Forsíða
GÓP-frétta


Jón Bjarnason, blaðamaður á Þjóðviljanum:

Minningar
Haraldar Jónssonar prentara

Haraldur Jónsson (f. 18. júní 1888, d. 9. september 1977, 89 ára) prentari í Reykjavík
og kona hans Halldóra Sveinbjörnsdóttir (f. 20. júní 1892, d. 30. apríl 1931, 38 ára)

Haraldur er 77 ára árið 1965 þegar Jón skráir þessar minningar og birtir.

Stiklur:

Um
birtingar-
rétt
Jón Þorbergur Haraldsson, sonur Haraldar skrifaði alla Þjóðvilja-þættina upp og Ásmundur Ingimar Þórisson, sonur Þóris Haraldssonar, færði GÓPfréttum þá uppskrift.  
GÓPfréttum er ekki hægt um vik að finna afkomendur Jóns Bjarnasonar - en vonandi er þeim ekki ömun að því að þetta verk hans birtist hér. Uppskriftina unnu GÓP og Ásmundur Ingimar.
Inn-
gangur
Jóns
Bjarna-
sonar:
"Þá var ekkert prentnám í þeim skilningi sem nú er. Menn lærðu einungis við að vinna á prentsmiðjunum. Prentararnir sem kenndu okkur voru prýðilegir kennarar. Þá var lögð áhersla á að vinna vel - og vinna af list. Þeir fengu annars ekki réttindi til að veita mönnum viðurkenningu því bæjarfógetinn, Halldór Daníelsson, stóð á því fastar en fótunum að prentverk væri ekki iðn - heldur list.

Þá höfðu prentarar því engin réttindi nema viðurkenningu frá vinnuveitanda og prentarafélaginu. Þess vegna voru prentarar þá aldrei látnir taka próf."

Prentarar eru vanastir því að setja annarra orð og hugsanir. Það er þeirra ævistarf. Það er þó síður en svo að þessi stétt manna hugsi ekki sitt. Oft eru þeir snjallari að orða hugsanir sínar en mennirnir sem leggja þeim til handrit til setningar. Í prentarastéttinni hafa verið áglætir rithöfundar. Nægir þar að minna á Jón Trausta en samt hafa prentarar yfirleitt verið hlédrægir á sviði prentaðs máls.

Við hittum nú gamlan prentara að máli, Harald Jónsson, og það er einmitt hann sem mælti orðin í inngangi þessarar greinar. Haraldur hóf prentnám í Ísafold á tíma Björns Jónssonar ritstjóra, hann var í Þjóðviljaprentsmiðju Skúla Thoroddsen, var prentsmiðjustjóri á Eyrarbakka og svo framvegis, - en

- engar málalengingar, - við snúum okkur beint að Haraldi sjálfum.

1. hluti Formannssonur úr Vesturbænum

Nokkrir lykilstaðir frásagnarinnar í Reykjavík - músaðu á myndina til að fá aðra stærri og læsilegri.
Upp-
runi

 

Fátækt
og basl
hjá al-
menn-
ingi

 

Hvar og hvenær ertu fæddur Haraldur?

Ég er fæddur 18. júní 1888 að Klöpp í Selholti - eins og þá var sagt í Reykjavík. Þá var enginn Brekkustígur en nú er þetta hús nr 14 b við Brekkustíg.

Foreldrar þínir gamlir Reykvíkingar?

Faðir minn var Jón Hinriksson frá Blönduholti í Kjós og móðir mín Karítas Ólafsdóttir frá Skrauthólum á Kjalarnesi. Ég var því bæði Kjósarostur og Kjalarneskjúka - en þannig var tekið til orða þegar ég var krakki - um þá sem áttu föður úr Kjósinni og móður af Kjalarnesi.

Var almennt velgengi eða fátækt í Reykjavík á þeim árum?

Blessaður vertu! Hjá almenningi var fátækt og basl. Það var aðallega lifað á sjónum hér í Reykjavík - og ef hann brást var ekkert til að lifa á. Það væri hægt að segja margt frá því bæði heiman frá mér og öðrum.

Ekkert
til
fyrir
mat

 

Ef það hefur verið svo þá gefur það ekki rétta mynd af lífinu í Reykjavík ef þú stingur því alveg undir stól.

Einu sinni vorum við heima matarlaus. Það hafði ekkert fiskast og við krakkarnir hálföskrandi af hungri. Pabbi fór út og þegar hann kom aftur sagði hann að Ólafur á Bakka hefði róið og komið með hlaðið skip. Fjöldi fólks hefði beðið um í soðið og hann hefði selt ýsuspyrðuna á 35 aura. Þá spurði ég mömmu hvort ekki væru til 35 aurar. Svarið var nei. Það var ekki hægt að kaupa ýsuspyrðu í matinn.

Einu sinni var pabbi á vertíð suður í Garði. Hér fékkst þá ekkert úr sjó. Það var ekkert til að borða heima, nema hvert okkar fékk hálft soðið þorsktálkn og sinn sopann hvert af kaffi á undirskál. Þannig leið heil vika en þá rættist úr þessu. Við vorum þá fjögur talsins en urðum alls sjö.

Bær
og
prestur
reyna

hrekja
okkur
til
sveitar
Faðir minn var formaður á báti fyrir aðra í yfir 40 vertíðir. Eitt vor meiddist hann á hnénu og fék ígerð í það. Móðir mín lagðist í heimakomu sem kölluð var. Þau lögðust bæði sama daginn. Vetrarvertíðin hafði brugðist - það var ekkert til að lifa af. Pabbi var nýbyrjaður á vertíð og von var um að afli glæddist.

Á þeim árum þurfti tíu ár til að vinna sér sveitfesti. Og af því mamma og pabbi hlóðu niður börnum, eins og sagt var um þau, en áttu ekkert nema fátækt, þá vann bæjarstjórnin að því öllum árum að koma pabba burt úr bænum, taka heimilið upp og tvístra því, en það vildu foreldrar mínir allra síst.

Allir vissu um ástandið á heimilinu þegar pabbi og mamma lögðust, því þá var Reykjavík lítill smábær.

Daginn sem pabbi og mamma lögðust kom maður frá fátækranefndinni og bauð pabba peninga. En þó ekkert væri til þá neitaði pabbi því - en kvaðst vera þeim þakklátur ef þeir gætu útvegað manneskju til að sinna börnunum gegn því að hann borgaði það þegar hann kæmist á fætur. Því neitaði fátækrafulltrúinn. Það var ekki hægt með nokkru móti.

Hversvegna vildu þeir lána peninga en neituðu að útvega konu til að annast börnin!

Það er augljóst. Það var til þess að ná tangarhaldi á fjölskyldunni til þess að tvístra henni.

Pabbi var vanur að vinna af sér prestsgjöldin og ljóstollinn með því að rista ofan af fyrir Jóhann Þorkelsson vestur í mýri þar sem hann var að rækta sér tún. Þegar skömmu eftir að fátækrafulltrúinn var farinn kom presturinn. Erindi hans var að tilkynna pabba að hann yrði undanbragðalaust að fá prestsgjöldin greidd í peningum ÞÁ STRAX!

Pabbi svaraði því að slíkt væri ekki til að nefna því hann hefði enga peninga til að borga með og auk þess hefði hann ætlað að vinna þau af sér með ofanafristu og skurðgreftri eins og venjulega.

Prestur segir að það geti ekki orðið nú. Hann verði að fá þetta greitt í peningum. Hann segist vera með plagg uppá vasann sem fátækranefndin hafi skrifað upp á og þá þurfi faðir minn ekkert að vinna af sér ef hann undirriti þetta skjal. En pabbi þvertók fyrir að udirrita það - og varð klerkur að fara við svo búið. 

Pabbi lagði allan sinn fisk inn hjá Bryde og hafði jafnframt alla sína úttekt hjá honum. Fyrir Bryde-verslun var þá Ólafur Ámundason. Seinna fengum við að vita að í þetta sinn höfðu að minnsta kosti tveir úr fátækranefndinni farið til Ólafs og harðbannað honum að lána Jóni Hinrikssyni agnarögn, hvorki af ætu né óætu!

Ólafur hafði í fyrstu gengið um gólf þar til hann hafði snúið sér að þeim og sagt:

Jón Hinriksson hefur aldrei svikið mig og alltaf staðið í skilum og ég lána honum eins lengi og hann þarf á því að halda - hve lengi sem það verður - og það þýðir ekki að tala meira um það.

Þar með var lokið í það sinn tangarsókn veraldlegs og kirkjulegs valds  í því augnamiði að koma pabba burt úr bænum.

Fenguð þið að svelta afskiptalaust?

Áður en móðir mín giftist hafði hún verið vinnukona hjá Pétri biskupi Péturssyni og Sigríði Bogadóttur konu hans. Þau hjónin höfðu frétt að foreldrar mínir hefðu bæði lagst og um fjögurleytið þennan dag sendu þau kvenmann til að annast heimili okkar og jafnframt mat og annað sem helst þurfti. Jafnframt þessu útveguðu þau föður mínum vist á spítalanum hjá Scierbeck landlækni, létu flytja hann þangað og fengu Schierbeck til að lækna mömmu heima. Þetta allt veittu þau endurgjaldslaust.

Háset-
arnir
biðu
Pabbi var nýbyrjaður róðra á vorvertíð þegar hann meiddist og veiktist upp úr því. Hann hafði því fastráðna háseta sem eðlilegt var að hefðu ráðið sig annarsstaðar þá. En þeir biðu eftir honum. Eftir að hann var kominn af sjúkrahúsinu og lá heima komu þeir einu sinni heim til hans og spurðu:

Treystirðu þér til að sitja í skipinu ef við göngum undir þér út í það?

Pabbi hélt nú það!

Svo leiddu þeir hann í skipið og úr því aftur fyrstu vikuna sem róið var.

Pabbi hafði valda áhöfn en þótti sjókaldur. Það var verið stanslaust að það sem eftir var af sumrinu og út haustvertíðina. Fyrstu tvær vikurnar var róið alla daga, líka á sunnudögum. Þegar haustvertíð var lokið, en þá réru héðan 100 - 200 skip, var pabbi hæstur yfir vor-, sumar og haustvertíðirnar samanlagðar þótt stór hluti af sumrinu félli úr. Þetta sögðu mér hásetarnir og aðrir formenn seinna. Pabbi minntist aldrei á það. Hann talaði helst ekki um sjálfan sig.

Svo ég víki aftur að því sem ég sagði áðan - þá var vinátta og tryggð Sigríðar, konu Péturs biskups, við mömmu ekki endaslepp. Eftir að Sigríður var komin til Danmerkur til dóttur sinnar brást það ekki að með fyrstu ferð Láru frá Kaupmannahöfn eftir nýárið kom hlýtt og gott bréf frá Sigríði til mömmu ásamt peningasendingu. Og því hélt Sigríður Bogadóttir áfram meðan hún lifði.

Vinna
í
landi
Var engin vinna í landi semmenn gátu lifað á þá?

Það lifðu yfirleitt allir á sjó í Reykjavík á þessum árum. Svo mátti heita að landvinna væri engin nema þegar millilandaskipin komu og svo voru einstaka menn fastamenn hjá verslununum.

Þegar skipin komu fékk pabbi alltaf vinnu hjá Bryde þegar hann var í landi því hann skipti við Bryde-verslun. Og einu sinni sem oftar þegar þeir voru að skipa í land var pabbi um borð við vinsuna (vinduna) eins og það var þá kallað. Hún var handsnúin með tveimur sveifum og mig minnir að það væru tveir eða þrír látnir ganga á hvora sveif. Einu sinni þegar þeir voru búnir að lyfta einhverju þungu stykki til hálfs upp úr lestinni gerðist eitthvað um borð í uppskipunarbátnum við hliðina á skipinu sem olli því að allir hlupu frá sveifinni - nema pabbi. Hann var óviðbúinn og var að færa aðra höndina þegar þeir slepptu svo sveifin slóst á vinstri handlegginn og tvíbraut hann. Hann neytti þá allrar orku hægri handar og tókst að halda sveifinni kyrri og kassanum uppi - en beint undir, niðri í lestinni, voru tveir menn að bisa við kassa sem átti að lyfta næst.

Svo var farið með pabba í land og honum sagt að fara heim en hann neitaði því - til að halda dagvinnulaununum - og heimtaði að fara út í pakkhús og stafla fiski. Og það gerði hann - með hægri hendinni - en batt hina upp áður.

Ekki hefur hann lengi getað unnið handleggsbrotinn?

Nei. Pabbi vann svo ekki meðan brotið var að gróa. Mamma var nýstigin af sæng þegar þetta kom fyrir en fór samt í eyrarvinnu og bar kol á bakinu allan daginn. Þá bar pabbi barnið á heila handleggnum til hennar í vinnuna til þess að láta það sjúga um leið og hann fór með matarbita handa mömmu.

Geir
Zoega

Þannig gekk þetta nokkurn tíma. Pabbi hafði þá ekkert kynnst Geir gamla Zoega. Einu sinni þegar hann var að fara niður Vesturgötuna og gekk með hendina í fatla - en án þess að nokkuð hefði verið gert í beinbrotinu því það voru engir peningar til. Brydeverslun skipti sér ekkert af þessu þótt pabbi hefði brotnað í vinnu fyrir verslunina. Jæja, - einu sinni þegar pabbi er að fara niður Vesturgötuna kemur Geir út á búðartröppurnar og kallar:

Hum humm. Klöpp, Klöpp!

- en sá var vandi Geirs að kenna menn við bæina eða húsin sem þeir áttu heima í. Pabbi ansar samt engu. Geir kallar þá aftur:

Hinriksen!

En pabbi svarar ekki heldur.

Jón Hinriksson! Talaðu við mig! - kallar Geir þá.

Pabbi staðnæmist þá og Geir spyr hvort ekkert hafi verið gert að brotinu. Pabbi segir honum það og segir Geir þá:

Þú kemur með mér Jón. Við förum til Jónassens. Það gengur ekki að láta þetta vera svona. Þá batnar þér aldrei.

Þeir fara saman til Jónassens og þegar þangað er komið segir Geir:

Hu! Jónassen. Þú gerir við handlegginn á honum Jóni og ég borga þér það.

Jónassen gerði að handleggnum og brotið greri. En eftir þetta áfall varð pabbi að hætta sjóróðrum og fór að vinna í landi - og þá mikið hjá Geir gamla - og alveg síðast.

Munaði
um
hann
 Var pabbi þinn þrekmaður, Haraldur?

Hann var rúmar þrjár álnir á hæð og eftir því þrekinn - svo að ég er ekki líkur honum! Þórður á Neðra-Hálsi í Kjós, en hjá honum hafði pabbi verið vinnumaður, hélt því fram við Björn Jónsson ritstjóra að faðir minn hefði venjulega afkastað tveggja manna verki í vinnu.

Ég heyrði þetta einu sinni af tilviljun meðan ég var stráklingur að læra í Ísafoldarprentsmiðju og kom inn á skrifstofuna til Björns að sækja handrit. Þórður á Hálsi var þá staddur inni og segir við Björn:

Hvaða drengur er þetta? Mér finnst ég kannast við svipinn.

Björn sagði honum hver ég væri.

Já,  sagði Þórður. Ég kannaðist við svipinn!

Hann sagði þá að faðir minn hefði verið tveggja manna maki og því til sönnunar að hann hefði alltaf rist torf á við tvo - en það hefði verið vandi sinn að gefa torfskurðarmönnum vel ít í kaffið - og þá hefði það aldrei brugðist að Jón hefði skorið á við þrjá! Meira heyrði ég ekki því ég fór út þegar ég hafði tekið við handritinu sem ég var að sækja.

Ég heyrði aldrei neitt slíkt hjá pabba sjálfum því hann talaði aldrei um sjálfan sig. Og væri honum hælt þrætti hann fyrir það og fór að tala um annað.

Skóla-
ganga
Hvenær fórst þú í barnaskóla, Haraldur?

Ég var sendur í skóla sjö ára gamall 1895 enda þótt það væri ekki venja að börn færu í skóla fyrr en þau væru orðin tíu ára.

Hvar var þessi skóli?

Ég var fyrst í skóla í Framfarafélagshúsinu. Það var beint upp af Bakkastígnum. Nú nr. 51c á Vesturgötunni. Þar var þá útibú frá barnaskólanum sem þá var enn í núverandi lögreglustöð við Pósthússtræti. Veturinn eftir fór ég í Miðbæjarskólann sem þá var tekinn til starfa.

Hvernig gekk í skólanum?

Það gekk sæmilega. Og svo var það síðasta haustið sem ég var í skóla að ég var settur í 4. bekk c - en í þeim bekk var ég búinn að vera tvo vetur - svo ekki voru nú framfarirnar!

Hvernig stóð á þessari langdvöl þinni í sama bekk?

Ég skal bráðum segja þér frá því. Haustið áður - þegar verið var að raða í bekkinn - segir Morten Hansen skólastjóri við mig:

Jæja, Haraldur minn. Þú hefðir nú átt að fara í 5. bekk en það er ekki hægt. Það er svo fullt þar - en við sjáum til að hausti.

Þegar ég hafði verið settur í sama bekk í þriðja sinn og við höfðum mætt nokkra daga í bekknum kemur Morten í bekkinn og spyr hvað ég sé gamall. Ég svara því:

Þrettán ára og það stendur til að sækja um fermingarleyfi fyrir mig.

Þetta er ljótt - segir hann. Þetta var meira axarskaptið að setja þig í þennan bekk í þriðja skiptið! Í fyrra hefðir þú átt að fara í 5. bekk. Hvað þá núna. Nú hefðir þú átt að fara í 6. bekk. En það er ekki hægt. Það er svo fullt. Það er líka þröngt í 5. bekk. En það er einn 5. bekkur sem mætti haga svo til að þú fengir pláss. Það er 5. bekkur d.

Þá rís upp kennarinn sem var í þessum tíma, Guðlaug Arason - þekktust undir nafninu fröken Arason og hrópar:

Á nú að setja hann Harald í 5. bekk d með öllum heldri manna börnunum!

Morten svarar að það sé ekki um annað að ræða. Þá espast kerlingin, veður á söxum og lætur móðan mása til að koma í veg fyrir að slík óhæfa verði gerð og bendir Morten Hansen rækilega á það að slíkt geti ekki komið til mála. Ég sem væri á sauðskinnsskóm, bláfátækur ræfill í bættum fötum! Slíkt og annað eins gæti ekki átt sér stað!

Morten hætti að ansa henni og fór að sinna öðru. Þegar hann hafði lokið því og bjóst til að fara út úr bekknum leit hann til mín og sagði:

Þú manst það Haraldur að þú mætir á mánudaginn í 5. bekk d.

En kerlingin hélt áfram í taugaspennu sinni að rausa um þessa óhæfu út allan tímann. Það var lítið lært í tímanum þeim! Fröken Arason kenndi skrift og var skriftartími flesta daga.

Á mánudaginn eftir mæti ég svo í 5. bekk d - og fröken Arason kemur að venju í bekkinn í skriftartíma.  Hún byrjar þá strax að hneykslast á því að sjá mig í þessum bekk. Fer eins og að afsaka sig við börnin útaf því að ég skuli vera kominn í þennan bekk þar sem ég sé til skammar innan um góð börn!

Þannig heldur hún áfram að nöldra á hverjum degi fram eftir vikunni en þá skorar hún á drengina að láta það aldrei sjást til sín að þeir séu að leika sér með mér.

Þá stökkva þeir fram úr bekkjum sínum Daníel Halldórsson, sonur Halldórs Daníelssonar bæjarfógeta, og Þorvaldur Thoroddsen, sonur Þórðar læknis og hafði hann orð fyrir báðum, að láta háttvirtan kennara vita að í hvert skipti sem þeir viti af Haraldi í grenndinni þegar þeir séu að leik þá fari þeir og nái í hann . Og - enn fremur að þegar þeir fari í boltaleik á Geirstúni sæki þeir Halla heim til sín.

Þá var fröken Arason nóg boðið!

Og hvernig endaði þetta?

Ekki man ég hvort ég var rúma viku í bekknum. Þá kemur Morten Hansen aftur í bekkinn og segir:

Þú verður nú, Haraldur minn, að fara aftur niður í 4. bekkinn sem þú varst í. En það eru ekki mín ráð. Það eru aðrir sem ráða því.

Fröken Arason hafði þá gripið til sinna ráða - farið til betri borgaranna, fengið frúrnar á sitt mál og þær síðan skippt í sína menn og þeir aftur kippt í sína spotta hjá skólanefndinni um að uppræta þetta hneyksli. Ég frétti síðar að í hin skiptin hefði það verið fröken Arason sem kom í veg fyrir að ég færi upp úr bekknum á eðlilegum tíma.

- Hvers vegna var kerlingunni svona illa við þig?

Fröken Arason var alltaf meinilla við mig. Hvort því muni hafa valdið sauðskinnsskórnir mínir, bættu fötin eða einhver önnur dulin ráðgáta - það veit ég ekki. Hitt veit ég, að hún sat alltaf um að koma á mig nótu til að draga frá vitnisburði mínum. En - ég var þó alltaf fyrir ofan miðjan bekk. Hærra komst ég ekki vegna kristindómsins. Henni tókst þó ekki nema einu sinni að koma á mig nótu.

Hvað gerðir þú þá af þér?

Það var þegar ég gleymdi að kaupa skrifbók. Þegar slíkt kom fyrir fengu krakkarnir alltaf að skjótast upp til Mortens Hansen og kaupa skrifbók - og nú bað ég fröken Arason um leyfi til að skreppa upp og kaupa skrifbók.

Nei, drengur minn, svaraði fröken Arason. Þú færð ekki að fara upp en þú skalt fá nótu! Og svo skrifaði hún 50 gráðu nótu.

Næst þegar Morten Hansen kom í bekkinn leit hann yfir bekkjarbókina að vanda og sagði þá:

Þetta er ljótt sem ég sé hér. Þú hefur alltaf hagað þér vel, Haraldur minn.

Svo spurði hann hvernig stæði á nótunni. Honum var sagt það.

Fyrst búið er að skrifa nótu er ekki hægt að breyta því, en það er ekki stætt á því að gefa 50 gráðu nótu fyrir það eitt að barn gleymi að kaupa skrifbók. Það getur í hæsta lagi orðið 15 gráðu nóta.

Einu sinni þegar við krakkarnir vorum að koma inn úr frímínútum sleit strákur í ógáti niður frakka í skólaganginum rétt framan við bekkinn okkar - og ég var einmitt að fara inn í bekkinn rétt hjá snaganum. Fröken Arason sá þetta og skipaði okkur að vera kyrrum. Fór svo og sótti Morten Hansen. Hann kom og spurði hver hefði slitið niður frakkann.

Fyrst þögðu allir. Svo sagði sá sem hafði slitið frakkann niður:

Hann Halli gerði það!

- en ég var einmitt nærri snaganum.

Nei! Þú gerðir það sjálfur! - gall þá við í einhverjum stráki.

Sökudólgurinn varð þá á augabragði mjög skömmustuegur og niðurlútur svo Morten duldist ekki að hann var hinn seki. Hann greip í strákinn og þrúgaði hann niður í gólfið. Það var undantekning að Morten gerði slíkt því hann var að eðlisfari rólyndur gáfumaður. Hann var venjulega í jafnvægi en átti það þó til að verða skyndilega þungur í skapi - og var það í þetta skipti af því að strákurinn reyndi að koma sökinni á annan saklausan.

Róstur
í
skóla
Var ekki stundum róstusamt hjá ykkur strákunum í skólanum?

Róstusamt? Nei, yfirleitt voru börnin kurteis og hæglát. En strákarnir flugust vitanlega á þá eins og nú og ævinlega og það voru til kjarkaðir og harðskeyttir strákar sem ekki bliknuðu fyrir hverju sem var.

- Hvað kallarðu harðskeytta stráka?

Einu sinni þegar við komum úr frímínútum vantaði einn okkar í hópinn. Það var Bjarni, sonur Ástu-Gvendar. Þetta var í tíma hjá fröken Arason og spurði hún hvar hann væri.

Það vissum við ekki. Hann varð eftir úti að slást. Svo kom hann inn og hélt erminni að öðrum framhandleggnum, gengur fyrir Guðlaugu Arason, kippir erminni til axlar og segir:

Viltu finna lykt af mannsblóði?

og slettir um leið handleggnum að henni svo að hún verður öll í blóðslettum í framan og eins bókin á borðinu fyrir framan hana. Strákarnir höfðu verið úti að berjast með hnífum og hann fengið rispu á handlegginn.

Fröken Arason biður guð að hjálpa sér! Hleypur síðan inn í næsta bekk en þar er Þórður Jensson að kenna - og biður hann að koma og hjálpa sér.

Þórður kom inn í bekkinn til okkar en þegar hann hafði fengið að vita hvað um var að vera sagði hann að þetta væri ekkert. Hann hefði oft séð smá skeinu á krakka fyrr - og mannsblóð - og endurtók að þetta væri ekki til að fjargviðrast yfir. Með það fór hann út og gerði ekkert úr þessu.

Bjarni Ástu-Gvendar var einn allra hreinlyndasti og hreinskiptasti strákur sem ég hef þekkt. Hann var sterkur og áræðinn og vissi hann ráðist á einhvern sem var minni máttar eða fyrir það að hann væri fátækur þá var hann óðar kominn þar til að jafna þær sakir. Ætti að níðast á lítilmagna í návist hans þá var alltaf honum að mæta. Endalok hans urðu að hann fór góðglaður úr Hafravatnsrétt, ætlaði að ríða yfir vatnið en drukknaði.

Og af því að þú varst áðan að spyrja um róstur í skólanum er best að ég haldi áfram að segja þér dæmi um hverskonar róstur þá voru.

Kristín Arason, systir frökenar Arason, kenndi réttritun í skólanum. Ég var þá látinn sitja í aftasta bekk á milli tveggja ólátabelgja í þeim tilgangi að þeir yrðu þá stilltari ef þeir næðu ekki saman - en það valt nú á ýmsu.

Þetta voru ófyrirleitnir strákar og einu sinni fóru þeir að reyna hvor þeirra þyldi betur að togað væri í hárið á honum. Svo gáfust þeir upp og sneru sér að mér. Ég var ekki hársár og sagði að þeir mættu reyna með báðum höndum. Gripu þeir þá báðir í hárið á mér í einu. Kristín sér þetta og kemur hlaupandi og slær báða strákana utanundir með bókinni sem hún hafði haldið á - en við það fljúga 90 happdrættismiðar úr bókinni og út um allan bekk. Hún var þá í einhverju happfrættisvafstri og hafði geymt miðana í bókinni.

Fyrst verður henni á að biðja guð að hjálpa sér! Svo skipar hún strákunum tveimur með þjósti að tína upp miðana. Þeir neituðu báðir. Þá skipar hún mér að gera það. Ég hélt nú ekki. Þá skipar hún hinum strákunum að gera það en þeir neita allir.

Og hvað svo ... ?

Stelpurnar tíndu þá svo allar upp fyrir hana - þær eru alltaf svoddan mélkisur.

Stétta-
skipt-
ingin
hjá
börn-
unum
Það leynir sér ekki að framkoma sumra hinna fullorðnu hefur mótast af því hvaða stétt börnin tilheyrðu. Kom þetta líka fram hjá börnunum?

Yfirleitt alls ekki. Börn frá efnaðri heimilum voru vön að hafa smurt brauð með sér í skólann sem þau borðuðu úti í porti í frímínútunum. En við hin, fátæku börnin, höfðum aldrei neinn bita með okkur. Hann var ekki til heima. Við vorum því oft - og næstum alltaf svöng. En einstaka barn frá efnaðri heimilum hafði stundum með sér meira brauð en það taldi sig þurfa og gaf þá bita okkur sem ekkert höfðum með okkur.

Það held ég að sjaldan eða aldrei hafi brugðist að synir Franz Ziemsen, Árni og Theodór, væru svo ríflega gerðir að heiman að þeir gæfu brauðsneið okkur hinum sem ekkert höfðum. Og oft höfðu þeir það mikið að þeir gátu gefið mörgum börnum brauð.

Sama má segja um Gísla Magnússon í Ánanaustum og voru foreldrar hans þó ekki álitnir í efnum - en innrætið hefur þá bætt upp það sem á efnin skorti.

Kristin-
dómurinn
Þú sagðir einhverntíma áðan að kristindómurinn hefði dregið þig niður. Hvernig stóð á því? Varstu á móti kristindómi?

Það stóð þannig á því að einu sinni gaf Sigfús Eymundsson út Barndómssögu Jesú Krists og ég las hana og varð hrifinn af henni. Mér fannst hún svo frjálsleg og sennileg. Og ég var með hana í töskunni minni og leit stundum í hana þar. Svo var það einu sinni í tíma að kennarinn, Magnús Þorsteinsson, sem seinna varð prestur, tók eftir því að ég var að lesa eitthvað - kemur til mín og biður mig að lofa sér að sjá það sem ég hafði verið að kíkja í.

Ég fæ honum hiklaust bókina og hann lítur framan á hana og segir:

Þessa bók á ekkert barn að hafa og ekkert barn að sjá nokkru sinni því þetta er hræðilegasta guðlast sem hægt er að hugsa sér. - Hvað kostar hún?

Hún kostaði 25 aura svaraði ég.

Hann tekur þá upp 25 aura, fær mér og segir

Þessi bók fer í ofninn!

Svo fór hann með bókina og fleygði henni í eldinn - og ég horfði á hana loga upp. Eftir það gekk honum illa að kenna mér kristinfræði.

Seinna keypti ég þrjú eintök af þessari bók.

2. hluti Uppalinn í Vesturbænum
Nær
drukkn-
aður
Einhverjum ævintýrum hlýtur þú að hafa lent í þegar þú varst strákur, - komstu aldrei í hann krappann?

Nei, ég komst aldrei í hann krappann í leik í fjörunni, en einu sinni var ég þó nærri því drukknaður.

Blessaður - segðu mér frá því!

Já, og þegar mér hefur dottið þetta gamla ævintýri í hug hef ég furðað mig á því hvernig það er með mig. Ég hef aldrei verið rólegri heldur en einmitt þegar ég hef lent í lífsháska. Það var ekki sjálfrátt, það var eitthvað á bak við það. Ég var sjö ára þegar þetta gerðist. Mamma sendi mig með kaffi á þriggja pela flösku sem ég bar í sokk á öxlinni. Þá var pabbi að vinna um borð í einhverju skipi.

Ég gekk niður Geirsbryggju til þess að reyna að komast með einhverjum bátnum út í skipið. Öðrum megin við bryggjuna var stór uppskipunarbátur og ég geng þangað niðureftir til að vita hvort báturinn fari ekki út að skipinu. Þar stend ég stundarkorn þangað til mér skilst að ekkert þýði að bíða þar og ætla því að fara á aðra bryggju. Á leiðinni upp bryggjuna koma tveir menn á móti mér. Þeir bera á milli sín eitthvert drasl tilheyrandi skútu. Sá sem var nær mér var skipstjóri á skútu sem Geir gerði út. Ég taldi mig geta komist framhjá honum á bryggjunni en um leið og við mættumst rekur hann olnbogann í mig svo ég skutlast út í sjó. Í einhverju fáti dreg ég að mér hendurnar - svo ég flýt upp. Mennirnir fara svo aftur upp á bryggjuna og sækja eitthvað meira en ég mara þarna í sjónum.

Mér líður vel þar sem ég mara þarna í sjónum og er að hugsa um að fara úr jakkanum. Ég geri tvisvar tilraun til þess en þegar ég rétti hendurnar út frá síðunum ætla ég að sökkva svo ég hætti við það.

Mennirnir fara þriðju ferðina upp bryggjuna til að sækja eitthvað - en skipta sér ekkert af mér.

Þá kemur maður niður götuna niður undir Geirsbúð. Horfir fyrst niður eftir bryggjunni, hleypur svo niður hana og kallar til hinna

Eruð þið vitlausir - eða morðingjar! Horfið á barnið sem er að drukkna og hreyfið ykkur ekki neitt!

Um leið stekkur hann út af bryggjunni, heldur sér í hana með annarri hendinni en seilist með hinni til mín, nær í mig og réttir mig upp á bryggjuna. Í þessu kom Geir gamli niður bryggjuna og sagði

Hö! Farðu heim til hennar mömmu þinnar, góði minn, og segðu henni að hátta þig niður í rúm og gefa þér eitthvað heitt ofan í þig svo að þér verði ekki kalt.

Ég heimtaði kaffiflöskuna mína.

Ég fer ekki fyrr en ég fæ flöskuna! - maldaði ég í móinn.

Ég skal láta ná í hana þegar fellur út, sagði Geir.

Ég trúi þér ekki, - sagði ég.

Þér er óhætt að trúa mér. Ég hef engan svikið og skal ekki svíkja þig, sagði Geir.

Hann sendi flöskuna heim til okkar strax og náðist í hana á útfallinu.

Maðurinn sem bjargaði mér þarna frá drukknun var Helgi á Eiði á Seltjarnarnesi, faðir séra Eiríks prests í Bjarnarnesi.

Seinna urðum við Eiríkur, sonur Helga, bestu vinir. Vorum meðal annars saman á Siglufirði í alls konar unglingahætti, skammarstrikum og prakkarahætti stundum - en þó öllum að skaðlausu.

Bjarni
prestur
á
Siglu-
firði
 

Hvernig væri að minnast á eitthvað af þeim prakkarastrikum, - eða voru þau kannski mjög vond?

Nei, þau voru í sjálfu sér ofur saklaus. Við fórum saman norður þetta sumar til að vinna á Siglufirði. Þegar við komum albúnir niður í skipið sem við ætluðum með norður var það ekki tilbúið til brottfarar og Eiríkur segir þá:

Eigum við ekki að fara upp á Skjaldbreið og fá okkur kaffi og lummur á meðan við bíðum?

Jú, jú, svara ég.

Við förum svo þangað og Eiríkur pantar kaffi og pönnukökur með rjóma. Þegar Eiríkur tók fyrstu pönnukökuna vildi svo slysalega til að rjóminn spýttist út á gólf.

Við verðum að þurrka upp rjómann, segir Eiríkur.

Við gerum það í mesta flýti áður en fleiri kæmu inn og þar fóru hvítu klútarnir sem við ætluðum að hafa á leiðinni!

Allt var tíðindalaust á leiðinni norður og fór vel á með okkur Eiríki því báðir vorum við tilbúni í alls konar glettur. Þetta sumar snjóaði 3. ágúst á Siglufirði. Við vorum báðir vanir að vasla og einmitt á meðan snjórinn var sagði Eiríkur

Eigum við ekki að fara heim á Hvanneyri og hneyksla prestinn og allt hans hyski?

Ekki stóð á mér. Við fórum svo, skvömpuðum í læknum, veltum okkur allsberir í snjónum þar til presturinn, séra Bjarni Þorsteinsson, kom til okkar og sagði:

Það er gaman að sjá til ykkar piltar! Nú sér maður það sjaldan að piltar þori að busla í snjó og kulda. Og vilduð þið ekki svo koma heim og þiggja heitan kaffisopa?

Við þáðum þetta góða boð, fórum inn og settumst til borðs með höfðinglegum veitungum. Séra Bjarni, kona hans og dætur, sátu til borðs með okkur.

Þegar staðið er upp frá borðum segir prestur:

Hafið þið ekki ánægju af músík?

Við játtum því og fer hann þá inn í aðra stofu og byrjar að leika á orgel en kona hans og dætur syngja.

Þegar við loks vorum farnir úr húsi þessa ágæta fólks segir Eiríkur:

Við megum vara okkur á þessu, Halli. Þetta megum við aldrei gera nema við þekkjum snobbið í fólkinu.

En þetta var nú útúrdúr frá árunum þegar ég var stráklingur.

Draug?

Já - segðu mér fleira frá Vesturbænum þegar þú varst smástrákur. Var til dæmis enginn draugur í Vesturbænum á þeim árum? Var ekki draugatrú vel lifandi þá?

Ó-jú. Það voru að heyrast draugasögur frá hinum og öðrum þarna en engar merkilegar.

Þú hefur aldrei séð draug?

Nei. Ég var aldrei var við drauga í þeirri merkingu sem lögð var í það orð, en ég sá ýmislegt.

Raunar man ég eftir einu sem aldrei fékkst nein skýring á.

Og hvað var það?

Það gerðist meðan við vorum enn í torfbænum. Pabbi og mamma tóku þá ket til reykingar fyrir Benedikt gamla Gröndal, biskupinn og fleiri, og reyktu það í eldhúsinu sem fylgdi bænum því þar var opinn strompur.

Svo var það einu sinni á ofanverðri vökunni að við sátum öll inni, Pabbi var eitthvað að dytta að veiðarfærum en sumir að lesa. Allt í einu fara að heyrast einhver gífurleg læti frammi. Þar leikur allt á reiðiskjálfi svo mamma segir við pabba:

Viltu ekki fara fram, Jón, og gá hvað þetta er? Kannski er einhver að stela keti úr eldhúsinu.

Pabbi stendur ekki á augabragði upp en í því að hann stendur á fætur kemur baðstofuhurðin skellandi inn, lendir á kabyssunni og fer hálfa leið til baka. Þá rýkur mamma til í einum hvelli. Hún gat verið gríðarlega heit og einbeitt ef hún komst í geðshræringu. Hún tekur hurðina í handarkrikann, setur sig í gættina og segir:

Ef þú ert mennsk vera þá gefðu þig fram og láttu sjá þig en ef þú ert það ekki þá farðu sömu leið og þú komst!

Engin gaf sig fram. Allt datt í dúnalogn og heyrðist ekki meir. Þau fóru fram og athuguðu gangahurðina sem hafði skellst en var nú kyrr með sömu ummerkjum og áður.

En hvernig var með þetta sem þú sagðist hafa séð?

Einu sinni var ég ákaflega mikið veikur þegar ég var strákur. Læknar sögðu mér seinna að ég hefði fengið berkla í bæði lungun. Áður en ég veiktist lék ég mér við telpu af næsta bæ þar sem öll börnin veiktust og dóu úr berklum. Öllum hrákum var hellt út í holtið þar sem við lékum okkur. En ég komst yfir þessi veikindi.

Ég var ákaflega slappur þegar ég stóð upp úr þessum veikindum. Þá gerðist það að ég fór að sjá margt sem aðrir sáu ekki. Framliðið fólk úti. Stundum sá ég ákaflega fallegt fólk en stundum annað - eins ljótt og hitt var fallegt.

Ég man enn vel eftir því síðasta sem ég sá. Þá var ég hræddur. Þegar ég gekk norður holtið þar sem Brekkustígur er nú, út á Framnesveginn -gekk þá leið oft - þá mætti ég fjarska ljótum manni. Mér fannst ég lesa úr augum hans að hann dræpi hvern mann sem yrði á vegi hans. Ég vissi ekki hvernig ég ætti að forða mér en rétt í því að við vorum að mætast virtist mér hann koma auga á annan sem hann virtist ætla að væri meiri matur í svo ég slapp framhjá honum.

Mér varð svo mikið um þetta að ég settist á stein til að jafna mig. Treysti ég mér ekki til að ganga alla leið heim og bað guð að taka þennan hæfileika frá mér því ég væri enginn maður til að bera hann. Þá losnaði ég við þetta. Að vísu hefur það endrum og eins komið fyrir að ég hef séð það sem aðrir sáu ekki. Það mátti heita að þetta hætti alveg. Telpa á næsta bæ var rammskyggn. Hún dó um tvítugt.

Hvað varstu gamall þegar þetta var?

Þetta var nokkru áður en ég fór í skólann. Ég mun hafa verið 5 - 6 ára gamall.

Hjá-
trú

Voru sjómenn ekkert hjátrúarfullir?

Sennilega hafa einhverjir verið það. Til dæmis mun hafa verið almenn þjóðtrú í sambandi við hvað menn voru misfisknir.

- Hvernig þá?

Ég skal segja þér dæmi af því. Eftir að ég var tekinn að stálpast og farinn að vinna í prentsmiðjunni var ég vanur að fara með pabba út í grásleppunetin á næturnar. Einu sinni þegar við vorum að koma af sjó og voru í tröðunum á Seli (Litla Seli, Ívarsseli) en þær lágu niður í fjöruna, mættum við einum formanninum á leið til sjávar með hásetum sínum. Þá lá vel á karli eins og raunar jafnan því hann var léttlyndur og gamansamur. Heilsuðust þeir pabbi og hann hressilega.

Nú fiska ég vel í dag sagði formaðurinn.

Ertu viss um það?

Já, ég fæ góðan drátt í dag - ég fæ fimm lúður.

Það væri nú gott ef svo yrði - sagði faðir minn.

Já, ég veit það. Ég fór fimm sinnum upp á konuna mína í nótt - svaraði formaðurinn.

Enda þótt hann segði þetta í glettni mun því gamni hafa fylgt nokkur alvara. Leifar af þeirri hjátrú að kvensamir menn væru fisknir og fiskinn maður hlyti að vera kvensamur.

Líf-
ræn

rækt-
un

Þú sagðir áðan að öllu hefði verið hellt út í holtið þar sem börn léku sér. Var það ekki undantekning?

Nei. Þetta var almennur siður. Það var engin vatnsleiðsla. Það var engin skolpleiðsla né salerni. Slíkt þekktist ekki á þeim árum. Þá voru útikamrar, og meðan þeir voru enn í Vesturbænum heyrðust sögur um að strákar hefðu átt það til að loka karlana þar inni á kvöldin og bera kamrana með öllu niður á fjöru og láta karlana dúsa þar uns einhver tók eftir þeim og leysti þá úr prísundinni. Annars gengu flestir karlmenn örna sinna undir görðum eða í fjörunni en konur og börn inni í kopp og fleygðu þessu út á öskuhauginn við bæina eða húsin. Svo var þetta og askan borið í garðana á vorin. Þegar maður var svangur á sumrin reyndum við strákarnir að stela rófum sem höfðu vaxið upp af þessu.

- Voruð þið mjög þjófóttir eða voruð þið bara svangir?

Það voru margir oft svangir þá. Til dæmis þegar verið var að stálbika skipin sem stóðu í fjörunni hjá verslununum fóru strákarnir þangað og náðu sér í stálbik og tuggðu það til að hafa eitthvað að naga - þótt stálbik væri náttúrlega engin næring.

Stundum fórum við að gluggum brauðgerðarhúsanna til að anda að okkur brauðlyktinni sem lagði út um þá. Einnig átum við mikið af hundasúrum og hvönn. Með öllu móti var reynt að sefa hungrið.

 

Stutt
farið

Fóruð þið strákarnir víða um nágrennið?

Nei. Krakkarnir fóru ekki langt út fyrir bæinn á þeim árum. Það gerðu raunar fæstir þá. Það voru ekki aðrir en kaupmennirnir og embættismennirnir sem fóru í skemmtiferðir. Þeir fóru í reiðtúra inn fyrir bæ og þá sjaldnast lengra en að Árbæ eða kannski ekki nema að Ártúni.

Við systkinin fórum þó snemma inn að Elliðaám.

Þannig stóð á því að pabbi var nokkur sumur hjá Englendingum þar. Hann réðist fyrst til starfa í forföllum Vernharðs, bróður Björns Kristjánssonar kaupmanns er var hættur vegna veikinda. Englendingur sem kallaður var mister Pain átti Elliðaárnar og með honum voru alltaf nokkrir Englendingar. Auk þess komu stundum ferðamenn, til dæmis af Bellónu, skipi er hingað kom. Pabbi varð því að halda til inn við Elliðaár á sumrum til þess að vera til taks að stjana við þá og þá fórum við systkinin til hans um helgar. Það voru nokkur uppgrip að vera hjá Englendingunum. Þeir borguðu 18 krónur í kaup fyrir vikuna - í gulli.

Einu sinni - ég mun hafa verið 10 ára, var ég sendur með einum sem kom af Bellónu. Hann vildi veiða við sjóinn og var mjög heppinn. Þegar hann hætti hafði hann fengið 16 laxa, suma töluvert stóra. Hann veiddi þá alla í fjörunni. Í hvert sinn er hann hafði landað laxi fékk hann sér viskísopa.

En það voru ekki aðeins krakkarnir sem fóru lítið út fyrir bæinn.

Almenningur gerði ekki víðreist í þá daga. Sæmundur í Sæmundarhlíð - til dæmis - hafði verið hér í fjölda ára þegar hann komst útfyrir bæinn. Hann komst þá lengst - inn að Árbæ. Þannig stóð á því að hann var hjá Geir Zoega og Geir sendi hann einu sinni inn að Árbæ til að sækja naut.

Einu sinni á miklu þurrkasumri smíðuðu Sæmundur og pabbi sinn handvagninn hvor, fóru inn að Elliðaám og sóttu vatn á tunnur og drógu þær á sjálfum sér í bæinn. Þessar tvær ferðir voru öll þau kynni sem Sæmundur þessi hafði af nágrenni Reykjavíkur en hingað hafði hann komið sjóleiðis af Snæfellsnesi.

Hjálpar-
ferð
til
Hafnar-
fjarðar
á
stolnum
hesti

Ég komst þó einu sinni suður í Hafarfjörð, þegar ég var tólf ára. Það var þegar ég stal hestinum.

Nú - stalstu einhvern tíma hesti? !

Það stóð þannig á því að drengur - sem ég lék mér með - veiktist. Það var Magnús Árnason í Garðbæ við Brekkustíginn. Drengurinn leið miklar kvalir og var móðir hans ein yfir honum nætur og daga því faðir hans var á sjónum. Guðmundur Björnsson stundaði drenginn og reyndi við hann ýmis meðöl en árangurslaust. Einn daginn hafði hann orð á því að sér þýddi ekkert að koma oftar. Einmitt þennan dag hafði einhver kona sagt móður drengisins að Guðmundur Björnsson hefði læknað dreng í Hafnarfirði af þessari veiki og hafði hún orð á því við hann. Hann kvað margar tegundir af þessari veiki og ætti ekkert það sama við þær allar - en hann myndi ekki hvað hann hefði gefið drengnum í Hafnarfirði. Sjálfsagt væri að reyna það ef hægt væri að hafa upp á lyfseðlinum. Móður drengsins hafði verið sagt hvar drengurinn í Hafnarfirði ætti heima og vissi því hvert ætti að leita að lyfseðlinum en hún hafði engan til að senda þangað. Mamma sagði að sér þætt hart ef enginn fengist til að fara í Hafnarfjörð því ekki hefðu allir svo mikið að gera - en sagði konunni að sjálf kæmist hún ekki frá börnunum því að Jón væri að vinna fram á nótt. Ég hlustaði á þetta samtal þeirra. Þegar konan var farin sagði ég við mömmu:

Mamma, ég get vel farið suður í Hafnarfjörð.

Þú getur ekki farið gangandi og þú hefur engan hest.

Ég fæ hestinn hans Jóns Valdasonar í Skólabænum.

En hann lánar þér hann ekki því hann neitar öllum um hann. Svo hefur þú engan pening til að borga fyrir það með.

Ég sagðist bara taka hestinn án leyfis. Mér væri alveg sama þó mér yrði refsað fyrir það - aðeins ef honum Magna batnaði. Mamma sagði að ég vissi það að ég mæti aldrei taka án leyfis það sem ég ætti ekki. Þá bað ég mömmu að leyfa mér þetta. Hún horfði hugsandi á mig og sagði svo:

Jæja, Halli minn. Þig langar að hjálpa honum Magnúsi af því að hann á bágt. Gerðu það með guðs hjálp. Ég skal svara Jóni fyrir þig ef hann gerir einhverja rekistefnu út af hestinum. Við erum frændsystkin.

Ég fer svo af stað með beislisgarm sem ég átti og ólarspotta sem ég negldi á spýtu í stað svipu. Hesturinn var á túni á Bráðræðisholtinu - um það bil þar sem Grandavegurinn er nú. Umhverfis það var grjótgarður og í hliðinu voru þungar skipskeðjur. Eftir að ég hafði náð í hestinn - sem var niður við sjó - lá við sjálft að ferðin endaði við hliðið - en loks tókst mér að ná skipskeðjunum úr því - og lagði af stað suður í Hafnarfjörð, - ríðandi berbakt á stolnum hesti!

Það hvarflaði ekki að mér að ég rataði ekki. Maður var ekki að hugsa út í svoleiðis þá. Ég hafði oft farið upp á Skólavörðuholt og verið sagt hvar vegurinn til Hafnarfjarðar væri. Ferðalagið til Hafnarfjarðar gekk vel. Þar spurði ég til vegar og var vísað á heimili drengsins og fékk þar lyfseðilinn. Þegar ég kom til Reykjavíkur var komið fram á nótt. Ég fór beint heim til Guðmundar Björnssonar og barði að dyrum. Frúin kom út á náttkjólnum og las yfir mér að það væri fjári hart að hafa ekki svefnfrið á næturnar fyrir barsmíðum. Ég byrjaði að stama fram erindinu og í því birtist Guðmundur fyrir aftan konu sína, hafði heyrt hvað um var að vera og sagði:

- Já, góði minn. Komdu inn. Ég skal undireins láta þig hafa lyfseðil. Og þú, góða mín, farðu aftur inn í rúm.

Ég fór svo heim til mömmu Magnúsar með lyfseðilinn og þessum leikfélaga mínum batnaði.

Litlu síðar reyndu strákarnir að hræða mig með því að Jón Valdason myndi verða voða reiður þegar hann frétti um heststuldinn og mundi senda pólitíið á mig og láta sekta mig! Ég sagði mömmu þessar vandræðahorfur mínar. Hún brosti við og sagði:

Vertu óhræddur, Halli minn. Mamma Magnúsar hefur þegar sagt Jóni þetta, borgað honum hestlánið og fengið fulla fyrirgefningu fyrir þína hönd.

Úti-
legu-
maður

Áður en ég fór til Hafnarfjarðar hafði ég raunar farið lengra út úr bænum. Það var í hina áttina.

Þegar ég var níu ára gamall kom mamma mér fyrir til mæðgna á bæ sem kallaður var Melkot og var fyrir ofan túngarðinn á Selkoti í Þingvallasveit. Maður konunnar hafði lokið við að byggja bæinn áður en hann varð blindur, en fór svo á sveitina og var eftir það tíma og tíma á hverjum bæ "boðinn niður" það sem hann átti eftir ólifað. En kona hans og dóttir voru áfram í bænum.

Þessar konur voru yndislegar manneskjur, sílesandi og yrkjandi. Þær voru besta fólk sem ég hef kynnst. Konan hét Gunnfríður en dóttirin Ingveldur og hún orti töluvert í Kvennablaðið. Mig minnir að gamli maðurinn héti Einar. Þær áttu tólf ær í kvíum og átti ég að passa þær. Svo var það dag nokkurn í glaðasólskini og blæjalogni og feiknalegum hita að ég sé að maður kemur stökkvandi upp Hrútagilsbarminn. Ég var á leið að gá að ánum sem áttu einmitt að vera þarna. Þegar ég er kominn á gilbarminn bæjarmeginn sé ég manninn á hinum barminum, beint uppaf þar sem ærnar voru. Ég var þá með mikla útilegumannatrú og heyrði sjálfan mig raula:

Útilegumenn í Ódáðahraun
eru máske að smala fé á laun.

Ég var sannfærður um að maðurinn vææri útilegumaður og mundi taka mig ef hann næði mér!

Já, hann tekur mig - en ekki má hann taka ærnar - hugsaði ég. Svo hleyp ég í dauðans ofboði fyrir ærnar, styggi þær eins og ég get og þær hlaupa heim. Skelfing var ég hræddur um líf mitt!

Blessunin hún Gunnfríður stóð á hlaðinu þegar ég kom heim.

Heillin mín, sagði hún, hvernig stendur á því að þú kemur svona snemma heim með ærnar - og svona hratt?

Ég sagði henni að ég hefði séð útilegumann sem líklega hefði ætlað að taka ærnar.

Þú ert blessað barn! Þetta hefur verið maður frá Kárastöðum að leita að skepnum. Farðu nú með ærnar til baka og komdu svo heim.

Svo geri ég eins og hún segir mér en þegar ég kem heim aftur eru þær búnar að hita súkkulaði og baka - þótt fátækar væru. Þetta fékk ég fyrir vitleysuna og hræðsluna, og þakklæti að auki fyrir umhyggjuna fyrir ánum. Heldurðu að þær hafi skilið barnssálina?

Við-
eyjar
ferð

Eitt þótti mér merkilegt við pabba, hvernig hann vissi það sem enginn gat sagt honum. Já ég skal segja þér eitt dæmi af því. Þegar ég var strákur langaði mig oft til að fá lánaðan bátinn hjá pabba og fara inn í Viðey en þorði aldrei að nefna það við hann. Svo var það á sunnudegi í sterku sólskini og blíðskaparveðri að mamma segi við pabba að sig langi til að rölta eitthvað út með Kristbjörgu systur sinni fyrst ekkert sé að gera. Ég spyr mömmu hvort hún vilji ekki biðja pabba að lána okkur bátinn inn í Viðey. Hún gerir það að mér áheyrandi. Þá segir hann við mig:

Treystir þú þér til að ábyrgjast bátinn?

Ég kvaðst halda að það væri óhætt að lána okkur hann.

Í trausti þess að þú gerir eins og þú getur lána ég þér bátinn en þín ábyrgð er ekki mikils virði því þú ert enginn sjómaður í þér - sagði hann.

Ég kvaðst skyldu skila bátnum í Selsvörina ef hann vildi hjálpa mér þegar við kæmum aftur.

Nei, þú kemur aldrei bátnum þangað, sagði pabbi. Þú lendir honum annars staðar.

Þetta fannst mér einkennilegt svar og ómaklegt vantraust og hugðist sýna í verki að ég kæmi honum á sinn stað.

Svo förum við í veðurblíðunni inn í Viðey og skoðum það sem okkur fannst merkilegt. Síðast skoðuðum við kirkjuna en hún snýr suður - norður en ekki austur - vestur eins og allir vita sem þar hafa komið. Sá gamli átrúnaður er á kirkjunni að aldrei megi loka útihurðinni því sé það gert verði mannskaði á sundinu (Viðeyjarsundi). Svo gengum við út úr kirkjunni en ég held að ég hafi ekki munað eftir þessum álögum á kirkjunni og taldi þau líklega vitleysu - nema ég lokaði hurðinni á eftir mér. Svo gengum við til skips. Ég setti upp segl því kominn var dálítill andvari og ég nennti ekki að róa. Sundið þekkti ég ekkert en í því miðju er skerjagarður og ekki öruggt að fara þar nema landmegin eða Viðeyjarmegin. Þegar við vorum komin rúmlega út á mitt sundið þurfti ég að venda til að fá betri byr í seglin og sný út á sundið þar sem ég sé engin sker. Þá veit ég ekki fyrr en báturinn stendur á skeri - og móðursystir mín varð töluvert hrædd en mamma tók þessu með stillingu. Ég tók þegar niður seglin, fór út á skerið, ýtti bátnum á flot - og reri svo áfram. Eftir þetta gekk ferðin aftur vel en bæði var ég orðinn þreyttur af óvana að róa og þær vildu komast heim sem fyrst svo ég fór upp að steinbryggjunni til að hleypa þeim í land en ætlaði svo að róa bátnum vestur í Selsvör. En þegar við komum að steinbryggjunni stóð pabbi þar og ég segi við hann:

Hvernig stendur á því að þú ert hér? Ég hélt að þú mundir bíða í Selsvör.

Það er allt í lagi, svaraði hann. Farið þið heim, en ég ræ bátnum í Selsvör.

Hvernig vissir þú að við mundum koma hér að?

Ég vissi það áður en þið fóruð af stað hvar þið munduð lenda svaraði hann, snaraði sér út í bátinn og réri af stað.

Það kom svolítið fyrir okkur, sagði ég þegar hann var að ýta frá.

Já, ég veit það, svaraði hann.

Enn í dag skil ég jafnlítið í því hvernig á þessu hefur staðið, og þannig var um fleira sem hann virtist vita fyrirfram. En það hafði enga þýðingu að spyrja pabba, hann sagði aldrei neitt. Talaði aldrei um sjálfan sig.

Krakka-
leikir

 

Heyrðu, Haraldur. Við höfum ekkert talað um krakkaleiki ykkar í Vesturbænum í þá daga.

O - o, þeir voru nú fremur fábrotnir. Það var skessuleikur, útilegumannaleikur, feluleikur, bolti, slagbolti, stikk, strútur, að hlaupa fyrir horn og brú, brú og brille, en það var leikur sem við vorum ákaflega hreykin af að kunna.

- Hvað var þetta brú, brú og brille?

Það var söngur og hann var þannig:

Brú, brú og brille,
kokkerenn í elleve
keisarinn slapp út í hæinn so
Fari, fari Kristmann
döðe skal dú líðe
det skal komme elleve
og döðen skal dú kríve.

Þetta var sungið. Leikurinn var þannig að tveir stóðu andspænis hvor öðrum og héldu saman upplyftum höndum og áttu krakkarnir að fara í halarófu milli þeirra og kringum þá uns kom að orðinu "krive". Þá skelltu þeir niður höndunum utan um þann sem var á milli þeirra.

Með þann sem hreppti "krive", þ.e. var fangaður, var farið afsíðis og hann spurður hvort hann vildi heldur tölu eða hnappagat. Annar fyrirliðanna sem fönguðu hann var tala og hinn hnappagat. Hinn króaði tók sér sína stöðu fyrir aftan þann sem hann hafði valið. Þegar allir höfðu verið króaðir og þeir tekið sér stöðu samkvæmt því tók sá fremsti í sinn fyrirliða og svo hver í annan. Fyrirliðarnir tóku fast saman höndum og toguðust á með fulltingi hinna sem héldu um mittið á sínum fyrirliðum. Sá sem hafði stærra lið eða sterkara vann leikinn.  

Stikk - tölustikk - var þannig að hver um sig lét eina tölu eða tvær á götuna eða á stein. Svo var valinn steinn, helst flatur og þunnur, gengið töluvert frá hrúgunni og steininum kastað að tölunni eftir röð. Hitti einhver það nálægt hrúgunni að hann gæti spannað milli steins og hrúgunnar, þannig að þumalfingur og langatöng næðu milli, eignaðist hann hrúguna.

Sunnudag einn á Bræðraborgarstígnum hitti enginn lengi vel nógu nálægt uns Ingimar í Mörk vantaði aðeins herslumuninn til að snerta tölu. Hann gerði sér þá lítið fyrir og skar upp ígreip sína milli þumalfingurs og vísifingurs og teygði þá svo á að hann gat snert töluna.

Strútur var þannig að valinn var langur steinn, helst þannig að hægt væri að láta hann standa á endanum. Steinn þessi var "strúturinn". Svo var raðað tölum í kringum hann og svo köstuðu allir smásteinum í strútinn uns sá sem felldi hann eignaðist allar tölurnar.

Leik
félag-
ar
Nokkrir nafnkunnir leikfélagar?

- Nei. Við Steindór Einarsson "bílakóngur" ólumst upp hvor á sinni þúfu. Hann í Ráðagerði en ég í Klöpp. Hann var duglegur strákur og vildi öllu ráða hjá okkur. Hann barði félaga sína svo á sá ef því var að skipta því hann var stór og sterkur og hlífðarlaus. Hann fékk að vera og var hirðusamur eins og Haraldur Níelsson komst að orði í útfararræðunni. Steindór var mjög langrækinn. Gæti hann hefnt sín var það úr sögunni - en gæti hann ekki hefnt sín væri gert á hlut hans átti hann erfitt með að gleyma - ef hann gat þá gleymt því nokkru sinni.

Pabbi
 
- Pabbi þinn virðist hafa verið nokkuð sérstæður maður. Gætir þú ekki sagt mér meira af honum?

Ég hef þegar sagt þér að ég skildi ekki hvernig hann fór að því að vita ýmislegt sem enginn gat hafa ssagt honum. Hann var samt ekki eins mikill mannþekkjari og mamma. Ég get sagt þér dæmi af því.

Einu sinni kemur nágranni okkar úr vesturbænum heim til pabba og biður hann að lána sér 100 - 200 stykki af salt-grásleppu handa sveitamanni. Hann segist þurfa að fá hana lánaða til haustsins en þá mundi hann borga. Pabbi lofar þessu því maðurinn var kunningi hans. Meðan þeir eru að tala saman kemur mamma inn með kaffi og lætur á borðið hjá þeim. Fer síðan fram í eldhús en kemur bráðlega inn aftur og býður þeim meira kaffi en þeir segjast ekki vilja það. Þá tekur mamma bollann hjá pabba og þykist líta í hann. Annars trúði hún ekki á þess háttar og spáði alls ekki í bolla. Nú þykist hún skoða í bollann. Pabbi spyr í gamni hvort hún sjái eitthvað í bollanum. Já, svarar hún. Það er falskur maður að tala við þig, Jón. Trúðu honum ekki því hann svíkur þig.

Það kemur svipur á manninn og hann segir: Það er víst ég sem þú átt við.

Það gæti líka orðið sá næsti, svarar mamma. Svo gengur hún út.

Maðurinn stóð upp og ferðbjóst og pabbi lét hann hafa grásleppuna - og vitanlega borgaði hann grásleppuna aldrei.

Pabbi vildi ekki tala um sjálfan sig, heldur Haraldur áfram. En það var helst að ég fræddist um hann og starf hans utan heimilis hjá mönnum sem höfðu verið sjómenn hjá honum. Einu sinni kom gamall maður sem hafði verið háseti hjá pabba og var með flösku til að gefa pabba í staupinu. Alltaf þegar pabbi hafði smakkað vín varð hann mjög blíður og góður og vildi allt fyrir okkur gera. Þessi gamli maður brann síðan inni þegar hús, sem bærinn átti, brann á Bergþórugötunni.

Einu sinni þetta kvöld sagði gamli maðurinn: Oft var tvísýnt hjá okkur en aldrei var það eins og þegar skipin fórust. Annað á Grenjálasundi en hitt á Stofusundi. Þá var það þannig að þegar við komum yfir sundið þurrkaðist sjórinn fyrir aftan skipið. Rokið og sjógangurinn var svo mikill. Þá lá þar skip á hvolfi. Ellefu menn drukknaðir í sjónum en sá tólfti á kjölnum. Ég man hve mjög þig langaði til að bjarga þessum manni en það voru engin tiltök. Það hefði kostað líf okkar sjö sem vorum á skipinu hjá þér. Það sem bjargaði okkur voru þínar skipanir á réttu augnabliki.

Nei, það var ekki mér að þakka, svaraði pabbi. Það var ykkur að þakka. Þið framkvæmduð skipanir mínar á réttum tíma, sérstaklega þú. Þú varst seglmaður og allt reið á þér.

Já, en gáðu að því, sagði gamli maðurinn, að við hefðum hvorki hreyft hönd né fót án þinna skipana. Ég sá réttu augnablikin stundum - en ekki alltaf.

Jæja, við skulum tala um eitthvað annað, sagði pabbi.

Slysa-
saga
Maðurinn sem þarna hélt sér á kjölnum og þeir urðu að sigla framhjá án þess að geta sinnt, var bróðir Ágústar Jósefssonar. Hann hélt sér á kjölnum fram undir kvöldið að veðrið fór að lægja svo hægt var að fara út og bjarga honum. Hann var þrekmaður en var allur af sér genginn, bilaðist og fór á geðveikrahæli. Hitt skipið fórst á Grenjálssundi. Þegar veðrið lægði undir kvöld var farið að athuga þar og mig minnir að öll líkin fyndust. Þeim var róið á Ólafsbakka og borin þar inn í geymsluhús sem var með moldargólfi og lögð þar hlið við hlið upp í loft. Læknir var sóttur og hann úrskurðaði þá alla dauða. Kunnátta í lífgun sjódrukknaðra manna var þá ekki hin sama og nú.

Á vökunni, líklega á tíunda tímanum, vantar eldivið. Vinnukona var send með skriðljós í útihúsið að sækja eldiviðinn. Leið hennar lá framhjá líkunum því viðurinn var í kompu fyrir innan þau. Hún rennir augunum yfir líkin bæði þegar hún fer inn og eins á útleið. Þegar hún kemur inn segir hún: Ég er viss um að hann Guðmundur er bráðlifandi. Hann er rjóður í kinnum eins og bráðlifandi maður. Þessu var fyrst lítt sinnt - læknir hafði úrskurðað alla mennina dauða. En vinnukonan heldur áfram að tönnlast á þessu þar til Guðmundur er sóttur, borinn í hjónarúm, færður úr öllu, hlúð að honum eftir föngum, sjóðheitir bakstrar lagðir með honum öllum. Hitað lútsterkt kaffi, hellt í það brennivíni og dreypt á hann. Svo var hann nuddaður og verið að þangað til hann lifnaði við. Þá kunnu menn ekki þær lífgunaraðferðir sem einkum eru notaðar nú.

Guðmundur þessi varð síðan gamall maður, kallaður Guðmundur rauði, vegna þess að hann var alltaf rauður í andliti eftir þetta. Hann var faðir Þórarins er sótti flesta bátana fyrir þá til Noregs og sigldi þeim heim. Oft var Þórarinn talinn af í þeim ferðum en hann kom alltaf að lokum. Gamall maður fór hann svo einn á báti að mig minnir vestur á fjörðu og drukknaði þá við land í sæmilegu veðri.

Aths.
Jóns
Bjarna-
sonar
Okkur hefur verið á það bent að þar sem Haraldur endursegir sögu er hann heyrði gamlan mann segja af sjóslysi, sé það ekki rétt að einn hafi komist af. Þeir hafi verið tveir og hvorugur borinn í útihús. Ennfremur að Þórarinn Guðmundsson hafi ekki farist einn á báti. Hörmum við Haraldur báðir þessi mistök.
Saman
tekt
Jóns
Bjarna-
sonar
um
Björn
Jóns-
son

 

Björn Jónsson, ráðherra Íslands 1909-1911
Myndin er af vef alþingis.

Björn Jónsson, ritstjóri, stofnandi Ísafoldar, var fæddur 8. október 1846 í Djúpadal, litlum, þröngum dal inn af litlum firði við botn Breiðafjarðar.

Hann var elstur tólf systkina, sonur Jóns Jónssonar bónda þar og konu hans, Sigríðar Jónsdóttur. Á svo barnmörgu heimili mátti ekki slá slöku við vinnuna en þetta var eitt hinna breiðfirsku menningarheimila þar sem saman fór mikil vinna og mikill bókalestur.

 Björn lærði undir skóla hjá Ólafi E. Jóhannssyni á Stað á Reykjanesi, fór í Lærða skólann (Menntaskólann) 1863. Hann lagði síðan stund á laganám í Kaupmannahöfn en lauk því ekki. Þjóðhátíðarsumarið 1874 kom hann heim til Íslands, stofnaði Ísafold og skipaði sér í andstöðu við stjórnvöldin, í þá fylkingu sem barðist fyrir sjálfstæði landsins.

Þingmaður Strandamanna var hann 1879, þingmaður Barðstrendinga 1909 og ráðherra Íslands en varð að segja af sér í mars 1911. Gekk hann þá til sátta við andstæðinga. Um það leyti lauk stjórnmálaferli hans því hann gat ekki setið þing 1912 sökum heilsubrests.

Björn lét sér annt um íslenskt mál, gaf út stafsetningaorðabók árið 1900. Síðasta árið sitt mun hann mest hafa gefið sig að íslensku máli. Hann safnaði orðum um iðnað og smíðar og samdi nýyrði. Ætla má að íslenskir blaðamenn viti nokkur deili á æfi Björns Jónssonar en ýmsir þeirra hafa hlotið verðlaun úr móðurmálssjóði Björns Jónssonar.

Björn lést 24. nóvember 1912.

Prent-
nám

Fimmtán ára (1903) byrjaði ég að læra prentverk í Ísafoldarprentsmiðju. Ég byrjaði á öskudaginn. Daginn eftir öskudaginn árið 1909 varð Björn Jónsson ráðherra. Andstæðingar hans kölluðu hann öskudagsráðherra. Þegar sambandslaganefndin kom heim frá Kaupmannahöfn og þeir höfðu allir svikið nema Skúli Thoroddsen stóð ég norðan megin í Ísafoldarprentsmiðju í Austurstræti. Glugginn var alltaf opinn. Það var sólskin og blíða. Þá sjáum við að Stefán á Möðruvöllum kemur austan Austurstræti og Jón gamli Forni í humátt á eftir honum, stingur þungt niður stafnum og glymur í löppinni. Þá kalla Jón Forni: Sæll Föðurlands! Stefán snýr sér eldsnöggt við eins og hann hafi verið stunginn og spyr hvasst: Föðurlands hvað! Lengi á eftir var Stefán kallaður Föðurlanfds hvað?

drepa í skörðin
=
tala ógreinilega
af því að
tungan fellur
í skörð
Þegar Alþingistíðindi voru sett unnu við það tólf menn. Þá var allt handsett. Þar stóðu hvor á móti öðrum þeir Þórður Sigurðsson og Guðjón Einarsson faðir Benedikts G. Waage - og kom varla sá dagur að þeir ekki hörkurifust út úr pólitík. Guðjón var landvarnarmaður og stóð með Birni en Þórður heimastjórnarmaður. Þórður drap í skörðin en Guðjón lét ekki standa upp á sig og spýtti á báðar hendur og því meira sem hann varð æstari. Það var oft hávært í horninu því.

Ágúst Sigurðsson sonur Sigurðar fangavarðar var yfir okkur í pressusalnum. Eitt sinn kom hann stökkvandi upp til okkar með gleraugun á enninu og æpti: hafið þið ekki séð gleraugun mín? Enginn hafði séð gleraugun. Ágúst ferð þá út í bókband. Leitar alls staðar að gleraugunum því enginn hafði séð þau. Kemur svo aftur inn til okkar og æpir: Hvar eru gleraugun mín? Segið mér það strákar! Hvar eru andskotans gleraugun mín?

Þú ættir að líta í spegil!

1903
24. nóv.

Hannes
Hafstein

Íslands-
ráð-
herra

Þegar það fréttist í Ísafoldarprentsmiðju að Hannes Hafstein hefði verið gerður fyrsti Íslandsráðherra, fréttin mun hafa borist 25. nóvember 1903, en Hannes varð Íslandsráðherra 1. febrúar 1904 klukkan 10 um morgunninn, þá var ekkert verið að tvínóna við það. Það gengu allir út nema við tveir lærlingar og Ágúst Sigurðsson. Um hádegið komu þeir allir inn - fullir. Sá síðasti kom á fjórum fótum og Jón Rósinkrans læknir á eftir honum danglandi staf í hann og rak hann þannig inn í klæðaskáp. Þar "dó" hann. Hinir fóru niður í pressusal og sendu sendisveininn heim til hvers þeirra að sækja mat. Svo biðu þeir hans - og þar "dóu" þeir allir. Voru allir sofnaðir þegar sendisveinninn kom aftur með matinn. Svo vaknaði einn af öðrum eftir því sem þrekið leyfði og fóru þá að næsra sig. Að því loknu dreyptu þeir á sig aftur. Þegar þeir höfðu jafnað sig örlítið fóru þeir allir út á ný og sáust ekki meira þann daginn. Ég heyrði að Björn hafði fundið að þessu við þá. Jón Einarsson smakkaði ekki vín en hinir fengu að geyma flöskur sínar í horninu hjá honum. Í eitt skipti var það að allir fara í krókinn, taka sína flösku hver og byrja að stúta sig. Höfðu þegar drukkið töluvert. Því veit enginn fyrr til en Björn Jónsson kemur skeiðandi inn rakleitt í krókopið. Þeir verða höndum seinni að stinga flöskunum í pokann og glamrar hátt í. Björn stendur í krókopinu sem var eina undankomuleiðin, heldur höndum fyrir aftan bak en segir ekki orð. Enginn prentaranna þorði að fara út né segja neitt - en þeir skömmuðust sín hroðalega. Þar stendur Björn að minnsta kosti stundarfjórðung, þá snýr hann sér við og gengur inn til sín án þess að mæla orð - en þeir drukku ekki meira þann daginn. Það voru ekki skammirnar hjá Birni.
Prent-
smiðju-
stjóri

og

heilsa

Hvernig voru kjör prentara á þessum árum?

Þá var nýsveinakaupið 18 krónur á viku fyrsta árið. En þegar ég var í nokkrar vikur búinn að fá útborgað og er kominn á skrifstofuna til að sækja kaupið mitt segir Björn: Langar þig ekki til að fá svolítið meira kaup? Ég hef alls ekki búist við því, svaraði ég. Ég ætla að bæta við þig og láta þig fá tuttugu krónur. Svo sjáum við til hvernig það verður. Þannig liðu nokkrar vikur en eitt sinn er ég sæki kaupið mitt segir Björn við mig: Ég hef hugsað mér að hækka við þig núna í tuttugu og eina krónu. Svo er verst að þú ert ekki nógu gamall. Þeir vilja ekki samþykkja það í bankanum. Annars hefði ég þig fyrir prentsmiðjustjóra. En þegar þú ert orðinn 21 árs mátt þú verða það og þá verður þú prentsmiðjustjóri.

En þegar ég var á tuttugasta og fyrsta árinu varð Björn ráðherra og gaf frá sér prentsmiðjuna. Ólafur, sonur hans, tók við - og eftir rúmt ár frá því missti ég heilsuna og varð að hætta. Það var því aldrei úr þessari ætlan Björns Jónssonar, sem betur fór, því ég hafði þá ekki þroska til þess að stjórna mönnum.

Nám

og

heilsu-
brestur

Hvernig  atvikaðist það að þú misstir heilsuna - og var það til langframa?

 Ég missti heilsuna í tvö ár - og hef alltaf verið að missa hana öðru hvoru síðan.

Mig langaði svo mikið að komast í skóla og læra en gat ekki slegið slöku við vinnuna vegna fátæktar.

Haust eitt fór ég í skóla hjá Ásgrími Magnússyni á Bergstaðastræti. Þar var töluvert kennt og margir lærðu þarna. Þeirra á meðal var Árni Sigurðsson, síðar Fríkirkjuprestur. Hann tók þaðan próf upp í þriðja bekk Menntaskólans. Hann gat það vel. Hann þurfti ekkert annað en að lesa. Þó leið vart svo kvöld að kæmi ekki til mín þeirra erinda að ég læsi með honum.

Ég varð að fara beint úr vinnunni í skólann. Hafði ekki tíma til að þvo mér áður. Kom svo heim kl. 10 og las til kl. 2-3 á næturnar. Að morgni varð ég svo að vakna til vinnu.

Einu sinni leyfði ég mér að slaka á og treysti á að prestsefnið mundi lesa með mér undir tímann. Fór fram á það að hann læsi einu sinni yfir með mér. Hann hálf þykktist við að ég skyldi nefna þetta við hann og hélt að sér veitti ekki af tímanum sjálfum!

Annars kom ég alltaf lesinn í tímana.

Svo leið veturinn. Ég var orðinn mjög þreyttur undir vorið. Vakti á næturnar við lestur, vann á daginn - og í miðju prófi varð ég veikur - og þannig stóð á því að ég féll út úr prentverkinu í bili - og skólanáminu alveg. Síðan féll ég alltaf meira og minna út vegna þreytu á taugum.

Hvíld

á

Báru-
stöðum

í

Borgar-
firði

Sumarið eftir datt mér í hug að fara upp í sveit og hvíla mig. Ég hélt upp í Borgarfjörð. Þar þekkti ég engan. Fyrst fór ég að Grímsstöðum sunnan Hvítár. Ég fór fram á að mega dvelja þar um tíma og var spurður: Hvers vegna?

Ég sagði hreinskilningslega hvernig högum mínum væri háttað og þá var svarið: Nei, það er ekki hægt. Það geta verið berklar að þér.

Þá hélt ég áfram að næsta bæ, Bárustöðum, og sagði frá högum mínum á sama hátt og á hinum bænum. Svar: Gerðu svo vel og komdu inn og vertu eins lengi og þú vilt. Það kostar þig ekki neitt.

Ég gat þess þá að fólkið á hinum bænum hefði ekki viljað taka mig vegna þess að ég gæti verið berklaveikur. Það er alveg sama þótt þú sért berklaveikur. Þú þarft eins að hvíla þig fyrir því.

Svona eru mennirnir misjafnir.

Mig minnir að bóndinn þarna héti Sigurmon Símonarson.

Þarna var ég í tíu daga og leið ágætlega - nema ég átti erfitt með svefn. Lifði í vellystingum og fékk ekkert að borga.

Góðir
í
heim-
sókn
Helst leit út fyrir að taugarnar væru alveg bilaðar. Þegar ég var kominn heim aftur lá ég í rúminu og gat ekki hreyft mig. Til dæmis var það einn daginn eftir heimkomuna að ég lá hann allan, gat ekki hreyft mig, gat ekki talað. Mamma sagðist aðeins hafa séð mig renna til augunum. Þangað til komu gestir - frá Bárustöðum, Sigurmon og sonur hans. Þeir komu til að vita hvernig mér liði. Við komu þeirra hresstist ég svo að ég reis upp í rúminu - og upp frá því fór mér að batna. Straumar frá fólki hafa ekki svo lítið að segja. Þegar maður er svona veikur er maður opinn fyrir öllum áhrifum.
Heilsu-
leysi

 

lyf

?

eða

Mullers-
æfingar

?

Sumarið eftir fór ég norður á Siglufjörð. Vonaði að hressast á því - en var lélegur. Eftir heimkomuna fór ég til Guðmundar Björnssonar læknis, fékk hjá honum mixtúru á 300 gramma glasi en hún reyndist árangurslaus. Eftir læknisskipun tók ég annað glas en fór fljótlega vestur í Grandabót og henti því eins langt út í sjó og ég gat.

Nokkrum sinnum fór ég suður í Öskjuhlíð, fór þar úr öllum fötunum og lá ofan á þeim í 20 - 30 mínútur, í sudda. Á eftir fann ég sjálfan mig eins og ég átti að mér að vera - en það varði stutt.

Á heimleiðinni úr Öskjuhlíðinni gekk ég við í Ísafold og komst að því að þeir voru að setja Mullersæfingabókina , Mín aðferð, gluggaði í handritið. Keypti strax eintak þegar bókin kom út og æfði mig eftir bókinni og smájók æfingarnar. Á sjöunda degi fann ég breytingu á mér og hresstist svo smátt og smátt. Ég hélt æfingunum áfram þar til mér fannst ég vera orðinn miklu hressari og þá fór ég til Guðmundar Björnssonar.

- Nú, þér hefur batnað! sagði hann. Það eru meðulin.
- Nei, ég hef fleygt þeim. En stundaði Mullersæfingar.

Þá verður hann daufur og hugsandi - þar til hann þrífur utan um mig og segir glaðlega:

- Það er alveg sama! Þér er að batna og þú færð heilsuna aftur!

Prent-
verkið

varð

til

bjargar

Eftir að ég hætti í Ísafold kallaði Elísabet, kona Björns Jónssonar, alltaf á mig ef hún sá mig og spurði hvernig mér liði.

- Þú átt að vera í Íslafold og hvergi annars staðar! sagði hún.

Einu sinni þegar ég hafði verið veikur í Langholtinu, fór ég, þegar mér batnaði, að vinna hjá Rafstöðinni fyrir innan Elliðaár, en þoldi ekki og varð að hætta aftur. Þá hitti Elísabet mig niðri í bæ, spurði að vanda um hagi mína og sagði svo:

- Komdu í Ísafold á morgun.

Daginn eftir fór ég í Ísafold, hitti Herbert og hann sagði:

- Það er ekkert til að gera, - en ég ætla að fara upp í stjórnarráð og reyna að stela ræðuhluta Alþingistíðindanna frá Félagsprentsmiðjunni. Komdu aftur á morgunn.

Þegar ég kom til hans daginn eftir sagði hann:

- Þetta gekk vel. Ég fékk ræðuhlutann. Farðu niður að vinna.

Já, - prentverkið hefur iðulega hjálpað mér. Ég hef oftast fengið vinnu við það þótt lítið væri að gera. Það reyndist rétt sem móðir mín sagði við mig þegarhún var að hvetja mig til að ljúka við prentnámið:

- Það getur bjargað þér að grípa til þess ef þú þarft.

Gott
vegar-
nesti
í
íslensku

 

 

Prent-
verk-
efnin

Hvernig var að læra í Ísafold?

Það var gott fyrir unglinga að vera þar. Ég kom þangað ákaflega fáfróður um stafsetningu og annað en allir prentararnir gerðu eins og að skyldu sinni að leiðbeina mér og gera mér allt sem skiljanlegast. Ekki síst Ágúst Sigurðsson sem þó var í pressusalnum og því ekki að neinu leyti við setninguna riðinn, - sem ég var þó við og átti að læra. Ég minnist þeirra allra alltaf með þakklæti.

Hvað voruð þið að setja á þessum árum?

Það var Ísafold, Fjallkonan, Alþingistíðindi og ýmislegt fleira, svo sem ljóðapésar Símonar Dalaskálds, uppprentanir á Þjóðsögum Jóns Árnasonar og margt fleira.

Hvernig voru samskipti blaðamanna og prentara í þá daga? Hafði Björn Jónsson ritstjóri mikil dagleg samskipti við ykkur?

Nei. Hann sat á skrifstofunni sem var næsta herbergi við setjarasalinn. Hann lét gera gat á þilið og skúffu undir því og í hana lét hann handritin. Þar hirtum við setjararnir þau til setningar. Lítið annað höfðum við af honum að segja daglega.

Seinna flutti hann skrifstofuna upp á loft og þá lét hann gera pípu ofan af loftinu og niður í handritaskúffu í setjarasalnum. Svo lét hann gera fyrir sig  pappahólk, lét hann í pípuna og féll hann þá niður í handritaskúffuna með töluverðum hávaða. Kallaði þá venjulega einhver setjarinn:

- Sæktu nú tundurskeiðardólginn!

Tundur-
skeiðar-
dólgur
Já, þú ert hissa! En handritahólkinn kölluðu prentararnir tundurskeiðardólginn. Ég man ekki hver byrjaði á því.

Ástæðan var þessi:

Björn Jónsson lét sé mjög annt um íslenskt mál og íslenskaði því allt erlent efni er hann birti eða skrifaði um í Ísafold en tók ekki upp erlend orð. Þá var ekki til fjöldi orða sem nú þykja sjálfsögð. Þá þurfti að búa til ný orð yfir fjölda hluta. Einhverju sinni skrifaði Björn fréttir af erlendum hernaðarátökum og íslenskaði þá eitthvert orð yfir hernaðartæki með orðinu tundurskeiðardólgur. Hvort það er hið sama og nú er nefnt tundurskeyti man ég ekki.

Björn Jónsson var ákaflega fálátur maður og talaði ekki meira en hann þurfti í prentsmiðjunni. Afskiptasemi átti hann ekki til. Allt stóð sem stafur á bók sem hann sagði. Ekki voru skammirnar! Og ef hann sá að hann gat treyst einhverjum brást hann ekki þeim manni.

Í fyrra sinnið sem ég var í Ísafold var ég þar í níu ár. Síðan var Ólafur Björnsson með prentsmiðjuna. Hann var þá ungur. Þá voru þeir Ólafur og Sigurður Hjörleifsson ritstjórar Ísafoldar. Þá var það sem Björn Jónsson á að hafa sagt:

Aumingja Ísafold! Annar ritstjórinn barn - hinn banditt!

Þegar Björn Jónsson gerðist ráðherra og hætti að stjórna henni var Ísafold búið að vera sem blað - í þeim skilningi sem hún var í höndum Björns.

Drykkja
í
góðu
hófi
Voru prentararnir mjög drykkfelldir í þá daga?

Þó að ég hafi minnst á drykkju prentara í prentsmiðjunni þá var hún eins og hver önnur undantekning og ekki nema við sérstök tækifæri, svo sem ef einhver átti afmæli eða barnsfjölgun varð hjá einhverjum þeirra. Var þá oft keypt flaska og skálað - með hamingjuóskum fyrir barni og foreldrum - en þess þó jafnan gætt að vinnan truflaðist ekki og afköst yrðu lík því sem vant var í prentsmiðjunni. Það var aðeins þegar almenn stórtíðindi gerðust sem þótti sjálfsagt að fagna og gleðjast yfir - sem vinnan truflaðist, - eins og þegar Hannes varð Íslandsráðherra - og var það þá látið afskiptalaust af húsbóndanum, Birni Jónssyni.

Setjararnir ræddu oft ýmis mál sín á milli í kaffitímanum. TIl dæmis bæjarmál, landsmál og önnur mál er voru þeim hugleikin. Gátu þá oft orðið heitar umræður af skiptum skoðanamun, en ekki minnist ég þess að nokkurn tíma félli skuggi á þann einingaranda og vináttu sem var svo áberandi einkenni þessara góðu samstarfsmanna - og allir voru þeir alltaf boðnir og búnir til að leiðbeina okkur nemendunum í drengskap og þekkingu á starfinu og öðru því sem að manndómi lýtur.

Haraldur brosir, horfir fjörrum augum eins og hann sjái eitthvað í fjarska - og heldur svo áfram:

Oft komu fyrir í prentsmiðjunni skemmtileg smáatvik sem minnisstæð urðu - eins og til dæmis eitt sinn er ég gekk út að glugganum er sneri út að Aðalstræti og stóð opinn. Sá ég þá hvar Jón "sinnep", sem svo var kallaður, kemur vestan götuna og gengur austureftir en á móti honum kemur drukkinn maður sem slær Jón umsvifalaust niður í götuna. Í því koma einnig tveir lögregluþjónar, Þorvaldur og annar sem ég man nú ekki hver var, taka drykkjusvolann og fara með hann á milli sín, líklega í "Steininn". Þá stendur Jón sinnep upp, réttir upp aðra höndina og hrópar: "Nei! Sko svínin! Nú fara þeir með minn besta venn!"

20. okt
1918

*

25-ára
bóksala-
afmæli
Sigurðar
Kristjáns-
sonar

Sigurður Kristjánsson bóksali minntist 25 ára bóksala-afmælis síns með því að gefa Hinu íslenska prentarafélagi þúsund krónur í sjúkrasjóð þess. Vildi þannig sýna í verki að hann mæti störf prentaranna og minna á að engin bók yrði til án prentara. Þúsund krónur voru miklir peningar í þá daga. Þetta afmæli hans var 20. okróber 1908.

Prentarafélagið hélt þá Sigurði samsæti á hótel Reykjavík. Ég var í þessu samsæti, þá stráklingur. Þeir höfðu oft talað um það í prentsmiðjunni að það væri gaman að vera saman bjarta vornótt og skemmta sér. Og forvitnin rak mig í samsætið þótt það væri haust.

Að borðhaldinu loknu, en vín var drukkið með matnum og því margir orðnir hreyfir, fylgdu allir prentarar Sigurði Kristjánssyni heim upp í Bankastræti. Niðri í húsi hans var Sparisjóðurinn, síðar Landsbankinn.

Við kvöddum Sigurð heima í stofu hans og hétum honum að loka vel útidyrum. En þegar við erum komnir í útidyrnar kemur gamli maðurinn labbandi á eftir okkur, hægur og rólegur, eins og hann hefði ekki smakkað dropa! og þótti tryggast að loka útidyrunum sjálfur.

Prentarahópurinn samþykkti að fara vestur Austurstræti og Vesturgötu. Jafnframt  var samþykkt að tala lágt svo fólk í næstu húsum hefði svefnfrið. Þegar langt var milli húsa var lagið tekið - en þagnað þegar við nálguðumst hús.

Það var farinn Brekkustígurinn en þar átti Einar Hermannsson heima. Spurði þá einhver hvort ekki væri rétt að taka lagið hjá Brekku svo fólkið heima hjá Einari gæti heyrt að við værum lifandi og í góðu skapi. Nei! Það var ákveðið að þegja. Lofa fólkinu að hvílast. En þegar við komum suður af Bræðraborgarstígnum - út úr bænum - var aldeilis tekið lagið! Það var sungið nær því í tvær stundir.

Þegar við komum suður á Melana þar sem Loftskeytastöðin reis síðar, voru þar sléttir melar en dálítill steinn var þó er stóð upp úr melnum. Einn leggst niður á melinnn og leggur vangann á steininn og segir: "Syngið þið nú Harður klettur höfðalagið er! Það var gert rösklega - og það var síðasta lagið.

Þaðan gengum við niður í bæinn. Sagðar voru ýmsar skrítlur - en þess gætt að vera ekki með hávaða. Klukkan var orðin fimm og við orðnir svangir og var talið ráðlegt að vita hvort brauðgerðarhúsin væru opnuð. Í Bernhöftsbakaríi var enginn mættur en í Sandholtsbakaríi, sem var niðri í húsi Bensa Þór, neðst á Laugaveginum, voru menn mættir og þar fengum við snúða og vínarbrauð. Þá var hver dropi búinn - og öllum fylgt heim. Síðastir urðum við Einar Hermannsson sem báðir áttum heima á Brekkustígnum.

Þetta - þótt lítið sé - sýnir ábyrgðartilfinningu prentaranna fyrir samþegnum sínum. Þá settu menn ekki stolt sitt í það að æpa sem hæst svo að sem flestir vakni.

Jón
sinnep
Þú sagðir eina sögu af Jóni sinnepi, Haraldur. Þekktir þú margt af þeim mönnum er sumir seinnitíma menn hafa talað um sem furðufugla og ýmsir hafa haft að skopi?

Ég sá flesta þeirra en þekkti suma lítið þótt ég heyrði að sjálfsögðu margar sögur af þeim.

Hvernig voru þær sögur?

Svo við höldum áfram með Jón sinnep þá var hann sjómaður. Mun hafa verið hörkuduglegur maður og ágætis drengur en hann var einn þeirra sem ekki safna í kornhlöður og mun því af sumum hafa verið talinn ráðdeildarlítill.

Hann drakk mikið í túrum en það var regla hans að drekka ekki þegar hann var að vinna á vertíðinni. Erlingur Filipusson grasalæknir hefur sagt mér að þegar hann var í Brúnavík - en þá fóru sjómenn héðan oft á vertíð til Austfjarða - hafi Jón sinnep verið duglegasti sjómaðuri er hann hafi fengið og aldrei hugsað um annað en afla sem mest - en drukkið út kaupið að aflokinni vertíð.

Einu sinni var ég látinn sofa hjá Jóni sinnepi. Þannig stóð á því að Jón var þá háseti hjá formanni í Keflavík sem hét Guðjón og var góður kunningi pabba. Svo var það í landlegu að hásetum Guðjóns þótti illt að Jón sinnep, þessi mikli drykkjumaður, fengist ekki til að drekka með sér á vertíðinni. Þeir fundu þá upp á því að biðja formanninn að senda Jón inn í Reykjavík með 5 potta kút til að kaupa á, gefa honum fyrir einni flösku og vita hvort ekki mætti takast að velta honum. Þá var að athuga hvar hann gæti gist og varð að ráði að Guðjón bað pabba að hýsa hann. Þeir fluttu svo Jón á báti frá Keflavík og kom hann til pabba með bréf frá formanninum þess efnis að hýsa Jón.

Við áttum þá heima í torfbænum og það var ekki um annað að gera en koma honum fyrir í rúminu hjá okkur strákunum. Hinrik bróðir minn var látinn sofa til fóta en ég upp í arminn hjá Jóni sinnepi.

Þegar Jón hafði fengið hressingu heima fór hann niður í bæ og sagðist ætla að útrétta og hafa allt tilbúið þegar þeir kæmu að sækja sig. Hann bað pabba og mömmu að undrast ekki um sig þótt hann jafnvel kæmi ekki heim um nóttina. Hann ætti svo marga kunningja og gæti því tafist.

Svo fór Jón af stað. Búðir voru þá opnar til kl. 10 á kvöldin. Leið svo dagurinn og vakan og ekki sást Jón. Við fórum því að sofa - og ekki kom Jón þá nótt. Hann birtist ekki fyrr en síðari hluta næsta dags. Þá var drengur glaður og kátur! Hann var ekki kominn nema niður í hálfa flöskuna - en var líka kominn niður í hálfan kútinn!

Honum var vitanlega gefinn matur og varð nú kyrr heima og söng og drakk. Fyrst drakk hann úr flöskunni. Þegar farið var að hátta bað Jón um stóra krukku af vatni, setti svo vatnið og kútinn fyrir framan sig.

Hann hafði góða söngrödd og söng alla nóttina - þar til ekkert var eftir á kútnum né flöskunni. Öðru hvoru var honum svo fært vatn - því enginn sofnaði á bænum!

Svo - um morguninn þegar hann var að byrja að þynnast upp, komu þeir sunnan úr Keflavík að sækja hann. Þá verður Jón aumur. Hann kveðst mjög syndugur. Hann hafi drukkið úr kútnum! Þá byrsta þeir sig og segjast munu kæra hann og láta dæma hann og eru að þangað til að gamli maðurinn fer að gráta. Þá föðmuðu þeir hann og báru niður í bátinn. Tveir sem seinastir fóru út sögðu að aðal gamanið væri þó eftir: Nú gætu þeir þó skellt því á hann í Keflavík að hann hefði drukkið sig fullan á vertíðinni.

Slík var þeirra skemmtun.

Þegar formaðurinn kom að sunnan um vorið kvað hann þá hafa keypt handa honum flösku - eftir að hann var orðinn nógu aumur.

Jón
söðli
Einn af þeim sem spjátrungarnir í litlu Reykjavík töldu sig umkomna að hafa að skopi var Jón söðli, en svo var hann kallaður af því að hann mun hafa verið söðlasmiður. Hann kom austan úr Fljótshlíð og setti svip á bæinn þegar hann kom. Hann var þó alls enginn umrenningur.

Hann var ákaflega stórbrotinn maður. Hann gekk venjulega með stóra vatnastöng og skinnhúfu. Hann var barn síns tíma og ákaflega trúaður á útilegumenn og sótti um styrk til Alþingis til öræfaferða í þeim tilgangi að útrýma útilegumönnum.

Hann var víst fylgdarmaður William Morris og var sagt að Morris hefði reynst honum vel eftir það og hefur því litið öðrum augum á hann en "fína" fólkið í Reykjavík sem þótti hann einkennilegur fugl og reyndi að skopast að honum. Einu sinni kom Jón í Bókaverslun Ísafoldar til Ástráðs sem þar var yfir. Sagði þá Ástráður: Nú er það naumast! Þú hefur þvegið þér! Þú ert bara táhreinn!

Það stóð ekki á svari hjá Jóni: O - - það hefur blessuð náttúran gert. - Úti var rigning.

Þorsteinn
Erlingsson
yrkir
til
Jóns söðla.
Jón söðli var ákaflega stórbrotinn maður og setti mikinn svip á þennan litla bæ þegar hann kom. Og ekki leit Þorsteinn Erlingsson hann sömu augum og búðarlokurnar í Reykjavík, en Þorsteinn orti til hans:

Ó! - Heill sértu vinur, ég hugsa til þín,
þótt hverflyndur sé ég og gleyminn,
því þú hefur best opnað barnsaugun mín
og bentir mér fyrstur á heiminn.
Þú sagðir mér öldunum fornlegu frá,
er fagnandi hugurinn skoðar,
um fjarlægar sveitir þú fræddir mig þá
og fjöllin er kvöldsólin roðar.

Því þú hafðir víðast hvar litið vort land
með löðrandi, brimgirtum ströndum,
og valið þér leið yfir válegan Sand
með vinum úr fjarlægum löndum.
Ég man hve þig gladdi hin svipmikla sjón
og söguljós horfinna tíða.
Það kætti þig mjög - og þú manst það víst, Jón,
með Morris um fjöllin að ríða.

Og þegar að vorsól á Valahnúk skín
og verpur á skógana roða
og ferðamenn ganga í fótsporin þín
og friðsælu runnana skoða
og dreymandi hvíla við hjarta vors lands
og horfa á fljótsstrauminn svala,
þá hljóta þeir líka að minnast þess manns
sem Mörkina vakti af dvala.

Með blaðinu kveðju nú færðu mér frá,
það finnur þig ef að þú lifir,
ó, heilsaðu eldgömlu Hlíðinni þá
og himninum bláa þar yfir.
Þótt tíminn sé breyttur og bindi nú þig
og bannaðir skemmtanafundir,
þá eigðu þó blaðið til minnis um mig
sem minning um brautliðnar stundir.

Brynki
Hólm
Brynki Hólm var einn þessara umtöluðu manna í bænum. Hann var sjómaður. Einu sinni komu tveir lögregluþjónar með Brynka á milli sín á Lindargötunni. Hann hefur sennilega verið með einhvern hávaða en þó var hann aldrei meiðslamaður.

Þegar þeir komu á móts við hús Sveinbjarnar Björnssonar segir Brynki: Varið ykkur nú! Nú hleyp ég frá ykkur!

Þeir voru víst ekki á sama máli og þóttust hafa ráð hans í hendi sér en í því skallaði hann þá báða svo að þeir misstu af honum. Fékk annar þeirra blóðnasir. Svo hljóp Brynki töluverðan spotta austur götuna, staðnæmdist þar og kallaði til þeirra: Ég sagði ykkur að passa ykkur! Ég mundi hlaupa!

Svo beið hann eftir þeim og lét þá taka sig aftur.

Brynki var hálfbróðir Ólafs í Reykjaborg, býli næst fyrir innan Múla, en þeim var ekki betur til vina en svo að þeir máttu helst ekki sjást. Sagt var að Brynki gerði það af skömmum sínum að koma til bróður síns á næturnar og vekja hann upp!

Það var haft fyrir satt á sínum tíma að ljóðið Þú varst alinn upp á trosi í lífsins ólgusjó væri ort um Brynka Hólms.

Árni
funi
Árni funi var einn þessara manna kallaður. Hann kom hingað venjulega á vorin eða snemma sumars, einhvers staðar að austan.

Hann var meðalmaður á hæð, en hvort hann var gildur eða grannur vissi maður eiginlega ekki því hann var klæddur í allskonar larfa og yst fata var hanní þykkum frakka, hvort heldur var hörku norðankuldi eða steikjandi sumarsólskin.

Dabbi
í
Nesi
Dabbi í Nesi var einn þeirra sem bæjarbúar gömnuðu sér að. Hann var á hverjum degi hér í Reykjavík, flutti mjólk frá Nesi að Seltjörn, en þar ar hann vinnumaður. Hann hafði þann fasta vana að fá sér vínlögg í hverri ferð. Keypti sér flösku og geymdi hana þar til hann kom að grjótgarði við Framnesveginn. Þar settist hann á garðinn við Miðselstúnið, tók upp flöskuna og hellti úr henni í staup sem hann hafði í vösum sínum.

Hann drakk alltaf úr staupi og mun ekki hafa drukkið meira en úr því hverju sinni.

Þetta háttalag hans vakti að vonum mikla athygli unglinga og krakka, svo og spjátrunga, en þetta mun hafa verið hinn mesti heiðursmaður og gaf sig aldrei að því sem var honum óviðkomandi.

Eyjólfur
ljóstollur

[Innskot
GÓP
]

Eyjólfur ljóstollur, sem svo var kallaður af því að hann hafði einhverntíma innheimt ljóstollinn, var einn þeirra manna sem mörgum var tíðrætt um.

Eyjólfur var einn þeirra manna á öldinni sem leið [nítjándu öld] er hlaut ömurleg örlög. Hann var vel gefinn og skáldmæltur. Altalað var að einu sinni sem oftar kæmi hann að Kaldaðarnesi til Sigurðar bónda og sýslumanns og fylgdi hann Eyjólfi úr hlaði. Á leiðinni gengu þeir framhjá kálgarði þar sem kona var að sá fræi. Sagði þá sýslumaður: Sjáðu hana þessa!

Eyjólfur kvað hafa svarað samstundis:

Hún er að sá í holurnar,
hún er að ná í fræið,
hún er að fá það hér og þar,
- hún kann á því lagið.

Einu sinni hafði Eyjólfur komið til Björns Jónssonar ritstjóra og sá ég þegar Björn fylgdi honum til dyra og fékk honum 25 aura, sem var andvirði hálfrar brennivínsflösku, og sagði að það mætti ekki minna vera en hann fengi eitthvað í skáldalaun. Hvað hann hefur haft yfir þá inni hjá Birni veit nú sennilega enginn.

Einu sinni þegar ég var að fara inn að Elliðaám til pabba hitti ég Eyjólf á leiðinni inneftir. Hann var þá blíður og góður við mig, en þegar við komum inn að Lækjarhvammi byrsti hann sig eitthvað skyndilega svo ég varð hræddur, hljóp frá honum og innhjá Bústöðum og þaðan að Árbæ.

EInu sinni þegar ég kom að Ártúni og upp á loft var Eyjólfur þar fyrir og hafði verið að vinna í Ártúni.

Þótt Eyjólfur hafi ekki verið við eina fjölina felldur með dvalarstaði mun ekki rétt að hann hafi verið flakkari. Hann sníkti aldrei. Hann átti það til að vera töluvert á lofti og þorðu strákar þá ekki að bekkjast við hann. En þótt hann hafi átt það til að vera mikill á lofti við vín var það ekki af illmennsku því hann var hið mesta góðmenni og öðlingsmaður.

Eyjólfur var vel gáfaður - en drakk í túrum þegar hann kom til bæjarins.

Vatns-
póstar
Prentsmiðjupósturinn í Aðalstræti, kenndur við prentsmiðju Einars Þórðarsonar, Ísafoldarprentsmiðju, var besti brunnurinn í bænum og þraut hann síðast í þurrkum. Úr þessum brunni var vatn tekið þar til vatnsveitan kom.
Jón
smali
Einn þeirra sem höfðu vatnsflutninga í hús að atvinnu var nefndur Jón smali. Ég sá hann daglega en þekkti hann þó lítið að öðru leyti, en þetta mun hafa verið mesti heiðursmaður.

Hann byggði seinna steinhús við Bræðraborgarstíginn og stendur það þar enn. Hann mun hafa eignast það skuldlaust.

Sæfinnur
með
sextán
skó
Sæfinnur með sextán skó var einn af vatnsburðarkörlunum. Hann hafði bilast á geði. Áður en hann ruglaðist vann hann við verslun í Hafnarfirði og var þá myndarlegur og vel gefinn maður. Um harmsögu hans hefur nokkuð verið ritað.

Milli þess sem hann var að flytja vatnið týndi hann allskonar rusl sem rak á fjörur. Strákar reyndu oft að gera gys að honum en framkoma hans var slík að þeir munu flestir hafa skammast sín fyrir það og hætt. Sæfinnur var ákaflega barngóður og ef strákar gerðu gys að honum og einhverjir fullorðnir atyrtu þá fyrir - sagði Sæfinnur: Blessaðir drengirnir eru bara að skemmta sér.

Guðmundur
dúllari
Guðmundur dúllari var einn þeirra manna sem hlutu ömurleg örlög á þeim tíma. Hann kvað hafa verið vel gefinn efnismaður áður en hann ruglaðist og tók upp á því að flakka og dúlla, - þ.e. söngla.
Símon
Dalaskáld
Þú sagðir einhverntíma, Haraldur, að þið hefðuð verið að setja ljóð Símonar Dalaskálds í Íslafoldarprentsmiðju, en höfðuð þið nokkuð af Símoni sjálfum að segja?

Símon Dalaskáld var daglega í Íslafoldarprentsmiðju þegar verið var að setja Sighvat en það voru ein af ljóðmælum hans. Guðmundur dúllari var þá með honum en hann var þá skrifari Símonar. Guðmundur skrifaði ljómandi vel - en Símon svo illa að enginn gat lesið.

Símon
Dalaskáld
Einu sinni þegar Símon var í Ísafoldarprentsmiðju og var að láta prenta eitthvað eftir sig kom einn prentarinn í flasið á honum og spyr: Hefur þú séð níðið sem Bogi Melsted vill koma í Fjallkonuna um þig? Fjallkonan var þá prentuð í Ísafold.

Nei, nei, - blessaður lofaðu mér að sjá!

Hvað er þetta, maður. Hefur þú ekki séð það? Ég skal láta þig heyra, sagði prentarinn sem var kunnur fyrir hrekki:

Símon leiði loddarinn
leirnum greiði farveginn
alltaf freyðir óþverrinn
út um breiðu kjaftvikin.

Símon reiddist þessu ákaflega sem von var og biður prentarann að lofa sér að svara þessu í Fjallkonunni. Hann hélt nú það og laumaði svari Símonar, án vitundar ritstjórans. Vísurnar voru tvær. Önnur þeirra var þannig:

Bogi Melsted bragarsvín
blindur af sjálfselskunni
napurt ljóðin níðir mín
nú í Fjallkonunni.

Nú kom röðin að Boga að láta sér gremjast því hann hafði ekkert ljótt ort um Símon. Stefndi hann Símoni og varð hann að borga sekt.

Símon var í rauninni ágætis karl en hann leit barnalega stórt á sig. Hann var fæddur rímari, talandi skáld, þótt ekki væri það allt mikill skáldskapur. Og Símon mun hafa verið töluvert fróður.

Símon missti heilsuna og lenti á Kleppi. Þar voru þeir reyndir með því að bera sand í poka og hella honum svo niður - alltaf sama sandinum. Símon var settur til þessa starfs sem aðrir og þá spurði hann: Haldið þið eiginlega að ég sé bandvitlaus?

Hann mun hafa verið eitthvað veiklaður á taugum enda fór hann fljótlega af Kleppi aftur.

Helga, systir Þorsteins Erlingssonar, hjálpaði honum mikið upp úr þessum veikindum. Á Stóra-Seli rann lækur niður í sjó. Þangað fór hún með hann á hverjum degi sem hægt var vegna veðurs, og baðaði hann upp úr læknum í fjörunni. Strákum þótti mikill matur í að vera þarna nærstaddir - af því að það var kona sem baðaði karlinn allsberan.

Auðvitað sneru flestir þeirra sem áður höfðu gert sér tíðast með Símoni og hlegið að honum, við honum bakinu eftir að hann veiktist.

Óli
gossari
Óli gossari var einn þeirra er settu svip á bæinn þegar hann kom hingað, en hann var vinnumaður hjá presti í nágrannabyggð Reykjavíkur.

Um hann var sögð sú saga að eitt sinn var hann sem oftar var í kirkju hjá húsbónda sínum, sem þá lagði út af og talaði fagurlega um þegar Jesú mettaði fimm þúsundir manna á fimm fiskum. Gall þá Óli gossari við úr sæti sínu svo vel mátti heyra um kirkjuna alla:  Það hefur ekki verið grauturinn þar, lasm!

Spurði þá sá er næstur honum sat hví hann segði svo og Óli svaraði: Heima er alltaf grautur a morgnana, grautur með graut á daginn og grautur út á graut á kvöldin.

Allt
ágætis
menn
Ekki veit ég annað, segir Haraldur að lokum, en að allir þessir menn sem ég hef nefnt væru í rauninni ágætis menn, en þó hálfgerð ýlustrá í tilverunni, ýmissa ástæðna vegna. Þeir voru nokkuð öðruvísi en fólk er flest - en það nægði til þess að betur stæðir einfeldningar og þeir sem vildu vera - og töldu sig vera eins og annað fólk, þættust yfir þá hafnir og þess umkomnir að skopast að óhamingju og einstæðingsskap þessara manna.
Samantekt
Jóns
Bjarna-
sonar
um
Skúla
Thoroddsen
Skúli Thoroddsen
Myndin er af vef alþingis.

Skúli Thoroddsen fæddist á Haga á Barðaströnd 6. janúar 1859. Foreldrar hans voru hjónin Jón Thoroddsen (f. 5. okt. 1818. d. 8. mars 1868) skáld og sýslumaður frá Reykhólum og Kristín Ólína Þorvaldsdóttir, Sívertsen (f. 24. júní 1833, d. 27. nóv. 1879) húsmóðir, dóttir Þorvalds Sívertsens alþm..

Skúli gekk í Lærða skólann og lærði síðan lögfræði í Hafnarháskóla og lauk prófi 1884. Samsumars var hann settur málflutningsmaður við Landsyfirréttinn og litlu síðar skipaður sýslumaður í Ísafjarðarsýslu. Úti í Höfn tileinkaði Skúli sér frjálslyndustu og róttækustu stefnur samtíðarinnar. Þegar hann kom til Ísafjarðar réði kaupmannavaldið þar lögum og lofum og beitti hann sér þegar gegn kúgun þess. Stofnsetti þar kaupfélag 1888.

Að dansksinnaðir íslenskir embættismenn hafa þegar litið Skúla illu auga sést best á því að stjórnin synjaði honum um prentsmiðjuleyfi og fékk hann það ekki fyrr en stofnað hafði verið félag, Prentfélag Ísfirðinga, um prentsmiðjuna. Hóf Skúli þá útgáfu Þjóðviljans 30. okt. 1886, en varð ekki sjálfur ritstjóri fyrr en 1892 en síðan var hann það í 23 ár, til ársins 1915.

Skúli lét sjálfstæðisbaráttuna mjög til sín taka og var kosinn á Þingvallafundinn 1888 og þótt hann væri meðal hinna yngstu var hann kosinn framsögumaður stjórnmálanefndar fundarins er gerði kröfu um alinnlenda stjórn með fullri ábyrgð fyrir Alþingi. Stjórnvöldin sektuðu Skúla fyrir að sækja fundinn í leyfisleysi.

Árið 1890 var Skúli kosinn á þing í aukakosningum í Eyjafirði með 206 atkvæðum gegn 46, en næst var hann þingmaður Ísfirðinga og var það síðan.

Fyrir framgöngu Skúla í sjálfstæðismálinu hófu hin dansklunduðu stjórnvöld pólitíska ofsókn gegn honum. Magnús Stephensen, framkvæmdastjóri danska valdsins á Íslandi, skipaði Lárus H. Bjarnason rannsóknardómara til að rannsaka framkomu Skúla við fanga sem grunaður var um morð. Rannsóknin beindist síðan gegn öllum embættisrekstri Skúla. Var hann fyrst sviptur embætti, síðan dæmdur frá því, en Landsyfirrétturinn dæmdi síðan Skúla í sekt - en ómerkti embættisafsetninguna. Þann ósigur gat Magnús Stephensen ekki þolað og áfrýjaði til Hæstaréttar í Kaupmannahöfn, en hann sýknaði Skúla af öllum ákærum nema einum formgalla á öllu sýslumannsstarfi hans.

Í ofsóknarherferð þessari studdi Ísafold stjórnvöldin gegn Skúla!

Hann var þó ekki settur í embættið aftur og viðurkenndi Magnús Stephensen það opinskátt að það væri vegna baráttu hans gegn stjórnarvöldunum og útgáfu Þjóðviljans. Skúla var aftur á móti boðin Rangárvallasýsla en Skúli neitaði að láta ráðstafa sér sem hreppsómaga og kaus að vera embættislaus - og var það til æviloka.

Ísfirðingar brugðust yfirleitt mannlega við til varnar Skúla. Minnist sá er þetta ritar þess hve augun loguðu í gömlum snauðum breiðfirskum vertíðarmanni þegar hann var að lýsa því er vertíðarmenn og örsnauðir verkamenn fylktu liði til varnar Skúla þegar það fréttist að setja ætti hann í fangelsi.

Á Alþingi beitti Skúli sér mjög fyrir menntun og réttindum kvenna. Hann flutti einnig frumvarp um að vinnulaun skyldu greidd í peningum í stað þess að áður voru vinnulaun skrifuð inn í reikning hjá kaupmönnum og varð það að lögum er hann hafði flutt það fjórum sinnum.

Sjálfstæðisbaráttan mun þó halda nafni Skúla hæst á lofti. Sumarið 1907 var kosin nefnd til að fjalla um millilandafrumvarpið svokallaða, lög um samband Íslands og Danmerkur. Um veturinn 1908 urðu allir nefndarmenn sammála úti í Kaupmannahöfn - nema Skúli Thoroddsen. Hann lagði m.a. til að í stað orðanna: Ísland er frjálst og sjálfstætt ríki, sem eigi verður af hendi látið (þ.e. sem Danir sleppa ekki yfirráðum á!) kæmi Ísland er frjálst og fullvalda ríki og ýmsar fleiri mikilvægar breytingar.

Í næstu kosningum vann sjónarmið Skúla og samherja hans einstæðan kosningasigur. Þetta var örlagaatburður í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.

Sumarið 1901 flutti Skúli með fjölskyldu sína, Þjóðviljann og prentsmiðjuna til Bessastaða, bjó þar til 1908 að hann flutti til Reykjavíkur. Hann lést 21. maí 1915.

Haraldur
fer að
vinna við
Þjóðvilja-
prent-
smiðju
Skúla
Thoroddsen
Nú snúum við okkur aftur að lífinu í prentsmiðjunum

Það var eftir nýár - að mig minnir - sem ég fór til Skúla Thoroddsen í Þjóðviljaprentsmiðjuna í Vonarstræti 12. Það hús lét Skúli byggja og flutti sig þangað frá Bessastöðum, en þar hafði hann haft prentsmiðjuna áður. Þetta er mikið hús og vandað og þótti mjög dýrt á sínum tíma.

Prentsmiðjan var í útbyggingu við húsið og var hún með flötu þaki. Þar var Þjóðviljinn prentaður en auk þess voru sérprentaðar neðanmálssögur blaðsins: Sögusafn Þjóðviljans og ýmislegt fleira af bókum.

Við vorum þarna tveir sveinar. Haraldur Gunnarsson sem var yfirprentari, og ég og einn nemi, Magnús Jónsson frá Lambhóli, er síðar varð formaður Hins íslenska prentarafélags.

Þarna var allt handsett. Gríðarstór pressa var í kjallaranum og var henni snúið með handafli. Alltaf var fenginn maður til að snúa á móti mér en Haraldur lagði í pressuna.

Sumarið 1913 var ég ekki í prentsmiðjunni heldur norður í landi. Þangað var mér skrifað um fánamálið þegar danskt varðskip tók íslenska fánann af Einari Péturssyni. Bærinn reis upp. Jón Aðils og Lárus H. Bjarnason boðuðu til mótmælafundar í barnaskólaportinu og danski fáninn var skorinn niður hjá Godthåb-verslun og Geir gamla, en Sigurður Thoroddsen, sem þá var stráklingur, fór og skar niður danska fánann á Stjórnarráðshúsinu. Magnús Vigfússon varð þess var og kallaði til Sigurðar: Hver á þig?

Skúli Thoroddsen! svaraði Sigurður.
Sendi nokkur þig? spurði þá Magnús.
Nei svaraði Sigurður, ég heyrði á fundinum.
Þú verður látinn í tugthúsið!
sagði Magnús.
Jæja, mér er þá sama, svaraði Sigurður.

Hneyksli Prentsmiðjan var eins og ég sagði - með flötu þaki, og þar olli ég einu hneykslinu.

Já, ég var alltaf að valda hneykslum á þeim árum! Þegar ég var um tvítugt safnaði ég unglingum, allt til tvítugsaldurs, suður á Mela til að sparka bolta, og ég var þar sjálfur aðeins í mittisskýlu. Krakkarnir voru mjög ánægðir. En í Vísi kom grein um að þessi maður vekti hneyksli með því að striplast svona!

Einu sinni var ég í glímufélagi og æfðum við okkur í Menntaskólanum. Eftur æfingar stökk ég út og gerði Mullers-æfingar, en var þó í mittisskýlu. Þá kom einnig grein í Vísi um að ég vekti hneyksli með því að vera úti allsber - og það í 16 stiga frosti!

Og einhverntíma fórum við Sigurður Thoroddsen, nú verkfræðpingur en var þá strákur, út á prentsmiðjuþakið og veltum okkur upp úr snjó. Þá kærðu einhverjar kerlingar okkur í Vísi og sögðu að þetta athæfi yrði að banna.

Ritun
Þjóð-
viljans
Skúli skrifaði Þjóðviljann einn oftast nær, en Bjarni frá Vogi, sem kom þar oft, skrifaði stundum í Þjóðviljann og oftast þegar eitthvað var að gerast í pólitíkinni. Þegar Skúli var á þingi sá lögfræðingur, sem þar var heimagangur, að mestu um Þjóðviljann. Lögfræðingur þessi var Sigurður Lýðsson. Mun hafa verið settur sýslumaður í Vestmannaeyjum um skeið.

Einu sinni kom kunningi Skúla vestan af fjörðum, Samson Eyjólfsson, til hans með handrit í Þjóðviljann og Skúli fór að lesa. Þegar hann var kominn nokkuð aftur í handritið sagði hann: Heyrðu Samson, heldurðu að þetta sé ekki of sterkt lyktandi, - eigum við ekki að draga úr þessu?

Nei - það vildi Samson ekki heyra nefnt!

Starfs-
aðstaða
Annars höfðum við prentararnir fremur lítið af Skúla að segja. Hann sat inni á skrifstofunni sinni, sem var í húsinu á sömu hæð og prentsmiðjan, og skrifaði þar alla daga. Hann hafði kút á borðinu hjá sér undir neftóbak og hellti koníaki í tóbakið. Svo hafði hann skeið í tóbakinu og tók í nefið með henni. Einu sinni sendi hann mig eftir tveggjakrónu koníaksflösku til að hafa útí tóbakið.
Frjáls-
ræði
Sá var nú ekki að fárast um þótt eitthvað gengi á fyrir okkur og börnunum. Maður var eins og á eigin heimili hjá þeim, fann aldrei annað en maður væri heimilismaður. Þar var nú frelsið fyrir börnin! - og okkur, og raunar alla, sama hver það var.

Einu sinni þá gekk yfir sem faraldur að skjóta í mark. Haraldur yfirprentari keypti sér riffil og ég eignaðist skammbyssu og við skutum í mark í prentsmiðjukjallaranum! Veggurinn var allur útskotinn en aldrei sagði Skúli neitt við okkur fyrir það framferði. Það var ólíkt prentsmiðjulífið þar og í hinum prentsmiðjunum.

Þorvaldur
ekki
dauður
Hallbjörn Halldórsson kom oft. Einu sinni var Haraldur yfirprentari og Þorvaldur sonur Skúla að æfa sig í því að drekka út - úr þriggja pela flösku - í einum teyg. Vitanlega var vatn í flöskunni! Þá kemur Hallbjörn Halldórsson, opnar skyndilega hurðina en beint andspænis stendur Þorvaldur upp við þilið og er að teyga úr flöskunni. Um leið og Hallbjörn kemur í dyrnar þrífur hann upp skammbyssu, miðar á Þorvald og hleypir af og það kemur hár hvellur og reykur. Þorvaldur dettur samstundis og liggur hreyfingarlaus - þar til Hallbjörn segir: Ætlarðu virkilega ekki að standa upp, helvítið þitt!

Nú? er ég þá ekki dauður? svaraði Þorvaldur og reis á fætur.

Mynda-
véla-
sýkin

og

ferð
í
Biskups-
tungur

Svo kom myndavélasýkin. Allir keyptu myndavél! Þá þótti Theodóru sjálfsagt að láta okkur hafa herbergi í kjallaranum til að framkalla í. Allt var gert fyrir okkur sem við óskuðum eftir.

Það þótti líka sjálfsagt að við prentararnir færum í skemmtiferðir. Einu sinni um sumar fórum við Haraldur yfirprentari, ég og Sigurður Thoroddsen, sem þá mun hafa verið 10-11 ára, ríðandi austur í Biskupstungur. Siggi var látinn ríða Litla-Bleik, reiðskjóta Skúla, en hann vildi ekki fara nema fetið og alltaf fá að bíta ef hann sá hjörvilegan grastopp, en það hafði Skúli látið eftir honum og þar með vanið hann á það. Theodóra hafði mikið yndi af hestum og kunni að meta gæðinga. Að láta dýrið dilla sér, drottinn - það er brot af þér. Það má hugsa sér hvernig Theodóru hefur verið inn brjósts þegar þau Skúli fóru austur í Biskupstungur og Skúli lét Bleik gaufa en Theodóra var á gæðingi.

Blessaður Skúli, láttu ekki klárinn vera að þessu!
Blessaða skepnuna langar svo í þetta og hún verður að fá að bíta,

Theodóra fékk oft lánaða hesta Þorsteins Erlingssonar en mikil vinátta var milli Þorsteins og Skúla og Theodóru. Hestar Þorsteins voru gæðingar.

Þegar við komum austur í Svínahraun í för þeirri sem ég byrjaði að segja frá, var þar rok og rigning, en okkur strákunum þótti gaman. Við vorum svo vel verjaðir.

Á Kolviðarhóli voru margir hestvagnar og veðrið var svo mikið að sumir vagnarnir lágu á hvolfi og hlassið undir þeim. Þeir höfðu fokið um í stormhviðunum.

Við héldum áfram, en þegar við komum að Björk í Grímsnesi var veðrinu farið að slota og gerði yndislegt veður um kvöldið. Við gistum í Björk.

Daginn eftir fórum við að Geysi. Þangað var ferðinni heitið. Þaðan fórum við til baka og niður með Brúará. Þar fengum við ferju yfir, héldum í taumana á klárunum en ferjumaðurinn reri.

Þá brá okkur Haraldi heldur illilega því þegar hinir hestarnir tóku sundtökin lagði lati Bleikur sig á síðuna. Við héldum að klárinn væri að drepast og kölluðum á ferjumanninn.

O-o svaraði ferjumaðurinn hinn rólegasti. Hann nennir ekki að hreyfa lappirnar. Hann er víst latur þessi. Látum hann liggja. Við drögum hann yfir.

Andrés
Björnsson
Andrés Björnsson var heimilisvinur í Vonarstræti 12 og heimagangur þar og í prentsmiðjunni.

Þegar hann varð fertugur var okkur öllum boðið í mat og kaffi. Við prentararnir borðuðum þar iðulega. Í þessari afmælisveislu Andrésar kom Theodóra með silfurdósir og rétti Drésa í afmælisgjöf. Á dósarlokið var grafin þessi vísa:

Nú ertu kominn á þau ár
sem er vor mesta hrelling
en þú ert laus við þess kyns fár.
Þiggðu í nefið, kerling.

Einu sinni kom Andrés Björnsson inn í Þjóðviljaprentsmiðjuna í Vonarstræti 12, úfinn og óþveginn og gekk stöðugt fram og aftur.

Anskoti er að sjá þig Drési! kallaði Haraldur yfirprentari. Þú ert rifinn og allur skítugur og tollir svo hvergi. Af hverju er þér svona órótt? Þú getur ekki staðnæmst!

Andrés svaraði:

Ekki er von mér verði rótt
ég var í gær með bullum
og á túr í alla nótt
með andskotanum fullum.

Þessi vísa Andrésar hefur sést prentuð öðruvísi, en þannig fór hann með hana um morguninn. Hún varð fljótt á hvers manns vörum þarna.

Andskotinn í vísunni var Magnús Björnsson en hann var kallaður Mangi djöfull í skóla, - svo óskiljanlegt sem það var, þar sem öllum var vel við hann því hann var indælis maður og hann var á allan hátt Íslendingur.

Afmælisveislan sem ég minntist á var ekki eina skiptið sem við prentararnir vorum á heimili Skúla og Theodóru. Við vorum þarna eins og við tilheyrðum fjölskyldunni. Oft komu strákarnir heim á sunnudögum og sóttu mig. Fyrir þeim hjónum voru allir menn jafnir.

Einu jólaboði man ég eftir. Það var ákaflega skemmtilegt. Það var farið í ýmsa leiki. Einn þeirra man ég sérstaklega. Hann var þannig að einhver fór inn í næsta herbergi og hurðin var látin aftur á eftir honum. Sá sem gætti hurðarinnar kallaði síðan til hans: Eins og hver er þessi?

Leikurinn mun eitthvað tíðkast enn, en það sem gerði mér hann minnisstæðan í þetta sinn var það hvað Andrés Björnsson var naskur á að lýsa sumum þeirra sem bent var á - þótt hann væri í öðru herbergi. Oft sögðu þeir sem lýst var að þeir vissu ekki betur en þeir könnuðust við þá eiginleika sem Andrés var að lýsa, einmitt hjá sjálfum sér.

Andrés Björnsson var ákaflega skemmtilegur maður og öllum þótti vænt um hann. Hann var heimagangur hjá Skúa og Thedóru.

Með
í
fjöl-
skyld-
unni
Einu sinni á sunnudegi fór Thoroddsen-fjölskyldan út á Bessastaðanes. Og þar var aldeilis ekki verið að láta prentarana dúsa niðri í bæ. Nei, þeir voru teknir með eins og þeir væru í fjölskyldunni. Jakob Smári var einnig með í þessari ferð.

Úti í Bessastaðanesi var farið í ýmsa leiki og gengið um nesið og fjöruna. Ég fór þar í sjóinn.

Svo voru veitingar, - nesti að heiman.

Útför
Skúla
Regn af heiðum himni

Skúli Thoroddsen lést 21. maí 1916. Þegar hann var jarðaður átti ég engin föt, enga skó sem nothæfir voru við það tækifæri, en Theodóra vildi að ég bæri Skúla til grafar ásamt með þeim Bjarna frá Vogi, Benedikt Sveinssyni og fleirum. Þá fór ég til kunningja míns sem ég vissi að átti 5 skófatnaði. En, nei! Það var ekki um að tala að hann lánaði mér skó!

Seinast höfðust þó út úr honum skór er hann notaði þegar hann var að skipa upp úr togurum! Ég bar á þá sem best ég gat en þegar ég hafði verið á þeim nokkra stund urðu þeir hvítir af salti.

Það skein sól í heiði við útför Skúla en þegar við fórum að bregða böndum undir kistuna til að láta hana síga niður, gerði skúr og stóð hún meðan seig en stytti svo upp jafn skyndilega og hún kom. Theodóru mun hafa þótt vænt um þá skúr.

Þegar við komum  heim frá jarðarför Skúla vildi Theodóra að ég kæmi heim. Þá sýndi hún mér ýmislegt sem þau Skúli höfðu átt, þar á meðal lokk af einu barninu. Þau höfðu misst það. Hún geymdi lokkinn í bein-skríni útskornu. Að síðustu gaf hún mér áttavita Skúla til minningar um hann.

Vafalaust mundi ég geta rifjað upp ýmislegt fleira, segir Haraldur að lokum, en þetta verður að nægja. Þjóðviljaprentsmiðja Skúla var sérstæður vinnustaður í Reykjavík þá. Umgengni við vinnufólk slík sem þeirra Theodóru og Skúla var óvíða í Reykjavík, hafi hún nokkurs staðar verið.

Thoroddsens-fólkið umgekkst okkur prentarana eins og við tilheyrðum fjölskyldunni.

Það var nýr heimur fyrir mig að vera á vinnustað þar sem ég fann mig eins og ég væri heima hjá foreldrum mínum. Mér leið þar ljómandi vel.

* Lífsbarátta og gott fólk

Eins og ég sagði þér fyrr veiktist ég á fyrstu árum mínum í prentsmiðju og vann því oft við annað á sumrin í því augnamiði að hressa heilsuna við eftir inniveruna og veturinn. Ég fór bæði í síldarvinnu fyrir norðan og vegavinnu.

Í
vega-
vinnu
1913

og

Tómas
í
Hofdölum

 

Það mun hafa verið sumarið 1913 að ég fékk að vera samferða vermönnum að norðan er þeir voru að koma úr verinu. Veturinn áður hafði ég veikst og þá mátti ég aldrei fara strax í prentsmiðju á eftir að mér fór að batna því þá féll ég saman, - heldur varð að fara í útivinnu fyrst.

Vermennirnir voru 13 saman og við fórum á báti til Borgarness og gengum þaðan. Fórum fyrsta áfanga að Fornahvammi. Allir bárum við eitthvað. Ég um 35 pund. Við óðum ána hjá Fornahvammi þar sem hún rann í íshröngli, og við bundum okkur saman á streng því töluvert vatn var í henni, en þetta gekk allt vel. Við héldum svo áfram norður. Ég fór til Sauðárkróks. Þar var ég í vegavinnu um sumarið.

Þegar ég hætti að vinna fyrir norðan beið ég eftir skipsferð heim. Fór niður á Krókinn til að bíða skipsins. Á Króknum þekkti ég engan en þar var hótel sem Gunnar, síðar kaupmaðurí Von, starfrækti þá. Þar fékk ég gistingu. Hann sagði að það væri ekkert, eða sama sem ekkert sem hann tæki fyrir svona lagað. Ég var þar í tvo daga og át þar annan daginn. Kona Gunnars var skínandi manneskja.

Svo kom sunnudagur, sólskin og blíða. Þá var prestastefna á Króknum og fengin stóra stofan á hótelinu undir fundinn. Þegar fundinum lýkur og þeir fara verður einn þeirra eftir, en ég lá þar uppi á legubekk. Stórt kringlótt borð var þar á miðju gólfi og gekk maður þessi kringum borðið án þess að mæla orð. Svo vék hann sér að mér og spyr hvernig á mér standi þar. Ég svarapi sem var. Hann spurði hvort ég ætlaði að gista hjá Gunnari. Ég játti því.

Ert þú ekki fátækur maður? spurði hann.
Ég kvaðst vera sjúklingur og ekkert eiga.
Þá er ekki heppilegt fyrir þig að gista hér því enginn er dýrseldari og eftir því dýrari ef maðurinn er hrekklaus sem hann á við.
Ég kvað gestgjafann hafa heitið öllu góðu um að þetta yrði ekki dýrt.
Já, þau loforð eru nú hættulegri en hefði hann ekki lofað því. Þú getur komið með mér. Það skal ekki kosta þig neitt. Ég bý hér í sveitinni. Taktu þessu. Ég er með tvo til reiðar og hnakk á báðum. Þú getur riðið öðrum þeirra.

Ég þakkaði fyrir, fór inn og vildi konan ekkert taka fyrir gistinguna en í því kom Gunnar og segir: Elskan mín, ertu að fara? Skipið er samt ekki komið.
Ég fer með þessum manni,
sagði ég og benti á manninn.
Nú, með honum Tómasi. Hann verður að ráða. Þetta ættu að verða 30 krónur en ætli þú sleppir ekki með 18 fyrst þú ferð með honum Tómasi. Það þýðir ekkert að fást við hann Tómas.

Tómas þessi bjó í Hofdölum í Skagafirði. Við fórum yfir Héraðsvötn í ferju hjá Jóni Ósmanni á Furðuströndum. Þegar við komum heim til Tómasar fór hann með mig inn þar sem fólk var að ljúka við að borða og segir við það: Þessi maður er gestur minn. Hann á að fá góðan mat að borða. Hann verður hér í viku eða þar til skipið kemur og það er ekki ætlast til að hann geri neitt. Hann á að láta sér líða vel.

Ég var þarna í viku þar til skipið kom. Þá flutti Tómas mig til Sauðárkróks. Tómas tók ekki eyri fyrir alla hjálpina við mig.

Nokkrum árum seinna hitti Tómas mig hér syðra. Hann vissi að ég hafði unnið í prentsmiðjunni hjá Skúla Thoroddsen en þegar þetta gerðist var Skúli dáinn. Tómas spyr mig hvort rétt sé að ekkjan vilji selja Bessastaði. Ég játti því. Hvort ég vissi verðið. Jú, 60 þúsund krónur. Hann spurði hvort ég vildi ekki gerast milligöngumaður fyrir sig og spyrja hana hvort hún vildi ekki láta jörðina fyrir 45 þúsund kr. út í hönd. Hann sé með þá peninga og geti greitt þá við undirritun samnings.

Ég sagði Theodóru af þessu en hún svaraði: Því er þannig farið, og það bið ég þig að segja manninum, að ég vil heldur fá 60 þúsund þótt ég fái peningana ekki fyrr en smátt og smátt, því þessir peningar eiga að ganga til að mennta börnin.

Á
síld
1916

og

góðir
félagar

Sumarið 1916 var ég á Siglufirði í síldarvinnu. Við vorum í bragga hjá Goos. Okkur hafði verið heitið ágætis fæði og háu kaupi en þegar til kom reyndist maturinn mestmegnis hálfúldinn saltfiskur. Við það bættist að ráðskonan var veik og margir veiktust þarna. Sumarið eftir var mér sagt að sama ráðskonan hefði verið áfram og enn fleiri veikst. Hún hafði smitað þá af berklum.

Þegar við höfðum verið þarna nokkurn tíma tókum við okkur fjórir saman og fórum þaðan til Akureyrar. Það stóð ekki á vinnunni á Akureyri það sumar. Félagar mínir vistuðu sig á hóteli og voru þar í fæði en ég kom mér fyrir hjá Halldóri skósmiði, ágætismanni í Hjálpræðishernum. Þar var ódýrt.

Ég var í fæði hjá sjálfum mér og þótt þér kunni að þykja það ótrúlegt þá keypti ég mér rúgbrauð og strásykur og drakk vatn með og lifði á þessu í heilan mánuð. Ég hélt kröftum af þessu. En það mega félagar mínir eiga að ef þeir sáu mig úti á frídögum kölluðu þeir í mig og settu að steik og öðrum kræsingum er þeir lifðu á í hótelinu. Þeir voru einir en ég þurfti að sjá fyrir fjölskyldu fyrir sunnan.

Þá kostaði 75 aura að þvo vasaklút og 1,50 að þvo skyrtuna. Það hefði höggvið skarð í kaupið mitt ef ég hefði ekki skólpað úr vasaklútnum sjálfur! Það var ekkert gefið á Akureyri það sumar.

Við réðum okkur í ágætisvinnu aðallega við að stúa síldartunnum. Eina nóttina voru okkur boðnar 500 kr. ef við gætum losað tómar tunnur úr lest og fyllt hana af fullum síldartunnum. Þeir virtust ekki alltaf vera að horfa í peningan, síldarspekúlantarnir.

Það hefur líklega verið þetta haust þegar við komum á skipið að þar var Theodóra Thoroddsen með einhverjum sona sinna. Mun hafa verið að koma frá vinafólki á Flatey á Skjálfanda.

Við lentum í töluverðu íshrafli og stýrimennirnir fóru niður til skipstjórans og sögðust ekki halda lengra áfram. Esbjerg gamli, eða hvað hann hét - þetta var danskt skip, - skammaði þá hroðalega, fór upp í brú og tók sjálfur við stjórninni og tókst að koma skipinu út úr ísnum.

Meðan á þessu stóð kom Theodóra á þilfar, lét einhvern sona sinna, man ekki hvort það var Guðmundur eða einhver annar, leika á eitthvert hljóðfæri. Svo var sungið. Og fólkið þyrptist þarna að og gleymdi eiginlega hættunni í ísnum!

Steinku-
vísur
Andrésar
Einu sinni var ég í Vísisprentsmiðjunni. Hann var þá prentaður í prentsmiðju er Sveinn Oddsson Fordbíla-umboðsmaður hafði, en prentsmiðjuna hafði hann keypt af Davíð Östlund. Hún var niðri í Kolasundi og Vísir þá prentaður þar.

Það var einu sinni þegar Gunnar á Selalæk var aðaleigandi Vísis en Einar Sæmundsen og Andrés Björnsson undirritstjórar, þá mátti Gunnar ekki vera að því að skrifa neitt í blaðið nema um Steinkudys, en þá var verið að grafa ofan af henni. Á sama tíma var Gunnar að læra að dansa tangó. Það var þá sem Andrés orti Steinkuvísur sem fóru víða á sínum tíma.

Dag nokkurn þegar Gunnar lét ekki sjá sig hjá blaðinu fyrr en kl. 4 að byrjað var að prenta Vísi voru þeir Andrés og Einar að ræða um það að Gunnar mætti ekki vera að því að skrifa um neitt nema Steinkudys.

Þið ættuð að gera sína vísuna hvor um Steinku og tangó, sagði ég.
Einar var þegar til í það en Andrés tók heldur dauflega í það - en tók svo við sér að gera seinni vísuna. Einar hætti svo við að gera vísu en þá var Andrés búinn með tvær:

Hlýna mun í haugum senn
hundrað ára meinakindum.
Nú hafa ungir andans menn
ást á þeirra beinagrindum.

Karlar fyrr af kaldri trú
kastað gátu stein' að syndum
en tango dansa drengir nú
með daðurskvenna beinagrindum.

Gunnar kom litlu síðar, las vísurnar í blaðinu og æddi um með það í höndunum - þar til hann sagði: Þetta hefur þú gert, Drési!
Ekki þræti ég fyrir það,
sagði Andrés.
En hver réði að þær voru settar í blaðið?
Það gerði ég,
svaraði ég. Þá tók Gunnar að nýju að ganga fram og aftur - en gerði ekki hót til að stöðva birtingu vísnanna.

Og nú segi ég ekki fleira af slíku tagi.

1915

keypti
bíl

*

Öku-
skírteini
nr. 6

Það var 1915 sem ég keypti mér bíl. Þetta var hálfs tonns vörubíll. Þeir voru ekki stórir, vörubílarnir sem þá komu til landsins. Sveinn Oddsson og Jón Sigurðsson komu með fyrstu bílana. Það var til annar bíll jafnstór en hann var yfirbyggður allur. Ég sat undir berum himni við stýrið. Bílinn keypti ég af Sveini Oddssyni fyrir 2.200 krónur.

Jón Sigmundsson kenndi mér að snúa stýri suður á Melum. Hann mun hafa verið að því í tíu mínútur en kvaðst ekki mega vera lengur í það skipti en hann myndi taka mig í hálftíma seinna.

Þegar mér bauðst svo akstur fór hann með mér til bæjarfógetans sem þá var Jón Magnússon, og kvaðst skyldu taka mig í ábyrgð þangað til ég tæki prófið um miðjan ágúst. Jón Sigmundsson var þá helsti sérfræðingur um akstur svo bæjarfógeti leyfði mér að aka og lét mig hafa ökuskírteini nr, 6, - En ég átti ekki að fá það fyrr en ég hefði tekið prófið í ágúst.

Ludvig Andersen hafði fest sér laxveiði í Ölfusá um sumarið og bað mig að flytja laxinn að austan. Sagði að hann myndi aldrei verða meiri en 1000 til 1200 pund í hvert sinn.

Ég hafði þá aðeins farið einu sinni austur yfir Kamba og fór því til Sveins Oddssonar og spurði hvort óhætt væri að fara á bílnum austur yfir Kamba. Hann sagði að ekkert væri því til fyrirstöðu svo ég afréð að fara.

Með mér fóru Ludvig Andersen og Jón frá Kiðjabergi í Grímsnesi. Þegar við komum austur í Svínahraun mættum við Overland-bíl. Öxullinn hafði brotnað og var staur undir bílnum endilöngum til að halda öxlinum saman! Bílnum stýrði Sigurður Sigurðsson.

Þegar við vorum komnir niður úr efstu  brekkunni í Kömbunum - en hún var lengst - biluðu allir hemlarnir. Bíllinn hafði staðið úti allan veturinn. Hemlarnir sem voru úr strigaborða, höfðu skroppið saman og slöknuðu nú við hitann. Ég ætlaði að láta vélina vinna á móti hraðanum og gerði hún það fyrst en hætti svo og drap á sér. Þá var ekki um annað að ræða en vera nógu fljótur að stýra því hraðinn jókst jafnt og þétt.

Þegar ég fann að ég hafði ekkert vald á bílnum lengur laust því niður í hugann að ef þeir sem sátu aftur á vissu hvernig komið væri myndu þeir reyna að stökkva af - og drepa sig! Ég ákvað því að þegja.

Hraðinn jókst óðfluga og ég hafði ekki við að stýra og á beygjunum hélt ég að ekki myndi takast að halda honum á veginum og á neðstu beygjunni munaði aðeins hársbreidd að það tækist.

Þegar niður var komið og bíllinn stöðvaðist fór ég út og þeir komu líka niður af pallinum. Ég sá strax að Ludvig var í æstu skapi og hann spyr:

Hvað er þetta maður,  - liggur þér ekki meira á núna en þetta, að þú staðnæmist!
Nei. Mér liggur ekkert á
, svaraði ég.

Þú hefðir átt að sjá svipinn á manninum við þetta svar! Jón var rólegur.

- Það er þó gott að þú ert ekki mállaus! Þú svarar þó núna. Þú gerðir það ekki áðan,
- Nei. Ég gerði það ekki.
- En af hverju fórstu svona hratt?
- Hemlarnir tóku ekki við sér og ég gat ekki ráðið ferðinni.
- Hvað er þetta eiginlega! Varstu að gera tilraun til að drepa okkur? Ertu ekki með fullu viti!
- Ég held að ég sé með fullu viti - og ætlaði alls ekki að drepa okkur.
- En hefðir þú ansað hefðum við getað kastað okkur af bílnum!
- Já - og hvar værum við þá?
tók Jón fram í. Þá hefðum við áreiðanlega drepið okkur báða. Við megum þakka Haraldi fyrir að hann ansaði okkur ekki.

Svo þurrkaði ég hemlaborðana eins og ég gat og herti á þeim. Síðan gekk allt eins og í sögu. Ég flutti laxinn að austan um sumarið. Hann var oftast frá 1400 - 1600 pund og komst einu sinni upp í 1700. Og kassarnir sem hann var fluttur í voru 400 pund.

Þetta gekk allt vel þótt bíllinn væri ekki gefinn upp nema fyrir 1000 pund. Vélin var sterk og góð en það sauð ævinlega á henni þegar ég var kominn upp á Kambabrún. En þar gat ég kælt hana. Þar rann þá lækur sem virðist vera horfinn nú.

Nr. 6
HVAÐ?
Hvers vegna ég byrjaði að aka bíl - spyrðu. Það er leyndarmál sem snertir aðeins einn mann auk mín og það fer í gröfina með mér.

Bílinn seldi ég í ágúst um sumarið. Var orðinn hundleiður á akstrinum. Auk þess var ekkert upp úr því að hafa þá. Rétt svo að ég hafði að éta ofan í mig og mína. Það var ekki fyrr en árið eftir að menn fóru að þéna á vöruibílum.

Ég tók því aldrei prófið - og því stendur víst ekkert nafn í skírteinaskránni aftan við nr. 6 - og hefur það víst orðið einhverjum ráðgáta hvernig á því stendur.

Jón
frá
Kiðjabergi
Ég sagði þér áðan hvað Jón á Kiðjabergi hefði verið rólegur þegar við komum niður úr Kömbum þótt honum væri ljóst að við hefðum verið komnir að því að drepa okkur. Honum var ekki fisjað saman piltinum þeim.

Þegar við fórum austur í áðurnefnt skipti var ég með kassa með fatnaði til Andrésar Jónssonar, kaupmanns á Eyrarbakka. Hann mun hafa verið um 400 pund. Vegurinn lá þá um Smiðjulautina og þar var skafl sem ég kom ekki bílnum í gegn um. Ég talaði við þá um að bera með mér kassann yfir skaflinn, ef ég gæti komið bílnum  tómum yfir.

Hefurður ekki bönd? spurði þá Jón. Jú, ég hafði bönd og við ýttum  kassanum aftur á bílinn og settum yfir hann bönd - en um leið og við höfðum fest þau sneri Jón sér frá bílnum, brá böndunum yfir axlir sér og bar kassann yfir skaflinn.

Samantekt
Jóns
Bjarna-
sonar
um
Gest
á Hæli
Gestur Einarsson á Hæli

Gestur Einarsson á Hæli var fæddur á Hæli í Gnúpverjahreppi 2. júní 1880 og lést þar 23. nóvember 1918. Faðir hans var Einar Gestsson á Hæli en þar höfðu forfeður hans búið lengi. Móðir hans var Steinunn dóttir Vigfúsar Thorarensen sýslumanns í Strandasýslu.

Gestur tók við búi á Hæli 1906, en þótt hann væri bóndi, - rausnarbóndi, lét hann sér það ekki nægja heldur stundaði jafnframt jarðakaup og fossasölu og var fjáraflamaður mikill.

Jafnframt því var hann á kafi í allskonar framfaramálum. Beitti sér fyrir kaupfélagsstofnun austanfjalls rúmlega tvítugur, og þótt sú verslun færi út um þúfur mun mega telja hana upphaf þess að verslunareinokun létti austanfjalls.

Það mun hafa verið hans verk að koma Einari Arnórssyni á þing 1914. Og 1916 gekkst hann ásamt séra Kjartani Helgasyni í Hruna, fyrir fundi að Þjórsártúni til að koma á laggirnar lista óháðra bænda er síðar kom Sigurði Jónssyni ráðherra á þing. Gestur var líka einn af forustumönnum að stofnun Framsóknarflokksins.

Árið 1916 keypti hann blaðið Suðurland og Þjóðólf árið eftir. Í þau skrifaði hann m.a. um nauðsyn járnbrautar austur yfir fjall og til Þorlákshafnar og hafnargerðar þar, svo og skólastofnunar austanfjalls.

Í grein um Gest á Hæli segir Sigurður Guðmundsson, skólameistari á Akureyri m.a.:

Hann ólgaði af lífsfjöri, sífyndinn, gat varla kyrr verið, látlaust á ferð og flugi. ... Hann var bæði samkvæmur sjálfum sér og ósamkvæmur - "eitt í dag og annað á morgun", en þó tryggur og stefnufastur.
... Hann var í senn fjáraflamaður og hugsjónamaður, óvenjukeskinn og meinyrtur alvörumaður, varkár og óvarkár, trúhneigður og háðjárn, óbilgjarn drengskaparmaður og stórorður stundum og bersögull er honum mislíkaði, kænn að koma fram ráðum sínum og fyrirætlunum. Og ég ætla að undir gárungshreistrinu hafi leynst mikil viðkvæmni. En tvennt var í skapnaði hans er aldrei brást í andstæður sínar: Hann var framkvæmdamaður og höfðingi, hvort tveggja svo að hann bar þar langt af nær öllum samtíðarmönnum sínum innanlands. Smásálarskapur var ekki til í eðli hans.

1917

Gestur
á
Hæli

Á árinu 1917 var ég atvinnulaus. Þá var hallæri hér eftir ófriðarvolkið. Atvinnuleysi og afkomuhallæri. Þá vann ég í mó hjá bænum um sumarið en þá var tekinn upp mór til eldsneytis á vegum bæjarins.

Dag nokkurn þegar ég kom heim úr mógröfunum í Kringlumýrinni lágu fyrir mér skilaboð um að koma niður eftir til Jónatans  Þorsteinssonar, og tala þar við Gest á Hæli, er muni bíða þar eftir mér. Ég fór þangað. Þegar ég kem til Jónatans Þorsteinssonar, kaupmanns, er Gestur þar og bíður eftir mér.

Gestur segir mér þegar erindið. Það sé að vita hvort ég sé fáanlegur til að taka að mér prentsmiðju sem hann hefði austur á Eyrarbakka. Hann kvað sig nauðsynlega vanta mann til að sjá um hana því hann hefði látið manninn fara sem var þar áður, - sér hefði ekki líkað við hann.

Gestur sagði að sér þætti ákaflega vænt um ef ég vildi gera þetta, - en ég þyrfti að skoða prentsmiðjuna og kynna mér þetta áður en ég svaraði. Hann sagði að ég skyldi hugsa um þetta og láta svo Jónatan Þorsteinsson vita og myndi hann þá flytja mig austur til að skoða prentsmiðjuna.

Ég hugsaði svo um þetta til morguns. Víst var þetta gott tilboð í miðju hallærinu - en því fylgdi líka nokkur vandi og ábyrgð - og flutningur austur yfir fjall. Daginn eftir fór ég svo til Jónatans Þorsteinssonar og sagði hann mér að Gestur væri búinn að útvega mér húsnæði fyrir austan ef til kæmi.

Ég fór svo austur og skoðaði prentsmiðjuna og sagði Jónatan þegar ég kom til baka að ég mundi taka þetta.

Hvað á ég svo að borga fyrir ferðina? spyr hann.

Ég hef nú ekki fengið það mikið fyrir daginn í mógröfunum hjá bænum að það taki því að setja mikið upp, svaraði ég og setti upp 100 kr..

Gestur skildi eftir hjá mér 500 kr. og þær verðurðu að taka. Hann sagði mér að borga 1000 ef þú settir það upp, svaraði Jónatan.

Þannig var allt hjá Gesti gagnvart þeim sem unnu hjá honum.

Prentsmiðja
Suðurlands
á
Eyrarbakka
Prentsmiðja Suðurlands var þá í nýju steinhúsi næst austan við kaupfélagið Heklu. Guðmundur kaupfélagsstjóri átti húsið og bjó uppi en prentsmiðjan var í kjallaranum.

Ég var einn við alla vinnu í prentsmiðjunni, - setti, braut um, prentaði, steypti vals, - gerði allt sem þar þurfti að gera. Það lætur því að líkum að prentsmiðjan var ekki afkastamikil. En töluvert var að gera þegar ég kom austur. Ég setti allt sem sýslan þurfti að láta prenta og var það töluvert - sem hafði átt að vera lokið áður en ég kom austur.

Kol
og
kuldi
Gestur á Hæli var með annan fótinn í Reykjavík þótt hann byggi fyrir austan. Einu sinni hringir hann til mín þaðan og segir að það séu kol á leiðinni suður með báti. Ég fái eitt skippund, prentsmiðjan eitt, Guðmundur kaupfélagsstjóri eitt, kaupfélagi Hekla eitt og hann sjálfur eitt, - en þú verður að vera á bryggjunni þegar báturinn kemur því annars verður því öllu stolið! sagði hann.

Ég gætti þess að fylgjast með komu bátsins og tók þegar kolin sem prentsmiðjan átti að fá. Frá Hæli kom maður litlu eftir að báturinn kom en þegar hann ætlaði að taka kolin að Hæli á bryggjunni voru þau öll á bak og burt - hver kolamoli horfinn!

Með kolunum brenndi ég Gule Tidende, sænsku blaði er lá þarna í stöflum. Svo þraut kolaskippundið og gerðist þá nöturlegt í prentsmiðjunni. Í henni voru tveir olíulampar og var af þeim nokkur ylur.

Vegna kulda í prentsmiðjunni tók ég það ráð að fara með leturkassana heim til mín og setti Þjóðólf þar, - en Gestur gaf þá Þjóðólf út. Einn daginn hefði ég staðið við kassana og sett frá því snemma morguns og fram á kvöld, en lampaljósið, sem ég setti við, var lélegt. Dagurinn endaði þannig kl. 10 um kvöldið að ég var orðinn steinblindur! Var leiddur inn í rúm og háttaður. Lárus Blöndal læknir var sóttur, en hann var kunningi okkar. Hann kom og skoðaði mig og bað mig svo að vera rólegan, ég myndi vakna alsjáandi að morgni. Þetta væri bara þreyta.

Hvað
beygir
þig
vinur
?
Sumarið 1917, meðan ég var einn í prentsmiðjunni, þurfti ég eitt sinn endilega að ná í Gest og sat því um hann þegar hann kæmi til Eyrarbakka. Svo sé ég það einn daginn að Gestur kemur hlaupandi með hnakkinn á öxlinni og svipuna í hendinni. Ég hleyp út, en þá er Gestur kominn vestur hjá Heklu og stekkurþar á bak á stórum manni og segir: Hver andskotinn er það sem beygir þig, vinur? Það er eins og þú sért með allan ehiminn á bakinu!

Um kvöldið hitti ég pilt sem vann í Heklu og spurði hann um hver þessi stóri maður hafi verið sem Gestur var að tala við. Pilturinn sagði mér að maður þessi hefði verið atvinnulaus heima allt sumarið yfir veikri konu sinni og hefði hann sagt Gesti þetta og jafnframt að hann væri bjargarlaus undir veturinn - og þar á ofan hefði Guðmundur á Háeyri sagt sér að fara útúr bænum á morgun.

Pilturinn sagði ennfremur að Gestur hefði svarað: Er það nú ekki nema þetta sem er að beygja þig í jörðina. Blessaður láttu þetta ekki beygja þig! Farðu inn í Heklu og taktu þar allt sem þú þarft til vetrarins, ætt og óætt, og láttu skrifa það í reikninginn minn. Og þú verður kyrr í bænum. Komdu til mín í fyrramálið og þá skal ég segja þér betur um þetta.

Og daginn eftir sagði hann mér framhaldið. Maðurinn hafði farið til Gests um morguninn og Gestur þá sagt: Þú verður kyrr í bænum. Gvendur ætlaði að selja bæinn og þessvegna vildi hann reka þig út. Ég keypti bæinn í gærkveldi og þú verður í honum svo lengi sem þú vilt.

Bær þessi var steinbær, notalegur og skemmtilegur. Ég spurði piltinn hvort maður þessi væri eitthvað vandabundinn Gesti. - Nei, sagði pilturinn, en hann var vinnumaður hjá Gesti einu sinni, en svona er Gestur við öll sín vinnuhjú ef hann veit þau í vanda.

Margt
til
tafar

en

Þjóðólfur
kom
út

Ritstjóri Þjóðólfs á Eyrarbakka var séra Gísli Skúlason á Stóra-Hrauni. Einu sinni fór hann í húsvitjunarferð og var í burtu alla vikuna. Lárus Blöndal læknir sá um allar fréttir í blaðið og unnum við blaðið einir þegar séra Gísli var fjarverandi.

Nielsen, fyrrverandi faktor á Eyrarbakka, í Húsinu skrifaði stundum í blaðið og í þetta sinn hafði hann skrifað langa grein sem nærri fyllti það, en hann skrifaði bæði svo illa og jafnframt slæmt mál, að við vorum í vandræðum með að lesa handritið. Dóttir hans hafði oft orðið að skrifa handrit hans upp en um það vissi ég ekki og tók því til við það þegar ég fékk handritið og setti það eftir mínu viti. Var ég svo að ljúka við að prenta blaðið þegar séra Gísli kom í prentsmiðjuna og sagði: Jæja, Haraldur minn, nú fór illa. Nú frestast blaðið í viku.
Nei, það er að koma út.
Hvernig fórstu að því?
Ég fékk langt handrit frá Nielsen.
Hvernig er það? Láttu mig sjá það,
sagði hann, tók við handritinu og sagði svo eftir stundarkorn: Ekki hefði ég komist út úr því!

Ég setti mig inn í efni greinarinnar og gat svo nokkurn veginn lesið það og gat mér til um sumt hvað hann myndi hafa viljað segja - og höfundurinn gerði engar athugasemdir. Þetta jók ekki afköstin. - Þetta var manni fengið til að setja!

1918

Þjóðólfur
flytur
í
Gutenberg

Veturinn 1917-1918 var ég á Eyrarbakka en undir vorið kom Gestur til mín og segir mér að nú ætli hann að flytja blaðið suður til Reykjavíkur og koma því fyrir í Gutenberg og hafi hann sett það skilyrði að enginn setji blaðið nema ég, - og þurfti ég því að flytja fólkið mitt suður með blaðinu, og hafi ég þar vísa vinnu. En heldur þú ekki að þú getir náð þér í húsnæði til bráðabirgða? sagði hann. Ég verð á ferð skömmu eftir að þú verður kominn suður og þá tala ég betur við þig um þetta allt saman.
Húsnæði
í
Reykjavík

 

 

 

og

 

 

 

höfðinginn
Gestur
á
Hæli

Svo flyt ég fólkið suður til Reykjavíkur á skírdag. Þá var búið að útvega mér kjallaraíbúð, litla, og flyt ég þar inn. Í þeirri íbúð var ég fram til byrjun júní en þá fór að hitna í veðri og samtímis varð ólíft í íbúðinni fyrir óþef. Gólfið var dúklagt og reif ég upp dúkinn því þaðan virtist óþefurinn koma. Þar gafst á að líta: undir var skólpleiðslan brotin! Gólfið var því gegnsósa af þvagi og saur.

Kjallarahola þessi var þó leigð án þess nokkuð væri við hana gert. Seinna fréttum við að fólkið sem var þar á undan okkur hefði flutt burt af þessum sökum, - en heilbrigiðseftirlitið skulum við sem minnst tala um.

Við fluttum samstundis í burtu - um viðgerð þýddi víst lítið að tala. Konuna og krakkana flutti ég í herbergi hjá tengdaföður mínum. Sjálfur var ég hingað og þangað. Ég var alveg eignalaus maður. Húsnæði var ekki hlaupið að því að fá. Ég taldi mér best að reyna að fá land hjá bænum og byggja mér torfbæ til að byrja með. Landið fékk ég.

Um svipað leyti fékk ég boð um að finna Gest hjá Jónatani Þorsteinssyni. Erindi Gests var að vita hvað liði húsnæðismálum mínum. Ég sagði honum eins og var og að ég væri helst að hugsa um það að byggja mér torfbæ. Torfbæ! hrópaði Gestur. Ekki að tala um! Þú byggir steinhús - og hafðu það nógu stórt og nógu gott. Taktu allt út í minn reikning. Þú skalt fá peninga til að borga með verkalaunin.

Þetta var sannarlega drengilegt og gott boð en samt leist mér ekki á það. Taldi mig ekki hafa efni á því að eignast gott steinhús og maldaði því í móinn. Gestur hvatti sig en niðurstaðan varð að ég hitti hann daginn eftir - áður en hann færi. Ég skyldi hugsa málið þangað til.

Þegar ég hitti hann daginn eftir sagði ég honum að ég treysti mér ekki til að byggja steinhús en ég héldi mér við það að byggja torfbæ til að byrja með.
Þú hefur tekið þessa stefnu nú, sagði Gestur, en þú átt eftir að skipta um skoðun - og láttu mig vita. Mitt boð stendur svo lengi sem þú vilt.

Svo byggi ég bæinn og gekk það furðanlega. Flyt í nýja torfbæinn á sunnudegi - en á mánudegi leggst ég í spönsku veikinni. Drengur kom til mín með Vísi á hverjum degi og færði mér allt sem ég þurfti. Drengur þessi veiktist aldrei.

Föstudaginn í vikunni sem ég lá, las ég lát Gests á Hæli í Vísi. Hann hafði komið heim til sín að sunnan, ríðandi að vanda, sleppt hestinum með hnakknum, hlaupið inn til að heilsa og farið síðan út til að sinna hestinum. Litlu síðar kom hann inn aftur og sagði: Nú er Rauður minn sauður. Hann kafnaði. Það verður stutt á milli okkar Rauðs.
Sama dag eða þann næsta lagðist Gestur - og var látinn á föstudag.

Gestur hafði mikið dálæti á þessum rauða hesti sínum. Rauðs minnist hann í þessari vísu:

Forsjónin gaf mér fríða konu.
Forsjónin gaf mér vakran hest.
Forsjónin gaf mér fjóra sonu.
Forsjónin lét mig heita Gest.
Forsjónin hverjum færir sitt.
Forsjónin lét mig búa á titt.

Veturinn eftir að Gestur réði mig austur á Eyrarbakka var hann að koma Magnúsi Sigurðssyni í bankastjórastöðu - að því sagt var. Gestur vann á vegum Titanic-félagsins og hafði því næga peninga. Einu sinni sem oftar kvað hann hafa verið staddur í Landsbankanum og kom þá Bjarni Jónsson frá Vogi þar inn og segir: Sæll, Gestur bóndi!
Sæll, bitlinga-Bjarni.
Varð svo ekki frekar af orðaskiptum milli þessara mætu manna, en Bjarni frá Vogi var höfuð andstæðingur fossasölunnar og afsali landsréttinda til útlendinga og var því heitur á móti Titanic-félaginu.

Ég vissi það ekki fyrr en löngu seinna hvað Gestur hafði gert fyrir mig: hann bað Magnús Sigurðsson bankastjóra að neita mér aldrei um lán - hve illa sem ég væri staddur.

Þegar Gestur var látinn var sagt að bændur, sem höfðu selt honum fossa og voru byrjaðir á framkvæmdum fyrir peningana, hafi orðið óttaslegnir og búist við að peningarnir yrðu heimtaðir af sér aftur, en sagt var að Gestur hefði gengið þannig frá þeim málum að bændur hafi sloppið frá þeim málum án tilfinnanlegra vandræða.

Langholt Áðan sagði ég víst eitthvað á þá leið að bæjarbyggingin hafi gengið ágætlega hjá mér, en líklega hefur það verið heldur mikið sagt, því satt að segja var það engin rósabraut.

Mat fékk ég hjá tengdaföður mínum, Sveinbirni Björnssyni, skáldi, en á næturnar lá ég hingað og þangað, til dæmis tvær nætur undir berum himni suður í Öskjuhlíð. Tengdaforeldrar mínir álitu mig snarvitlausan að vera að þessu.

Aleigan

 

Timbur
og
kol hf

Mér datt í hug - þegar ég var að þessu, að líta á aleiguna: kona, þrjú börn - fjórir tíeyringar í buddunni!

Eitt fyrsta verk mitt var að fara niður í Timbur og kol hf.. Þar hitti ég fyrir Þorstein, föður séra Garðars, en hann var aðalmaður þar. Ég spurði hann hvort ég fái timbur út á fyrsta veðrétt í bænum og landinu og svo það sem ég fái lánað hjá bankanum út á bæinn - sem ég viti ekki enn hve verði mikið.

- Þetta er sú ósvífnasta spurning sem fyrir mig hefur verið lögð, svaraði hann. Svo neitaði hann þessu umsvifalaust. Þá fór ég heim í þungum þönkum, vanlíðandi af þessu öllu saman.

Draum-

konan

Þegar ég var sofnaður dreymir mig að inn kemur kona með mikið glóbjart hár, fögur, ung, í alhvítum hjúpi, staðnæmist á gólfinu, horfir á mig í rúminu, þegir fyrst svolitla stund og segir svo: - Þig vantar timbur í bæinn þinn.
Ég játa því.
- Farðu niður í Völund. Þar færðu timbur í bæinn þinn segir hún og líður svo út.

Þegar ég vakna man ég drauminn. Frá því ég var krakki hafði mig alltaf dreymt - og oft bert. Ég hugsa um drauminn allan daginn. Niðurstaðan verður að ég álykta að best sé að reyna þetta - þeir geri þá ekkert annað en að neita mér.

Völundur Svo fer ég niður í Völund og hitti þar Jón Hafliðason, segi honum hvað ég hafi í hyggju að gera, segi honum alla málavöxtu og dreg engan aumingjaskap undan og spyr hann síðan hvort ég muni geta fengið timbur með þeim kjörum, sem ég hafði áður lýst, og hafði lagt fyrir afgreiðslumanninn í Timbur og kol hf..

Jón Hafliðason svarar að því ver og miður sé eigandinn, Sveinn, ekki í landinu, en hann geti ekki svarað þessu viðstöðulaust. En komdu á morgun. Þá skaltu fá ákveðið svar.

Daginn eftir fer ég aftur til hans og um leið og ég kem segir hann: Þetta er allt í lagi. Taktu timbur eins og þú þarft en ef þú getur ekki flutt það strax þá merktu það, því það er allt að þrjóta.

Ég tók timbur, það minnsta sem ég taldi mig komast af með - og Langholt, bærinn minn, reis af grunni.

Aldnir
og
traustir
hjálpar-
menn
Þegar ég ætlaði að fara að byggja veggina reyndist mjög erfitt að fá nokkurn mann. Þá höfðu víst allir nóg að gera. Ég fékk kunningja minn, Þorvarð Guðmundsson, fullorðin mann, og roskinn mann, sem var sjúklingur á Laugarnesi, en sá maður var þaulvanur hleðslumaður, bæði úr torfi og grjóti. Hann var norðan af Sauðárkróki.

Sveinbjörn tengdafaðir minn smíðaði allan bæinn. Hann var smiður karlinn þótt hann væri ekki lærður.


Músaðu á myndina til að fá aðra stærri og læsilegri

Ég fékk timbrið í bæinn flutt að Þvottalaugunum. Lengra var þá ekki hægt að koma ökutæki.
Þaðan varð ég að bera það á sjálfum mér upp í Langholt.

og
Katla
gaus
Þegar ég var að bera timbrið heim eitt kvöldið meðan Sveinbjörn var að smíða grindina, sá ég allt í einu þar sem ég var að rogast með timbrið á öxlinni upp á holtið, að feiknarlegur eldur gaus upp austan við fjallgarðinn og þeyttist upp á himininn. - Katla var þá byrjuð að gjósa.
Langholt
byggt
 
Þegar ég var nýbúinn að byggja torfbæinn minn var næst að finna menn nógu sterka til þess að bankinn tæki þá gilda, með veðinu á bænum og landinu, fyrir því peningaláni sem ég þurfti, til að greiða Völundi fyrir timbrið. Engan vissi ég svo sterkan og um leið mér innanhandar að hann vildi gerast ábyrgðarmaður fyrir mig fyrir láninu, svo ég gæti greitt Völundi skuld mína.
Ábyrgðar-
fólk

og

hjálpar-
hellur:

 

Sveinn
og
Steinunn

og

Árni
og
Bjarni

Kvöld eitt, þegar ég var að ganga frá vinnu - ég vann þá í Gutenberg - heim til mín að Lyngholti, svo kallaði ég bæinn minn, var ég samferða nágranna mínum, Óla Kjernested. Hann sagði mér frá því að Sveinn Hjartarson bakari á Bræðraborgarstíg 1 hefði hjálpað manni undir sömu kringumstæðum og ég stóð í, og hann (Óli) jafnvel líka, því hann var þá nýbúinn að byggja Laugarásbæinn á sama hátt og stóð í svipuðum kröggum og ég. Þegar Óli nefnir Svein varð mér það á, án umhugsunar, að ég hrópa: - Já! Sveinn hjálpar mér!
Óli spyr mig þá hvort ég þekki Svein.
- Nei, Ég þekki hann ekkert og ekki konu hans heldur. Ég finn á mér að hann hjálpar mér.

Svo fór ég heim til Sveins næsta kvöld eftir vinnutíma og sagði honum og konunni hans frá áhyggjum mínum af því hvers ég þyrfti nú: Ábyrgðarmanna með veði í bænum mínum svo ég gæti fengið það lán hjá banka sem ég þurfti. Og þeim hjónum kom þá saman um það strax að hjálpa mér, og þau útveguðu mér annan ábyrgðarmann til viðbótar. Hinn ábyrgðarmaðurinn var Árni Einarsson og félagi hans, Bjarni. Með þeirra hjálp var hnúturinn leystur og lánið fengið í Landsbankanum.

Oft og mörgum sinnum varð ég aðnjótandi hjálpar þessa fólks í fátækt minni og heilsuleysi og var hún alltaf veitt sem sjálfsagður hlutur og með fyllstu ánægju, enda hvatti Sveinn og kona hans, Steinunn Sigurðardóttir, mig alltaf til að leita til sín ef ég þyrfti, og aldrei stóð á félögunum, Árna og Bjarna. Þau voru mér öll drengskaparmenn. Og ég veit að uppskera þeirra verður út hendi almættisins þeim til blessunar - hvar sem eilífðin hýsir þau í framtíðinni.

0,08
og
7.000
Benedikt Sveinsson var orðinn bankastjóri þegar þetta var og veitti lánið, og lét það ganga beint til Völundar svo ég var kvittur við hann. Svo gekk þetta þolanlega og engum skuldaði ég að lokum. Ég átti 8 aura þegar ég byrjaði að byggja en 7.000 krónur þegar ég hafði selt bæinn árið 1930.

Músaðu á myndina til að fá aðra stærri og læsilegri.

Ásmundur Ingimar Þórisson bendir á Þvottalaugamýrina neðan við þar sem bærinn Langholt stóð.
Nafnið

Lang-
holt

Bæinn kallaði ég Lyngholt. Hann var í Þvottalaugamýrinni. Svo byggði Helgi Magnússon (stofnandi Helga Magnússonar og co.) Syðra-Langholt og reyndi mikið til að fá mig til að breyta nafninu á bænum mínum - svo hann gæti sjálfur kallað húsið sitt Langholt, en það var byggt nokkrum árum seinna, en ég fékkst ekki til þess og honum tókst ekki að koma þessu fram fyrr en hjá öðrum eða þriðja eiganda eftir mig.
Ösku-
fall
í
skó-
varp

 

Samtök
flytjenda

og

Sveinjón
í
Bráðræði

Í bæinn minn flutti ég svo á sunnudegi. Þá var öskufallið svo mikið að það var nærri í skóvarp í grasinu inni í mýri.

Um morguninn sem ég flutti fór ég til manna sem áttu hesta og vagna og fór bónbjargir að fá mig fluttan.

Ég var uppalinn hér og allir vissu að ég var fátækur. Og það var eins og þeir hefðu allir talað sig saman. Þeir neituðu allir!

Þá fór ég vestur í Bráðræði til Sveinjóns (svo minnir mig  hann héti) - sem hafði orð á sér fyrir að vilja fá allt sitt. Ég sagði honum að ég þurfi að flytja mig en allir hafi neitað mér - þótt ég viti ekki ástæðuna. Hana veit ég, svaraði Sveinjón. Þeir vita að þú ert fátækur og halda að þú munir ekki geta borgað - en ég ætla að lána þér - ekki einn vagn heldur tvo hesta og tvo vagna. Þér veitir ekkert af því. Ég er ekkert hræddur um að þú borgir mér ekki það sem ég set upp. Og getir þú ekki borgað strax þá get ég átt það hjá þér þangað til að þú getur borgað, því það veit ég að þú gerir.

Svo flutti ég mig og skilaði hestunum um kvöldið og spurði hann hvað það kostaði. Seinna komst ég að því að það sem hann setti upp var um það bil helmingi lægra en venja var að taka.

Búskapur
í
Langholti
Bæinn minn kallaði ég Langholt - en nú er það kallað Lyngholt, og fyrsta vorið sem ég var í honum keypti ég tvær geitur af séra Ástvaldi Gíslasyni í Ási. Þær voru mjög stórar og önnur mjólkaði fjórar merkur en hin þrjár. Það þótti mikið og þær mjólkuðu fram að nýári.

Önnur geitin var einkennileg. Fyrstu árin gat ég ekki girt landið en setti hæla í hornin þar sem mörkin voru en landið var að mestu blaut mýri. Um sumarið sló ég - en hafði engan til að verja landið. Þarna var töluverður ágangur því mikið af fénaði var í nágrenninu og einn nágranninn átti fimmtíu fjár og þarna voru líka hestar.

Geitin tók upp á því að verja landið. Gætti þess að engin skepna kæmi inn fyrir mörkin. Einn nágranninn átti mannýga belju sem var mjög ágeng og var vön að fara sínu fram, - en hún mætti ofjarli sínum þar sem geitin var. Geitin, sem var stórhyrnd, setti hornin miskunnarlaust í kviðinn á kusu og lauk svo að kusa lét blettinn í friði, hve mjög sem hún mændi á bestu blettina.

Annað árið sem ég átti þarna heima frétti ég að Skúli Thórarensen í Gaulverjabæ væri að selja búið, þar á meðal tvær kvígur af úrvalskyni, og ætti Eyjólfur á Undralandi að selja þær - en þær áttu að vera dýrar. Ég keypti aðra þeirra á 700 krónur, en þá var venjulegt verð á kvígum 400 til 450 krónur. Hin var stærri og átti að kosta 800 krónur.

Þetta var fyrsta kýrin sem ég eignaðist og þetta voru happakaup. Hún hélt áfram að græða sig, mjólka meir og meir og var komin í 3500 lítra yfir árið þegar ég hætti og seldi, vorið 1930, og mér var sagt að hún hefði komist í hærri nyt hjá nýja eigandanum.

Gadd-
vetur,
dýja-
kaf
og
skelja-
skrímsla
gangur

og

þurr
nær-
föt

Eftir að ég keypti kúna fór ég að fara á fætur klukkan fimm á morgnana til að ljúka fjósverkunum, en að þeim loknum labbaði ég niður í bæ og var röskan hálftíma niður í Gutenberg.

Einn veturinn var mikill gaddavetur og allt á kafi í snjó.

Laugarásmýrin var þá öll í dýjum en einn tunglskinsbjartan morgun hugði ég að allt hlyti að vera óhætt. Allsstaðar hlyti að vera gaddað í slíku veðri og gæti ég því stytt mér leið. Ég legg svo af stað beinustu leið en veit þá ekki fyrri til en ég er sokkinn niður í dý uppfyrir nafla. Ég brýst uppúr og held áfram, en frost var mikið og gödduðu fötin á mér og skrjáfaði hátt í mér eins og skeljaskrímsli þegar ég kom inn í prentsmiðjuna.

Ég fór beint að leturkassanum og fór að setja - en brátt var kominn pollur þar sem ég stóð. Hallbjörn Halldórsson var yfirprentari og margsagði mér að fara heim og hafa fataskipti, en ég vildi ekki sleppa vinnudeginum og hélt því áfram. Mér var orðið undarlega heitt á höfðinu en kalt að neðan. Loks segir Hallbjörn: - Farðu heim til hans tengdaföður þíns og fáðu lánuð föt!

Það gerði ég og fékk lánuð þurr nærföt - en þá var ég byrjaður að skjálfa.

Langt

ganga

og

margt

bera

Seinna, meðan ég átti þarna heima, vann ég í Ísafold við Morgunblaðið og þá vitanlega fram á nætur og varð þá að þramma heim á næturnar í hvaða veðri sem var.

Já, það var oft erfitt í byljum, ekki síður á kvöldin en morgnana. Þá voru ekki húsin á leiðinni til skjóls og skemmtunar. Innst á Laugaveginum var Gísli Gíslason (nú líklega Laugavegur 171). Næst var Lækjarhvammur, en sama var hvort ég var seint eða snemma á ferli: alltaf var ljós í risglugga þar. Þetta ljós þótti mér vænt um.

Svo kom Undraland og seinna Laugarbrekka og Múli. Þau tvö síðarnefndu voru ekki byggð fyrr en á þriðja ári eftir að ég settist að í Langholti.

Já, auðvitað varð ég að bera allar nauðsynjar á sjálfum mér heim. Stundum bar ég í bak og fyrir og í báðum höndum, olíubrúsa og þess háttar.

Jarðar-
bætur
og
lána-
mál
Búskapurinn gekk oft í brösum. Stundum lá ég aðra vikuna og vann hina. Það hefur líklega verið þriðja vorið mitt þarna að ég fékk Þúfnabana til að tæta brekkuna, en skurð hafði ég grafið áður. Ég bar á brekkuna áburð úr beljunni og sáði í þann hluta landsins. Auk þess lét ég tæta sjö dagsláttur í mýrinni og hafði fyrir þrjár grafnar og þurrkaðar dagsláttur þar.

Ég átti eftir að ræsa mýrina þegar ég var búinn að sá í brekkuna, - og einmitt þá fékk ég eitt allra versta veikindakastið. Þá blæddi mér niður á aðra viku og ég var orðinn svo máttfarinn að ég gat varla staðið á fótunum.

Þá var Ágúst Jósefsson mér hjálplegur, en hann vissi um þessar ástæður mínar og var alltaf að stappa í mig stálinu að ljúka ræktuninni og fá lán hjá bænum til þess.

Mér var ákaflega illa við þetta en Ágúst var alltaf að suða í mér að gera þetta. Ég vissi að ég gat fengið lán hjá Magnúsi Sigurðssyni, bankastjóra, með ábyrgð Sveins Hjartarsonar, en fannst ég ekki geta beðið Svein að ábyrgjast fyrir mig. - Ef mér batnaði ekki myndi það lenda á Sveini að borga fyrir mig.

Ágúst, sem þá var ekki fátækrafulltrúi, en oddamaður í fasteignanefnd og hafði því töluverð áhrif í bæjarstjórninni, hélt áfram að hvetja mig til þessa þangað til ég gaf eftir. Þeir fengu svo Kristófer Grímsson til þess að grafa lokræsi í mýrina og sá í flagið. Og vegna þess að ég veiktist á þessum tíma árs vantaði mig líka hey og fékk hey hjá bænum fyrir 500 krónur.

Veturinn eftir fór ég svolítið að hressast svo ég gat sótt hey niður í bæ á merinni minni. Það var illt að búa hestlaus. Vorið eftir þegar ég var farinn að hressast betur og fá kjark fór ég niður í bæ til að fá uppgert hvað ég skuldaði mikið og til að semja um borgunina.

Þegar ég kem niður í bæinn rekst ég á Ágúst Jósefsson og erindið berst í tal.
- Þú borgar ekki neitt, segir hann. Ég skal sjá um að þessi skuld verði strikuð út. Það er í þágu bæjarfélagsins að landið er ræktað.
Ég kvaðst vilja borga skuldir mínar og ekkert fá gefins frá bænum. Um það rökræddum við nokkuð þar til hann segir: - Ég tek við þessu og sem um þetta fyrir þig og kalla svo á þig til að skrifa undir samninginn, - en þú hefur engar áhyggjur af þessu.
Varð þetta að ráði. Fer ég heim við svo búið.

Eftir nokkurn tíma er mér sagt að mæta í skrifstofu borgarstjóra. Ég fer niður eftir á ákveðnum tíma. Þegar þangað kemur er erindið að láta mig skrifa undir að ég hafi fengið eftirgjöf á skuld fyrir að ljúka ræktun á landinu og ennfremur fyrir hey. Þar með var það mál úr sögunni, - þó með öðrum hætti en ég hafði kosið. Þetta tók mig ákaflega sárt.

Til
aukins
þroska
Þegar ég var farinn að hressast - og þó ég væri farinn að hressast - vantaði mig peninga og fór til Sveins Hjartarsonar..
- Já, það er alveg sjálfsagt að ábyrgjast fyrir þig, - en mikið sveið mér að þú skyldir ekki heldur koma til mín en láta bæinn léna þér.
Löngu seinna fann ég það á honum að það sat í honum gremja vegna þessa. Slíkt eru menn sem meina það sem þeir gera.

Það segi ég satt að ég tók það mikið nærri mér að þiggja þetta. - En ég hafði gott af því - vegna þess að á því þroskaðist ég mikið - fann að enginn er neitt af sjálfum sér.

Veikinda-
stríðið
...

Ég var alltaf öðru hvoru að fá þessi veikindaköst en 1930 í janúar varð ég veikastur sem ég hef orðið af þessari veiki. Læknirinn sá engin önnur ráð en að láta mig fá eitur til að fá hjartað til að slá. Ég átti að taka 27 dropa en kvalirnar linuðu ekki fyrr en ég hafði tekið 59 dropa. Þegar lækninum var sagt að ég hefði tekið 59 dropa varð hann hvumsa við - en spurði svo: - Nú, dó maðurinn ekki?

Daginn eftir að ég tók þennan skammt höfðu droparnir engin áhrif - hve mikið sem ég tók. Þá sendi ég konuna til mágs míns. Á þessum árum voru einungis léttvín leyfð en mágur minn þekkti Davíð Scheving lyfsala og fékk hjá honum hálfflösku af spíritus. Konan hitaði svo lútsterkt baunakaffi, hellti bollan hálfan og fyllti svo með spíritus. Þá loks gáfu kvalirnar eftir.

Þessu hélt ég áfram fram á vor. Fékk alltaf meiri spíritus sem meðal og um vorið var ég orðinn góður.

Þetta gerði ég ekki vegna þess að mér þætti vínið gott heldur tók ég þetta beinlínis sem læknismeðal. Hefði Sveinbjörn tengdafaðir minn ekki neitað að viðurkenna mig sem tengdason nema ég drykki með sér úr koníaksflösku myndi ég sennilega aldrei hafa bragðað vín á ævinni.

... Já, mér batnaði ef ég fékk vín þegar köstin komu. Biti af stórlúðu gerði einnig sama gagn en ég varð að fá lúðuna eða vínið á fyrsta eða öðrum degi þegar er kastið gerði vart við sig, annars var ekki gagn í því.
... Nei, á þessum árum hafði ég enga löngun í vín né nautn af því - það kom ekki fyrr en seinna - en ég er hættur því fyrir löngu. Það sem þjáði mig eftir að ég kom í Langholtið voru kvalir í maganum og svo blæddi mér niður, svo mjög að haldið var oft að mér myndi blæða út. Köst þessi komu ekki sjaldnar en á fjögurra ára fresti.

Þegar ég fékk síðasta blæðingarkastið var Jónas Kristjánsson orðinn heimilislæknir okkar. Þá blæddi mér einna mest og hélt  ég myndi ekki hafa það af. Einu sinni þegar hann kemur, eftir að hætt var að blæða, styður hann fingrum neðarlega vinstra megin ámagann, færir þá eftir þörmunum. Nú veit ég hvað er að þér, segir hann. Það er blaðra þarna sem fyllist af blóði og meðan hún er að fyllast færðu kvalirnar, svo springur blaðran. Það er eitt sem þú verður að hæta: Þú mátt aldrei láta skera þig upp.- Það er eitt sem þú þarft að gera, heldur hann áfram, og mátt aldrei víkja frá: Láta elda graut úr heilhveiti í 4 mínútur á kvöldin og brytja hráam lauk út í - og þú mátt til að borða þetta.

Þetta hef ég gert og aldrei fengið kvalirnar síðan.

*

*

*

*

Leið-
rétt-
ingar
og
þakkir

Nú er komið að sögulokum.

Efnis vegna hefðum við eins vel getað skrifað nokkur bindi á jólamarkað (án þess að bregða til Hagalínskrar eða Kristmannskrar aðferðar), svo mikið er enn ósagt, en hvorttveggja er að Haraldur hefur litla löngun til að tala um sjálfan sig og ég naumast tíma til slíkra skrifa sem stendur.

Okkur hefur verið á það bent, að þar sem Haraldur endursegir sögu er hann heyrði gamlan mann segja af sjóslysi, sé það ekki rétt að einn  hafi komist af, þeir hafi verið tveir og hvorugur borinn í útihús. Ennfremur að Þórarinn Guðmundsson hafi ekki farist einn á báti. Hörmum við Haraldur báðir þessi mistök.

Að lokum þökkum við svo þann áhuga og ánægju sem margir hafa látið í ljós með þessa þætti. Haraldi ber það þakklæti - því ég vona að orðalag hans hafi komist til skila.

Tekur nú Haraldur til við lokakaflann.

Búinu
brugðið
1930

 

 

 

banka-
stjóra-
minning

Um vorið 1930 varð ég að selja bæinn minn. Ég lenti alveg í vandræðum með skepnurnar vegna þess hve lengi ég lá veikur - og ákvað því að hætta að hafa skepnur.

Þá fór ég til fasteignasala og bankastjóra þeirra erinda að vita hvort ég gæti keypt mér húsnæði.

Ég fór niður í Útvegsbanka og spurði eftir Jóni Baldvinssyni bankastjóra. Hann var ekki við. Hann er farinn heim - er mér sagt í bankanum. Við þekktumst. Höfðum unnið saman í Gutenberg. Ég hringi því heim til hans. Þar er svarað: Hann er í bankanum. Þetta endurtók sig nokkrum sinnum. Þannig gekk þann dag.

Daginn eftir reyndi ég aftur en sama sagan endurtekur sig - uns ég af tilviljun hitti Jón Ólafsson bankastjóra er sagði mér að Jón Baldvinsson hefði mætt í bankanum á venjulegum tíma og væri þar, - þú getur sjálfur séð og fengið að tala við hann. Hann hefur verið hér bæði í dag og í gær! En ég gat þá ekki fengið mig til þess að tala við þennan gamla vinnufélaga minn fyrst hann hafði gert sér leik að því að láta segja að hann væri ekki við, auðsjáanlega í þeim einum tilgangi að komast hjá því að tala við mig.


Bæta
breyta
byggja
 
Bankarnir höfðu á þeim árum oft hús til sölu og erindi mitt við Jón Baldvinsson var nú ekki annað er það að vita hvort bankinn hefði  mokkurt hús til sölu. Fasteignasalarnir höfðu heldur engin hús sem hentuðu mér. Útlitið var því ekki gott hjá mér. En svo varð það kaupmaður sem ég verslaði við, sem sagði mér frá þessum kofa, Laugavegi 111 þá - en nú 155. Hann keypti ég og hef verið hér síðan. Ég varð að byrja á því að taka hann allan í gegn. Rífa allt innan úr honum og setja nýtt og láta í hann miðstöð, því þá var hann rottugreni - í bókstaflegri merkingu.
Konan
fallin
frá -
dreng-
irnir
heima
og
lítill
forði
Sumarið 1930 fékk ég að vinna við dráttarvél hjá Jarðræktarfélagi Reykjavíkur. Við það vann ég á vorin og sumrin fram á haust í fjögur ár.

... Já, ég hef sléttað töluvert af túnum umhverfis bæinn, í Kópavogi, upp í Mosfellssveit og suður í Grindavík hjá Ólafi, syni Einars í Garðhúsum. Það var fínn karl.

Í apríllok það vor var ég að verða áhyggjufullur. Ég var þá enn með drengina - og konan var þá dáin og þeir fengu aldrei neitt að gera nema vinna fyrir mat uppi í sveit - og nú var ég að verða forðalaus.

Hjá-
kát-
legur
draumur
!?
Nú þagnar Haraldur og hlær við og segir: Í sambandi við þetta minnist ég skoplegs atviks - sem er alls ekki í frásögur færandi.

Láttu það koma!

Eina nóttina dreymdi mig að ég var staddur í stóru húsi, hálfgerðum sal sem í var stór pallur. Þar uppi situr ein virðuleg ungfrú í bænum á koppnum. Og þegar ég geng utar eftir á leið út vippar hún sér af koppnum, þrífur í mig og sest aftur og kippir mér niður í kjöltu sína eins og krakka. Draumurinn var ekki lengri. Þetta er hér sagt draumráðningarmönnum og sálfræðingum til dundurs í sambandi við það sem á eftir kemur.

Jarð-
vinna
í
Grinda-
vík
Slík hjákátlegheit hefur mig hvorki dreymt fyrr né síðar. Og frá þessu vakna ég.

Rétt á eftir kemur Kristófer Grímsson, en hann hafði yfirstjórn dráttarvélanna, - og spyr mig hvort ég vilji ekki gera það fyrir sig að fara suður í Grindavík og athuga hvort ekki muni hægt að vinna þar að jarðarbótum, því þar muni jörð vera orðin það þíð. Þar eigi að vinna heilmikið í kálgörðum og fleira og sér þyki vænt um ef ég gæti lokið þessu áður en vinna hefst hér innfrá.

Ég fer suður og sé að landið er þítt og hægt að vinna og segi syni Einars í Garðhúsum það, en hjá honum átti ég að vinna. Þeir segjast þá senda tvo bíla undir dráttarvélina og herfin. Ég fór suður aftur og hafði dreng með mér til aðstoðar en hann veiktist fljótlega svo eftir það varð ég að vinna einn.

Þegar ég var búinn að vinna fyrir Einar og þá aðra kom karl úr byggðinni fyrir utan Grindavík og vildi fá mig til að vinna fyrir sig. Þetta var síðdegis á laugardegi en ég hafði ákveðið að flytja verkfærin til Reykjavíkur á sunnudeginum. Einar vildi að ég gerði þetta fyrir karlinn svo það varð úr að ég vann við þetta um nóttina. ... Já, þá vann ég oft um nætur og daga og varð lítið um svefnhlé einatt. Í þetta sinn vann ég líka að sunnudeginum og bjóst við þegar þessu væri lokið að nú yrði ég að fresta förinni til mánudags.

Þegar ég kem svo utan úr herfinu stendur Einar á tröppunum heima hjá sér og segir mér að koma inn og gera upp. Hann vissi alveg hvað ég hafði unnið hjá körlunum í þorpinu þvi ég skildi reikningana alltaf eftir þar sem ég svaf heima hjá honum.

- Ég er búinn að innheimta eftir reikningunum þínum, segir Einar, og þú þarft ekki annað en koma tækjunum upp á bílinn og svo getur þú farið af stað eins og þú ætlaðir þér.

Þessi óumbeðna greiðasemi hans þýddi græddan vinnudag fyrir mig.

Eitt
sinn
salt-
fiskur
og
blávatn
Eins og áður segir hélt ég til hjá Einari í Garðhúsum, svaf þar og át með Einari. Þar var alltaf mjög góður matur. T.d. voru alltaf bornar þrjár könnur á borðið, ein með vatni, önnur með mjólk og hin þriðja með rjóma.

Á þessu var þó ein undantekning. Við kaffiborðið á lokadagsmorguninn biður Einar konu sína að elda saltfisk (annars var aldrei saltfiskur á borðum) og bera hvorki mjólk né rjóma á borðið, aðeins vatn - og hafa kartöflurnar óskrældar.

Á lokadaginn kemur svo Sigurður, sonur Steindórs bílakóngs, með tvo bíla og makt og miklu veldi til að sækja vertíðarmenn. Einar býður Sigurði heim í hádeginu til að borða.

Ekki segi ég að Sigurði hafi brugðið áberandi þegar hann sá matinn. Hann nartaði aðeins í hann, stóð svo upp, þakkaði og fór.

Verk-
efnin
réðu
vinnu-
tíma
- alltaf
sama
tíma-
kaup
Hvort ég hafi þurft að vinna við jarðabætur á næturnar! spyrðu, Já, það liggur oft mikið á við þá vinnu á vorin - ekki síður en aðra vinnu. Einu sinni vann ég þrjá sólarhringa án þess að sofa. Lét þó drenginn sem þá vann með mér - hvíla sig, en ég varð alltaf að vera við skófluna sem við mokuðum með - og plóginn. Að loknum þrem sólarhringum lét ég drenginn taka við því hann gat vel herfað einn.

Einu sinni svaf ég fimm tíma á fimm sólarhringum. nnn Nei, það var ekki vegna næturvinnukaupsins! Kaupið var 1,50 kr. á tímann hvort sem var unnið á nóttu eða degi - en það þótti gott að hafa það. Þetta var á kreppuárunum. Ég vann svona vegna þess að verkefnin voru meiri en næg og vorið stutt.

Prent-
smiðjan
Oddi
 
Það mun hafa verið annað sumarið sem ég fór að vinna með dráttarvélinni að Hannes Kristinsson (Hannes í Litlakaffi) spyr mig hvort ég vilji ekki kaupa prentsmiðju með Magnúsi Gíslasyni skáldi og húsamálara. Ekki var ég reiðubúinn til að svara því.

- Þú talar við hann. Ég leiði ykkur saman og svo talist þið við, sagði Hannes.

Þetta var lítil prentsmiðja sem Ásgeir Guðmundsson vildi selja og það varð úr að ég keypti hana með Magnúsi því mér leiddist að hafa ekkert að gera á veturna. Við höfðum prentsmiðjuna fyrst á Laugaveginum þar sem hún hafði verið - en fluttum hana svo á Laugaveg 24c, í hús Magnúsar Gíslasonar. Prentsmiðjuna kölluðum við Odda.

... Já, þetta var upphafið að prentsmiðjunni Odda.

Þarna vann ég svo á vetrum við ýmislegt prent fyrir menn, - fór svo í jarðabótavinnu á vorin og inn í prentsmiðjuna á haustin.

Í prentsmiðjunni vann ég aðallega smápésa og ýmislegt smáprent fyrir hina og aðra. Þetta var smá rokkur og fá letur.

Magnús vildi eitt sinn fá í félag með okkur mann að nafni Steindór Sigurðsson, skáld og prentara. En mér leist ekki á félagsskapinn svo ég seldi minn hluta í prentsmiðjunni. Nei, ég segi ekkert um það hvernig þeim félagsskap reiddi af.

Það var svo dag nokkurn að Jón Helgason í Jesúprenti kom til mín og spurði mig hvort ég vildi ekki koma í prentsmiðjuna til sín því það sé svo mikið að gera síðan farið var að prenta Þjóðviljann og sig vanti tilfinnanlega áreiðanlegan mann.

Það varð úr að ég fór til hans. Og svo fylgdi ég blaðinu í Víkingsprent er Björn Jónsson hafði stofnað í nóvember 1935 með tveimur öðrum. Ég fór til Jóns Helgasonar 1937 en 1939 eða 1940 fór ég með Þjóðviljanum í Víkingsprent eftir að Ragnar Jónsson keypti prentsmiðjuna og flutti hana í Garðastræti 19. Þar var ég til 1945 að ég veiktist og var veikur í tvö ár. Eftir það fór ég 1947 í Borgarprent og var þar til 1951. Þá varð ég aftur veikur og í tvö ár.

Nótt eina meðan ég var veikur dreymir mig að ég er kominn niður á Hótel Ísland - sem þá var brunnið - og er uppi  í herbergi þar. Þangað kemur inn Þórhallur Bjarnason biskup og spyr mig formálalaust: - Á hvað trúir þú?

- Ég trúi á Guð, svara ég.
- Trú þú ekki á hann, segir Þórhallur, trú þú á jóga.
Ég neita því og segist ekki trúa á slíkt. Þá endurtekur hann: - Trú þú ekki á guð. Trú þú á jóga! Svo fer hann.
Draumurinn búinn.

Einhvern dag les ég í blaði auglýsingu um Atlaskerfið. Auglýsingaskrum eins og vant er að vera. En ég fer að glugga í þetta og kaupi svo eintak - fyrir næstsíðasta hundraðkallinn sem ég átti! Svo fer ég að æfa mig smátt og smátt - og fer að hressast. Atlaskerfið kvað vera eitt af atriðunum í jógakerfinu - en það hafði ég ekki heyrt.

Þegar ég var farinn að hressast eftir veikindin var lítið um vinnu í prentsmiðjum, en Magnús formaður virtist heldur ekki neitt áfram um það að ég kæmist í vinnu - svo ég tók það fyrir, til að fá einhverja aura, þótt lítið væri, að bera út Þjóðviljann. Og einn daginn hitti ég Guðjón Ó., útgefanda og prentara. Hann víkur sér mér og spyr: Ert þú ekki að vinna við prentverk?
- Nei, mér hefur heyrst á Magnúsi að það sé ekki auðvelt að fá vinnu núna.
- Hu! Hann Magnús! Komdu til mín á morgun og talaðu við mig.

Daginn eftir sagi Guðjón Ó. við mig:
- Farðu í Ingólfsprent og farðu að vinna.
- Þarf ég ekki að tala við prentsmiðjustjórann fyrst?
- Þú getur gert það ef þú vilt,
svaraði hann, en hann hafði vitanlega gengið frá þessu.

til
1958
Í Ingólfsprenti var ég í fjögur ár. Á þeim tíma var stundum setið fyrir mér til að fá mig í Alþýðuprentsmiðjuna en mér datt ekki í hug að fara þangað.
Þakk-
látur
og
sáttur
Svo fékk ég blóðtappa - og þar með var vinnunni lokið. Hef ekki unnið við prentverk síðan.
Nú er ég 77 ára. Hef eignast 15 börn, misst 9, sex eru lifandi.
Svona hefur stríðið mitt verið. Ég hef séð og heyrt dálítið af lífinu og lært töluvert af því, eins og mín tilvera hefur gengið.
Ég er þakklátur og sáttur bæði við meðlæti og mótlæti.
Eftirmáli
Jóns
Bjarna-
sonar

Að lokum þakka ég Haraldi prentara Jónssyni fyrir ánægjulegar viðræður nú og margar ógleymanlegar stundir í Víkingsprenti í gamla daga.

Rabb þetta enda ég svo með orðum Helga, sonar Haraldar, sem ég að vísu hlustaði ekki á og hef því fregnað frá öðrum. Helgi hafði ásamt kunningjum sínum á Akureyri setið við gleðskap fram á nótt og gerðu þeir það meðal annars til skemmtunar að hver um sig lýsti ætt sinni. Þegar allir höfðu innt þá skyldu af hendi nema Helgi sat hann þögull og færðist undan - en sagði loks:

Mín ætt var ei fædd í veisluglaum
né vergang heldur þó fátæk væri og smáð.
Hún átti sér engan stærri né dýrlegri draum
en deyja frjáls og prúð - og engum háð.

1888
1965
Þetta eru minningar Haraldar Jónssonar prentara í viðtali við Jón Bjarnason blaðamann Þjóðviljans. Haraldur fæddist árið 1888 og var 77 ára þegar þegar frásögninni lauk árið 1965. 
 

Umsögn
GÓP
26. jan.
2011

Frumkvöðull að innsetningu þessarar ævifrásagnar Haraldar Jónssonar prentara er sonarsonur Haraldar, Ásmundur Ingimar Þórisson.

Það er úthaldi Ásmundar Ingimars og eftirfylgni hans að þakka að sú uppskrift og uppsetning sem hér birtist varð að veruleika.

Ásmundur Ingimar Þórisson varð sextugur þann 21. janúar 2011. Myndin sýnir hann í góðu samhengi.

Músaðu á myndina til að fá hana stærri!!

Efst á þessa síðu * Forsíða * Tengibrautin