GÓP-fréttir

Námskrár-torg *

Hugvekja
um nýjungar og námskrá

Brýnum hugann: Hér eru tvær hugmyndir til að beina athyglinni að viðfangsefninu:

Gerum greinarmun á þremur námskrárbreytinga-sviðum í skólum:

 • (1) þar sem stefna skólans er hönnuð. Hvar er stefna skólans gagnrýnd? Hverjir taka þá gagnrýni til sín? Hverjir leita endurbóta? Hverjir vinna endurbótaverkið? Hvernig er staðið að kynningu breytingarinnar? Hvernig er hin nýja stefna birt?
 • (2) Þar sem hönnuð er ný eða breytt námsgrein. Hverjir gagnrýna vöntun á námsgrein? Hverjir gagnrýna stöðnun í námsgrein? Hverjir endurbæta námsefni í námsgrein sem kennd er við skólann? Hverjir boða nýja námsgrein sem ekki hefur verið kennd við skólann? Hverjir kynna nýjungina? Hverjum kynna þeir hana? Hvernig er hún birt?
 • (3) Þar sem hönnuð er kennsla í kennslustundum. Hver gagnrýnir kennslu sem fram fer í kennslustofu? Hver tekur þá gagnrýni til sín? Hver leitar endurbóta? Hver finnur fram nýja aðferð til framsetningar? Hver framkvæmir breytinguna?

Hver er bakgrunnur, forgangsröðun og sérþekking þeirra sem í mestum mæli koma að hönnun námskrárbreytinga? - Hugsum okkur eftirtalda aðila: kennarar, stjórnendur skóla, foreldrar, nemendur, útaðilar sem fengnir eru til liðsinnis.

Hugleikur: Þér hefur verið falið að stjórna aðgerð innan skóla til að betrumbæta umgengni. Ákveðið hefur verið að leggja til þess tvær kennslustundir samtímis í öllum deildum skólans - þegar búið er að undirbúa það efni sem nota skal og leggja línur um notkunina. Vandamálið er fólgið í þessu: Í skólanum er sú regla að nemendur eiga að fara úr útiskóm í andyri og nota inniskó eða vera á sokkaleistum - en um það bil 30% nemenda hlítir þessu ekki.

 • Hverja hyggstu ráðgast við til að leggja línur um tilhögun og innihald nýjungarinnar?
 • Hvernig hyggstu svara spurningunni: Af hverju velurðu þessa leið? Hvernig verður það best útskýrt?
 • Hvaða gagna þarf að afla og hvaða útaðila þarf að fá til liðsinnis?
 • Þekkirðu alla kennarana? Ertu viss um að hver þeirra um sig muni vera fær um að leggja námsefnið upp eins og til er ætlast svo að það geti náð tilgangi sínum?
 • Hvernig hyggstu mæla hvort markmið nýjungarinnar hefur náðst?
 • Hvaða andstöðu sérðu þegar að áætlunin muni mæta og hvaða deilur heldurðu að muni rísa?
Rifjaðu upp: Rifjaðu upp námskrárbreytingu sem þú síðast tókst þátt í:
 • Tókst breytingin vel?
 • Hvernig hefði átt að meta árangurinn? Framför nemenda? Gæði námsefnisins? Fjölgun sjónarhorna? Ánægja kennaranna? Annað?
 • Hvernig var árangurinn metinn? Hver mat?
 • Hvað telurðu að hefði átt að gera öðruvísi - og hvers vegna?
Forgangur? Námskráratriði í forgangi:
 • Nefndu nokkur námskrár-atriði sem þú telur að skólinn þinn hafi í hávegum.
 • Hvernig gætirðu reynt að ganga úr skugga um hvort þessi tilgáta þín sé á rökumreist? Ræða við einhverja? Afla annarra upplýsinga?
 • Hvaða námskrár-atriði mundir þú setja í efstu sæti á þínum eigin forgangslista? Hvaða rök leiddu þig til þessarar niðurstöðu? hvernig mundirðu réttlæta þinn forgangs-lista fyrir öðrum?

Efst á þessa síðu