Forsíða


(
talning frá
júlí 2002)

Tölvukennsla í kjarna við MK 1975-2000

Yfirlit
yfir fyrsta aldarfjórðung tölvukennslunnar

1975-80

Forritun
í
valnámi

Það mun hafa verið á árinu 1975 að hafin var kennsla í forritun á Canon 1614P. Þetta var í kjölfar þess að við MH hafði verið tekin upp kennsla í forritun til undirbúnings forritunarnámi í háskóla. Þessi kennsla þróaðist yfir í kennslu í forritunarmálinu Fortran sem notað var á tölvu háskólans og í Reiknistofu HÍ voru forritin svo keyrð.

Frumkvæðið að þessari nýjung hafði kennari við skólann, verkfræðingur sem hafði numið forritun við háskóla.

Rök fyrir þessari nýjung voru ekki langsótt. Forritun var að verða áberandi námsgrein við háskóla. Það var því sjálfgefin nauðsyn fyrir MK að veita nemendum sínum færi á undirbúningi undir það nám svo að þeir stæðu þar jafnfætis nemendum frá öðrum framhaldsskólum.

Kennsluefni þurfti ekki langan samningstíma. Taka mátti einföld byrjunaratriði og verkefni úr háskólanáminu og fella að getu nemendanna.

Aðgangur að náminu var í raun öllum opinn en nokkuð sjálfgefið var að þetta væri raungrein og jafnvel stærðfræðigrein og það hefur skammtað sumum nemendum meiri dirfsku til að skrá sig til námsins. Forritunarnámið var í framboði sem frjálst val fyrir nemendur á þriðja og fjórða námsári. Í skólanum voru liðlega 250 nemendur og til námsins skráðu sig nægilega margir til að áfanginn var kenndur. Fjöldi nemenda í valáföngum í forritun gat verið á bilinu 10 - 16 á námsári.

Mat var sífellt lagt á námið frá sjónarhóli skólans og kennarans og einnig með samskiptum við þá nemendur sem stundað höfðu námið og fóru síðan til tölvunarnáms í háskóla. Lagfæringar og endurbætur miðuðu að því að búa nemendur sem best undir að hefja háskólanám í forritun.

1980

1982
PC =
ein-
mennings-
tölvan

pésinn

Tölvan með skjánum
Haustið 1980 var keypt til skólans fyrsta tölvan með skjá. Tveimur árum síðar blandaði IBM sér í tölvuframleiðsluna og setti á markað það sem þeir nefndu Personal Computer - eða PC. Síðan hefur þessi gerð tölva verið kölluð einmenningstölva sem gefur til kynna að tölvan er ætluð einum gagnstætt því sem tíðkast um stórtölvur háskólanna sem hakka í sig verkefni sem margir og ólíkir aðilar bera að þeim.

Pésinn (PC-inn) breytti auk þess landslaginu í tölvuheiminum. Áður hafði hver framleiðandi haft sinn eiginn staðal en nú varð pésinn að staðli. Það opnaði forriturum möguleika á að skrifa hugbúnað fyrir stærri markað. Þar með fóru að birtast hin viðameiri notendaforrit fyrir ritvinnslu, töflureikning, gagnagrunna og bókhald.

1982:
tölvunám
í
kjarna
Aðlaðandi viðmót tækisins og stöðug svör þess á skjáinn gerðu það strax að verkum að stærri hópur einstaklinga í þjóðfélaginu og nemenda sérstaklega taldi sig geta ráðið við að stýra þessu forvitnilega tæki. Fjölmiðlar lofuðu möguleika þess til að leysa hinar ólíku þrautir og viðfangsefni. Enn voru þó engin notendaforrit til og kennd var einföld forritun til undirbúnings fyrir forritunarnám í háskóla. Á þessum árum var nokkuð um það að stúdentar frá skólanum færu strax í forritunarstörf og ílengdust þar.

Þrýstingur á frekari þróun í kjölfar hinna viðmótsþýðu skjátölvu kom hvaðanæva úr samfélaginu. Fjölmiðlar kynntu efnið, foreldrar töldu margir eðlilegt að tölvur væru kynntar í skólum og þeir sem þekktu meira til tölvunotkunar töldu ljóst að tölvur yrðu að vera handgengnar öllu háskólafólki á tillits til námsgreina. Þar var hugsað til þess að innan allra fræðigreina eru viðfangsefni af slíkum stærðargráðum og þeim flækjustigum að þau eru afar torveld viðfangs með eldri aðferðum en verða auðleysanleg með tölvum.

Tækjaskortur eða fjárskortur framhaldsskólanna gaf þeim ekki möguleika á að fjármagna tölvukaup í neinum mæli. Það var því ekki mögulegt að stefna að kennslu fyrir alla nemendur þannig að þeir gætu hver haft sína tölvu.

Almenn forritunarhugsun var þó komin á kennslubókarform og haustið 1982 voru öllum nemendum fyrsta árs kennd frumsporin í þeim efnum. Það voru 75-80 nemendur.

Mat á árangrinum var sífellt í gangi meðal kennaranna og þótti ljóst að einungis hluti nemendanna næði nytsömu taki á þessari grein að óbreyttu.

1983

Þróun
og
samráð

Forritun aðeins á tölvubraut

Þróun þess námsefnis sem ætlað var öllum nemendum í grunnnámi varð strax með þeim hætti að draga úr forritunaráherslunni. Skólaárið 1983-4 var enn örlítið innlegg um tilurð og galdur tölvunnar og forritunarhugsunina. Strax á næsta ári hvarf þetta út og námsefnið fjallaði eingöngu um notkun tilbúinna forrita til ritvinnslu, töflureikninga og gagnageymslu. Þar með hafði kennsla í forritun verið færð alfarið í valáfanga og í nám á tölvubraut sem ætluð var til undirbúnings fyrir frekara nám í tölvunarfræðum í háskóla.

Frumkvæði og þróun námsefnis var í höndum tölvukennara sem voru í sífelldu kapphlaupi að kynna sér sínýja hluti á þessum vettvangi. Stórkostlegar hugmyndar síðasta árs voru löngu foknar á ruslahauga tölvusögunnar áður en næsta skólaár hófst. Þannig fór einnig fyrir þeim notendaforritum sem kennd voru. Iðulega voru svo þau forrit sem notuð voru aftur næsta árið komin í nýjan búning þannig að kennsluefni síðasta námsárs var ófullnægjandi.

3F - Félag tölvukennara var stofnað haustið 1982 og tengdi saman þá kennara í framhaldsskólunum sem voru samstiga í þessu mikla boðhlaupi. Á tölvukynningum og sýningum hittust þessir kennarar og báru saman bækur sínar. Þjóðfélagið er lítið og þessir kennarar komu víða við í því þannig að þeir fylgdust náið með því sem var að gerast.

1986

Hvað
var að
gerast
annars
staðar?

Samanburður við önnur lönd

Þessa tölvunýjung í námskrá MK er fróðlegt að skoða í samanburði við það sem um sömu mundir var verið að gera í öðrum skólum og í öðrum löndum. Til þess gafst tækifæri í mars vorið 1986.

Fulltrúar frá menntamálaráðuneyti, Háskóla Íslands, Námsgagnastofnun og Bandalagi kennarafélaga fóru á ráðstefnu í Stokkhólmi sem sænska menntamálaráðuneytið bauð til undir yfirskriftinni: Dataprogram i utbildningen. Þarna voru saman komnir fulltrúar og kennarar frá öllum Norðurlöndunum og fyrirlesarar voru 5. Þeir komu frá Skotlandi, Bandaríkjunum, Frakklandi, Kanada, Englandi, Norður-Írlandi og Wales. Markmið ráðstefnunnar var að leiða fram það sem verið væri að gera í tölvukennslu þar sem hún væri lengst á veg komin og auðvelda samnýtingu þeirrar þekkingar milli landa - einkum milli Norðulandanna.

Á ráðstefnunni kom í ljós að allar þjóðirnar höfðu byrjað sína tölvukennslu með sama hætti og hún hafði síðan þróast hjá þeim á sama veg. Allar frásagnirnar voru á sömu lund og hér að frman hefur verið lýst frá þróuninni við MK. Sumar voru komnar ögn lengra en aðrar. Þróunin við MK hafði þá skilað tölvukennslunni í fremsta flokk í þessum samanburði. Er þá miðað við greinargerð fulltrúanna sem fóru frá Íslandi.

1999

Staða
tölvu-
námsins
í dag,
13.11.99

Um þörfina fyrir tölvunám
Verkefnaskila er nú í öllum greinum krafist á tölvutæku formi sem merkir að sá sem tekur við efninu vill geta skoðað það í tölvu. Þetta merkir að nemandanum er ekkert undanfæri að afla sér þeirra þekkingar sem til þess þarf. Störf í þjóðfélaginu eru nú tölvutengd í miklum mæli, hvort sem um er að ræða á skrifstofu eða lager. Það er því nauðsynlegt fyrir nemendann að kunna eitthvað fyrir sér á tölvu - og að minnsta kosti vera tilbúinn til að læra að nota fyrirtækisforritið þegar hann kemur þar. Framhaldsnám krefst tölvukunnáttu bæði við námið og vekefnaskil. Það má því jafna þörfinni fyrir tölvunám við þörfina fyrir akstursnám á bifreið.

Um innihald námsins
Hvaða ritvinnsluforrit er rétt að kenna? Hér hefur orðið ofan á sú sýn að nemandinn er búinn undir starf á almennum vinnumarkaði. Svo vill til að þar er eitt ritvinnsluforrit öðrum útbreiddara og þess vegna er það kennt. Þarna mun koma upp álitamál þegar markaðshlutdeildir jafnast en ef til vill færast hin ýmsu ritvinnsluforrit til þess að verða enn líkari en nú er.
Er hugsanlegt að nemandinn geti notað þetta ritvinnsluforrit til æviloka? Nei. Það er útilokað. Þess vegna er námið ekki fyrst og fremst kennsla í ritvinnslu heldur fyrst og fremst kennsla í því að læra að læra að nota ný notendaforrit. Nemandi sem spyr í þaula fyrsta mánuðinn en skoðar allt sjálfur og prófar sig áfram af handbókarstuddu öryggi þriðja og síðasta mánuð áfangans sýnir það atferli sem kennslunni er ætlað að stuðla að.

Um þörfina fyrir námið innan framhaldsskólans
Hugsanlegt er að unnt sé að kenna nægilega notkun ritvinnslu í grunnskóla. Einnig er ljóst að öllum er unnt að kaupa sér slíkt nám í einkaskóla. Það gera menn þegar þeir taka bílpróf. Það er þó ekki auðvelt að rökstyðja að færa þetta nám út úr hinu almenna skólakerfi.

Um forþekkingu nemenda
Fyrir 15 árum hafði einn og einn nemandi ögn kynnst tölvum áður en hann hóf nám í framhaldsskóla. Í dag er það einn og einn sem ekkert hefur snert á tölvu - en allir vita þó heilmargt um tölvur.Tölvuþekking er auk þess þannig að einn veit þar meira um eitt heldur en annar. 16 ára nýnemar vita því margir meira um tiltekið tölvuefni heldur en kennarinn, þótt kennarinn vita meira en nemendurnir í sjálfri kúnst ritvinnsluforritsins.

Mat á tölvunáminu má setja fram út frá nokkrum sjónarmiðum. Námsefnið og vægi námsins er svipað og í öðrum framhaldsskólum. Leikni nemendanna sýnir sig nokkuð þegar þeir koma í tölvuver skólans að skrifa ritgerðir og hvers kyns samantektir eftir að tölvunáminu lýkur og þegar þeir sækja tölvustærðfræði í skólanum. Þar sýnir það sig að þekking þeirra er ekki nægileg á töflureikningsforritinu sem kennt er og taka þarf tillit til þess.

Enginn vafi er á að leikni nemendahópsins vex verulega þegar þeir stunda ritvinnslunámið. Það er metið hjá hverjum og einum sérstaklega með munnlegu prófi og samræðum við verkefnaskil því námið er að öðru leyti próflaust.

2000 ?

Hvert
stefnir?

Hver
stýrir?

Hver
drífur?

Hvað tekur við?
Hver verður þróunin í tölvukennslu við framhaldsskólana? Ljóst er að almennt skyldunám mun aðeins taka til leiknilærdóms á almenn skrifstofuforrit eða aðra almenna nytsemispakka sem enginn getur séð fyrir hverjir verða. Sérstök námskeið eins og um samsetningu tölva úr tölvuhlutum, mælingar með tölvum, textarannsóknir, miðlun til samfélagsins, notkun sérhæfðra forrita eftir fræðigreinum eða áhugasviðum munu fylgja viðkomandi námsgrein og fara fram undir handarjaðri þess kennara. Sennilega mun til koma aðstoð tölvukennara vegna þess að stjórnun tölvunnar og uppsetning notendaforrita er einnig sérhæft úrlausnarefni sem ekki verður á færi hvers kennara.

Tölvuvæðingin er rétt að byrja
Svo virðist sem tölvuvæðingunni sé að ljúka. Tölvur eru alls staðar og sumir eru að kaupa sína þriðju eða sjöttu tölvu. Þrátt fyrir það er þó trúlegra að tölvuvæðingin sé í upphafsstöðu. Reikniaflið margfaldast. Þessi texti er skrifaður á 5 ára gamla tölvu sem var í fararbroddi á sínum tíma. Nú er boðuð tölva á vormánuðum með tvítug-földu reikniafli. Við slíkar aðstæður breytast allar viðmiðanir. Það munu koma ný forrit sem gera að leik það sem engum datt áður í hug að yrði gerlegt. Hvað það verður veit nú enginn - vandi er um slíkt að spá ...

Hverjir þróa tölvunámið?
Ef þróun tölvukennslunnar verður með sama hætti innan MK og verið hefur undanfarinn 25 ár heldur boðhlaupið áfram. Kennarar tölvudeildar keppast við að afla sér upplýsinga, læra sjálfir og þróa kennslu og kennsluefni til nytsemdar fyrir nemendur. Ef þróunin verður hins vegar færð til útaðila svo sem menntamálaráðuneytis eða sérstakrar stofnunar verður staðan önnur - og kennurum sjálfsagt hægari. Þeim útaðila verður þá ætlað að sjá fyrir nýjum hugmyndum, námsefni og námskeiðum fyrir kennara. Drifkrafturinn verður þá færður út úr skólanum.

Tölvu-
braut
Nám á tölvubraut
Í þessu yfirliti hefur verið lýst þróun skyldunáms í tölvunotkun við MK en þess utan hefur nám á sérstakri tölvubraut verið í boði frá 1983.

Efst á þessa síðu * Forsíða