GÓP-fréttir
Ferðatorg
 
 

Til baka í
En-lausu ferðina


Ákall - til GÓP

Flytjandi:
Sigurjón
Pétursson
 
Í fjallaferðum, hvort sem er að sumri eða vetri, er það ákveðin ögrun að aka fyrstur; fara á undan og leggja slóð, sem aðrir geta síðan af öryggi fylgt.

Að ösla snjó eða príla urð vekur í senn unaðs og ónotatilfinningu, sem einu nafni er kölluð spenna og sem er helsti drifkraftur allra þessara undarlegu ferða inn á hálendi landsins.

Aðeins einn farartálmi á fjallaferðum er þess eðlis að engan fýsir sérstaklega að vera fyrstur eða að kanna hina ókunnu slóð. Þetta eru gruggug jökulfljótin, þar sem saman fer beljandi straumur og ótryggur, ósýnilegur botn.

Því er hverjum ferðahópi mikils virði að hafa á að skipa djörfum manni, sem óhikað veður út í strauminn og vekur hjá ferðafélögunum, - sem horfa á - þessa sérstöku unaðs og ónotatilfinningu, spennuna, - og ekki er verra þegar þessi maður er jafnframt leiðtogi hópsins, fararstjórinn.

Það olli því ekki lítilli skelfingu í síðustu Þórsmerkurferð þegar það fór að spyrjast að vöðlur fararstjórans væru farnar að leka.

Menn, sem voru með bússur eða vöðlur, grófu þær enn dýpra í farangurinn og leituðust við að koma sem allra seinast að blautum farartálmum og ef þeir komust ekki undan því að aka að ánni þá sátu þeir sem fastast í bílnum í þeirri von að enginn spyrði: Hefur þú ekki bússur? Getur þú ekki kannað vaðið?

Svona ástand raskar mjög bæði ferðahraðanum og ekki síður ferðagleðinni og vekur litlum hjörtum vondar draumfarir. Svo var komið að hætta var á að það fækkaði verulega í hópnum.

Við svo búið má ekki standa. Við sem oftast erum með í blautum fjallaferðum Gíslavinafélagsins höfum ákveðið að losa okkur við jökulvatnahræðsluna í eitt skipti fyrir öll.

Úrræðið er aðeins eitt: að tryggja að Gísli geti ætíð farið þurrum fótum allra sinna ferða, því aldrei hefur þurft að etja honum í eða hvetja hann til að vaða beljandi jökulfljót.

Þess vegna biðjum við þig, Gísli, að þiggja þessar vöðlur og losa okkur þannig undan lamandi vatnshræðslunni þannig að við getum á ný notið ferðanna.

*
  • Sigurjón Pétursson
  • Gunnar Eydal
  • Guðbjörn Haraldsson
  • Rúnar Brynjarsson
  • Magnús Ásgeirsson
  • Þorsteinn Ólafsson
  • Valdemar Einisson

Til baka í En-lausu ferðina