GÓP-fréttir
Höfundar


Jakob Hálfdanarson

Jakob skrifaði margt fleira heldur en það sem enn hefur birst á prenti og þar á meðal er þessi fyrirlestur. Hann er skrifaður í Ættartölubók Jakobs Hálfdanarsonar, Húsavík, hverrar skrift er upp hafin árið 1898.

Þetta er uppskrift og setningaskipan Jakobs sjálfs en greinarmerkja- og stafsetning hefur á einstaka stað verið færð að því sem tíðkast nú um stundir. Atriðisorð í vinstri dálki eru frá GÓP.

> Húsavík - Fyrrum - nú - framvegis
6.1.1895 Fyrirlestur fluttur á skemmtisamkomu Fundafélags Húsavíkur 6. janúar ár 1895 af Jakobi Hálfdanarsyni.
Horft

heiman
Ég hefi eigi haft tækifæri til að skoða mig um á fjarlægum, nafnfrægum stöðum svo að ég geti lesið fyrir fólkinu skemmtandi eða fræðandi lýsingar af þeim. Mér verður því fyrir, úr því ég vildi "leggja orð í belg", að berast fyrir sem næst mér og tala þá aðeins um okkar eigin bústað.
Húsavík
er
ófræg
Eigi vill þá heldur svo vel til að nafnið Húsavík sé víðfrægt eða góðfrægt enda er þá líklega enginn montinn af því. Nei, því fylgir víst engin paradísarhljómur í eyrum landa vorra, hvorki fjær né nær. Hið gagnstæða hefur miklu frekar fyrri og seinna borið fyrir mig, - að nöfnin: Húsavíkurbakki - Húsvíkingar - Bakkabúar - standi heldur neðarlega á blaði í almenningsálitinu.
Gott
nafn

er eitt
af
lífsins
æðstu
gæðum

Skylt
er að
frægja
garðinn!

Ég get meira að segja ekki varið mig þeirri hugsun að föðurlands - ástardjúpið, er margir þykjast sveima í, sé ekki víðtækara hjá sumum en svo að það grynni töluvert á þeim þegar hingað kemur.

- Margur mun nú hugsa sem svo að okkur varði lítið um þetta, - okkur, sem hér búum muni líða jafnt fyrir því, hvort byggð okkar er í áliti eða ekki. En um það má segja - í hið minnsta: "að það sé ekki ofgjört" og ég segi þó, að það sé einmitt ofgjört, því að gott nafn, eins og það orðtak merkir á vora tungu, er í sannleika eitt af lífsins æðstu gæðum, svo framarlega að maður hafi fasta trú á því að hið sanna, góða hafi að jafnaði yfirhönd í að njóta viðurkenningar. Í þessu gildir hið sama um einstaklingana, bæina, byggðarlög og lönd. Nú er það að mestu undir mönnunum sjálfum komið hvað nafnið fæst gott, hve vel það hljómar, samanber sannmælið: "búandinn gjörir garðinn frægan".

Það er því enginn efi á að það er skylda, óaðgreinanleg frá öðrum skyldum við sjálfan sig og náungann, að leggja stund á að gjöra bústað sinn frægan.

Ærið
verk
er
fyrir
höndum
Vér erum nú, eins og ég áður vék á, eigi svo heppnir að hafa góða nafnið - og höfum því í umræddu efni mikið verkefni fyrir hendi, meira en því verði kastað upp eða af á lítilli stundu, en mitt álit er að þetta sé ekki einungis fyrir okkur Húsvíkinga áríðandi heldur einnig fyrir þá héraðsbúa sem hingað verða að hverfa, svo sem að því aðalporti héraðsins sem veit að þjóðbraut heimsins. Ég vil nefnilega kalla hafnstað hvers héraðs port þess. Það er inngangur erlendra gesta í héraðið og oft innlendra líka og ættu því héraðsbúar yfir höfuð eigi að láta sig engu skipta hvernig þrifað er til fyrir þessum dyrum þeirra. Ég get eigi dulist þess að mér hefur komið til hugar, þegar ég hef heyrt leiðandi menn héraðsins spotta Húsvíkinga - mér hefur þá, segi ég, komið til hugar hið alkunna einkenni óþverra fugla. -

Án lengri inngangs skal ég nú hverfa að því að tína upp eitt og annað sem eftir minni þekkingu hefur verið og verður fest við nafnið Húsavík.

Garðar
kaus
Húsavík
Það var endur fyrir löngu að frjálsræðishetjurnar góðu komu austan um hyldýpis haf - hingað í sælunnar reit. Fyrir þessum er oss sagt að hafi runnið einn forfeðra vorra, sjóhetja Garðar Svavarsson. Hann - máske fyrstur manna - sigldi hér með ströndum þessa áður ókunna lands, og fyrstur manna mun hann hafa vitað að þetta var eyja, og loksins bar hann, sem aðrir, öndvegissúlur fyrstur allra eftirfarandi landnema, hérna upp á land. Honum hefur gefið á að líta framan af flóanum, litist vel á að taka land í þessum fríða hvammi undir kollótta fjallinu. Síðan eru, að sögn fróðra manna, nálægt 10 hundruð og þrjátíu ár að Garðar sté hér fyrstur manna á land. Vér vitum eigi betur en að hér - ef til vill á þeim bletti sem við stöndum nú á, hafi hinn fyrsti maður litast um á Íslandi. Að einmitt þetta hverfi sé sá fyrsti sælunnar reitur á vorri ástkæru fósturmold, er veitt hafi mannlegu auga unað.
Útsýni
Garðars
Það er eigi vandi - fyrir okkur - að hafa hugmynd um hvílíkur sjóndeildarhringur það hefur verið sem blasti umhverfis við Garðari fyrstu blíðviðris-stundina sem hann stóð hérna og litaðist um. Vér sjáum svo glöggt þessar skrúðgrænu - máske bleikflekkóttar fjallshlíðar hérna efra, bakvið og í gegnum limið á hinum stærri trjám nær og niðri á láglendinu. Það er líka sem vér sjáum runnana, sem bera við morgunroða-loftið suðaustur á hæðunum og á Höfðanum við kvöldroða skýin um sólsetrið. Hver sem hefur litið hérna upp í hlíðarnar á kyrru og heiðskíru haustkvöldi um sólsetursbil mun geta nærri hvernig þetta hefur litið út fyrsta blíðviðris-haustkvöldið sem hann Garðar Svavarsson litaðist um, renndi hér augum yfir lög og láð.
Húsavík
elsta
íslenska
örnefnið
Og hér byggði Garðar hús og bjó einn vetur, - fyrsta hús á Íslandi - fyrsti bóndi á Íslandi þótt skammbýlt yrði, því hann fór heim næsta sumar en nefndi staðinn Húsavík. Það er þá elsta örnefnið á Íslandi, eldra en nafnið á landinu sjálfu.

Það liggur nú við sjálft að ég geti spjallað - að minnsta kosti í sjálfan mig - dálítinn snert af aldurshroka yfir staðnum og nafninu Húsavík, og viss þykist ég vera um það að ef þessum fyrstu atburðum og atkvæðum í sögu landsins hefði verið haldið fram á vora daga í öðru eins skáldaskrúði eins og öðrum seinni atburðum sögunnar, þá hefði nafnið Húsavík látið vel í eyrum allra föðurlands- og söguvina.

En því ver hefur eigi Húsavík því láni að fagna því að frá þessum atburðum er mjög stutt og óljóst skýrt í sögunni. Garðar mun og aldrei framar hafa til Íslands komið sjálfur heldur niðjar hans. Svo segja fróðir menn að Austfirðingar og Skaftfellingar eigi mjög kyn sitt að rekja til hans. Þeir virðast því eigi hafa hirt um að draga sig að þessum frumstöðvum forföður síns. Og Húsavíkur er ekki framar getið, svo ég viti til, alla söguöldina út í gegn, svo að frá þeim tímum höfum vér eigi aðrar menjar en það sem blasir við augunum.

Bú-
menjar
Já, fyrir augunum höfum vér býsna hátalandi - en þó orðalausar skýrslur um afreksverk fyrirrennara vorra hér, þar sem eru allar girðingarnar hér umhverfis. Þær bera vott um annað en lítilmennsku þeirra, þó eigi liggi fyrir sögur af þeim. Að vísu höfum vér líka í fornum bréfum samkvæmar sagnir þar sem sagt er að Húsavíkurstað eigi að fylgja árið 1318 - 10 kýr og árið 1394 - 11 kýr.

Þarna getur vér enn og aftur brugðið upp allfagurri mynd af Húsavík er allar hinar niðurföllnu girðingar atóðu uppréttar og þessi kúahópur var rekinn á stöðul heim að prestsetrinu.

Svo eru þá líka taldir allir ljósglamparnir sem bregða fyrir mig yfir Húsavík frá hinum fyrri öldum. Þeir eru að vísu daufir - en alls eigi enn til þess að draga nafnið niður.

Miðalda-
myrkrið
og
verslunar-
fjötrar
Það er eigi sérstakt tiltökumál, þótt Húsavík og það sem hér hefur fram farið, hverfi með öllu í miðaldamyrkrið. Hér hefur án efa öllu hnignað meira og meira allt fram að miðri þessari öld. Verslunarfjötrarnir nafnkunnu frá 18. öldinni hafa að líkindum komið kauptúnum yfir höfuð í óbeit eða andstöðu við landsmenn. Þegar sú kúgun var hörðust hafa verslunarferðir manna hlotið að vera oft og tíðum sönn píslarganga. Þessu mun og hafa verið samfara mest ómennskan og óþverrinn í öllum greinum við og á kauptúnum. Lýsingar og tilheyrandi smásögur af öllu þessu berast í sveitirnar og hljóta þá ungmennin að fá viðbjóð við staðnum sem þetta er viðfest. Já, óbeit á nafninu, jafnvel fyrir þeim, sem aldrei líta staðinn augum. Þarna er það komið! Húsavík hefur óefað haft sinn skerf af þessum leifum 18. aldarinnar handa börnum þessarar aldar.
Framfarir
í
samtíð

Bætt
tún

Það er því naumast von - eftir almennu framfarareki, að þó hér hafi verið nokkrir góðir og miklir menn á öld þessari, að lengra sé komið viðreisn Húsavíkur en er. - Það eru nú rúm 47 ár síðan ég sá fyrst Húsavík, þá að vísu barn, er mest var hrifinn af háreistu húsunum, sem hún amma mín hafði sagt mér frá, en ég veit, að þá var enginn garður nýr, enginn sléttaður túnblettur og töðufall til í mikilli rýrð á heimatúni og þremur kirkjukotum.

Það sem gjört er og breytt síðan er það gleðiefni sem kastar nokkrum framtíðar-vonarbjarma yfir og umhverfis víkina okkar. Það er vert að nefna og halda á lofti nafni þess er verulega lagði hönd á verk til endurbóta hér og prýði. Það var ungur verslunarmaður, Páll Þorbergur Johnsen. Hann var forsmiður og eigandi girðingarinnar miklu í miðjum mónum hérna efra. Yfir garðhliðinu setti hann þessi tilhlýðilegu orð: Aldrei lát vinur þig erfiði hræða - indæl því reynist hver vel unnin mæða - og síðan hvarf hann á braut, en verki hans hefur fylgt sú hamingja að njóta hinnar mestu umhyggjusemi og viðhalds allt til þessa dags. Vel sé þeim sem það hefur gjört og því halda fram.

Alltof lítið og slitrótt hafa nú Húsvíkingar tekið sér þetta verk til fyrirmyndar á þeim 40-50 árum sem liðin eru síðan það var fullgjört og örfá ár eru síðan aftur var farið að byrja þesskonar. Þó er nú svo komið að 20 af húsráðendum hér í hverfinu hafa nú dálítið meira af töðu svo að það náði samtals á næstliðnu sumri fullum 900 tíufjórðunga böggum. Ég get þess til að þetta sé fjórfalt við töðuafla fyrir 30 árum.

Bætt
útgerð
Ég hef fyllilega á tilfinningunni að öllu nær stæði að skýra frá sjávarútgerðinni hér en ég hef enn síður tök á því. Get þess aðeins til að bátar og útgerðarmannatala hafi aukist að líku hlutfalli og hitt. Um þilskipaútgerð er enn eigi að ræða.
Hvað
verður?
Þá hef ég nú sagt nokkuð um það sem hefur verið og er og nú rek ég mig á tjaldið sem enginn okkar sér opnum augum yfirfyrir, inn í framtíðina, en sem við allir hljótum nauðugir, viljugir að erfiða fyrir og byggja hver sín vonargerði í.

Ég er enginn svartsýnismaður að jafnaði. Ég hefi ama á hverjum þeim púka er ávallt sýnist sem allt vera að kútveltast til ystu myrkra. Nei, hitt mun vera kunnugt að ég er loftkastalasmiður í meira lagi. Ég hefi jafnan séð vonarljós framundan og það sé ég enn - yfir Húsavík og með ástæðum þykist ég geta gjört von mína um framtíð Húsavíkur að trú og þá trú vildi ég gjarna geta talað inn hjá tilheyrendunum.

Framför
til
lands
og
sjávar
Vér höfum nýbyrjað ár framundan og nýjan og meiri framfaratíma. Þá trú vil ég predika með ástæðum.

- Fyrst og næst sjáum vér hversu móarnir, mýrarnar og svarðgrafirnar ókyrrast meira og meira ár frá ári. Þess vitjunartími er fyllilega kominn. Það veltir sér von bráðar fyrir átökum fjörugra og framsýnna búforka og búfræðinga upp í kafgresistún, matjurtagarða og drykkjurtareiti innan tígulmyndaðra girðinga. Að 10 árum liðnum mun Húsvíkingum þykja lág baggatalan er við höfum haft að sýna núna.

- En þó þetta sé nú mikils metandi til vellíðunar og frama Húsvíkinga þá liggur þó enn beinna við að vona viðreisnar í sjósókninni. Þeir koma og tímar að þilskipin hlaðin þorski, heilagfiski og hákarli eiga hingað heim að hverfa úr kappleiknum við erlenda aflamenn á útsænum, þessir máske fækka fyrir landi voru en heimaskipum fjölgar.

- Þessir tveir aðalþættir framfaranna eru nú að vísu eigi neitt sérstakt fyrir Húsavík og eigi óbrigðult að trúa á framtíðarfrægð hennar í þeim kappleik við önnur landspláss enda er nokkuð ótalið enn sem fyrir liggur.

Búðaráin

stillt
og
styrk
og

Húsavík á fyrir sig nokkra dýrgripi sem óvíða mun kostur á öðrum eins. Fremstan þeirra tel ég Búaðarána hérna. Fyrir löngu hef ég heyrt að útlendur maður er gætti að Búðaránni hafi sagt að hér væri hið besta færi á að vinna í klæði alla ull er Ísland framleiðir.

- Ég fyrir mitt leyti verð að játa að ég hefi eigi fyrri athugað eins alvarlega ágæti hennar eins og síðan að ég tók vel eftir aðförum og ásigkomulagi ánna almennt í landi voru, eins og þeim er t.a.m. varið hér vestur um sýslurnar. Þar sem menn í seinni tíð eru einmitt að bollaleggja verksmiðjustofnanir. Þegar ég hafði séð þær óviðráðanlegu fjallaskessur, þeirra verk og frágang, varð ég hrifinn af að virða fyrir mér hina blíðu, styrkmiklu og rólegu Búðará. - Hver mundi trúa, sá er einungis þekkir hinar árnar, að óhult mætti láta í munnvikið á henni mannvirki það sem nú hefur verið þar um nokkur ár, sem sé kornmyllan. Væri nöfnum hennar boðið annað eins mundu þær skyrpa því sem öðru fisi út í sjó.

úr
fögrum
upp-
tökum
Enda má það og vera hverjum hugsandi manni góð lystisemi að fara að upptökum árinnar og virða fyrir sér í sumarblíðu spegilinn mikla með græna hlíðarrammanum, sem er varinn öllum áhlaupum frá fjörrum hæðum og heldur þannig ánni í ævarandi ró. Ég ætla að hér eigi við, engu síður en um Skjaldbreið, orð skáldsins: gat ei nema guð og eldur gjört svo dýrðlegt furðuverk. Já, þar uppi hef ég getað sagt:

Náttúran fögur, eilíf, ung, ég elska þig
hvort lífsins kjör eru létt eða þung. Þú lífgar mig.

Já, Búðaráin er til að elska hana og blessa. Það er trúlegt að hún hafi á þann hátt verið vígð eins og haft er í munnmælunum. En sá blessaði starfstími hennar er eigi upprunninn enn. Hlýtur hann þá eigi að koma? Jú, þessar hendur ykkar, viðstöddu ungu menn, fá von bráðar ærið að starfa við það að koma fyrir og hjálpa fram nýjum verkvélum með árinnar góða styrk. Ég trúi eigi öðru en það sjáist og skylda vor er að reyna að sýna það að þess konar fyrirtæki á hér fyrst og fremst heima.

sjólaug Annan góðan grip á Húsavík og í faðmi sínum þar sem er laugin hérna úti í fjörunni. Þegar þar er komin upp baðstofa, sem bæði veitir sjóböð og volg böð, mun þangað sækja múgur karla og kvenna sér til hressingar og heilsubótar.
bygg-
ingar

gistihús

Í sambandi við hvorutveggja er nú er talið hljóta að rísa upp nýjar byggingar fyrir fólkið og margir góðir og gagnlegir menn að bætast í félagið.

Sérílagi verður að koma upp reisulegur gestaskáli. Hvort sem er sjá að vísu margir nú þegar brýna nauðsyn til þess, eða efast nokkur um að svo sé? Jú, við vitum fullvel hvernig það er fyrir ferðamenn sem hér verða að vera - og dvelja - oft dægrum saman, vetur, vor og haust í krapahríðum eða blindbyljum, að verða annaðhvort að taka með góðu - eða leiðu - vesæl hús á fólki eða liggja úti. Meðan svo stendur, getur þeim, sem fyrir verða eigi enn orðið hlýleg endurminningin um dvöl sína á Húsavík.

ferða-
þjónusta
Og þó er enn önnur máske hátalaðri köllun til gistiskála hér, sem sé hinn vaxandi ferðahugur grannaþjóðanna hingað til lands. - Nú þó Íslendingum sé hrósað fyrir gestrisni munu þeir þó heldur hugsa sér til hreyfings og í öllu falli til heiðurs í að koma að sér ferðamönnum enda enga gestrisni hægt að sýna þar sem ferðafólk getur naumast komið undir þak.

Nú er hér í Þingeyjarsýslu margt fjölbreytt og fáséð að skoða fyrir ferðamann sem líklegt er að auðvelt væri að beina þeim leið hingað en það geta menn ekki nema komið sé hér við innganginn aðgengilegt gistihús. Þessa ályktun hljóta menn að gjöra - héraðsbúar og sérílagi Húsvíkingar. Þá kemur viljinn og mátturinn og húsið og svo verður kallað til þjóðanna:

Komið hingað Danir, Norðmenn, Englar, Saxar, Svíar! Hér eru alls kyns tilfæri ykkur til nota og margt fallegt að sýna.

 • - Baðstofan er hérna fyrst, svo
 • Uxahver með gusurnar sínar og grænu matjurtareitina í reykjunum umhverfis í Reykjahverfi,
 • Laxáin með fossana, eyjarnar og gljúfrin og laxahyljina handa veiðimanninum.
 • Móðir hennar, Mývatnssveitin, með öll undrin og fegurðina.
 • Þá er og beinastur vegur að Öskjunni nafnkunnu, leiðsögumaður Jón Þorkelsson.
 • Dettifoss, sem hann Kristján gerði þjóðkunnan.
 • Ásbyrgi, sem Einar kvað um. Herðubreið,
 • Þeystareykir,
 • Búrfell
 • og margt fleira er hér mikið og fagurt að sjá.
 • Komið þið beint hingað í land. Hvergi er fegra né meira að sjá og hvergi verður ykkur betur tekið.
Húsavík
fær
gott
orð-
spor
Þá er hér kemur sögunni fer fáa að hrylla við nafninu Húsavík. Þá hafa landsmenn er hér koma, þaðan af að minnast margs góðs og gleðjandi, sér í lagi viðtökurnar í gestasölunum hjá glaðværa unga fólkinu. Heilsubótarinnar hjá lækninum og í laugarbaðstofunni. Af því mun síðar meir mörg gömul kona kunna að segja börnunum sögu, hvernig hennar nýrra líf byrjaði í Húsavíkurferðinni um árið.

Í útlendum blöðum stendur víða nafnið Húsavík með sögurnar af skemmtiferðum þangað, öðrum til uppörvunar. Fólkið mun víðs vegar að hverfa hingað til að reisa sér byggðir og bú í þessum ímyndaða sælunnar reit. Þá munu og íslenskir Ameríkanar leita hingað aftur átthaga sinna og koma nú vestan um hyldýpis haf með meiri dugnaði og kunnáttu til þess að nema nú af nýju löndin fram um allar heiðar og dali því þar eru móarnir frjálsir, enginn má lengur banna nokkrum öðrum frjálsum og fræknum manni að leggja hönd á hina ósnertu jörð til að leiða fram auðævin sem í moldinni liggja og sem fá eigi nema vissir menn að snerta.

- Allt verður þetta til að efla Húsavík.

Byggingarnar hljóta að rísa upp í skipulegum röðum, líklegast úr okkar eigin mold sem þá verður búið að finna upp að breyta í hlýtt, fagurt og varanlegt byggingarefni.

Húsavík
höfn og
heimili
sjófarenda
- bættur
varningur
- og
íslenskur
iðnaður
Sægarparnir, sem stýra annars skipum yfir höfin, eiga hér hús og heimili. Þá færir verslunin auð og vellíðan í landið. Í hverjum mánuði bruna skipin milli Húsavíkur og Kvíbekk í Kanada, flytja héðan ullarfötin úr verksmiðjunum. Engin lifandi sauðskepna má þá framar gjörast útlæg til dauða. Það er þá illmennska, sem varðar við lög. Hingað flytja skipin góða hveitið og korntegundirnar frá Ameríku, - ekki þetta dýra kaffi sem nú er máske að gera alla vitlausa af tannpínu. Það verður þá gleymt, - ekki til nema í gömlum verslunarskýrslum og ótrúlegum kerlingarsögum.

- Í stað kaffis og áfengis munu menn gæða sér á innlendum drykkjurtum, sem grasa- og efnafræðingarnir hafa fundið.

Framtíðar-
útsýni

víðar
byggðir

fiskeldi

Mikils mundi okkur þykja um vert ef við mættum, um skammdegisnótt eins og núna, líta yfir byggðina hérna eins og hún verður er þarna er komið.

- Sjáum til! Yfir allri borginni er skínandi bjart. Búðaráin gjörir það. Auk þess að hreyfa allar verksmiðjurnar, sem raðað er með henni, leiðir hún rafljósið svo glóandi bjart um allar götur og inn í hvert herbergi.

Og sjáum þó enn betur um hábjarta júnínótt. Alls staðar eru byggingar. Láglendið hefur eigi lengi hrokkið til heldur taka við höllin þarna suður og upp. Þar skiptast á húsaraðir og iðjagræn tún upp allar hæðir. Húsin bera við loft á hæðunum uppi á brúninni og áfram allt að húsum veiðimannanna við kyrrðarsæla vatnið sem er nú orðið eitt af forðabúrum Húsvíkinga, fullt með fleiri tegundir af uppöldu silunga- og fiskakyni, sem mennirnir drottna nú fyllilega yfir.

hæst
gnæfa
þrír
turnar:

sannleikur
réttlæti
kærleikur

- Og sjáið! Mikið indæli hlýtur útsýnið að vera frá efstu byggingunum að líta niður yfir byggðina og allt umhverfið. Eitt hús gnæfir yfir með þremur turnum er teygja sig langt upp að Krubbsfjalli. Hvaða hús er það? Skyldi það vera ráðhús borgarinnar? Ætli það sé hús fyrir fylkisþing í Skjálfandafylki? sem er nú nokkur hluti hinnar gömlu Þingeyjarsýslu. Nei, næst er mér að halda að það sé kirkja eða eitt aðalsamkomuhús allra bæjarbúa - hverrar trúar sem kunna að vera.

Hús þetta mun vera reist til minningar um fullt frelsi þjóðarinnar og það frelsi sem gengur í gegnum allt, niður til hins einstaka manns. Hinir himingnæfandi turnar munu eiga að merkja: Sannleikann, Réttlætið og Kærleikann, þessi markmið allrar vorrar framfaraviðleitni. Þar munu kennendur lýðsins flytja indæla og ljósa lærdóma er fólkið fýsir æ að heyra meira og meira af sér til fullkomnunar.

stólalyfta Og eigi mun verða örðugt uppgöngu til musterisins á hæðunum. Búðaráin tekur með rafkrafti hvern í stól við húsdyr hans og kippir honum á einni mínútu upp í hæðirnar.
hugurinn
ber oss
hálfa
leið
Ég læt þá lokið máli mínu með þeirri ósk að við getum allir fest hjá okkur fagrar og góðar, þessu líkar framtíðarvonir, því þá ber hugurinn oss hálfa leið til vegs og velferðar. - Trúin getur flutt fjöll úr vegi ef hún er nógu sterk og verkar á vora eigin krafta því þar er uppsprettan til alls þessa. -
Hver var
Jakob
Hálfdanarson?
Hraunin sem upp komu í Mývatnseldunum 1875 runnu yfir gamla veginn austur að Jökulsá. Það varð mál manna að þann veg yrði að lagfæra. Það varð verkefni Jakobs að stýra gerð nýs vegar og um það hefur hann tekið saman stutta frásögn. Hann stýrði einnig byggingu sæluhússins við Jökulsá á Fjöllum 1880 og hefur tekið saman stutta frásögn um það.

Efst á þessa síðu * GÓP-fréttir forsíða * Höfundar