GÓP-fréttir 

Keldnalýsing


Minningarorð um Guðrúnu Pálínu Helgadóttur

eftir Sigurðar Sigurðarsonar dýralækni.

Í Morgunblaðinu þann 29. júlí 2006 birtust eftrfarandi minningarorð Sigurðar um frænku hans, Guðrúnu P. Helgadóttur, fyrrum skólastjóra Kvennaskólans í Reykjavík. Í þeirri grein lýsti hann Keldum og umhverfi þeirra - og félst nokkru síðar á að sú lýsing fengi að birtast í GÓPfréttum. Hann sendi einnig þessi minningarorð.

Innskot GÓP:
Guðrún Pálína
Helgadóttir
fyrrum
skólastjóri
Kvennaskólans
í
Reykjavík

Guðrún P. Helgadóttir f. 19. apríl 1922, d. 5. júlí 2006, fyrrverandi skólastjóri Kvennaskólans í Reykjavík, var dóttir Helga Ingvarssonar, yfirlæknis á Vífilsstöðum, og Guðrúnar Lárusdóttur.
Hún var stúdent frá MR 1941, BA frá HÍ 1949 í íslensku og ensku og doktor 1968 frá háskólanum í Oxford.
Hún kenndi við Gagnfræðaskóla Austurbæjar í ellefu ár og um tíma í MR. Við Kvennaskólann kenndi hún í fjögur ár og varð svo skólastjóri þar í 23 ár - frá 1959 til 1982.
Hún var ritstjóri blaðsins 19. júní á árunum 1958-1962 og árið 1966 varð hún formaður Bandalags kvenna í Reykjavík. Hún var formaður til ársins 1969 og Bandalagið gerði hana síðar að heiðursfélaga sínum. Hún átti meðal annars sæti í stjórn Hjartaverndar og í stjórn Þjóðvinafélagsins.
Árið 1971 varð hún stórriddari hinnar íslensku fálkaorðu.

29. júlí
2006

Sigurður
Sigurðarson:

minningarorð

Guðrún Pálína Helgadóttir fyrrum skólastjóri Kvennaskólans í Reykjavík andaðist hinn 5 júlí s.l. áttatíu og fjögurra ára að aldri eftir hetjulega baráttu við þann, sem enginn getur sigrað. Fram á síðustu stund hélt hún reisn sinni og skýrleik í hugsun. Hún var jarðsett í Fossvogsgarði 13. júlí eftir fallega athöfn og eftirmæli í Hallgrímskirkju, sem Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur framkvæmdi. Við útförina var m.a. sungið ljóð eftir Guðrúnu um haustið í lífi manna. Sunginn var Kvennaskólasöngurinn eftir Jakob Jóh. Smára við lag Páls Ísólfssonar og uppáhaldskvæði hennar ,,Ég bið að heilsa" eftir Jónas Hallgrímsson.

Ég átti heima á Keldum á Rangárvöllum um skeið í barnæsku. Þar bjuggu þá afi minn og amma, Skúli Guðmundsson, Brynjólfssonar frá Keldum og Svanborg Lýðsdóttir, Guðmundssonar frá Hlíð í Gnúpverjahreppi. Guðrún Pálína var af Keldnakyni. Amma hennar, Júlía, lengi prestsfrú á Skeggjastöðum í Norður-Múlasýslu var fædd og uppalin á Keldum, systir Skúla.

.


Mynd Mats Wibe Lund af Keldum til Heklu.

Keldur eru ævintýrastaður þeim sem kynnst hafa með sín fornu torfhús og umhverfi, sem er engu líkt. Skálinn er eitt elsta hús landsins frá 12 öld og austur af honum í röð: skemmur tvær, smiðja og hjallur, en stóra fjárréttin og önnur útihús austar. Fram af þessum húsum er kirkjan, bændakirkja, sem Guðmundur Brynjólfsson langafi okkar Guðrúnar lét byggja 1838 og síðar endurbyggja 1875. Hann bjó þar í hálfa öld og Skúli sonur hans önnur 50 ár eftir hann til 1946. Árið 1932 voru menn að grafa fyrir safnþró í varpanum. Allt í einu hurfu þeir ofan í jörðina og höfðu þar með fundið leynigöng, sem enginn vissi af, frá skálanum gamla niður að læk.

Framan við varpann er bæjarlækurinn, vatnsmikill og straumþungur, en þó með spegilsléttar lygnur og fram af honum eru formhrein lambhúsin, sem Jón bróðir Skúla, síðar bóndi á Ægisíðu byggði 1895.

.

Útsýnið frá Keldum er stórbrotið, varðað fjöllum í suðri og austri: Vatnsdalsfjall með Hádegishnauk í hásuðri, austar er Þríhyrningur, frábær útsýnisstaður með tinda og skörð, sem minna á varðturn, þar fólst Flosi frá Svínafelli með liði sínu í 3 daga eftir Njálsbrennu og fylgdist með leitinni að brennumönnum.

Skúli Guðmundsson bóndi kallaði Þríhyrning fegurstan fjalla í heimi. Við rætur Þríhyrnings er Reynifellsalda. Austan Þríhyrnings er Þjófafoss. Þar földu sig þjófar tveir, sem síðar voru hengdir á Þingskálum. Í austri eru Tindafjöll og Vatnafjöll og í landnorðri fjalladrottningin Hekla, Tryppafjöll, Geldingafjöll, Selsundsfjall. Þar vestur af eru Bjólfell og Búrfell, þar sem systurnar bjuggu er veiða vildu og sjóða Gissur á Lækjarbotnum. Knafahólar eru í norðri. Þar var Gunnari á Hlíðarenda og bræðrum hans Kolskeggi og Hirti gerð fyrirsát, en nokkurn veg þaðan til suðausturs við Rangá er Gunnarssteinn, þar sem þeir vörðust og hröktu á brott ofurefli fjandmanna sinna en Hjörtur féll þar, bróðir Gunnars, sem reiddi hann heim á skildi sínum. Síðar fannst beinhringur við Gunnarsstein, áletraður hjartarmynd. Hólavöllur með vörðunni stóru, útsýnisstaðurinn góði, byrgir fyrir sýn til útnorðurs heiman frá bæ. Grákall er svo vestan túnfótar en Kirkjuhóll, Potthóll og Skyggnir við sjóndeildarhring til vesturs og útsuðurs og Loðsa upp af Stokkalæk.

Allt ilmar af sögunni hér og hana þekkti Guðrún vel. Henni þótti vænt um Keldur og kom þar oft eins og faðir hennar Helgi Ingvarsson á Vífilsstöðum.

.

Keldur standa á fornri hraunbrún. Undan brúninni í hálfhring um bæinn frá austri til vesturs koma óteljandi uppsprettur, með kaldara og betra vatn en gerist annars staðar, 2-3 gráður allan ársins hring. Þær mynda Keldnalæk, sem fellur úr Austurbotnum og Króktúnslæk, sem fellur úr Vesturbotnum og þeir sameinast sunnan túns við Tanga.

Svo segir Kristín Skúladóttir frá Keldum:

Uppsprettan bólar við brekkurætur,
blátært er vatn og kalt,
veitir sárþyrstum svölun góða,
silfurlind gefur allt.
Hér áttu fjársjóð bóndi á bænum,
sem er betri en gullið valt.

Vestan við bæjarhúsin, skammt suður af bæjartröðunum verður dálítil skál í brekkuna við Króktúnslæk, 5 metrar rúmir í þvermál hálfur þriðji meter að dýpt með lindarauga hringlaga í botni um 2 m í þvermál. Þetta er Maríubrunnur, heitinn eftir Maríu guðsmóður. Þar bóla upp ótal uppsprettur. Vatnið kemur undan hraunbrún á 25 metra dýpi er mér sagt.
Þangað er ævinlega sótt vatn til barnaskírna á Keldum. Lindin er vígð af Guðmundi biskupi Arasyni góða, f. 1160, d. 1237. Vatnið er sagt heilsubætandi, bæði til inntöku og til að lauga augu sín.

Þetta kunni amma mín Svanborg að meta og eins var með Guðrúnu frænku. Ég sá til þess að Maríubrunnsvatn gengi aldrei til þurrðar á heimili hennar síðustu árin eða á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilinu þar sem hún var síðast. Ekki er mér grunlaust um að hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk hafi einnig notið góðs af lækningamætti vatnsins með góðu samþykki Guðrúnar. Keldur voru dálætisstaður Guðrúnar og hún hafði ætlað þangað á þessu sumri ásamt sonum sínum og fjölskyldum þeirra til að rifja upp forn kynni. Af því gat ekki orðið því miður.

Guðrún var eftirminnileg kona, sem tekið var eftir hvar sem hún fór, fríð sýnum, bar sig vel og virðulega, sköruleg í framgöngu, teinrétt í baki, grannvaxin og hárið var dökkt en farið að silfra, breiðleit var hún sem algengt er í Keldnaætt, bláeyg, réttnefjuð, munnurinn festulegur. Orð hennar og ræða voru hnitmiðuð og á fögru máli. Hún var afburða kennari, uppörvandi og hugmyndaríkur fræðari, metnaðarfull fyrir hönd nemenda sinna og frændliðs og stjórnsöm í besta lagi en þó um leið mild og skilningsrík, kröfuhörð við nemendur sína en þó mest við sjálfa sig. Hvað sem hún tók sér fyrir hendur var vel undirbúið og hugsað og unnið af samviskusemi og fagmennsku. Hún ritaði nokkrar merkar bækur með annasömu starfi sínu og dreif sig í doktorsnám og lauk því með glans eftir lífshættulega hjartaaðgerð. Um langt árabil naut hún dýrmætrar aðstoðar frænku sinnar Guðrúnar Svönu Theodórsdóttur úr Vestmannaeyjum, sem var í heimilinu og hugsaði um það með einstakri trúmennsku ásamt húsfreyjunni og eins á meðan hún var fjarverandi. Guðrún Pálína vann af kappi að bók um skáldkonuna Torfhildi Hólm og hafði nær því lokið henni með dyggri aðstoð samverkakonu sinnar Sigurlaugar Ásgrímsdóttur af Bólu-Hjálmarskyni, þegar heilsan leyfði ekki meira.

Guðrún var stefnuföst, kappsfull og þolgóð. Um uppgjöf var aldrei að ræða, þótt hún mætti andbyr. Guðrúnu var eðlislæg trúin á hið góða í manneskjunni. Hún var lífsglöð og kunni að njóta lífsins á heilbrigðan hátt og veita jákvæðum straumum til umhverfisins. Barnabörnin kunnu vel að meta umhyggju hennar og hugkvæmni við að gleðja og fræða.

Guðrún var frændrækin hið besta og ættrækin. Það var sérstakur hljómur í nafninu Guðrún Pálína frænka hjá okkur Keldnafólki. Vegna framkomu sinnar og hæfileika var hún sjálfkjörin til forustu á mörgum sviðum, þar sem hún kom að málum og meðal annars í Frænkufélaginu svonefnda, sem starfaði á vettvangi Keldnaættarinnar. Ég átti því láni að fagna að verða gjaldgengur félagi þar ásamt frænda okkar Halldóri Vigfússyni, en við vorum einu karlarnir í félaginu og nú er líklega enginn eftir nema sá sem þetta skrifar, en tími til kominn að stofna nýtt. Félagatal var ekkert og fjöldi breytilegur eftir verkefnum. Guðrún fékk þennan kviðling letraðan á veggskjöld frá Frænkufélaginu á áttræðisafmæli sínu:

Afrek hefur unnið
í þig mikið spunnið,
þess við megum minnast hér.
Alltaf fremst á fari
flestum áræðnari.
Forustuna þökkum þér.

Margs er að minnast og margt að þakka af samskiptum við Guðrúnu frænku og hennar góðu fjölskyldu. Innilegar samúðarkveðjur eru sendar þeim, ekki síst barnabörnunum, sem hafa misst svo mikið.

Sigurður Sigurðarson dýralæknir

Efst á þessa síðu * Forsíða