GÓP-fréttir
Ferðatorg
 

En - lausa ferðin*

Fleiri myndir úr ferðinni færðu
með því að músa á myndina!

Músaðu á myndina til að sjá hana stærri - og til að fá nafnamyndina. 
Þar vantar nöfn inn á. Sendu mér nöfn á þeim sem þú þekkir!

*Hafið þið heyrt frásagnir sem hefjast svona: Vegurinn var góður en .. eða Sólin skein í heiði en .. eða sem í miðri frásögn segja skyggnið hafði verið ágætt en nú ..??
*Hér verður hins vegar sagt
frá einni algjörlega en-lausri ferð!

Dagana 25. - 27. febrúar 1994 hafði verið áætluð ferð austur að Síðujökli til að skoða framhlaup hans og voru menn allvel undir hana búnir eftir könnunarferðina sem farin var í lok janúar á sömu slóðir. Fjórar vikur voru í milli ferðanna og höfðu þær geymt margvísleg veður og ekki öll til að efla bjartsýni um gott færi. Þannig hafði viku fyrr geisað slíkt regnviðri og rok að færið á hálendinu var allt í krapa hlaupið og aðeins fært beltabílum. Þegar vikunni tók að halla að helginni jókst frost og á kvöldi fimmtudags spáði veðurfræðingurinn einmuna bjartviðri með frosti fram yfir helgina og tók það sérstaklega fram að á þessari spá væri mark takandi. Það var því ekki hægt að hætta við ferðina vegna veðurs!

*

Lýsingar

Þegar eftirfarandi ferðarolla er skoðuð er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að lýsingar á aðstæðum, útsýni og veðri gilda um ferðina alla. Þó var ekki sól á nóttu né fullt tungl á degi.

Að degi til var sól á heiðskírum himni. Hún kom upp um kl. 08.30 og settist um kl. 18.50. Geislar hennar eru hallir á þessum árstíma og við það rennur hún í rauðmerluðu litaflóði á loftið upp og kveður að kvöldi í logandi rjóðu geislatrafi um fjallaslóðir og fjarskans tinda og útsýni er allt til heimsenda.

Veður voru með slíkum stillum á laugardeginum að menn urðu undrandi ef hár sást bærast á höfði og yfir 10 stiga frost hélt ísum saman og hjarni hörðu með úrvals ökufæri.

Á nóttu var heiðskír himinn stjörnubjartur og með fullu tungli hátt á lofti allt til kl. 06.40 og um það leyti tygjaði hópurinn sig af stað úr náttstað.

Engan lesanda mun furða á að við sem ferðina fórum þykjumst ekki eiga það víst að komast í aðra eins draumaferð.

*

Þátttakendur
- ferðalangarnir eru hér nefndir í stafrófsröð bílstjóranna:

 • Guðbjörn Haraldsson (Bjössi) og Haraldur Guðbjörnsson.
 • Guðjón Backmann, Elín Rúna Backmann og Pétur Hermannsson.
 • Guðmundur Rúnar Brynjarsson, Þuríður Dan Jónsdóttir og Brynjar Guðmundsson.
 • Gunnar Eydal, Ásgerður Ragnarsdóttir og Gunnar Páll Eydal.
 • Kristján Sæmundsson, Vigdís Aðalsteinsdóttir og Hersteinn Kristjánsson.
 • Magnús Ásgeirsson, Magnhildur Magnúsdóttir og GÓP sem þetta ritar.
 • Marten Ingi Lövdahl (Matti), Ragnar Martensson og Þorvarður Ingi Þorbjörnsson (Ingi).
 • Sigurjón Pétursson, Karl Jónsson og Ragna Freyja Gísladóttir.
 • Sturla Þengilsson og Bragi Skúlason. Bragi kom á föstudeginum frá Sauðárkróki og ók þangað aftur aðfararnótt mánudagsins. Aðrir ferðalangar voru af Stór-Kópavogssvæðinu - utan Þorsteinn Ólafsson frá Selfossi og Hallmundur Andrésson úr Hveragerði.
 • Þorsteinn Aðalsteinsson og Hallmundur Andrésson.
 • Þorsteinn Ólafsson, Einar Ólafsson og Sigurður Flosason.

Samtals vorum við 30 saman á 11 bílum.
Flestir lögðu upp um kl. 16 á föstudeginum
nema Matti um kl. 19
og þeir Sturla og Þorsteinn Ólafsson um kl. 20.

*

Frostviðvörun

Ljóst var að frostdagar fóru í hönd og Þorsteinn Ólafsson opinberaði launráð sitt gegn froststíflu í hráolíu - sem er þannig í fullan tank:

15% steinolía.
Ísvari fyrir bensín - fullur brúsi.
Tvígengisolía - þrjú merkibil á brúsanum.

Athygli vekur að ekki er notaður ísvari fyrir hráolíu. Ástæðan mun vera sú að hann vinnur aðeins gegn vaxmyndun. Hins vegar eyðir hann ekki vatnsdropum úr olíunni. Steinolíunni er ætlað að vinna gegn vaxmynduninni og ísvarinn fyrir bensín eyðir vatninu. Hann dregur hins vegar úr smurgildi hráolíunnar og þar í móti kemur tvígengisolían. Óhætt er að hafa meira af steinolíu þó margir hafi minna hlutfall.

*

Austur sveitir

Ritari var með Sigurjóni austur að Klaustri. Allir vegir voru auðir á láglendi og ekið undan sól á síðdegishimni.

Er sem landið okkur greiði
allar götur - faðminn breiði:
ökum við í óskaleiði
austur yfir Hellisheiði.

Enn meiri halli var á geislum sólar þegar kom austur með Eyjafjöllum:

Móður jörð - hvar sólin setur
sína geisla, mild og há, -
pelli býr og prýðir betur:
Pétursey er fjólublá!
*

Á Kirkjubæjarklaustri

Að Klaustri komum við klukkan liðlega 19 og dokaði þar hver eftir öðrum.

Sem allir voru saman safnaðir utan þeir þrír sem síðar lögðu upp var ritara komið i opna skjöldu með heiðursathöfn. Sigurjón kvaddi sér hljóðs og flutti Ákall til GÓP ásamt gjöf sem honum var mikil sæmd í að þiggja í ljómandi hlýhug hópsins. Verður þó að geta þess að þegar tilþrif ávarpsins náðu sem hæst í lýsingum á nytsemi GÓP og hjálparleysi annarra fóru um hugann ótal minningar - einmitt um það hversu hæfir og sjálfbjarga ferðafélagarnir eru þó gott geti verið að hafa meðferðis nokkurs konar lukkutröll sem notað er þegar segja þarf hókus pókus.

*

Að Miklafelli

Haldið var frá Klaustri klukkan liðlega 20, ekið austur fyrir Orustuhól og til norðurs um hlað á bænum Þverá. Nú var enginn snjór í slóðinni inn hraunið. Þegar hærra kom varð hált í frostinu og menn gerðu viðeigandi ráðstafanir í stjörnubjartri nóttinni undir fullu tungli. Að Miklafelli komum við um klukkan 22. Matti kom einni stundu síðar og þeir Sturla og Þorsteinn kl. 01.

Í skálanum eru kojur fyrir 22 í svefnherbergi. Framan við það er forstofan sem jafnframt er þokkalega rúmgóður matsalur og eldhús. Svefnaðstaðan dugði og hefði mátt leggja þrjá eða fjóra til viðbótar - enda þurfti hver sem fram fór um nóttina að gæta sín við hvert fótmál.

Við ókum hingað í einu rúsi
yfir harða velli
og áðum í þessu úrvalshúsi
undir Miklafelli.
*

Sjá roðann í austri

Risið var upp kl. 06. Máninn skein enn fullur á heiðum himni og úti var skjannabjart. Hann fól sig þó í vesturhæðum þegar við ókum af stað klukkan liðlega 07 og fylgdum leiðum vestan Miklafellsins. Rifahjarn var á og draumafæri og breytti litlu þó stundum væri lítið eitt mýkra fyrir.

Tók nú að hefjast fyrsti grunur um dagrenningu með hyldjúpum roða á austurhimni og þegar við nálguðumst Laufsali hafði Miklafellið um sig rauða loga. Þá heyrðist Ingi kalla í talstöð: Sigurjón! Sjá roðann í austri!

Þetta kall batt hug ritara við þessa stórkostlegu stund. Hvar sem litið var sáust geislagómar sólar töfra litaskikkjur yfir hvíta hjúpa hæða og hárra fjalla og í huganum sat fullvissa um einmuna dag í vændum.

Sjá roðann í austri! hann brýtur sér braut!
boðar fullkominn öræfadag!
Hvílík fegurð og dýrð okkur fellur í skaut!
Hvílík fylling í ævinnar lag!
Og litflóðið háa
um ljóshvolfin blá
það ljómar nú Íslandi á!

Frostið var yfir 10 gráður og ferð okkar sóttist vel upp á efstu hæðir Fremri-Eyra þaðan sem vel sér til leiða. Við sáum morgunsólina strjúka gómum sínum um efstu hryggi Síðujökuls og lögðum ótrauð norður og síðan austur yfir ísa Hverfisfljóts.

*

Við Síðujökul

Bráðlega bar okkur að jöklinum. Sólin hænufetaði sig upp austurloftið og í skugganum vestan undir jöklinum steig vaxandi rakaslæðingur upp af örgrunnu, brúnu vatnsflæði sem síaðist undan jöklinum á stóru svæði og var svo miklu hlýrra öllu öðru í umhverfinu. Hægt og hægt hitaði sólin loftið og við sáum stór skörð koma í þessa morgunþoku við jökulröndina. Yfir flæðurnar gnæfði þverhnípt brún jökulruðningsins og lágværar Þórdunur hans bárust til okkar í stillunni.

Við héldum nú austur með jöklinum og fundum heldan ís á megináli Hverfisfljótsins skammt frá Rauðhólum. Þaðan ókum við nú upp að jöklinum aftur. Hvar sem augað eygði voru sömu hamfarirnar í gangi og þær voru svo máttugar og hrikalegar að við vorum hugfangin. Fyrir miðjum jöklinum til suðurs steytir hann á nokkuð stóru felli. Við ókum upp á það og nutum tilverunnar. Hér hreyfðist jökullinn stanslaust og menn tóku sér far með honum með því að standa á hjarnflykkjum sem hann ýtti á undan sér - og munaði ekki um.

*

Beðið flugvélar

Á þessu nafnlausa felli dokuðum við nokkra stund því myndatökumaður við sjónvarpið hafði samband við Kristján og bað okkur hinkra uns hann kæmi á flugvél austur að mynda jökulinn í þessu fagra veðri - því mikilvægt er að hafa þekktar viðmiðanir á slíkum myndum svo unnt sé að lesa þær. Við notuðum tímann til að njóta blíðunnar, snæða og taka myndir og Brynjar, skíðakappi hópsins, fór um veröldina eins og fugl flygi. Klukkan var farin að halla í 14 þegar sást til flugvélarinnar. Myndirnar birtust síðar bæði í fréttum sjónvarpsins að kvöldi sunnudagsins og í Morgunblaðinu sunnudaginn 6. mars.

*

Austur á Langasker

Við héldum austur með jöklinum allt á Langasker og sáum til Hágangna og þar sem framhlaupið þrengir að Djúpá. Klukkan var nokkuð gengin í 15. Nú var farið að fjölga fólki og farartækjum við jökulinn og við snerum aftur vestur á nafnlausa fellið.

*

Norður að Fögru

Í heimanbúnaði höfðum við gert ráð fyrir brennsluefni til að geta farið nýjar leiðir og nú var ákveðið að gista í Lambaskarðshólum og aka Mýrdalsjökul og Eyjafjallajökul á heimleið næsta dag. Leiðin var því í fyrstu lögð eins og í ferð okkar mánuði fyrr og nú var mun meiri snjór yfir.

Farið var austur yfir Hverfisfljótið og svo norður með Síðujökli, og Skaftárjökli og upp á Sjónaukann. Þar var fagurt útsýni og hvergi sá í opið vatn á Skaftá. Hana ókum við hjá Sýslufelli og seinni álinn ofan við Fögru sem gnæfði hvít og tignarleg upp í dimmbláan himin. Staðnæmst var uppi á snævi þöktum ruðningshólunum utan í henni og sá yfir Langasjó ísi lagðan niður á Sveinstind.

Við Langasjó skiptum við liði. Matti og Sturla óku ísinn og hinir upp á Breiðbakinn og niður hann. Matti og Sturla voru mun fljótari í förum og nutum við þess hin því þeir voru búnir að finna slóðir og vöð sem mjög flýtti okkar för. Heldur meiru þurfti að hleypa úr hjólbörðum þegar farið var um gljúpari snjó á hæðum og hálsum þar sem útsýni var um veröld alla bæði austur og suður og vestur.

Slóð þeirra Matta og Sturlu beið okkar við Sveinstind og við fylgdum henni niður að Gretti og um sandkluftir og brattar brekkur niður í Skælingana þar sem beið okkar fyrsti opni lækur ferðarinnar. Sjónarspil kvöldsólarinnar var í algleymi og sveipaði fjöllin roðaskikkjum. Á Nyrðri-Ófæru og Ströngukvísl höfðu þeir félagar fundið dágóð vöð sem biðu okkar í þann mund sem birtu var tekið að bregða um loft og láð. Þar með vorum við á fjallabaksvegi skammt ofan Lambaskarðshóla.

*

Húsið í Lambaskarðshólum

Húsið stendur í dalverpi undir lágu felli og rennur þar á úr gili við mikla hrauntungu. Þetta er tvílyft hús. Neðri hæðin er ætluð hestum og sú efri fólki. Hún er einangruð og snyrtileg. Kojur eru fyrir þrjátíu ef tvímennt er í neðri kojum, sem eru ágætlega breiðar. Þess utan er gott gólfrými. Dálítið eldhús er afstúkað og þar eru tvær kojur inni og ennfremur er salerni inni þótt það sé ekki nothæft í frostum á vetrum.

Þarna áttum við góða kvöldstund og sofnuðum um kl. 23. Upp var risið klukkan 06.30 og enn var tunglið fullt á heiðum himni í stjörnubjörtum geimi.

*

Um Álftavatnskróka

Klukkan var liðlega 7.30 þegar ekið var frá náttstað skamma leið til baka og upp á syðri barm Eldgjár þar sem Álftavatnskrókaleiðin liggur og innan skamms klifruðu bílarnir upp á hæsta tindinn syðst á Bláfjalli. Sólin var að fikra sig upp í austri og rauðu skikkjurnar sveipuðu Torfajökulsfjöllin og Strútinn og innan seilingar voru Einhyrningur og Öldufell. Til baka horfðum við niður í Álftavötnin sem nú voru ísi lögð og snævi hulin og til norðurs og austurs voru fjöllin sem við ókum daginn áður og fjærst sjálfur Síðujökull, Þumallinn og Hvannadalshnúkur. Þegar við aftur héldum af stað var klukkan 8.30 og þar sem þessi tindur var nafnlaus á kortum gáfum við honum nafnið átta-þrjátíu eða eins og hvers manns klukka sagði. Margir voru fegnir að koma aftur inn í hlýju bílanna þótt enginn kvartaði yfir frostinu - þeim stórkostlega vegasmiði :

Ökum við upp og niður -
indælt og undanhallt.
Sannlega segi ég yður:
svakalega er kalt.
*

Við Hólmsá

Leiðin liggur um hæðir og hóla og þarf að fylgja réttum hryggjum til að komast suður yfir og niður að Hólmsá. Þegar að henni kom liðaðist hún stillt og hátíðleg milli hárra fannbakka og í henni eyjar undir þykkum snjó. Sólin var aftan okkar og strauk landið geislafingrum og við ókum meðfram speglandi lygnunum uns allt vatn hvarf undir snjó og við ókum yfir á heldu.

*

Á Mýrdalsjökul frá Háöldu

Allar leiðir voru okkur nú opnar og við runnum upp á Háöldu og síðan beint yfir lægðina að jöklinum þar sem Matti fór beint upp slakkann og eins og í draumi vorum við öll á sólbjörtum jökli.

Brátt vorum við komin svo hátt að vel sá yfir hálendið í kring allt frá Laufafelli í norð-vestri til sjávar í suð-austri. Þar lá veröldin fyrir fótum okkar allt til fjærstu jökla.

Nú þyngdist aftur færi og ósléttara varð yfir að fara rétt eins og mikil veðurhæð hefði rifið snjó og hjarn. Lofti er enn hleypt úr hjólbörðum í svo sem sex pund og allt gengur viðstöðulaust. Í bíl Gunnars var áttavitinn góði og þó ýmsir fleiri hefðu afbragðs tæki til að finna áttir kom það í hans hlut að leiða lestina.

Ökum Mýrdalsmjallartröð.
Maggi er okkar nyrstur.
Ellefu bílar í einni röð -
og er Gunnar fyrstur.
*

Á Goðabungu

Þegar kom að Goðabungu sem er hæst og í 1480 metra hæð kom lestin í nokkur þyngsli. Þá valdi Matti aðra leið og Maggi fylgdi honum. Þegar Gunnar kom næst fram með hlið okkar fékk hann kveðjuna:

Halló! Gunnar minn góði!
Góður er þessi slóði!
Við ókum á eftir Matta
af því þú varst að snatta.

Nú var haldið niður á við. Þar er sprungusvæði sem við vissum af.

Oft á jökli er illt að sjá
hvort ekið er í sprungu.
Nú er Gunni í nýrri gjá
nærri Goðabungu.

Sturla og Bjössi tóku hann lipurlega upp aftur og við færðum niðurleiðina örlítið norðar, runnum niður á Goðalandsjökul og snæddum hádegisverð með stórkostlegt útsýni yfir Þórsmörk og Fljótshlíð og allt hálendið norður af.

*

Á Eyjafjallajökli

Vestur var haldið ofan við skálann á Fimmvörðuhálsi og viðstöðulaust upp á Eyjafjallajökul og að hæsta upptyppingnum á norðurbrúninni innan við Gígjökulinn sem merktur er 1571 metra yfir sjó. Útsýni var frábært og nú sá betur inn í Þórsmörkina. Svo var haldið aftur suður og inn í gíginn og vestur yfir hann og gengið á syðri Goðasteininn sem er 1666 metra yfir sjó. Svo var haldið að þeim nyrðri sem er utan við Gígjökulinn merktur á kortum 1580 metra yfir sjó. Steinninn var allur þykkísaður með hrikalegum mynstrum. Þar dvöldum við nokkra stund og gengum upp, sem ekki var örðugt. Þegar haldið var af stað sagði Einar Ólafsson:

Kom nú hér í hópinn skarð
- ég held ég frá því greini:
Gísli Ólafur eftir varð
uppi á Goðasteini.

Þetta reyndist þó ekki viðvarandi ástand því frá hinum þá fundna kom:

Nýjar fregnir telja trú
og traust í alla yður:
Gísli Ólafur er nú
aftur kominn niður.
*

Freisting ritarans

Þorsteinn Ólafsson fékk nú vitrun að hann skyldi út í Vestmannaeyjar að snæða kvöldverð og voru þá gerðar viðeigandi ráðstafanir að flytja farþega hans heim. Við þetta kom í hug ritara kviðlingur, forn og frægur. Var það mikil ásókn og raunar ójafn leikur sem rímsins vegna endaði að lokum án nokkurs samráðs við sannindi eða réttileika:

Í kvöld - hjá mjúkri meyju
sem má þó búa ein -
Þorsteinn er í eyju
og etur lundabein.
*

Á þjóðveg

Leiðin lá niður af jöklinum um Stóradalsheiði og á veg skammt innan við Seljalandsfoss. Þorsteinn fór á flugvöll í Landeyjum og við hin söfnuðumst saman á Hvolsvelli og glöddumst yfir góðri ferð. Ókum svo vestur um bjartar sveitir og komum heim fyrir kvöldfréttir.

*

Í fjórum línum

Eins og fyrr hefur teygst úr frásögninni af en-lausu ferðinni. Ef til vill má þó breyta einu orði í styttri frásögninni í síðasta tölublaði svo hún dugi þessari:

Yfir hjarn og ísasvið
- allt á fanna hökli -
ellefu bílum ókum við
inn að Síðujökli.

Efst á þessa síðu * Ferðatorgið * GÓP-fréttir