GÓP-fréttir
forsíða



Til baka
í ritstörf
Péturs

Þorri og Góa

Samtalsþáttur fyrir tvær persónur
eftir Pétur Sumarliðason -
samið í FLjótshlíðarskóla 14. mars 1950.

Þátturinn var fluttur
á Góuskemmtun Kvenfélags Fljótshlíðinga
í samkomuhúsinu Goðalandi - sem þá var nýreist og tekið í notkun -
á Þorraþrælmum 1950.
Þorri leikinn af Oddgeiri Guðjónssyni í Tungu.
Góa leikin af Ástu á Torfastöðum.

* Þorri: (Kemur inn á sviðið búinn hríðarúlpu. Buxur gyrtar í brækur. Skinnskór. Skeggjaður. Lambhúshetta á höfði. Í hendi birkilurkur mikill. Þrammar fyrst um sviðið. Púar og lemur lurknum niður.)

Hér hef ég aldrei fyrr komið og veit ég eigi hvaða herjans vættir hafa villt um Góu er hún boðar mig hingað til einmælis. Höfum við um allar Íslandsaldir hist í Þórsmörk og þar hefi ég af völdum látið - en síðan éljaboð þegið að Goðalandi með heiðnum vættum Fljótshlíðinga.

Mun þetta vera einn hinna nýju siða er um land fara og er það Góu líkt að elta ósiðu slíka.

Man ég þá tíð að mér gaman þótti að þyrla fjúkinu um vanga Hlíðarmanna þá er þeir uppi voru Gunnar og Kolskeggur.

(Mæðulega -) En nú er öld snúin. Nú þjóta menn um á reykspúandi ófreskjum. Halda nú þessi mannkríli að þeir öllu ráði.
Ha - ha - ha. Þeir sáu það samt í fyrra hvort eigi gat ég þeim skráveifu gert - þótt þeir göldróttir séu. - - En of stutt var það gaman - -því var verr. Ég er orðinn svo undarlega úthaldslaus - og gerist ég víst gamall.
Væri ég næstum feginn hvíldinni - ef eigi væri Góa svo mikillát.

(Ergilega - ) Verður mér alltaf skapfátt er ég sé hana. Hversu lengi skyldi hún ætla mér að híma hér í ólykt og mannaþef?

* Góa: (Hún er búin íslenska skautbúningnum. Ung, hress, rösk, skaphörð og gefur hvergi eftir.)
Heill og sæll, Þorri. Þá hittumst við hér.
* Þorri: (Horfir mjög á hana - hátt og lágt) Hvað er nú að sjá? - Þú ert bara skartbúin. Þú heldur þig víst vera einhverja sumardís. (Hlær) Ha - ha! Góa sumardís, - - sumardís!
* Góa: Eigi þarftu að hæðast að klæðum mínum. Er ég búin til mannfunda. Því stefndi ég þér hingað að hér koma héraðsbúar saman og fagna komu minni. Þykir mér eigi annað sæma en mæta hér. Svo haldast gamlar venjur best í heiðri að þær séu eigi afræktar. Eigi varst þú svo vel siðaður að þú mættir til boðs er bændur héldu sitt þorrablót. Og vita mættir þú hvað staður sá heitir er vér nú stöndum á. Heitir hann Goðaland eftir okkar forna mótsstað. Finnst mér því rétt og skylt að við hittumst hér. Má og eigi minna vera en við sýnum að við kunnum að meta hvað vel er gert.
* Þorri: Mér þykir þú ærið skrafmikil og orðdrjúgt verður þér um mennina. En satt er það - að vel er þá fornir siðir eru í heiðri hafðir og önnur var mín ævi er menn riðu um héruð til Þorrablóts. En því mætti ég ekki hér til mannfagnaðar - að mér var eigi boðið, en komið hefði ég samt ef fundið hefði nokkurn þef af hangikjöti.
* Góa: Nú er lágnætti og ber þér burt að hverfa. En þó vil ég bjóða þér til veislu hér í kvöld. Skulum við dulbúast og horfa á hversu Fljótshlíðingar skemmta sér. - Hver veit nema einhver laumi að þér sauðarlæri - vel reyktu.
Skulum við nú sleppa öllum ýfingum og horfa á hversu þessi nýja kynslóð fer að leikum.
* Þorri: Ólík ertu nú sjálfri þér, Góa. Hefur þú oftast verið kvenna örgust í orðum. En vel er boðið og er sæmd að þiggja en fyrst verð ég að vitja Þórsmerkur og fá mér önnur klæði. Nú er mínum veldistíma lokið og þú við tekin. Hverf ég því á brott. Hittumst heil að blóti.
* Góa: Þá ræð ég enn ríkjum, - en eigi skal um það hugsa í kvöld. Kalt er mér orðið og vil ég ganga í mannfagnaðinn og vita hvort enn finnst ylur nokkur á Fljótshlíðarsveinum. Á morgun er nýr dagur. Þá skulu þeir fá að reyna - - að marglynt er meyjargeð.
*

(Tjaldið)

GÓP-fréttir - forsíða * Efst á þessa síðu * Til baka í ritstörf Péturs