar eigin ályktanir.

 • Lesið fyrsta kafla Curriculum - Alternative Approaches, Ongoing Issues: Curriculum Planning (sjá ljósrit)

Glöggvið ykkur vel á afmörkun efnisins og kröfum til lesandans eins og þessu er lýst á bls. 3-4. Gerið ykkur góða grein fyrir þeirri áherslu sem höfundar leggja á námskrárgerð sem álitamál (bls. 3).

Í kaflanum er gerð grein fyrir ýmsum myndum námskrárhugtaksins. Síðan er fjallað um þrjár þekktar aðferðir við námskrárgerð: Tyler líkanið, málamiðlunarleið Decker Walker (deliberative approach) og hina listrænu nálgun Elliot W. Eisner.

  1.1 INTRODUCTION / INNGANGUR

Lestu þennan undirkafla og svaraðu þessum spurningum:
 • Hver er afstaða höfunda til þess hverjir eigi að koma að námskrárgerð?
GÓP: Ekki er með öllu ljóst hverjir þeir telja að setji saman hin fyrstu drög en væntanlega eiga þeir þar við útvalin hóp atvinnufólks. Hins vegar telja þeir bæði eðlilegt og hið eina raunhæfa að kennarar skoði og endurskoði í sífellu þá námskrá sem þeir vinna eftir og hæfni hennar til að ná fram þeim markmiðum sem sett eru. Ef til vill þykir höfundum hugsanlegt að kennararnir endurskoði líka markmiðin í ljósi nær-samfélags og þróunar þess og í ljósi þeirrar þróunar sem þeir kunni að álíta að sé samfélaginu heppileg og þeir vilja stuðla að?
 • Hver er þín afstaða?
GÓP: Ég tel alla námskrárgerð í lausu lofti sem ekki gerir sér grein fyrir því að það er í kennslustofunni sem kennslan fer fram. Kennarinn er það ör-hjól sem öll byggingin ekur á.
 • Hver telur þú að sé almenn afstaða kennara? En stjórnenda skóla?
GÓP: Í framhaldsskólanum hygg ég að kennarar hafi til skamms tíma haft þessa afstöðu. Þeir framkvæmdu hana með því að endurskoða námskrána stöðugt með tilliti til þess markmiðs að nemandinn yrði - sem stúdent - fær um að standast kröfur háskóla. Þetta var og er líka skoðun stjórnendanna. Hættan er sú að kennurum þyki frá sér tekin raunveruleg völd, þeir séu hafðir í ómerkum stílstörfum sem enginn geri neitt með - og auk þess fái þeir ekki greitt fyrir þessa auknu fyrirhöfn. Þess vegna muni menn telja eðlilegt að í litlu og einsleitu samfélagi sjái
  1.2 DEFINING CURRICULUM

Hér er gerð grein fyrir nokkrum skilgreiningum á námskrárhugtakinu. Gættu að því að nokkur vandi er að þýða Curriculum-hugtakið á íslensku.
 • Hvaða þýðing hugnast þér best?
GÓP: Það er ljóst að höfundarnir hafa það innihald í hugtakinu að það taki til allra þeirra þátta sem nemandinn upplifir í sinni skóladvöl - með þó þeirri undantekningu að ætíð komi upp tilvik sem enginn sá fyrir - eða ekki stóð sérstaklega til að yrðu. Tilvik sem leiða til margvíslegrar menntunar sem hvergi er skráð í markmiðslistum.
 

Skoðaðu þær skilgreiningar sem gefnar eru (bls. 7-8) og hvaða annmarkar á þeim eru taldir. Glöggvaðu þig einnig á hugtakinu the hidden curriculum (dulda námskráin).

Á þessum vefslóðum er að finna ýmsar námskrárskilgreiningar:

Curriculum Defintions Different Types of Curriculum

 

 

Á bls. 9-10 gera höfundar grein fyrir þremur atriðum sem varða meginafstöðu þeirra til námskrárhugtaksins:

 • Námskrárhugtakið er víðfeðmara en hugtökin syllabus (námsáætlun) og course of study (námskeið).
 • Enda þótt námskrárgerð sé að verulegu leyti fólgin í vönduðum undirbúningi er ekki þar með sagt að allar áætlanir gangi eftir.
 • Ekki er heppilegt að aðgreina námskrá og kennslu - í framkvæmd er þetta tvennt samofið.

Í niðurlagi þessa hluta setja höfundar fram eigin skilgreiningu á námskrá ...

... an interrelated set of plans and experiences that a student undertakes under the guidance of the school. (Bls. 10).

 

 • Hvaða annmarkar eru á þessari skilgreiningu?
GÓP: Ef til vill er erfitt að tala um annmarka á skilgreiningu á hugtaki sem alls ekki verður til hlítar lýst með hlutlægum hætti frekar en málverki eftir Ólaf Túbals. Þessi skilgreining virðist gera ráð fyrir að einhverjir hafi sett náminu markmið og að skólinn sé fær um leiðsögnina.
 

1.3 THREE ALTERNATIVE APPROCHES TO CURRICULUM PLANNING

Í þessum undirkafla er gerð grein fyrir þremur námskrárnálgunum (Approaches to Curriculum):

 • Markmiðslíkan Tyler (Rational-Linear Approach)
 • Málamiðlunarlíkan Walker (Deliberative Approach)
 • Hin listræna nálgun Eisner (Artistic Approch)

Gerðu þér glögga grein fyrir þessum þremur aðferðum og tengdu þær við það þekkingu þína á námskrárgerð.

Markmiðslíkan Tyler (Rational-Linear Approach)

Tyler lýsti líkani sínu fyrst í bókinni Basic Principles of Curriculum and Instruction. Bls. 12-19 í grunnbókinni eru í raun útdráttur úr þeirri bók.

Þess er vænst að þú kunnir góð skil á líkani Tyler, megineinkennum þess og að þú þekkir þá gagnrýni sem að þessuari aðferð hefur beinst.

 

 • Hvert telur Tyler að sækja eigi þá þekkingu sem fengist er við í skólum?
GÓP: Til samfélagsin, fræðigreina og þeirra sem eiga að nema í skólunum.
 • Hvernig vill Tyler standa að því að velja þau markmið sem sett eru á oddinn í skólastarfi? Hvaða leiðir vill hann fara?
GÓP: Tyler telur valinkunnum einstaklingum unnt að skoða gilda þætti samfélagsins og gera þá veigamestu að viðmiðun markmiða. Hann telur fulltrúa fræðisviða ákjósanlega til að rökstyðja hvað af þeirra sviðum eigi erindi til náms í skólum. Þeir sem smíða námskrána velja síðan og hafna og síðan sé heppilegt að prófa nemendurna til að sjá hversu undirbúningi þeirra er háttað og hvar henti þeim að hefjast handa við námið.
 • Hver er skoðun þín á þessari aðferð - þýðingu hennar - og annmörkum?
GÓP: Ég sé ekki aðra betri aðferð en hins vegar er ljóst að þein einstaklingum er mikill vandi á höndum. Hvernig tekst þeim að samræma ólík sjónarmið sín og hvaða sjónarmið eiga upp á pallborð hjá þeim af þeim mikla fjölda sjónarmiða sem ekki eru þeim handgengin.
  Yfirlitið á Mynd 3.1 gefur skýra mynd af áhrifum Tyler á námskrárgerð. Skoðaðu það vel.

Málamiðlunarlíkan Walker (Deliberative Approach)

Decker Walker byggir nálgun sína á því hvernig staðið er að námskrárgerð í raun. Glöggvaðu þig á meginniðurstöðum hans.
 • Hverjir sýnast þér helstu kostir og gallar þessarar nálgunar?
GÓP: Ég sé enga galla á því sem mér sýnist Walker vera að gera. Mér sýnist hann ekki vera að skipta sér af því hvernig námskráin verður - einungis hefur hann áhuga á því hvernig hún verður til. Ígrundun á niðurstöðum Walkers er áreiðanlega til aðstoðar fyrir starfshópinn sem er í því verkefni að smíða námskrá því þar með gerir hann sér grein fyrir að augljóslega fyrirsjáanlegir samstarfserfiðleikar hans eru afar eðlilegir. Þar með fengju þeir meira sjálfstraust til að takast á við ferlið.
  Hin listræna nálgun Eisner (Artistic Approch)

Afstaða Elliot Eisner til námskrárfræða byggir að hluta til á gagnrýni hans á hina röklegu nálgun Tyler.
 • Hver eru megineinkenni hinnar listrænu nálgunar?
GÓP: Elliot W. Eisner þykir Tyler's uppsetning einskorðuð við vel orðanleg markmið og háskólanám og telur að í sjálfri skólastofunni fari fram merkasti hluti skólastarfsins. Þar komi upp ólíkur skilningur nemendanna á því sem fram fer og ef ekki komi til snilli - nánar tiltekið: list - kennarans ráði hending því sem eftir situr. Hann tekur sérstaklega á gildi fjölbreyttrar tjáningar og ólíkum tjáningaraðferðum við að gera grein fyrir sama fyrirbæri. Hann gerir líka vel skilgreinda athugasemd við þá viðteknu venju að prófa eftir að námi er lokið og rökstyður að mat sé margslungið ferli og verði að list sem lærist. Hann er dálítið upptekinn af því að koma lista-einkunn á athugasemdir sínar en verður þó ekki með rökum sakaður um að fara þar offari.
 • Hvaða möguleika sérðu á að nota þessa leið í eigin starfi?
GÓP: Eisner er sá eini hinna þriggja sem tekur á því ferli sem fram fer í skólastofunni. Hann gerir það sýnilega af þekkingu og ég sé varla að nokkur kennari komist í gegnum starfsdaginn sinn án þess að beita þeim fjölbrögðum sem Eisner nefnir.
Einnig tel ég að notkun annarra tjáningarforma heldur en hlutbundinnar vísindaræðu opni möguleikann á afar áhrifaríkum tengslum milli kennara og nemanda sem kennari getur stýrt þannig að nemandinn fái upplifanir sem hann telur að kennarinn geri sér ekki grein fyrir. Þannig verði þær að hans einkareynslu og nýtist honum til sjálfstæðrar vegferðar.
Enginn vafi er á því að mat er lífsins list og nemendum er það afar mikilvægt að þjálfa matsnilld sína.
  1.4 IS ONE APPROACH PREFERABLE?

Hér eru aðferðirnar þrjár ræddar og bornar skipulega saman (sjá verkefni 2).
 • Taktu afstöðu til þessarar umræðu?
GÓP: Mér finnst þessi þrjú sjónarhorn á námsskrárgerð aðeins skarast að hluta. Tyler hlutgerir svo sem hann með góðu móti getur og skilgreinir og raðar alveg niður á pappírinn í námskránni. Hann þykist ekki gera ráð fyrir að allt komist til skila við kennsluna - en mest þó. Walker skoðar hvernig námskrárgerðahópar starfa. Eisner hins vegar segir mikilvæg atriði hripa niður gegnum það orðfæri sem Tyler notar til að skilgreina markmiðin. Fjölmargt stórlega veigamikið fari þar forgörðum og ekki síst skoði menn ekki nógsamlega iðu þess augnabliks þegar kennslan fari fram.
Hver þessara leiða sýnist þér að gæti dugað best til að semja námskrá:
 • a) fyrir landið í heild,
GÓP: Tyler's forskrift gengi ágætlega fyrir landið í heild. Bæði hefur hann hefðina og sæg af röksemdaflóði sem námskrárgerðarhópurinn gæti skýlt sér bak við. Þess utan er samfélagið á Íslandi afar einsleitt sem auðveldar þessa aðferð. Hins vegar mundi auðvitað þurfa dálitla hópeflisþjálfun í upphafi starfsins - sem miðlaði reynslu Walkers og ennfremur mundi vera hollt að nota áminningar Eisners til að halda inni þáttum sem ekki er eins þægilegt að skilgreina til hlítar, flétta inn notkun fjölbreyttra tjáningaforma og leggja áherslu á matskennslu.
 • b) skólanámskrá,
GÓP: Það er dálítið eftir því hversu ítarlega menn vilja hafa skólanámskrá. Ef hún á að taka til smáatriða verður hún þvingandi því menn nenna ekki að leggja í þá vinnu að vera að breyta henni í raun fyrir engin laun. Ítarlega skólanámskrá er afar samfélagsvænt að semja í anda Eisners ef þess er jafnframt vel gætt að hvergi sé lagður steinn í götu hraðaksturs framhaldsskólanemandans að stúdentsprófi.
Walker er sjálfsagt hópeflis-innlegg í starfshópinn á fyrstu stigum verksins.
 • c) námsbrautarlýsingu
GÓP: Ef við gefum okkur að námsbrautin hafi þegar fengið markmið sín skilgreind og tilteknar þær einingar sem til samans þekja það nám sem krafist er þá er það ásamt niðurröðun og lýsingum á námsbrautinni í beinu samræmi við Tyler.
Þó er ekki að sjá annað en einnig mætti nota hugmyndir Eisners hvar sem þær falla að og jafnvel þótt framgangsmáti Tyler's væri notaður.
 • d) námskeiðsáætlun?
GÓP: Allar þessar námskrár sem í þessari spurningu er fjallað um er einfaldast að að semja eftir leiðbeiningum Tyler's. Hins vegar er spennandi að flétta eins mikinn Eisner og unnt er inn í textann. Ef fleiri en einn eru að þessu starfi er Walker nauðsynlegt fyrsta innlegg.
 

1.5 WHAT COMES NEXT

Gerð er grein fyrir því hvaða efni er tekið næst á dagskrá: Að skoða rætur þeirra hugmynda sem liggja til grundvallar námskrárgerð. Jafnframt er gerð grein fyrir heildaruppbyggingu bókarinnar og útskýrt hvernig hún er hugsuð. Í niðurlagi eru spurningar og atriði til ígrundunar, auk ábendinga um ítarefni.

 • Lesið úr öðrum kafla Curriculum - Alternative Approaches, Ongoing Issues (ljósrit)

2.1. INTRODUCTION / INNGANGUR

Hér er lögð áhersla á að hugmyndir um hvað sé mikilvægt að kenna í skólum séu stöðugt að þróast og mótast. Á hinn bóginn breytist margt hægt í skólum. Þar ráði hefðir oft miklu.

 • Hver er að þínum dómi meginskýringin á hægum breytingum á námi og kennslu í skólum?
GÓP: Hvers vegna er mikilvægt að sem flestir lesi Njálu? Það er til þess að sem flestir hafi einhvern tengipunkt í samræðu, hugsun, tilfinningu og lífi. Eitt samfélag þarf að hafa tengitorg þar sem nærstaddir einstaklingar geta hist í orðum, samúð og samkennd. Það er eðli slíks tengitorgs að það verður að breytast hægt því annars hættir elsta kynslóðin að ná sambandi við hina yngstu. Þessi þörf þjóðfélaga fyrir hæga breytingu er ein meginskýring á því að breytingar á námi - breytingar á því sem kennt er - breytingar á námsefninu verða hægfara. Rökstyðja má að það sé eitt af hlutverkum skóla að hlú að sem stærstu tengitorgi innan samfélagsins.
Sennilega má rekja helstu skýringu á því hversu hægt breytast kennsla, kennsluaðferðir og viðhorf þeirra sem kenna, til þess að við dveljum öll á þessu tengitorgi og annars vegar sjáum þess enga þörf að fara útaf því og hins vegar sjáum ekki að við höfum neinn ágóða af því.
Ytri skilyrði geta komið til svo að hriktir í - til dæmis ef bensínið gengur til þurrðar eða ef við yrðum að yfirgefa Ísland og setja okkur niður sem íslenskir innflytjendur í öðruvísi samfélag og málumhverfi.

 

 
 • Hvað hefur helst breyst hvað varðar námsefni í skólum hér á landi undanfarin 50 ár?
GÓP: Í stærðfræðikennslu í framhaldsskólum hefur breytingin einkum stafað af tilkomu handhægra reiknivéla sem tóku af mönnum nauðsynina á að læra tiltekna handavinnu. Það var ekki hægt annað en breyta sökum þess að tæknin hló framan í kennarana og vegna þess að með því að sleppa þeim hluta námsins mátti taka aðra fastari tökum. Þetta varð faglegur ágóði.
Undanfarna hálfa öld hefur aksturnám á bifreiðar breyst úr því að vera fyrir útvalda og djarfa til þess að vera fyrir alla. Bifreiðin kom. Menn hafa séð hana. Menn vilja aka henni. Hið sama hefur gerst með tölvuna. Hún hefur komið til sögunnar eins og náttúruhamfarir og þjóðfélagið er ekki samt á eftir. Segja má að hún hafi komið til sögunnar árið 1983 með IBM-PC og aðeins fáum árum síðar varð hún skyldunámsefni í framhaldsskólum. Hún er gott dæmi um áhrifamikla breytingu á umhverfi sem knýr á um breytingu á tengitorgi samfélagsins. Togstreitan sem ætíð fylgir breytingu á tengitorginu kemur vel í ljós hvenær sem menn hittast og öndverðir hugir hverfast um tölvuna. Samsvarandi teygingar um bílinn eru svo gott sem úr sögunni á þessu síðasta ári tuttugustu aldar.
Breytingar á kennslu tungumála snerta ekki tengitorg samfélagsins nema með jákvæðum hætti. Þær stafa af rannsóknum sem fundið hafa betri kennsluaðferðir og allir þátttakendur í samfélaginu gleðjast við bætt tungumálanám. Svipað má segja um aðrar greinar. Framþróun í þeim hefur orðið með nýrri þekkingu og með nýjum kennurum. Þær hafa átt hefðbundinn sess í tengitorgi þjóðarinnar og í fermingarveislum hafa hinir eldri ánægju af námslegum hraðferðum yngri kynslóða.
Sennilega er félagsfræðin sú námsgreinin sem getur fetað hinar ystu nafir á tengitorginu því hennar viðfangsefni er einmitt það samfélag sem hangir saman á því torgi. Félagsfræðin var ekki til sem sérstök námsgrein fyrir 50 árum. Það væri því fróðlegt að skoða tilurð hennar, viðfangsefni og þróun sérstaklega. Hún er sem sagt nýtt námsefni sem hefur haslað sér öruggan völl.

 

 

2.2 THREE FOCAL POINTS FOR CURRICULUM DECISIONS / ÞRJÚ MEGINSJÓNARMIÐ UM VAL Á NÁMSEFNI

Hér er því haldið fram að unnt sé að taka ákvarðanir um námsefni með hliðsjón af þremur meginsjónarmiðum:

 1. Eðli námsefnisins.
Í stuttlegri þýðingu GÓP: Er fræðigreinin (námsefni fræðigreinarinnar) kennd svo ítarlega að það geri nemandanum ljós mikilvæg atriði umhverfisins? Er fræðigreinin kynnt með þeim hætti að sérkenni hennar og styrkleiki verði nemandanum nægilega ljós?
Upp koma spurningarnar: hvað skal velja? hvað skal geyma? hvernig rökstyðjum við það val? Hvaða efni fræðigreinarinnar tengist raunveruleika nemandans með ótvíræðum hætti? Hvaða hluti fræðigreinarinnar á víðasta svörun í umhverfi og lífi nemandans? Hver er hin fræðilega framvinda greinarinnar?
 1. Eðli samfélagsins.
Í stuttlegri þýðingu GÓP: Endurspeglar námsskráin nægilega mikla breidd menningar, stefnumála og viðskiptahagsmuna í samfélaginu til þess að nemandinn geti að lokum bæði fallið að samfélaginu og stutt að hagkvæmri = samfélagsvænni þróun þess.
Hvernig nýtist námsefnið nemandanum? Gefur það honum nytsama og um leið hagnýta þekkingu á veröldinni þar sem hann býr? Til þess verður að meta námsskrána út frá umhverfi nemandans - gerir hún hann hæfari til að komast þar af? Eru einhverjar sérstakar þarfir í þessu nærfélagi sem eru frábrugðnar þörfum í öðru samfélagi? Hvaða þjóðfélagslegt breytiafl býr í námskránni? Að hve miklu leyti gefur breytirými námsskráinnar kost á afvegum og óæskilegri þróun einstaklinga?
 1. Eðli einstaklingsins.
Í stuttlegri þýðingu GÓP: Býr námsskráin yfir nægilegu rými fyrir áhuga og þroskaþarfir einstaklingsins svo að hver og einn þeirra geti notið sín til hins ítrasta?
Allir eru líkir og allir eru ólíkir. Ekki hæfir öllum hið sama. Sama námsefni hlýtur ólíka móttöku hjá ólíkum einstaklingum og kveikir hvern um sig til ólíkra hugrenningatengsla og þróunar og uppfinninga. Ólíkur áhugi og ólíkar þarfir kveikja ólík viðbrögð og ólíka úrvinnslu.

 

 

Gerðu þér glögga grein fyrir þessum þremur sjónarmiðum. Litið er svo á að þessi þrjú sjónarmið togist stöðugt á í umræðu um hvað kenna skuli. Hverju þessara þriggja meginsjónarmiða tengjast ótal álitamál. Nokkur þeirra eru reifuð í undirköflunum The Nature of the Subject Matter, The Nature of the Society og The Nature of the Individual bls. 40-44. Skráðu hjá þér, um leið og þú lest, þær spurningar sem vakna. Glímdu einnig við þessar:

 • Hvað finnst þér um þau sjónarmið sem þarna eru reifuð?
GÓP: Þetta eru þau sjónarmið sem máli skipta. Í fljótu bragði finn ég ekki í huga mér neitt námskrár-nauðsynlegt sjónarmið sem hér á ekki sinn fulltrúa.
 • Hver þeirra vega þyngst að þínum dómi? Er munur á svari þínu við þessari spurningu eftir skólastigum?
GÓP: Í starfi þeirra framhaldsskóla sem stefnt hafa nemendum sínum til stúdentsprófs er ljóst að eðli námsefnisins hefur haft forgang og eðli samfélagsins einungis náð inn þar sem það hefur komið sem breyting á kröfum háskólans.
 • Hvernig endurspeglast þessi sjónarmið í nýrri aðalnámskrá?
GÓP: Settir eru rammar utan um hinn fræðilega þátt. Ekki verður í fljótu bragði séð að það beri með sér að minni tími eigi að fara til að vinna með hann heldur en hingað til. Hins vegar er nú skýrt kveðið á um fjölmarga huglæga þætti sem tengjast eðli samfélagsins og mjög verulega eðli einstaklingsins. Þannig er beinlínis kveðið á um að unnið skuli gegn brottfalli nemenda úr skóla. Það merkir að þeir skuli vera þar án þess að þeir taki upp á því að skipta um skoðun og ástundun og námsgetu og fara að taka glæsipróf upp í háskóla. Það merkir að skólarnir verða að laga sig að áhuga og þörfum og þroskamöguleikum hins einstaka nemanda.
 • Hvernig endurspeglast þessi sjónarmið í þeim námsgreinum / námskeiðum sem þú kennir?
GÓP: Námskröfurnar eru forskrifaðar af þörfum samfélagsins. Í yfirgnæfandi ysi kennslustundarinnar reyni ég að styðja nemandann til sjálfshálpar og nýta innbyggða löngun hans til að verða leikinn í list sinni. Ég kenni fólki að hagnýta sér tölvur til ritvinnslu, töflureiknings og net-notkunar.
 • Eru fleiri meginsjónarmið en þarna eru nefnd?
GÓP: Sjálfsagt - en í augnablikinu hoppa þau ekki í augu mér. Kannski er orðið of áliði því klukkan er að verða 02.

 

 
Benda má á íslenska bók um álitamál í kennslu með hliðsjón af námsgreinum:
Erla Kristjánsdóttir (ritstjóri). 1989. Álitamál í kennslu: frá sjónarhorni fjögurra námsgreina. Reykjavík: Iðunn.

Í þessari bók fjalla Erla Kristjánsdóttir, Baldur Hafstað, Stefán Bergmann og Sigurður Pálsson um álitamál í kennslu með hliðjón af samfélagsfræði, móðurmálskennslu, náttúrufræði og kristnum fræðum.

 

  2. Lestur nýrrar aðalnámskrár fyrir framhaldsskóla
Kynntu þér almennan hluta nýrrar aðalnámskrár fyrir framhaldsskóla. Námskrána er að finna á vef menntamálaráðuneytisins á þessari slóð. Svaraðu eftirfarandi spurningum:
 
 • Hvaða meginhugmyndir birtast í námskránni?
GÓP: Nýja námsskráin er verulega frábrugðin þeirri sem sett var 1990. Sú námskrá var einungis upptalning á náms-verkefnum sem ljúka skyldi á tilteknum tíma til að ná skilgreindum prófum. Eðli einstaklingsins - í skilningi Mrsh og Wills - var einungis sinnt að því marki að gera honum grein fyrir hvernig hann ætti og mætti haga sér til að falla inn í þann náms- og starfsramma sem skólarnir höfðu upp settan. Vissulega var lítil setning í samtals sex línu kafla um Markmið náms í framhaldsskólum. Þar sagði að veita beri hverjum og einum menntun sem nýtist í daglegu lífi og tómstundum. Ég lýsi eftir annarri setningu í þeirri stóru bók sem taki þann þráð frekar upp.
Nýja námsskráin er upp sett með gjörbreyttum hætti hvað þetta varðar. Svo virðist sem ætlunin sé að gefa miklu meiri gaum að breytileika samfélagsins og eðlis einstaklingsins. Þrátt fyrir það er þó ætlunin að halda fræða-námi nokkuð í horfinu og með takmarkaðra framboði að örva nemendur til að sökkva sér dýpra í viðfangsefni.
 
 • Hvaða breytingar á skólastarfi sýnast þér einkum boðaðar með þessari námskrá?
GÓP: Ljóst er að þess er krafist af kennurum að þeir leggi vinnu í að gera sérstaka smáatriða-námskrá um starf sitt og taka í sífellu upp endurskoðanir með hliðsjón af breytingum í þjóðfélaginu og með hliðsjón af náms- og félagsframvindu nemenda innan og utan skóla - og eftir að þeir hafa lokið skólanámi. Forvitnilegt væri að sjá tilraunir manna til að meta umfang þessa starfs kennaranna ef vel á að vera. Auk þess væri frólegt að fá mat á umfangi þeirrar vinnu sem venjulegur kennari þarf að leggja á sig til að breyta námsefni og kennsluháttum í sífellu eftir því sem menn ákveða hverju sinni að haga þessari heimagerðu námskrá, skólanámskránni.
 
 • Hvaða námskrárgerðarlíkön sýnast þér helst hafa verið stuðst við?
GÓP: Í stystu máli sýnist mér sem námskráin frá 1990 hafi verið í fullkomnu Tyler's-formi en nú sé ætlunin að leysa hugmyndir Eisner's úr læðingi.
 • Að hvaða marki sýnast þér rök sótt með tilvísun til

* fræðigreina?

* samfélags?

* þarfa nemenda?

GÓP: Ég sé í sjálfu sér engin rök sett fram í námskránni. Frekar er þar mál sett fram með þeim hætti sem einkennir allar valdastofnanir. Svona er þetta og þannig skal það vera. Hér eru göt sem fylla skal í Skólanámskrá. Það skal gert eftir þessum línum.
Hægt er hins vegar að gera sér í hugarlund að þeir sem þennan texta sömdu hafi haft tiltekin atriði í huga og þá þau sem nefnd hafa verið hér næst fyrir framan. Þeir hafa ákveðið að kominn væri tími til að losa um Tyler's tak og gera þjóðfélagslega tilraun með Eisner's ívaf. Venjulegur tölvueigandi berst ekki við Microsoft og venjulegur kennari berst ekki við slíkar ákvarðanir. Spurningin er auðvitað þessi: að hve miklu leyti rennur hin nýja skipan kennaranum svo í merg og bein að hann skili ætlun menntastefnunnar til nemandans í kennslustofunni?

Úrlausn er skilað skriflega að lokinni umræðu 16.-17. september. Þátttakendur þurfa að vera undir það búnir að ræða þessar spurningar á málstofu.

 

  3. Starfskenning: Þátttakendur leggja drög að eigin starfskenningu
Markmið verkefnisins er að fá þátttakendur til að velta fyrir sér eigin starfskenningu og skrá niður vangaveltur sínar.

Þetta má gera á ýmsan máta og þegar um svo persónulegt verkefni er að ræða er eðlilegt að þátttakendur velji sér sínar eigin leiðir. Styðjist við lesefni frá Ragnhildi Bjarnadóttur.

Hugleiðingin getur verið þetta frá 2-5 bls. og mun aðeins verða lesin af kennurum námskeiðs.

Ígrundið og yfirvegið m.a.:

 • Hver eru viðhorf mín til nemenda?
 • Hvert er hlutverk skóla?
 • Hvert er hlutverk mitt sem kennara?
 • Hvernig myndu samstarfsmenn mínir lýsa mér?
 • Hverjar eru mínar sterku hliðar í starfi?
 • Hverjar eru veiku hliðarnar?
 • Hvers vegna velst ég til forystu í mínum skóla?
 • Hvað hefur einkum haft áhrif á hugmyndir mínar um skólastarf?

Námsmat á verkefni sem þessu er vissulega snúið en ræðst einkum af hæfni þátttakenda til yfirvegunar.

 

Efst á þessa síðu * Forsíða