Forsíða 
Ofvirknivefur 
Ofvirknibók 

Gylfi Jón Gylfason - í apríl 2002:

yfirsálfræðingur og deildarstjóri sérfræðiþjónustu hjá skólaskrifstofu Reykjanesbæjar

Mbl. 18. apríl Sjúkdómsvæðing ofvirkni?
Svar við
atriðum
sem fram
komu í
grein í
Fréttablaðinu
8. apríl
2002

Grein þessi er rituð í tilefni fréttar um svokallaða sjúkdómsvæðingu ofvirkni sem birtist í fréttablaðinu 8. apríl síðastliðinn og umræðu sem spunnist hefur í kjölfar hennar.

Fram kemur að varast þurfi að búa til sjúkdóma úr minniháttar hegðunarvandamálum og að ástæða sé til að læra af reynslu Bandaríkjamanna vegna þessa.

Sagt er að í Bandaríkjunum séu 10 –12% drengja á aldrinum 6-14 ára á ritalini og að full ástæða sé til að athuga langtímaáhrif  ritalins  á óhörðnuð börn.

Ég er ósammála mörgu því sem fram kom í ofangreindri frétt.
Með hagsmuni ofvirkra barna í huga tel ég mér  skylt að koma að öðrum sjónarmiðum um málefnið.

Ofvirkni er
sjúkdómur,

ekki
minniháttar
hegðunar-
vandamál.

Ég er sammála því að varast þurfi að búa til sjúkdóma úr minniháttar hegðunarvandamálum. Það á ekki að spyrða saman minniháttar hegðunarvandamál og það að gefa ritalin við ofvirkni.

Ofvirkni er ekki minni háttar hegðunarvandamál, heldur alvarlegur sjúkdómur sem er nákvæmlega skilgreindur í þeim greiningarkerfum sem notuð eru. Það er ekki hægt að sjúkdómsvæða ofvirkni, hún er nú þegar skilgreind sem sjúkdómur.

Ekki á að setja börn á lyf að ástæðulausu og ekki á að ávísa ritalini handa börnum þegar grunur er um ofvirkni, án undangenginnar þverfaglegrar greiningar. Ef verið er að ávísa ritalini vegna minniháttar hegðunarvandamála er rétt að landlæknir láti til sín taka vegna þess.

Fullyrðingin um að 10-12% drengja á aldrinum 6-14 ára í Bandaríkjunum séu á ritalini er ekki alveg rétt og því óvarlegt að alhæfa um íslenskar aðstæður út frá þeim eða gera því skóna að við getum lært af reynslu Bandaríkjamanna án þess að tilgreina við hvaða fylki er átt. Ástandið er svona á einstaka afmörkuðum svæðum eða fylkjum.

Í Bandaríkjunum sem heild er ástandið svipað og í Skandinavíu þar sem undir helmingur ofvirkra barna er á ritalini.

Framtíðar-
horfur
og
verkan
ritalins.
Það er misvísandi að segja að lítið sé vitað um hvaða áhrif lyfið hafi eftir 10-15 ár.

Enginn geðsjúkdómur sem hrjáir börn hefur verið rannsakaður jafnmikið og ofvirkni. Lyfið hefur verið gefið við ofvirkni í marga áratugi og til eru þúsundir greina um lyfið.

Meira er vitað um verkan ritalins á börn en öll önnur geðlyf sem gefin eru börnum.

Yfir 90% þeirra sem rannsakað hafa lyfjameðferð við ofvirkni og skrifað greinar um hana eru sammála lyfjameðferð í einhverri mynd.

Svo mikið er vitað um ritalin og langtímaáhrif þess að færustu sérfræðingar á þessu sviði ráðleggja því sem næst einróma að sá hluti barnanna sem ekki losnar við einkenni sín á fullorðinsárum haldi áfram að taka lyfið þegar þau eru fullorðin. Það væri ekki gert ef vitað væri um skaðleg langtímaáhrif af lyfinu.

Ofvirkum börnum sem ekki fá ritalin er hættara við því að leiðast út í afbrot en þeim sem fá lyfið.

Ofvirk börn sem fá lyfið eru í minni hættu að verða fíkniefnaneytendur.

Námsárangur ofvirkra barna batnar við ritalininntöku og árekstrum við börn og fullorðna fækkar.

Ofvirk börn sem hafa bestar framtíðarhorfur eru þau sem njóta uppeldisumhverfis sem er aðlagað að þörfum þeirra samtímis lyfjagjöf. Þeim vegnar betur en ofvirkum börnum sem einungis eru með aðlagað uppeldisumhverfi.

Aðgát
skal höfð
við
ávísun
ritalins
Ef nægilegt er að veita foreldrum og kennurum barnsins fræðslu um hvernig best sé að taka á hegðunarerfiðleikum barns ætti að láta þar við sitja og þá er ástæðulaust að gefa barninu lyf af nokkru tagi. Ritalin er geðlyf og það er alvörumál að gefa börnum slíkt að ástæðulausu. 

Lyfjagjöf er hinsvegar oft eðlilegur hluti af skynsamlega samsettu meðferðartilboði sem kemur í kjölfar þverfaglegrar greiningar. Einnig þarf að veita foreldrum, aðstandendum og uppeldisstéttum viðeigandi fræðslu um sjúkdóminn og hvernig best er að bregðast við.

Gætið að
heimildum!
Sérstaklega er varað við því að ýmsir sértrúarsöfnuðir og einstaklingar sem ekki eru vandir að virðingu sinni hafa tekið þetta mál upp á arma sína og reynt með lygum, rangfærslum og útúrsnúningi á rannsóknarniðurstöðum að sá vafa um ritalin og verkan þess. Það ætti því að gæta að uppruna greina sem lesnar eru um efnið.
Í apríl 2002
Gylfi Jón Gylfason
Höfundur er yfirsálfræðingur og deildarstjóri sérfræðiþjónustu hjá skólaskrifstofu Reykjanesbæjar

Efst á þessa síðu * Forsíða * Ofvirknivefur * Ofvirknibók