Forsíða
GÓP-frétta


Pétur Sumarliðason:

Áttræður
Hjörtur Guðjónsson á Ljótunnarstöðum

Birtist
 í Þjóð-
viljanum
1. okt.
1969

Hjörtur er fæddur 1. október 1889 að Borgum í Hrútafirði. Það var erfitt fyrir ung hjón að fá jarðnæði og reisa bú á þeim árum en tókst þó eftir sex ára húsmennsku á ýmsum stöðum í Hrútafirði. Vorið 1895 hófu foreldrar hans búskap á Ljótunnarstöðum og þar hefur Hjörtur skilað sínum langa vinnudegi.

Þótt Hjörtur hafi mátt reyna margvíslegt andstreymi, öðrum mönnum meir, hefur honum einhvern veginn tekist að sjá hið skoplega í tilverunni og ætíð hittir maður hann glaðan og reifan hvernig sem ytri aðstæður reynast erfiðar. Tilsvör hans mörg eru svo einföld og meitluð, hitta svo beint í mark, að þau gleymast ekki þeim sem á hlýða. Stundum hafa meinleg tilsvör hans orðið að nokkurs konar orðtaki og þeim beitt meira en honum þótti gott. Hann hefur að vísu sjaldnast látið þá eiga inni hjá sér, er þóttust miklir af sjálfum sér, en tryggð hans og hlýhugur til þeirra er hann hefur talið vini sína er líka einstök.

Það er nú af sú tíðin að menn teljist vinnuhjú á heimilum. Einu sinni var það þó talið verðlaunavert ef maður vann einu og sama heimilinu áratugum saman. Ég held að Búnaðarfélag Íslands hafi stofnað sjóð til að verðlauna langa og trúa vinnumennsku og víst er að margir hafa hlotið vikurkenningu úr þeim sjóði.

Það var eitt sinn er ég kom að Ljótunnarstöðum að ég hafði orð á því við Hjört hvort hann ætti ekki staf - en hann var þá venju fremur slæmur af gigt. Hjörtur hló við og sagði - Jú, - víst á ég staf, frægan staf, en hann er brotinn. Þegar ég spurði hann nánar um þetta sagði hann að sér hefði svo sem hlotnast viðurkenning fyrir langa og góða þjónustu á einum og sama stað. Hafði hann fengið sendan staf frá áðurnefndum sjóði, krókstaf fyrir vinnulúið hjú að styðjast við. Ekki reyndist stafurinn betur en svo að þegar sleppti bæjarhellunni þá brast hann í tvennt.
- Ég hefði kannski heldur átt að velja mér silfurskeiðina, sagði Hjörtur - en sá gripur var ætlaður til að verðlauna konur fyrir langa og dygga þjónustu.
- - -

Það er margt breytt í kjörum barna og unglinga síðan Hjörtur var að alast upp. Á einum stað í ævisögu sinni segir hann svo frá uppvaxtarárunum:

- Ég var skýr og föngulegur fyrstu tvö árin. Þá fékk ég frönsku veikina. Gróf allur sundur. Svo uppvaxtarárin, fæðuskorturinn, þrældómur, seinna fjárskortur og sjálfsafneitun. Mig vantaði allt. Þessvegna át ég sjálfan mig. Ég át sjálfan mig með lífi og sál. Því er ekki að neita að ég er mannæta. Þá eru uppvaxtarárin, fræðslan 7 vikur, síðan fjárskorturinn. Ég fékk ekkert frjálst milli handa fyrr en 25 ára. Sem sagt, dauður punktur. Já, - réttskapað barn og nærri orðinn listamaður en síðan einhverskonar sálarafbrigði. Hvað vantaði í uppeldið?
- Og síðan fullorðinsárin. Hvar sem ég fór var hæðnin og spottið í faðmlögum, - skop og skrumskæling og aðhlátur fyrir heila sveit. Af þessum sorphaug reis mitt andlega leirskáldasvið. Ég er öreigi tuttugustu aldarinnar og hinnar frjálsu íslensku þjóðar, er ropar sem grásleppa um frelsi og jafnrétti.

- - - - -

Fyrir stuttu kom ég í hlað á Ljótunnarstöðum og eftir ýms viðmæli við heimilisfólkið bauð Hjörtur mér upp til sín og fékk mér í hendur nokkur blöð og kenndi mér að lesa úr skriftinni. Á þessum blöðum stóð þetta ljóð:

Ég er að tala við tóminn minn,
torskilið er það öllum.
Sá sterki telur það hlutinn sinn
sem skráð sé í æðri höllum.

Þegar sannleik er hvíslað hér
grettir heimur sig heldur.
Hvergi griðland né friður er,
- friðinn hafa þeir stóru fjendur.

Þótt ég sitji og skrifi hér,
segi satt í þeim höllum.
enginn rétturinn veitist mér
og enginn þeim smáu öllum.

Hér eru mín kvæði og hér er mitt ljóð,
hér kveðja til hinna smáu.
Nú kveð ég mitt land og mína þjóð.
Tek ofan fyrir þeim þjáðu.

- - -

Það hefur verið mér mikill lærdómur að kynnast Hirti á Ljótunnarstöðum. Engan veit ég er hafi þurft að standa eins af sér vangjafir tilverunnar. Það er nöturlegt að standa með mikinn skilning og hafa margt að segja en hafa svo bundnar hendur af tilverunni að hvorki mál né skrift dugi til þess að gera öðrum það skiljanlegt hversu maður finnur til, hugsar og hrærist í samtíð sinni. Engin furða þótt slíkur maður láti sér detta í hug að hann sé - stálmennið - sem verður að standa af sér alla þjáningu.

Trúmennska, hollusta og samviskusemi, allt eru þetta megintaugarnar sem þurfa að liggja að baki þeirra verka sem unnin eru - hvort sem er í sveit eða bæ. Mér hefur ætíð fundist Hjörtur samnefnari þessara þátta og það mun þeim einnig finnast sem notið hafa hans löngu og starfsömu ævi.

Pétur Sumarliðason

Hér >>

>> sjá fleiri vísur eftir Hjört

Efst á þessa síðu * Forsíða