GÓP-fréttir
forsíða 

Sögukarlinn

Leikþáttur fyrir heilan bekk
eftir Pétur Sumarliðason
saminn um 1958

Til baka
í ritstörf
Péturs

Pétur setti saman sýniþátt fyrir heilan 12 ára bekk að koma fram á sviði.

Aðrir kennarar fengu einnig að nota þáttinn og voru þá stundum fleiri í þeirra bekkjum en þá bætti Pétur við persónum eftir þörfum.

Hér er ein útgáfan með 30 persónum.

Athugaðu
að þér er heimilt að nota þessa hugmynd og þennan texta
ef þú lætur þess getið hvaðan hann er fenginn og hver höfundurinn er.

* (Sviðið: Baðstofa, gluggi á stafni, rúm til hægri undir súð. Brekán á rúminu - t.d. Álafossteppi. Borð fremst á sviðinu og tveir stólar sinn hvorum megin. Leikurinn hefst í ljósaskiptunum, amma situr á rúminu sínu og prjónar. Tvö börn um tólf ára aldur sitja við borð og spila á spil.)

Amma: (Klædd í pils og svuntu - búning frá um 1920. Skakki - þ.e. þríhyrna, oft með kögri - um herðar og bundið að aftan. Leggur frá sér prjónana.) Jæja, börnin mín. Nú ætla ég að fá mér svolítinn lúr þangað til kveikt verður. Þið ættuð að leggja ykkur líka fram í hornið ykkar.

Högni: (Nútímabúinn.) Segðu okkur heldur sögu, amma.

Gunnvör: (Nútímabúin.) Já, amma, gerðu það. Hún má vera stutt.

Amma: (Leggst upp í rúmið og hreiðrar um sig.) Æ-i nei, börnin mín. Ekki í þetta sinn. Þið getið spilað á meðan þið sjáið til en svo skuluð þið fara og kúra í horninu ykkar. (Hlúir betur að sér og sofnar.)

* Högni: Ég vildi að amma væri ekki svona lasin. Það er orðið svo langt síðan hún hefur sagt okkur sögu.

Gunnvör: Manstu, Högni, eftir sögunni sem hún sagði okkur einu sinni. Hún var um gamlan karl sem kunni svo mikið af sögum?

Högni: Já, Sögukarlinn. Og þegar hann sagði frá, var eins og hann talaði ekkert - það sást bara allt fólkið sem hann sagði frá, næstum því eins og í bíó.

Gunnvör: Amma sagði að hann væri alltaf á ferðinni hingað og þangað en enginn vissi hvenær hann kæmi og ekki heldur hvar hann ætti heima.

Högni: Ég vildi óska að hann kæmi einhverntíma til okkar. Heldurðu að það væri ekki gaman að læra Íslandssöguna ef hann gæti sýnt okkur allar söguhetjurnar?

Gunnvör: Jú, það væri gaman. Hugsaðu þér ef við sæjum allt í einu Ingólf Arnarson og Hallveigu Fróðadóttur standa hérna á gólfinu hjá okkur.

Högni: Það er víst engin hætta á því. Það var amma hennar ömmu sem sagði henni ævintýrið um Sögukarl og krakkana í heiðinni. Nei, hann hefur ábyggilega aldrei verið til.

Gunnvör: Já, en það væri nú samt gaman ef hann væri til og kæmi hingað.

Högni: Já, en hann er bara ekki til. Sagan hennar ömmu var bara venjulegt ævintýri.

Gunnvör: Mér er alveg sama. Ég hugsa mér að Sögukarl sé til og svo komi hann bara einhvern tímann labbandi hingað inn í rökkrinu og segi okkur sögu.

* (Sögukarl hefur komið inn án þess börnin tækju eftir því og staðnæmst við borðsendann. Hann er bóndaklæddur í mikilli, grárri skikkju.)

Sögukarl: Rétt hjá þér, telpa mín. Maður á alltaf að trúa sögunum hennar ömmu, því sjáðu bara - hér er ég, bráðlifandi, alveg eins og hún amma þín sagði, og nú ætla ég að vita hversu vel þið kunnið Íslandssöguna ykkar.
Ég ætla að lofa ykkur að sjá svolítið inn í fortíðina, en þið verðið að þekkja hvern mann á því sem hann segir eða gerir. Takið eftir þessu: - sem hann segir eða gerir. Viljið þið ganga að því?

Bæði börnin: Já, já. Nú verður gaman!

Sögukarl: Jæja. Nú skulum við laga svolítið til. (Þau færa borðið til hliðar og stólana. Börnin standa aðeins til vinstri á sviðinu og Sögukarl að nokkru á bak við þau.)
Svona, nú getum við byrjað og nú skuluð þið hafa alveg hljóð. (Svolítil þögn. Sögukarl veifar hendinni og segir:) Sjáið.

* (Heppilegt er að raða myndunum upp í tvo flokka, H og V, eftir því hvorum megin þær skulu koma inn á sviðið. Þær staðnæmast allar á miðju sviði, framan þeirra sem komnar eru. Þaðan stíga þær fram og segja setningu eða sýna framkvæmd en stíga svo til baka aftur og þokast síðan til sömu hliðar í myndaröðinni og þær komu frá.
Frá vinstri koma þrír menn inn á sviðið: Ari fróði, Snorri Sturluson og Sturla Þórðarson. Staðnæmast á miðju sviði. Örlítil þögn. Stíga eitt skref fram um leið og þeir segja hver sína setningu í sömu röð og þeir komu inn.)
* Ari fróði: (Gráleitar buxur. Kyrtill bláleitur, belti laust yfir kyrtilinn. Höfuðband. Engin vopn. Skegglaus.) Íslendingabók gerði ég fyrst biskupum vorum, Þorláki og Katli og sýndi bæði þeim og Sæmundi presti. En hvað missagt er í fræðum þessum þá er skylt að hafa það heldur er sannara reynist. (Stígur eitt skref aftur á bak.)

Snorri Sturluson: (Skeggjaður. Síð skikkja fest með stórum kyngjum að framan. Skarlatsband.) Heyra má ég farbann konungs en út vil ég.

Sturla Þórðarson: (Bláar brækur. Stuttfeldur rauður bryddaður hvítu eða bláu. Höfuðband. Með skegg yfir vörum.) Minnast má ég þess er Magnús konungur mælti til mín forðum: "Það ætla ég að þú kveðir betur en páfinn".

Sögukarl: (Snýr sér að börnunum.) Jæja börnin mín, þekkið þið þessa menn sem þið sjáið hérna?

Gunnvör: Já, já. (Bendir á Ara.) Þetta er hann Ari fróði Þorgilsson og hann fór með upphafið að Íslendingabók.

Högni: Og þetta er hann Snorri Sturluson. Það var Hákon gamli sem bannaði honum að fara til Íslands - en hann fór nú samt.

Gunnvör: (Bendir.) Þetta er hann Sturla Þórðarson sem skrifaði Sturlungu.

Sögukarl: Alveg rétt, börnin mín. En athugið nú vel hverjir þarna koma.

* (Frá hægri koma Njáll, Bergþóra, Skarphéðinn og Kári og taka sér stöðu eins og þeir þrír sem á undan komu. Örlítil þögn.)

Njáll: (Fölleitur, skegglaus, stutthærður sem mest - svo til sköllóttur: silkisokkur yfir hárið og með höfuðband. Bóndabúningur. Stígur fram.) Eigi vil ég út ganga því ég er maður gamall og er ég lítt búinn að hefna sona minna, - en eigi vil ég lifa við skömm. (Stígur inn í röðina aftur.)

Bergþóra: (Fasmikil. Dökkklædd. Höfuðslæða þétt að höfði. Stígur fram.) Ég var ung gefin Njáli. Hefi ég því heitið honum að eitt skyldi yfir okkur bæði ganga. (Stígur inn í röðina aftur.)

Skarphéðinn: (Bóndaklæddur. Dökkur í andliti. Höfuðatriði hans í myndinni er öxin og hvernig farið er með hana. Gengur inn á sviðið með öxina reidda um öxl. Styðst síðan við hana þannig að axareggin veit fram. Nú lyftir hann öxinni og lítur í eggina. Stígur fram.)

Hvað er nú, öx mín?
hitnar þér nokkuð?
Þú skyldir eigi
svo þurrmynt vera
væri í annað
en eld að bíta.

(Stígur inn í röðina.)

Kári: (Ljós í andliti. Búningur léttur - t.d.: brækur bláar, rauður kyrtill. Blátt belti og höfuðband. Stígur fram, lyftir sverðinu og lítur í eggina.) Dignað hefur brandurinn en hertur mun hann verða í blóði þeirra Sigfússona. (Stígur inn í röðina.)

Sögukarl: (Hefur staðið til hliðar en snýr sér nú að börnunum.) Jæja, Högni minn. Þekkirðu nú einhvern af þessum mönnum?

Högni: Já, það held ég nú. (Bendir.) Þetta er Njáll á Bergþórshvoli þegar hann svaraði honum Flosa á Svínafelli.

Gunnvör: (Tekur í Högna.) Sjáðu! Þetta er hún Bergþóra. Hún neitaði að ganga út.

Högni: (Hreykinn og ákafur.) Sko, - þarna er Skarphéðinn með öxina Rimmugýgi.

Gunnvör: Já, og þarna er Kári Sölmundarson. Hann var sá eini sem komst úr brennunni.

(Myndin þokast aftar á sviðið til hægri.)

Sögukarl: (Veifar hendinni.) Kannist þið við þessa konu?

Hildigunnur: (Kemur inn frá vinstri klædd serk og bol í lit. Hún stígur fram.) Þessa skikkju gafst þú, Flosi, Höskuldi og vil ég nú gefa þér aftur. Var hann í henni veginn.

Högni: (Ákafur.) Já, ég veit hver þessi kona er. Þetta er hún Hildigunnur. Hún sagði þetta við Flosa á Svínafelli.

* (Sögukarl veifar hendinni.)

Guðrún Ósvífursdóttir: (Kemur inn frá hægri klædd serk og litbol með slæðu yfir herðar og hanga endarnir lausir fram á barminn. Stígur fram.) Eigi gekk Hrefna hlæjandi í sængina forðum, - en þeim var ég verst er ég unni mest.

Sögukarl: Hver var þessi kona?

Gunnvör: Ég þekki hana. Hún heitir Guðrún Ósvífursdóttir. Það var hún sem lét Bolla drepa Kjartan.

* Sögukarl: Þið kunnið vel söguna ykkar, en nú ætla ég að sýna ykkur dálítið. (Veifar hendinni.) Sjáið.

(Frá hægri koma Gunnar og Hallgerður hlið við hlið. Nema staðar á miðju sviði og taka tal saman.)

Gunnar: (Skartbúinn. Litklæði. Litaðar vefjur um fætur. Brækur litaðar. Kyrtill síður, bryddaður að neðan, í háls og ermar - þ.e. allur gullbaldýraður. Belti er rautt, skikkja síð eða stuttfeldur, tvílitt hvort sem er: annar litur að innan en utan. Má vera vopnlaus. Skarlatsband um höfuð. Hár mikið og ljóst.) Þykir þér hvergi fullkosta?

Hallgerður: (Búin sem næst sínum tíma. Dökkhærð og langhærð. Á rauðum möttli hvítbryddum - samskonar kyrtli karla - ermalaus og fellur yfir axlir. Pils blátt. Rauður bolur.) Eigi er það, en mannvönd mun ég vera.

Gunnar: Hversu munt þú svara ef ég bið þín?

Hallgerður: Það mun þér ekki í hug.

Gunnar: Eigi er það.

Hallgerður: Ef þér er nokkur hugur á þá finn þú föður minn.

(Þau ganga til vinstri í röðina)

Sögukarl: Jæja, hvaða hjón tala saman?

Gunnvör: Þau voru ekki orðin hjón. Þetta er hann Gunnar Hámundarson á Hlíðarenda, nýkominn frá útlöndum, og er að ganga sér til skemmtunar á Þingvöllum og - -

Högni: (Grípur fram í ..) og þarna er hún Hallgerður Höskuldsdóttir, langbrók. Gunnar var eiginlega að biðja hennar.

* Sögukarl: Alveg rétt. En nú kemur margt fólk og efast ég um að þið þekkið það allt. (Hann veifar hendinni.) Komið!

(Frá hægri koma Ásmundur, Ásdís, Grettir og Illugi. Nema staðar á miðju sviði. Örlítil þögn.)

Ásmundur: (Klæddur gráum kyrtli eða grárri peysu. Hærulöng hárkolla. Skeggjaður. Hugsanlegt að hann styðjist fram á krókaspjót. Öllu rýrari en Ásdís. Stígur fram.) Hann mun verða sterkur maður og óstýrilátur. - Þykkjumikill og þungur hefur hann mér orðið. (Stígur í röðina.)

Ásdís: (Pils skósítt, litað. Sjal, má liggja yfir höfuð og með vöngum. Stígur fram.) Farið þið þar, synir mínir tveir, og mun ég hvorugan sjá aftur. Sjáið vel fyrir svikum. Gætið ykkar vel fyrir gjörningum. Fátt er rammara en forneskjan. (Stígur inn í röðina.)

Grettir: (Rauðskeggjaður, rauðhærður, stutthærður. Ekki höfuðband frekar en sýnist. Á engan hátt glæsilega búinn. Móleitur kyrtill með breiðu belti og ef mögulegt er með sax eða spjót, -annars vopnlaus ef vöxtur og útlit nægir til þess. Stígur fram.) Ber er hver að baki nema sér bróður eigi. (Lítur til Illuga og stígur í röðina.)

Illugi: (Unglegur. Dökkhærður. Búningur á engan hátt glæsilegur en þó létt yfir honum. T.d.: kyrtill ljósleitur, belti, gyrtur sverði eða gengur við spjót. Stígur fram.) Skjótt er að svara að enginn skal yður óþarfari en ég, ef ég lifi. Kýs ég miklu heldur að deyja. (Fer í röðina.)

Sögukarl: Jæja, Gunnvör litla. Veistu hver þetta er? (Bendir á Ásmund.)

Gunnvör: Það er hann Ásmundur hærulangur - -

Högni: (Grípur fram í - bendir ..) og þarna er Ásdís á Bjargi. Hún sagði þetta þegar hún kvaddi syni sína sem hún sá aldrei aftur.

Gunnvör: (Áköf og bendir.) Þarna er Grettir Ásmundsson sem lengst hefur verið sekur maður á Íslandi.

Högni: Og þetta er Illugi, bróðir hans. Hann vildi heldur deyja en lofa því að hefna ekki Grettis.

Sögukarl: Það eru ekki margir sem kunna svona vel Íslandssöguna sína. En tíminn líður og nú skuluð þið vera fljót að svara. (Veifar hendinni.)

* (Frá hægri kemur Helga fagra með skikkju í hendi. Hún er ljós yfirlitum, síðhærð, búin rauðri blússu undir upphlut. Skikkjan má vera rautt teppi faldað ljósu. Helga er ekki skrautbúin - bóndakona Þorkels í Hraundal. Hún staðnæmist á miðju sviði, sest á hækjur sér, rekur skikkjuna, fer höndum um hana, vefur saman, stendur upp. Gengur í röðina til vinstri. Örlítil bið.)

Gunnvör: (Bendir.) Þetta er hún Helga fagra sem þeir Hrafn og Gunnlaugur börðust um. Hún andaðist með skikkju Gunnlaugs á hnjánum.

(Sögukarl veifar hendinni. Frá hægri kemur Melkorka inn klædd dökku pilsi og lituðum bol og með skakka. Vinnuhjú með reisn.)

Melkorka: (Stígur fram.) Mýrkjartan heitir faðir minn. Hann er konungur á Írlandi. Ég var þaðan hertekin fimmtán vetra gömul. (Stígur aftur í röðina.)

Högni: Þetta er Melkorka, móðir Ólafs pá. Höskuldur hélt að hún væri mállaus en svo heyrði hann einu sinni að hún var að tala við son sinn úti í hvammi í túninu.

* (Sögukarl veifar hendinni. Frá hægri koma Gísli Súrsson og Auður Vésteinsdóttir. Gísli er með alvæpni. Ristir rúnir á kefli og tálgar svo stóra spæni að sjáist falla. Klæddur þokkalegum bóndaklæðnaði. Þau staðnæmast á miðju sviði. Ganga svo til vinstri í röðina.)

Auður: (Klædd dökku pilsi, lituðum bol og með sjal. Stígur fram.) Engin von var þér þess að ég myndi selja bónda minn í hendur illmenni þínu. (Stígur aftur í röðina.)

Sögukarl: Hver eru þessi hjón?

Gunnvör: Þetta er hann Gísli Súrsson. Hann var á leiðinni í felustaðinn sinn og skar rúnir á kefli en Eyjólfur grái rakti slóð hans í dögginni - -

Högni: (Strax ..) og þetta er konan hans, hún Auður Vésteinsdóttir. Það var hún sem sló silfrinu á nasir Eyjólfi gráa.

* (Sögukarl veifar hendinni. Egill Skalla-Grímsson kemur inn frá hægri og staðnæmist á miðju sviði. Hann er grábúinn að ofan - t.d. peysa. Heldur á öxinni í hendi en sverði við hlið. Styðst fram á axarhyrnuna. )

Egill Skalla-Grímsson: (Stígur fram og mælir hátt og snjallt)

Vestr fórk of ver
enn ek Viðris ber
munstrandar mar.
Svá's mitt of far.
Drók eik á flot
við ísabrot.
Hlóðk mærðarhlut
hugknarrar skut.

(Gengur í röðina til vinstri.)

Gunnvör: Þennan mann þekki ég. Þetta er hann Egill Skalla-Grímsson. Ég veit líka hvað það var sem hann fór með. Það er fyrsta erindið í höfuðlausn sem hann kvað fyrir Eiríki konungi.

(Sögukarl veifar hendinni. Frá hægri kemur Þorgerður Egilsdóttir rösklega og ákveðið. Hún er vel en látlaust búin. Í upphlut og jafnvel í lituðum, þokkalegum skósíðum kyrtli eða bol.)

Þorgerður: (Stígur fram og segir rösklega og með hita.) Nú höfum við verið svikin, faðir minn, því mjólk er þetta en ekki vatn.

Gunnvör: (Áköf.) Þessa konu þekki ég, Sögukarl. Þetta er hún Þorgerður Egilsdóttir. Hún lét færa sér mjólk í staðinn fyrir vatn þegar Egill ætlaði að svelta sig í hel, - en svo drakk hann mjólkina og -

Högni: (Grípur fram í ..) já, og svo orti hann Sonatorrek.

* Sögukarl: Þetta var rétt hjá ykkur, börnin mín, en nú koma konur sem erfitt er að þekkja. (Veifar hendinni. Ólöf ríka kemur inn frá vinstri. Hún er klædd kyrtli, lituðum bol og í möttli.)

Ólöf ríka: (Stígur fram.) Ekki skal gráta Björn bónda heldur safna liði og hefna. (Stígur inn í röðina aftur.)

Gunnvör: Hvaða kona er þetta, Högni?

Högni: Bíddu við - sú er aldeilis stássleg -

Gunnvör: (Grípur fram í ..) Nú veit ég það. Þetta er hún Ólöf ríka á Skarði. Hún svaraði þessu til þegar henni var sagt að Englendingar hefðu drepið bónda hennar á Rifi á Snæfellsnesi.

* (Sögukarl veifar hendinni. Frá hægri kemur Helga Haraldsdóttir, staðnæmist á miðju sviði.)

Helga Haraldsdóttir: (Á síðum kyrtli, gulum eða bláum, reimuðum bol. Fasmikil, næstum konungleg og djörf í máli. Nokkuð há og grönn en þó kraftaleg. Stígur fram, stoltleg og djörf í fasi.)

Við mig hafði ég Björninn bundið.
Bróður hans var nóg að eggja.
Braust ég yfir bárusundið,
bjargaði lífi sona tveggja.

(Stígur aftur inn í röðina.)

Högni: (tekur í Gunnvöru.) Manstu eftir kvæðinu hans Davíðs? (Bendir.) Þetta er hún Helga Haraldsdóttir sem synti með drengina sína úr Harðarhólma og upp í Þyrilsnesið.

* (Sögukarl veifar hendinni. Frá vinstri kemur Auður djúpúðga rösklega og ákveðið. Dökkklædd, dökkt sjal sem fellur alveg yfir höfuð. Heldur með höndum að brjósti sér. Ef til vill bolur og kyrtill. Dökkur höfuðbúnaður.)

Auður djúpúðga: (Stígur fram.) Eigi vil ég í óvígðri mold liggja, heldur þar er sjór fellur oftast á land, því ég er kona kristin.

Högni: (Bendir.) Sjáðu, Gunnvör, þetta er hún Auður djúpúðga. Hún hélt mikla veislu sem stóð í þrjá daga en svo dó hún þriðja daginn.

* Sögukarl: (Hneigir sig fyrir Auði.) Þið þekkið bara alla sem ég sýni ykkur. Þið eruð nú meira dugnaðarfólkið. En nú má ég víst ekki vera lengur. Þó sýni ég ykkur síðustu myndina í þetta sinn.

(Veifar hendinni. Frá hægri kemur Dalla, hægt og virðulega svo sem hæfir biskupsfrú. Bóndakonubúningur en reisn og þótti í fasi.)

Dalla: (Stígur fram.) Ég hef þann metnað að vilja eiga hinn besta manninn og með honum hinn göfugasta soninn sem á Íslandi mun fæðast og skaltu láta ríða eftir þeim.

Högni: (Horfir á Döllu, síðan á systur sína og svo á Sögukarl.) Hver er þetta? Ég þekki hana ekki.

Gunnvör: Nei, hver er þetta, Högni? Ég þekki hana ekki heldur.

(Myndin þokast til vinstri.)

* Sögukarl: (Með þunga og reiði.) Hvað er þetta. Er svo illa aftur farið kristni í þessu landi að þið þekkið ekki hina fyrstu biskupsfrú landsins. Þetta er ykkur bæði skömm og sneypa og skal ég aldrei koma til ykkar aftur - -
* (Fjallkonan í skautbúningi hefur falist að baki hópnum. Kemur hún fram úr miðjum hópnum er Sögukarl byrjar að tala - án þess að hann eða börnin verði hennar vör. Staðnæmist á miðju sviði, lyftir hendinni og ávarpar börnin þannig að hún tekur fram í fyrir Sögukarli.)

Fjallkonan: Heil og sæl, börnin mín. Mig þekkið þið, er það ekki?

(Sögukarl verður eins og hálfhræddur en börnin svara bæði fagnandi.)

Bæði börnin: Jú, jú! - Þú ert Fjallkonan okkar.

Fjallkonan: Það er rétt, vinir mínir. (Snýr sér að Sögukarli.) En mæl þú ekki fleira, Sögukarl. Þú veist að þú mátt aldrei hætta að segja börnum mínum söguna því - ef sagan gleymist þá týnist þjóðin mín.

* (Myndirnar að baki hafa nú myndað hálfhring á sviðinu. Fjallkonan fremst fyrir miðju. Um leið og hún lýkur máli sínu krjúpa börnin og Sögukarl fyrir framan hana en þó aðeins til hliðar.

Tjaldið fellur.

Sé tjaldið dregið frá aftur hefur hópurinn þokast aðeins framar á sviðið og sitja börnin á gólfinu fremst og Sögukarl á milli þeirra. Að baki þeim stendur Fjallkonan en myndirnar í hálfhring aftan við.)

*

Tjaldið

GÓP-fréttir - forsíða * Efst á þessa síðu * Til baka í ritstörf Péturs