GÓP-fréttir forsíða * -Umsögn Sigríðar ALbertsdóttur

Í erli dægranna
ljóð eftir Pétur Sumarliðason

Í bókmenntagagnrýni DV þann 16. september 1996 skrifar Sigríður Albertsdóttir, ritdómari blaðsins, eftirfarandi ritdóm:

Alltaf mætir auganu eitthvað nýtt

Þegar Pétur Sumarliðason, kennari og rithöfundur, lést fyrir 15 árum skildi hann eftir sig ljóð sem hann hafði sjálfur ætlað til útgáfu. Þessi ljóð hafa sonur hans og kona nú gefið út á bók sem nefnist Í erli dægranna. Það er ekki nóg með að ljóðin séu bæði gjöful og grípandi heldur er útlit bókarinnar sérlega fallegt og vandað. Hvert ljóð er rammað inn í einfalda umgjörð sem ljær bókinni gamaldags og um leið rómantískan blæ. Slíka veislu fyrir augað er sjaldgæft að sjá í nýjum bókum og enn fremur þann fyrirmyndarfrágang að hafa efnisyfirlit fremst í bók og lista yfir upphafsorð ljóða í lok bókar.
Bókinni er skipt niður í þrjá hluta, 1. bók sem nefnist Brot, 2. bók sem heitir Við hvítan jökul og 3. bók, Í erli dægranna. Í fyrsta og öðrum hluta er náttúran í aðalhlutverki en í þeim þriðja reikar hugur höfundar vítt og breitt og staldrar meðal annars við vatnið sem stöðugt drýpur úr mælikeri tímans (Við áramót, bls 102). Í þessum hluta er höfundur angurvær, dálítið dapur stundum:

- Æ, hversu var farið
með þá daga?

spyr hann í ljóðinu Allir dagarnir; en þó hann eigi engin svör og gefi engin svör felur þessi upphrópun í sér það þægilega æðruleysi sem einkennir allan hans kveðskap. Manni líður vel við lestur þessara ljóða, þau eru hlý og ástúðleg.

Ljóðin í miðhlutanum eru hugleiðingar tengdar veru höfundar við veðurathuganir undir suðvesturhorni Vatnajökuls en þær stundaði hann í sjö sumur. Upp úr þeim hugleiðingum verða til ljóð um kynleg og stórkostleg fyrirbæri náttúrunnar:
Frostnótt og heitur dagur

Í streng árinnar glitruðu
stálbláir steinar í botni.
Sólin var enn bak við jökulinn.
Frostnepja næturinnar
enn í kulinu.

- - -

Og sólin hellti geislum sínum
yfir jökulinn,
bláhvítur ísinn
varð að kolgráu vatni,
æðandi, beljandi vatni
er bruddi ís og grjót
með urgandi hljóði. (35)

Þetta ljóð er aðeins eitt dæmi af mörgum um það hvernig höfundi tekst á sinn látlausa hátt að koma sterkri og lýsandi mynd til skila: hinum heillandi samruna dags og nætur, hita og kulda svo og litadýrð hinnar ósnertu náttúru. Þannig eru ljóðin í miðhlutanum hvert öðru myndrænna, og svo vitnað sé í orð höfundar, þar mætir auganu alltaf eitthvað nýtt(39).

GÓP-fréttir forsíða * Til baka í Útgáfufréttir