GÓP-fréttir 
Ferðatorg 
Ferðaskrá 
Vaðatal

Jokuldalalaekir2
Jökuldalalækir

Ljósm:
Pétur Örn

Breiðbakur - Miklafell

Myndirnar færðu - eina og eina í senn - með því að músa á smámyndirnar hér fyrir neðan - en þú færð þær allar saman í stærra og skemmtilegra formi með því að skoða þær á
ferðamyndavefnum.

Ferlunarferð 10. - 12. nóv. 2000

Lambhagi í Skarfanesi - Hrauneyjar -
Svartikrókur - Landmannalaugar
Kýlingar - Jökuldalir -
vestan Eldgjár að Sveinstindi -
Breiðbakur - að Tungnaá á Gnapavaði -
yfir Skaftá hjá Fögru - Suður með Skaftárjökli
og Síðujökli - úr austri að Fremri eyrum ofanverðum -
eftir fjallvegum og sums staðar ýtuslóðum -
að Miklafellshúsinu og á þjóðveg við Orrustuhól

Athugaðu aflangar myndir
eru samsettar úr mörgum myndum og þær
eru þeim mun lengur að birtast sem þær eru mjórri!!
Ferlun Þessi ferð var sérstaklega farin í því skyni að láta GPS-tækin ferla - þ.e.: lesa inn þéttriðnar punktalínur eftir þessum leiðum.
Veður
og
spár
Veðurspár
voru góðar og þótt vindur væri töluverður var gert ráð fyrir að hann gengi niður á laugardegi og sunnudegi. Engri úrkomu var spáð á þessu svæði en nokkru frosti og skýjuðu.

Veður
reyndust með strekkingskylju en snjókoma enginn nema skamma stund á sunnudagsmorgninum. Sums staðar náði vindurinn í lausan snjó og feykti honum og stundum þyrlaðist svo úr slóðinni að torséð varð. Verulegur vindur var alla ferðina og frost á bilinu 6 - 12 stig.

Ekki á
kortum
Breiðbaksleiðin er ekki á kortum
Það er í sjálfu sér afar athyglisvert að þótt Breiðbaksleiðin hafi verið stikuð - sennilega af Sigurjóni Rist fyrir 40 árum - virðist hún hvergi hafa komist inn á kort. Leiðin frá Sveinstindi inn Breiðbak allt að Vatnajökli er þó fær öllum jeppum þegar þornar um eftir að snjóa hefur leyst og segja má að þar finnist hvergi stingandi strá. Eina fyrirstaðan eru sums staðar sandskaflar og fáein melgil en lækirnir sem dragast saman í Nyrðri Ófæru eru ekki til trafala ef aðgát er viðhöfð.
Föstudagur
kl. 21
og 23:30
4 bílar fóru þessa ferð
Haldið var úr Reykjavík klukkan 21. Þar voru á þremur bílum saman Ingi og Matti, Þór og Freyr og þau Sigurður Flosason og Anna Soffía með ritara. Tveimur tímum seinna kom Pétur Örn og hafði með sér tíkina Perlu sem ritari hefur áður hrósað fyrir að vera vel upp alin. Ritari er þó ekki umtalsvert hjartahlýr í hundagarðinn.
Lambhagi
í
Skarfanesi
Ekið var sem leið liggur upp Land og í Skarfanes ofan Skarðsfjalls. Þar er hús sem heitir Lambhagi. Mikill gróður er í námunda við húsið, þröngir stígar og há tré með ágengum greinum sem þyrfti að stýfa. Á þessu svæði eru margir stígar og betra að vita hvert menn eru að fara. Það kom sér vel að umsjónarmenn hússins- þeir Ingi og Matti - voru með í för.

Augljóst er að ekki verður
undan hráslaganum
kvartað - svo er kofinn gerður
klárt í Lambhaganum.

Horft til suð-austurs yfir Tungnaá. Vinstra megin sést í enda Snjóöldu. 
Myndin er samsett og nær yfir um 140 gráður.

Horft yfir Blautaver: austur - suður - vestur
 
Svartakróks-
leiðin

 

Ljotipollur
Ljótipollur

Upp klukkan sex og af stað klukkan sjö
Fyrirhugaðar leiðir eru langar og þótt hvergi örlaði á minnstu grunsemdum um snjó í myrkri kvölds eða morguns - var þó vitað að færið væri ekki fyrirstöðulaust. Því var haldið snemma af stað og komið í Hrauneyjar klukkan 8. Þaðan var ekið inn að Hófsvaðs-afleggjara. Sá afleggjari er ekinn skamma stund uns komið er á línuveginn og honum fylgt inn með Tungnaá allt að Svartakróki.

Falleg leið
Þegar komið er að Svartakróki er staðnæmst á hárri hæð með afar skemmtilegt útsýni yfir nærsvæðið og til fjallanna fjær. Þaðan er síðan ekið þvert til hægri og upp barminn á Ljótapolli. Leiðin er hvorki brött né tæp en útsýnið ofan í Ljótapoll og í bergvegginn í þessum gamla gíg er aldeilis frábært. Síðan er ekið í vestur ofan af gígnum og að Tjörvafelli og meðfram því að prestinum að Dómadalsleið.

Austur
undir
Eldgjá

KirkjufellogOsinn
Kirkjufell og Ósinn

Jokuldalalaekir3
JökuldalalækirGjatindur
Gjátindur

Frostastaðahálsinn
Engin vandkvæði voru að komast yfir Frostastaðahálsinn þótt snjóskaflar væru nú nokkrir og einnig í brautinni. Haldið var yfir í Kýlinga og þræddur Kirkjufellsósinn. Sums staðar var nokkur þæfingur sem tafði fyrir og lækir voru flestir á ísum sem stundum reyndust ekki áreiðanlegir.

Jokuldalalaekir
Jökuldalalækir

Faxasundsleiðin
Allt gekk þó vel og einnig um Jökuldalina en þegar kom að vegamótunum í Faxasundin voru snjóalög þannig að ljóst var að sú leið yrði tímafrek.

Perluf
Perlufæri

Sveinstinds-leiðin
Klukkan var orðin liðlega 14 og ákveðið var að halda austur fyrir Skuggafjöll og taka Sveinstinds-leiðina sem liggur vestan Eldgjár. Skuggafjallakvíslin var ýmist á nothæft heldum ísi eður ei og olli stundum töfum en að meðaltali gekk ferðin nokkuð greiðlega þótt á stundum þyrfti að berja ísa af stýrisbúnaði.


Mosa-
hnjúki

Herdubreid Undir Sol
Herðubreið undir sól

Nyrdri Ofaera
Nyrðri Ófæra

Teningum varpað við Gretti
Ákveðið hafði verið að ráðgast um framhaldið þegar komið væri að Gretti þar sem tveir ágætir skálar voru innan seilingar áður en ljós yrðu af lofti. Annar í Skælingum en hinn undir Mosahnjúki við Sveinstind. Voru menn á eitt sáttir að halda í skálann við Mosahnjúk.

Vindmotun
Vindmótun

Færið
skánaði ögn og við ókum inn að Langasjó við rætur Sveinstinds og sem leið liggur niður að kláfnum yfir Skaftá og að skálanum. Þangað komum við þegar öll birta dagsins hafði verið nýtt til hins ýtrasta - og klukkan orðin 18. Veðrið var hvasst, fullt tungl og himinn nánast að verða heiður með vaxandi frosti.

Góður
skáli

Solarlag
Sólarlag

Mosahnjuksskalinn
Mosahnjúksskálinn

Útivistarskálinn
Þetta gamla hesthúshró hefur Útivist yfirbyggt með myndarlegum hætti og það heilsar ferðamanni hlýlega með góðum dýnum í rúmum og steinolíu á ofn og kertum til ljósa. Gott náðhús er skammt frá húsinu þótt þar sé nokkurt drif inn um skrautop á hurð. Skálinn hefur mjög gott svefnrými fyrir sextán en auðvelt að láta tvo sofa í fjórum breiðum fletum og þá rúmast 20 auðveldlega.

Enn hvessti og gnýrinn á húsinu var mikill:

Sitjum við í veðragný
verður allt í lyndi:
úrvalshúsi erum í
undir Mosatindi.

Þessi vísa vakti mönnum aðeins gleði í skamman tíma uns í ljós kom að rangt var farið með nafn hnjúksins. Fallist var á með Önnu Soffíu að gera yrði bragarbót:

Anna vill fá annað snið
áður yfir ljúki:
Athugist að erum við
undir Mosahnjúki.

6:30
7:30
Áætlunin
Ráðslagað var um áætlun næsta dags og þótti ljóst að ef nokkur meginatriði yrðu viðráðanleg gæti svo farið að unnt yrði að halda upphaflegri áætlun og komast í Miklafell. Fljótreiknað var að fyrsta skrefið yrði að vera fólgið í því að vera við afleggjarann frá Sveinstindi inn á Breiðbak við birtingu. Því var úr rekkju risið klukkan 6:30 og komið að Breiðbaks-prestinum þegar gránaði af degi.
Slóðar Glöggt á Breiðbaknum
Eins og fyrr segir var helsta verkefni ferðarinnar að eltast við slóða og þeir voru í hæstum vegum hafðir sem skarpast greindu hina óskarpari og oft afar lítt sýnilegu slóða. Á Breiðbaknum var nokkur snjór en harðfenni og hvergi umtalsverð fyrirstaða og þar eltum við slóð margra bíla sem farið höfðu í gljúpara færi. Vindurinn hafði víðast sópað svo úr förunum að helst virtist sem þeir hefðu farið þar nýlega.
Upp
Breiðbak

Tungnaá
á
Gnapavaði
Gnapavað á Tungnaá
Það tekur sinn tíma að aka upp Breiðbakinn og klukkan var nærri 11 þegar við höfðum runnið niður af honum að Tungnaá við Gnapavað. Þar rennur áin milli þeirra tröllbræðra, Rata, sem er norðan hennar, og Gnapa. Áin var óvenjulega vatnsmikil miðað við árstíma þótt hún væri ekki til neinnar fyrirstöðu. Nokkrar skarir voru upp úr og við gáfum okkur ekki tíma til að fara yfir og að Jökulheimum því markmið okkar voru önnur og tíminn naumur.
Útsýnið úr um það bil miðjum brekkunum norður af Breiðbaknum.

Gnapi og Rati

Músaðu á myndina til að fá hana stærri! Fyrst birtist hún jafnbreið og vefsjáin. Láttu bendilinn bíða á henni. Senn færðu stækkunarhnapp í hægra niðurhorni. Músaðu á hann. Myndin verður um það bil tvær skjábreiddir. 
Toppurinn

Brei stoppur
Breiðbakstoppur

Um Breiðbakstopp
Við runnum nú aftur upp á Breiðbakinn og fylgdum leiðinni inn á Breiðbakstoppinn, sem er hæsta fjallið inn við jökulinn.

Glæsilegt útsýni
Útsýnið af Breiðbakstoppi er stórkostlegt bæði til norðurs yfir vesturrönd Vatnajökuls þar sem Jöklasystur rísa. Þar er það Syðri-Systir sem ber af fyrir glæsileika. Húsið í Jökulheimum stendur við Tungnaárbotna og hér sér yfir öll fjöll allt til jöklanna inni í miðju landi. Til suðurs sér víða vegu og niður á Langasjóinn og til Fögrufjalla. Efsta fjallið í Fögrufjöllum heitir Fagra - og þá skilja menn nafnið Fögrufjöll.

Leiðin liggur
Af Breiðbakstoppi liggur leiðin þvert í suðaustur og niður næst-innsta ranann ofan á Fögruvöllinn sem er ofan við Langasjóinn milli Breiðbaksins og Fögru.

Hólarnir
norð-
austan að
Fögruvelli
Jökulurðin
Fögruvöllur er lítillega hækkandi upp frá Langasjó en jökulmegin hefur að honum hlaðist mikil jökulurð. Í fyllingu tímans hafa úr þeirri urð bráðnað jakaflykki og myndað miklar og stórar holur. Þegar litið er yfir svæðið getur maður valið að nefna hinar óteljandi holur - eða hina óteljandi hóla - þótt fulldjúpt sé í árinni tekið með því að nota orðið óteljandi. Það er svona sem þeir verða til, hólarnir í jökulurðum.

Sunnan fellsins
Þessar jökulurðir má aka víða og þyrfti að taka dálítinn tíma í að finna þægilegustu leiðina. Nokkurn veginn fyrir miðjum vallarendanum er dálítið urðarfell og sunnan þess var nú ekin slóðarnefna á mjóum hryggjum og um gjótur og geilar niður að Skaftá. Þegar ekki eru ísar er þarna oft sandasvæði og jafnvel viðsjárvert eftir að kemur yfir ána. Þá þarf að aka um þessa urðarbingi niður með ánni uns komið er nærri Fögru. Þar er nokkur hundruð metra færi til að leita vaðs og handan árinnar er malarsvæði.

Skaftá

Skafta
Skaftá

Skaftá
Á sumri og hausti er Skaftá foraðsvatn sem ekki tjóir að reyna sig við. Þegar kemur fram í október fer að líða að því að Skaftá tekur sitt vetrarlag. Hún getur slegist niður snögglega ef kuldakast kemur - jafnvel á sumri. Ef frostsvelja fer stinningshvöss um jökulinn getur Skaftá verið hin ljúfasta snemma morguns en í slíku veðri gleðjast ekki aðrir sumarferðamenn en þeir sem vilja komast yfir Skaftá eða önnur jökulvötn. Skaftá rennur í tveimur álum. Annar kemur suður með jökulurðinni og framhjá Fögru en hinn kemur úr jöklinum á móts við Fögru og rennur suðvestur meðfram Sýslufelli sem svo heitir til heiðurs Skaftafellssýslu. Álarnir hittast undir Fögru og halda suðurstefnu framhjá henni og syðri nærfjöllunum.

 

Þessi víðmynd horfir til suðurs úr Innri-Skaftárbotnum. Sér á norð-austur enda Fögrufjalla og í jökulruðninginn sem jökullinn skildi eftir sig þegar hann hörfaði frá og Skaftá hætti að renna í Langasjó. Skömmu eftir 1960 var jökullinn kominn svo frá að Skaftá fór að renna ofan við Fögru. Síðan hefur Langisjór smám saman verið að blá-tærast. 

Fagra
 Á ísi


Að þessu sinni ókum við ána á heldum ísum þar sem við komum að henni. Þegar við nálguðumst farveg syðri álsins reyndist hann þurr og það þótti okkur ekki leitt. Ekið er upp á eyrarstallinn framundan Sýslufellinu og ekið suður að næsta fjalli sem heitir Sjónauki en af honum er gríðarlegt útsýni og tilkomumikið.


Af Sjónaukanum
Veður
og
færð
Veður
Allmikill vindur var á þessum slóðum og stundum feyktust snjóar þótt vart yrði kallaður renningur nema stund og stund. Sólin var á sínum nóvemberbaug og síðdegislitir himinsins skiluðu sér fullkomlega. Það kom fyrir að snjóar rykju frá okkur í sólarátt og þá var allt í hvítu. Þetta stóð þó aldrei nema skamma stund í einu. Aðeins á einum stað var viðstöðulaus renningur þar sem vegurinn fer skemmtilega milli hrauns og hlíðar.

Færð
Þegar komið var niður af Sjónaukanum skipti um færi. Nú var víða snjólaust og grófir melar í vatnavegum frá jöklinum. Á stöku stað voru þó snjódreifar og skaflar og staðbundinn renningur. Sá snjór sem var á jörðu var litaður af þeim jarðefnum sem hvassviðri undanfarinna daga hafði þeytt yfir. Þegar kom sunnar var næsta snjólaust.

Suður
með
Skaftárjökli
og
Síðujökli
Gísli
Gisli
Við ókum sem leið liggur frá Sjónaukanum þvert yfir fremri Skaftárbotna. Í krikanum milli Skaftárjökulsins og Síðujökulsins er mikið fjall sem Jóhann Ísak nefnir Gísla.
Magnað
land
Leiðin liggur meðfram jöklinum og sér yfir miklar sléttur til Fögrufjalla. Þegar blæs á þessumslóðum síga þau glæsilega inn í mistur - og svo var og nú. Einnig sér niður í úfið og groddalegt Skaftáreldahraunið sem er svo erfitt yfirferðar að hvergi ekur maður eins hægt og í gegnum það þrátt fyrir að þar er ruddur slóði.


Útsýni vestur til Fögrufjalla
 

Suður Fljótsoddann Undir Sidujokli
Fljótsoddinn er milli jökulsins og Skaftáreldahraunsins og er allnokkrir kílómetrar á breidd. Þetta er mikill vatnavegur þótt lítið sé um ár og læki á þessum árstíma. Rásóttir og grófir melar eru víða harðir undir hjól. Þetta er allt eitt malarsvæði þar sem vötn byltast um á ýmsum árstímum - en lítið á þessum tíma.
Fremrieyrar

Hvitaskyggni
Hvítaskyggni

Suður á fellið Fremrieyrar
Fylgt var slóðum og farið niður að Hverfisfljótsdrögunum. Þar var stefnt vestur á Fremrieyrar. Farið var yfir safnlænur Hverfisfljótsins á ísum þar sem þær renna í vestur og safnast svo í kvísl sem rennur aftur austur með norðurenda Fremrieyra. Komið var að henni opinni við norðaustur horn Fremrieyra þar sem hún sveigir inn i apalhraunið sem er aldeilis ófært yfirferðar. Þar er svæði þar sem sandar eru að lænunni beggja megin og af þeim má aka án vandræða upp í afréttarslóðana í fellinu.
Miklafell
Kirkju-
bæjar-
klaustur
Drjúglangt
Það er drjúglangt og mjög seinfarið að aka frá Fremri eyrum niður að Miklafelli. Sums staðar hefur ýtu verið beitt til að laga hraunið en annars staðar er slóðin óglögg. Hún kemur á slóðina frá Miklafelli í Blæng. Samt var hún áfram oft óglögg enda víða snjór í skjólunum og myrkur skollið á.

Miklafell
Við vorum við Miklafell klukkan 18 og stóðum þar við í hálftíma að sinna bílunum. Skálinn er alltaf jafn aðlaðandi og vistlegur og þótt hann sé ekki gefinn upp fyrir nema 16 eða 18 manns - ef ritari man rétt - hafa þar fleiri sofið og sumir á gólfum.

Kl. 20
vorum við á Þjóðveginum við Orrustuhól og stuttu síðar í Kirkjubæjarklaustri.

Fyrir 24 Til Reykjavíkur
vorum við komin fyrir miðnættið.
Tókst
vel til
Góð ferð
Þetta var mjög góð ferð. Veður og færð fléttuðu okkur margvísleg verkefni og stundum vorum við ekki viss um hvernig til mundi takast. Við vorum heppin með ákvarðanir, nutum góðs húss undir Mosahnjúki og fengum svo gott færi um Breiðbak og suður með Vatnajökli að ekki verður á betra kosið.
Stórkostleg
leið ferluð
Síðla hausts - en
Þetta er leið sem ekki er unnt að fara meðan sumarvatn er í Skaftá. Þá er vatnsmagn hennar margfalt á við það sem er á hausti og köldum vetri og ekki einu sinni ráðlegt að vaða hana til að leita vaðs. Rætt hefur verið um að taka Skaftá inn í Langasjó til að stemma stigu við sandroki eftir Skaftárhlaup. Ef til þess kemur er líklegt að hún verði brúuð þarna uppfrá og þá opnast þessi leið á sumrin fyrir lítið breytta bíla. Þá er sjálfsagt að fara með veghefil og ýtu eina ferð til að laga hana á nokkrum stöðum. Það mundi duga til að gera hana að fjölfarinni ferðaleið bæði með Íslendinga og ekki síður með erlenda ferðamenn.

Leiðin er glæsilegt framhald af leiðinni suður Vonarskarð í Jökulheima.

Kærar
þakkir
Vanir menn
Svona ferð tekst því aðeins vel að hópurinn sé samstilltur og skjótur til gagnkvæmrar aðstoðar. Þannig var þessi hópur.

Enn eitt ævintýri
Allar ævintýraferðir eru farnar til að skoða náttúruna í blíðu og stríðu og njóta þeirra litauðugu brosa sem sólin sendir okkur á hinn tröllvaxna leikvang öræfanna og sjónarspils tungls og stjarna og norðurljósa á næturhimni. Góðar ferðir þétta hópinn og endurnýja kraftana sem við þurfum til að takast á við venjuleg viðfangsefni okkar daglega lífs.

Spennandi og skemmtileg ferð
Þetta var góð ferð og jafnframt góð þjálfun fyrir næsta skipti þegar við förum á stjá til að kanna nýja stigu.

Bestu þakkir
Ritari þakkar ferðafélögunum hjartanlega fyrir samfylgdina.

Efst á þessa síðu * GÓP-fréttir-fréttir * Forsíða * Ferðatorg * Ferðaskrá * Vaðatal