Forsíða


GGí+PS

*

Til baka
til
Péturs
Sumar-
liða
sonar

*

Til baka
í ritstörf
Péturs

*

Sjá
mynda-
safn
 

 

Kveðjusíða 

Pétur Sumarliðason

 

Myndirnar eru frá um 1948 til vinstri en sú hægri frá um 1965

Mynd frá 1960
Pétur Sumarliðason, Ólafur Freyr Gíslason og Pétur Örn Pétursson

 

*


Mynd frá um 1975

f. 24. júlí 1916 - d. 5. sept. 1981

*  *  *

Ath!

Atriðis-
orð
GÓP
eru
í
þessum
dálki

Yfirlit í stafrófsröð

Til baka í ritstörf Péturs Sumarliðasonar

Gísli
Ólafur
Pétursson

Þjv.
15. sept.
1981

 

ævi-
stiklur

 

*

Til baka
til
Péturs
Sumar-
liða
sonar

*

Til baka
í ritstörf
Péturs

*

Foreldrar Péturs voru Sumarliði, sjómaður í Bolungarvík, sonur Guðmundar Sumarliðasonar bónda í Miðhúsum í Reykjafjarðarhreppi í Norður-Ísafjarðarsýslu, og kona hans, Björg, dóttir Péturs Péturssonar frá Moldbrekku í Kolbeinsstaðahreppi.

Pétur missti móður sína er hann var á fyrsta aldursári og fór þá í fóstur til föðurbróður síns og konu hans en þau létust bæði úr spönsku veikinni vorið eftir. Þá var hann í fóstri á ýmsum stöðum skamman tíma í senn fram að fimm ára aldri. Þá stofnaði faðir hans heimili að nýju með seinni konu sinni, Maríu Bjarnadóttur, en þau eignuðust átta börn. Á því heimili var Pétur næstu ár að nokkru en fór snemma til snúningastarfa í sveitum um lengri og skemmri tíma. Árið 1930 réðist hann til ársvistar að Kvígyndisfirði í Múlahreppi og skyldi kaupið vera fermingarkostnaðurinn. Hann var fermdur í Flatey á Breiðafirði.

Hugur Péturs stóð snemma til frekara náms þótt engin líkindi væru til þess að slíkt mætti heppnast allslausum unglingi með engan bakhjarl. Hann greip tækifærið þegar hann var 16 ára og fékk arfshlut eftir móðurbróður sinn. Þá lagði hann föggur sínar á bakið og fór fótgangandi úr Ísafjarðardjúpi, fjögurra daga ferð um ókunnugt svæði á haustdögum, alla leið í Reykjaskóla í Hrútafirði. Þetta var haustið 1932 og þá gekk hann í fyrsta skipti um hlað á Ljótunnarstöðum hjá frænda sínum, Skúla Guðjónssyni, en þeirra strengir fléttuðust síðar meira saman. Féð entist ekki nema til eins vetrar skólasetu.

Vorið 1933 leitaði Pétur uppi móðurömmu sína, Andreu Andrésdóttur, suður í Kolbeinsstaðahreppi. Þar réði hann sig ársmann á Heggstöðum með þeim skilyrðum að inni í kaupinu skyldi felast nokkurra vikna frí frá vinnu og næði til náms. Þann tíma notaði hann til að lesa þær skólabækur sem lesnar voru í 3. bekk Reykjaskóla.

Pétur færði sig til skólanna í Reykjavík og sumarið 1935 réðist hann kaupamaður að Digranesi í Kópavogi. Þar bar saman fundum hans og Bjarna Bjarnasonar, klæðskera, sem átti sumarbústað vestan undir Víghólunum. Þeir höfðu báðir áhuga á ljóðum og skáldskap og tókst með þeim vinátta þótt aldursmunur væri töluverður. Bjarni studdi hann til náms og Pétur tók kennarapróf vorið 1940.

Pétur gekk í hjónaband 30. okt. 1939. Eftirlifandi kona hans er Guðrún Gísladóttir og börn þeirra Gísli Ólafur, Bjarni Birgir, Vikar, Pétur Örn og Björg.

Bjarni Bjarnason tengdist Pétri og seinna fjölskyldu hans nánum böndum og hann var afi okkar barnanna. Bjarni andaðist 1971.

-  -  -

Frá 1940 til dauðadags var kennslustarfið og umhyggja fyrir börnum meginþáttur í viðfangsefnum Péturs. Þar lagði hann sífellt nýjar hugmyndir að mörkum og lærði sjálfur af öðrum. Hann var kennari í Fróðárhreppi á Snæfellsnesi 1940-41, næsta árið annars staðar, á Drangsnesi í Strandasýslu 1942-43, farkennari í Vestur-Eyjafjallahreppi 1943-44, kennari við Austurbæjarskólann í Reykjavík 1944-47 og 1958-80. Þar á milli var hann skólastjóri í Fljótshlíðarskóla 1948-50, starfsmaður Kópavogshrepps og síðar Kópavogsbæjar 1950-55 og skólastjóri barna- og unglingaskólans að Búðum við Fáskrúðsfjörð 1955-57. Síðastliðinn vetur kenndi hann við Seljaskóla í Breiðholti.

Hann hafði augun opin fyrir breytingum og þróun í starfinu og skólamálum yfirleitt. Hann barðist fyrir bættum kjörum kennara og fyrir bættri umgengni við börn. Hann fór á sérstök námskeið í eðlisfræðikennslu þegar hún var tekin inn í barnaskólana og annaðist hana að verulegum hluta næstu árin við Austurbæjarskólann. Þegar grunnskólalögin voru sett og kváðu á um bókasöfn setti hann sig inn í þau mál og stýrði þróun þeirra á sínnum vinnustað. Hann kenndi einn vetrarhluta við skóla fatlaðra í Reykjadal í Mosfellssveit og hafði það á hann mikil áhrif. Þangað sótti hann efni í mörg skýringadæmi sín þegar hann vildi undirstrika mikilvægi þess að börn nytu góðs félagslegs atlætis í skólum.

Pétur stundaði margvísleg sumarstörf eins og aðrir kennarar. Árin 1963-70 var hann við veðurathuganir í Jökulheimum, skála Jöklarannsóknafélagsins við Fremri Tungnaárbotna á Tungnaáröræfum. Svo fór að þetta starf varð honum einkar hugleikið og hann hafði miklar taugar til þessarar gróðurlausu fjallaauðnar allt til dauðadags. Þangað komu margir og sumum var koman minnisstæð. Þeir taka undir með Haraldi Björnssyni þegar hann kveður í gestabók Jökulheima í ágúst 1966:

Það er ekki tímatap
að tefja hér einn lítinn stans
og játast undir jöklaskap
Jökulheimahúsbóndans.

-  -  -

kveðja
 

*

Til baka
til
Péturs
Sumar-
liða
sonar

*

Til baka
í ritstörf
Péturs

Fjórtán vistaskipti til fermingaraldurs og Víkin í brennidepli. Sífellt ferðbúinn í nýja sannleiksleit í sextíu og fimm ár. Leitandi á öllum mótum við annað fólk, í ræðu þess og í ritum þess, - ætíð berandi nokkuð úr býtum. Yfirsmiður í smiðju tungunnar og boðskaparins þar sem margur kom með leir sem brenndur varð í syngjandi mynd.

Nú nýturðu morgungleðinnar og heldur sprettiræðu yfir skipuleggjendum daganna. Þeir glettast við þig og segja: "Hvers vegna frestaðirðu ekki hingaðkomunni og dreifst út handritin þín, ljóðabækurnar og þýðingarnar?" En þeir komast auðvitað ekki upp með moðreyk þegar þú bendir þeim á þitt verkefnablað þar sem þú hefur raðað mörgum öðrum á undan sjálfum þér. Það var nú einu sinni þinn stíll að leyfa öðrum að vera á undan ef þér þótti hann þurfa þess.

Síðan vermir þú þá með hlýju þinni og væntumþykju, hressir þá upp sem halda til dapurlegra skyldustarfa og hlúir að hógværð þeirra sem ganga á gleðifund. Síðdegis tekurðu á móti þeim með nýbökuðum pönnukökum.

Gísli Ólafur Pétursson 

Nánar á http://www.gopfrettir.net/open/PS

* Aftur í Yfirlit * Til baka í ritstörf Péturs Sumarliðasonar
Skúli
Guðjóns-
son

(Rithöf-
undur
og
bóndi
á
Ljótunnar-
stöðum
1903-86)

 

*

Til baka
til
Péturs
Sumar-
liða
sonar

*

Til baka
í ritstörf
Péturs

*

 

Kveðja

Það var eitt koldimmt haustkvöld fyrir hálfri öld. Ég var í þann veginn að ganga til náða og hugðist slökkva ljósið sem logaði á olíulampanum og hellti geisla sínum út um gluggann í norðurstafni baðstofunnar og eitthvað norður í náttmyrkrið fyrir utan.

Þá var drepið á dyr.

Ég gekk til dyra og kallaði út í náttmyrkrið og spurði hver þar væri.

Unglingsrödd utan úr myrkrinu svaraði kalli mínu. Sagði sá, sem röddin kom frá, að hann héti Pétur Sumarliðason og væri frændi minn.

Strax kannaðist ég við að hafa heyrt þennan frænda minn nefndan og að hann væri fæddur og uppalinn í Bolungarvík vestra.

Þegar hann kom inn sagði hann mér að hann hefði komið gangandi alla leið vestan frá Djúpi og að leiðinni væri heitið að Reykjaskóla til náms.

Þetta voru okkar fyrstu kynni.

Oft hefur Pétur minnst á þetta ljós sem hann sá úr norðurglugganum á Ljótunnarstöðum og hann hafði að leiðarstjörnu síðasta áfangann að heimili frænda síns.

Veturinn sem Pétur var á Reykjaskóla heimsótti hann mig oft um helgar. Þó mynduðust aldrei nein sérstök vináttutengsl við hann þennan vetur þótt mér þætti alltaf gaman að fá hann í heimsókn því hann var alltaf kátur og hressilegur.

Mér hefur víst fundist að ég væri of gamall til að deila geði við sextán ára ungling en hins vegar of ungur til að leika nokkurt föðurhlutverk gagnvart honum.

Um vorið lagði hann svo enn land undir fót, hélt vestur yfir Laxárdalsheiði og Dali og suður á Snæfellsnes sunnanvert til fundar við ömmu sína er þar átti heimili.

Svo liðu nokkur ár án þess að fundum okkar bæri saman.

Þó frétti ég af honum annað veifið.

Frétti að eftir nokkurra ára dvöl á Snæfellsnesi hefði leið hans legið inn í Kennaraskólann og nokkru síðar frétti ég að hann hefði gengið að eiga læknisdóttur frá Eyrarbakka og fylgdi nafn konunnar ekki með í þeirri frétt.

Svo var það einhvern tíma á stríðsárunum að Pétri skýtur upp heima hjá mér, - biðst gistingar eins og forðum tíð. Þá er hann á leið norður á Drangsnes og er þá ráðinn kennari við barnaskólann þar.

Enn liðu tvö eða þrjú ár án þess að fundum okkar Péturs bæri saman.

Svo var það eitt haust að ég var staddur í Reykjavík og lenti þar meðal annars inni á einhverjum fundi. Ég var þar einn í hópi þeirra sem áttu að láta ljós sitt skína yfir lýðinn og halda ræðu. Eftir að hafa komist klakklaust upp í ræðustólinn og ofan úr honum aftur gekk ég hröðum skrefum milli sætaraðanna og í átt til sætis míns. Þá veit ég ekki fyrri til en þrifið er til mín og all óþyrmilega. Leit ég á þann sem hélt mér föstum og sá að þá var kominn Pétur frændi.

Við hlið hans sat kona og þóttist ég þegar vita að þar myndi vera komin læknisdóttirin frá Eyrarbakka.

Eftir fundinn fór ég heim með þeim hjónum.

Síðan hefur þeirra  heimili verið mitt annað heimili. Hjá þeim átti ég jafnan víst athvarf, uppörvun og hvatningu þegar ég leitaði á suðurslóðir eftir að ég missti sjónina. Hefur svo verið allt til þessa dags. Veit ég með vissu að ganga mín gegnum myrkrið hefði orðið mér enn nöturlegra hefði ég ekki notið vináttu þeirra og fulltingis.

Það var fyrir þeirra orð og áeggjan að ég lagði í það að læra á ritvél og skrifa í blindni.. Það voru víst ekki margir þá sem hafa trúað því að slíkt fyrirtæki myndi hafa nokkra þýðingu eða bera nokkurn árangur. Enn þann dag í dag hittir maður fólk sem heldur að ég lesi öðrum fyrir eða tali inn á segulband.

Það er þessi Pétur frændi minn sem hefur flutt allt þaðsem frá mér hefur komið í útvarpið. Hann hefur gert það af þeirri snilld að vakið hefur landsathygli. Honum er það að þakka - eða kenna - að margt af því sem ég hefi sett á blað hefur náð lengra inn í eyru langþreyttra útvarpshlustenda en orð margra þeirra sem mér eru færari í ritlistinni.

Því fer víðsfjarri að Pétur frændi hafi alltaf verið því sammála er ég hefi sett á blað, - til dæmis í þáttunum um dag og veg. En þegar hann hefur flutt þá þætti þar sem hann hefur verið mér mikið ósammála, hefur hann fyrst verið í essinu sínu. Því meira sem okkur hefur greint á, því betri var flutningur hans. Ég minnist þess ekki að hann hafi nokkurn tíma lagt aðra áherslu á nokkurt orð en nákvæmlega þá er ég vildi gert hafa.

-  -  -

Ég hefi oft gert því skóna í dagdraumum mínum að Pétur frændi myndi skrifa eitthvað um mig þegar ég væri dauður.

Nú hefur þetta snúist við og farið á annan veg.

Nú er ég að reyna af lítilli getu, en góðum vilja, að berja eitthvað saman um Pétur frænda minn þegar hann er allur,  - en hér skal þó staðar numið.

Því skal aðeins við bætt að samskipti okkar Péturs eru orðin svo löng og náin og margslungin að verða myndi heil bók ef allt yrði tínt til. Stundum hafa þessi samskipti verið góð, - stundum minna góð þegar sitt hefur sýnst hverjum og hvor um sig hefur viljað róa á sínum báti.

En þegar svo hefur staðið í seglin hjá okkur hefur Guðrún, eiginkona Péturs og vinkona mín, ævinlega sagt að þetta stafi af því að við Pétur séum svo líkir að lundarfari. Ég held að hún hafi farið nærri hinu rétta enda vorum við náskildir, - að öðrum og þriðja lið - eins og sagt er á máli ættfræðinnar.

En nú, þegar ég er að berja þetta saman, verða mér efst í huga þær óteljandi ánægjustundir sem ég hefi átt á heimili þeirra hjóna.

Svo vil ég enda þessi fátæklegu orð með því að senda eftirlifandi eiginkonu Péturs frænda og börnum þeirra hugheilar samúðarkveðjur ásamt innilegri þökk fyrir liðna tíð.

Skúli Guðjónsson,
Ljótunnarstöðum.

* Aftur í Yfirlit * Til baka í ritstörf Péturs Sumarliðasonar
Elsa G.
Vilmundar-
dóttir

jarð-
fræðingur
(1932 - 2008)

*

Til baka
til
Péturs
Sumar-
liða
sonar

*

Til baka
í ritstörf
Péturs

*

Vinarminning

Mig langar til að minnast vinar míns, Péturs Sumarliðasonar, þegar hann er að kveðja á haustnóttum.

Stundum er talað um ást við fyrstu sýn en hjá okkur Pétri var það vinátta frá fyrstu kynnum og hefur hún haldist síðan, einlæg og fölskvalaus.

Fundum okkar bar fyrst saman 24. júlí 1967 í Jökulheimum. Pétur var starfsmaður Veðurstofu Íslands frá 1963 til 1970. Hann hóf störf sem veðurathugunarmaður í Jökulheimum síðsumars 1963 og dvaldi þar næstu sjö sumur. Hann fór í Jökulheima er skólastarfinu lauk á vorin og skilaði sér til byggða er kennsla hófst í skólum á haustin, því að aðalstarf hans var barnakennsla.

Jökulheimar þykja úr alfaraleið enn þann dag í dag en á þessum árum og þar til brú var byggð á Tungná við Sigöldu 1969 má segja að Jökulheimar hafi verið með einangraðri stöðum á landinu. Þar eru tveir skálar í eigu Jöklarannsóknafélags Íslands og eru þeir skammt undan suðvesturjaðri Vatnajökuls við svonefndan Tungnárjökul sem er aðalupptök Tungnár. Pétur undi hag sínum mætavel í Jökulheimum. Hann var þar einsamall langtímum saman en oft voru ástvinir hans hjá honum og þegar mig bar að garði ásamt skylduliði mínu var Björg dóttir hans þar hjá honum, sex ára gömul. Við ókum í hlað síðdegis á heiðríkum júlídegi og Pétur og Björg fögnuðu okkur. Eitthvað voru þau feðginin íbyggin á svipinn og brátt komumst við að hvað olli því. Það var afmælisdagurinn hans Péturs og það varð að þegjandi samkomulagi allra viðstaddra að haldin skyldi eftirminnileg afmælisveisla. Við t´kum fram þau matföng sem best voru í búi beggja og eftir dálítið mall var veislumatur á borðum og kaffi og heitar pönnukökur í ábæti.

ljóð

 

*

Til baka
til
Péturs
Sumar-
liða
sonar

*

Til baka
í ritstörf
Péturs

*

Gamli skálinn í Jökulheimum býr yfir hlýju og innileik sem fáum húsum er betur gefið og var verðug umgjörð þess sérstæða persónuleika sem laukst upp fyrir okkur í kvöldhúminu. Hann tók fram bók og fór að lesa fyrir okkur Jökulheimaljóðin sín. Smávaxinn, grannholda, skarpleitur maður sem sýndi okkur í hug sinn. Það var eins og hann stækkaði og fríkkaði þegar stóra sálin hans, sem rúmaði svo mikla væntumþykju, varð nær áþreifanleg í hugblæ ljóðanna. Svartur sandurinn, suð flugunnar, ilmur lambagrassins, Tungná - áin mín, eins og hann nefnir hana í ljóði sínu Öræfaminning. Ljóðið er ort í apríl 1976 þegar sumrin í Jökulheimum eru fyrir löngu orðin saknaðarfull endurminning. Ég birti það hér vegna þess að það lýsir betur ljóðagerð Péturs en mér væri unnt og sýnir hvern hug hann bar til landsins og lífsins.

I.

Nú líða ljósir
þokulopar
yfir flóann.
Norðangúlpur Esjunnar
gufaður upp,
- ekki þurrkvon
á Blikastöðum.
Náttlín vetrarins
á Lönguhlíðum
hefur dökknað í jaðrana.
Á voginum okkar
hafa blikinn og kollan
þrætt fallrákina
og strokið fjaðrirnar.
Í loftinu
þessi undarlegi
útmánaðablámi,
og um brjóst vor
þreifa grannir fingur
endurminninganna,
- hin bláu vor bernskunnar. -
Í orðlausri undrun
finnum við vetrarhrímið
þána í hjörtum vorum
og hvarfast í ljósbrot
lindar und steini.

II.

Nú er áin mín þurr í grjóti.
Skarirnar frá í haust
hafa stormar vetrarins
fægt í burt.
Hvít auðn
undir svörtum væng einbúans,
hrafnsins í Rata.
Gnýr fljótsins
frá í fyrra
geymist í þögn loftsins,
greiptur í stirðnað bergmál
Gnapa,
einnig
morgunljóð sólskríkjunnar
á mæninum,
flug íshafskjóans,
suð flugunnar
og langdregið gagg lágfótu,
ilmur lambagrassins,
litur mosans við lindina
og logandi tíbráin
yfir svörtum sandi,

allt,

allt,

allt,

geymir hin hvíta hljómskífa
þagnarinnar.

Ekkert tækniundur mannsins
fær náð þeim hljómi,

aðeins hinn sári broddur
einmanans í byggð,
hin nístandi nál tregans,
hún ein fellur í gróp
þagnarinnar
og fyllir brjóst vor
ljóði, litum og söng.

Ljóð Péturs hafa lítið komið fyrir almenningssjónir. Þó hafa nokkur birst í blöðum og tímaritum og verið lesin í útvarp. Fyrir tveimur árum flutti Pétur þátt í útvarpinu og nefndi Jökulheimaljóð. Voru þau ort í Jökulheimum eða tengd staðnum með öðru móti og fléttað inn skýringum og lýsingu á staðháttum.

Tungná
og
Tungnár-
jökull

 

*

Til baka
til
Péturs
Sumar-
liða
sonar

*

Til baka
í ritstörf
Péturs

*

En Pétur gerði fleira kvöldið góða en leiða okkur um ljóðheima sína. Hann sagði okkur frá ýmsu sem hann hafði orðið áskynja um hátterni árinnar og jökulsins sumrin sín í Jökulheimum. Af eigin rammleikhafði hann lært að skilja mál jökulsins og árinnar og af ótrúlegum skarpleikamog næmi tekist að skilgreina og rannsaka eðli þeirra og samspil. Hann lagði frá sér ljóðabókina og tók fram pappírsstranga og fletti honum sundur. Þar voru skráð í línuritum niðurstöðut mælinga hans á lofthita, skýjahulu, vindhraða, úrkomu og vatnsmagni Tungnár við Jökulkrók.

Hann sagði okkur að Tungnárjökull væri ekki einn af meginjöklum Vatnajökuls heldur væri hann jökulgeiri í fjallshlíð. Í framhaldi af Tungnárfjöllum, milli Langasjóar og Tungnár, lægi fjallshryggur með stefnu á Jöklasystur, eins og Pétur vildi kalla Kerlingar í Vatnajökli. Hann sagði okkur að Tungná sækti ekkert djúpvatn til meginjökulsins. Það vatn sem kæmi í ána svaraði til þess sem bráðnaði um daginn í Tungnárjökli. Línuritin studdu þessar fullyrðingar svo að ekki varð móti mælt.

Athuganir Péturs urðu uppistaða í grein sem birtist í einu þekktasta jöklafræðitímariti sem gefið er út, Journal of Glaciology. Greinina skrifuðu Guðmundur Guðmundsson og Guttormur Sigbjarnarson. Þar voru birt meðal annars línuritin sem hann Pétur breiddi á borðið fyrir framan okkur í Jökulheimum umrætt kvöld. Síðar, eða árið 1976, birtust línuritin hans aftur á prenti og í þetta sinn ívirtri kennslubók í jökla- og landmótunarfræði - Glaciers and Landscape. A Geomorphological Approach eftir David E. Sugden og Brian S. John. Þetta er ótvíræð viðurkenning á framlagi Péturs til jöklarannsókna. Því hefur lítt verið haldið á lofti af honum eða öðrum en veitir honum samt sem áður þegnrétt í hópi þeirra tiltölulega mörgu og ágætu náttúrufræðinga sem ekki hafa háskólapróf upp á vasann.

Hin síðari árin hafa fengist á því staðfestingar að Pétur var svo sannarlega á réttri leið í athugunum sínum í Jökulheimum á sjöunda áratugnum. Gerfihnattarmyndir, teknar árið 1973, sýna ljóslega hvernig markar fyrir fjallshrygg í jöklinum milli Tungnárfjalla og Jöklasystra. Helgi Björnsson kannaði þetta svæði með íssjá á síðastliðnu ári og kortlagði jökulgrunninn sem kemur greinilega fram sem fjallshryggur.

Stóri-
sjór
Pétur endurvakti sögnina um Stórasjó. Einhvern tíma er honum varð gengið á Heimabungu, norðan við Jökulheimaskálana, og leit yfir farveg Tungnár til suðvesturs í miklum vatnavöxtum var áin eins og stórt stöðuvatn yfir að líta. Kom honum þá í hug þjóðsöguvatnið týnda. Þessi hugmynd varð lífseig og hefur tengst farvegi Tungnár og hugsanlegu miðlunarlóni þar hefur verið gefið nafnið Stórisjór. Rannsóknir við Tungná hafa leitt í ljós að þar hefur verið stöðuvatn fyrr á öldum. Trúlega fæst aldrei úr því skorið hvort stöðuvatnið í Tungnárlægðinni og Stórisjór voru eitt og hið sama en nafnið er nú tengt henni eigi að síður.
í Jökul-
heimum
Af framansögðu mætti ætla að aðalstarf Péturs í Jökulheimum hafi verið sjálfstæðar vísindarannsóknir og síðan hafi hann notað frístundirnar til yrkinga, en því má ekki gleyma að hann var þar fyrst og fremst sem veðurathugunarmaður sem skráði veðurathuganir á þriggja klukkustunda fresti allan sólarhringinn - nema hánóttina. Vann það verk af vandvirkni og nákvæmni eins og allt sem hann fékkst við. Hann var lengst af bíllaus í Jökulheimum og notaði tækifærið er gesti bar að garði, því að þá gafst honum kostur á að komast í Jökulkrók, sem var aðalathugunarstaður hans við rannsóknirnar á jökulbráðnuninni. Stillti hann ferðirnar eftir aflestrunum á veðurmælunum og gætti þess vandlega að vera kominn aftur í tæka tíð fyrir næsta aflestur. Auk alls þessa vann Pétur að þýðingum og umgengni öll var til fyrirmyndar bæði utanhúss og innan.
kveðja

*

Til baka
til
Péturs
Sumar-
liða
sonar

*

Til baka
í ritstörf
Péturs

*

Á undanförnum árum hef ég notið margra góðra stunda í návist Péturs og Guðrúnar og barna þeirra, fyrst í Jökulheimum en síðari árin hér í þéttbýlinu, nú seinast 3. september síðastliðinn. Var allt viðmót hið sama og fyrr þrátt fyrir að Pétur væri merktur af þeim sjúkleika sem dró hann til dauða tveimur dögum síðar. Hann dró fram minnisbók og rifjaði upp ljóð og atburði frá Jökulheimum og brá litskyggnum á vegg og við horfðum á ána hans eins og hún byltist fram undan jökulsporðinum í Jökulkróki á afmælisdaginn eftirminnilega. Ég kvaddi Pétur vin minn, þennan skapmikla væntumþykjumann. Þegar ég frétti látið hans var mér ljóst að nú fyrst var afmælisveislunni góðu lokið, en minning hennar er varanlegt ferðanesti.

Ég hef hér aðeins reynt að lýsa fátæklegum orðum tveimur hliðum á fjölflata gimsteini, þeim sem ég kynntist best. Aðrir verða að gera hinum skil.

Guðrúnu og börnunum og fjölskyldum þeirra votta ég dýpstu samúð mína.

Elsa G. Vilmundardóttir

* Aftur í Yfirlit * Til baka í ritstörf Péturs Sumarliðasonar
Haraldur
Björns-
son

(1917-1988)

 

*

Til baka
til
Péturs
Sumar-
liða
sonar

*

Til baka
í ritstörf
Péturs

*

Kveðja

Pétur Sumarliðason var fæddur í Bolungarvík og ólst þar upp fram á unglingsár. Þetta sjávarpláss fannst mér hann bera með sér allt sitt líf. Þótt ég hafi aldrei stigið þar fæti né séð annað en Víkurljósin - og það utan af sjó, þá finnst mér ég þekkja það betur en mörg önnur þorp sem ég hefi komið í og jafnvel stundað vertíð frá.

Sjórinn, fjöllin, veðrabrigðin og lífsbarátta fólksins í þessari útróðrastöð norðurundir heimskautsbaug stóð manni lifandi fyrir sjónum í frásögn Péturs. Mér finnst það  hljóti að hafa mótað lífssýn hans og að úr þessu mannlífi hafi sprottið ýmsar grundvallarskoðanir hans.

Pétur var góður sagnamaður. Hann kunni  heilu rímnaflokkana og mörg stórkvæði þjóðskálda sem hann flutti oft á vinafundum. Auk þess sand af vísum og þjóðkvæðum oft tengdum frásögnum eða beint úr lífinu fyrir vestan. Sjálfur var hann skáld gott.

Hann var góður upplesari og málsnjall, enda þekktur meðal útvarpshlustenda, einkum úti á landsbyggðinni, fyrir flutning sinn á erindum og þáttum Skúla frá Ljótunnarstöðum, sem hann annaðist í fjöldamörg ár.

Ég tók eftir því, þegar við vorum saman á ferðalögum, að hann hefði oft ekki þurft að segja til nafns þótt við hittum ókunnugt bændafólk. Það þekkti hann á röddinni.

Sumarið 1963 bauðst honum óskastarf. Hann réðist sem veðurathugunarmaður og eftirlitsmaður við skála Jöklarannsóknafélagsins, sem gefið hafði verið nafnið Jökulheimar. Því starfi gegndi hann öll þau sjö sumur sem veðurskeyti voru send þaðan. Ég heimsótti hann þangað og sá að þar var réttur maður á réttum stað. Fásinna einverunnar þarna í auðninni við jökulræturnar og algeru gróðurleysi sýndist mér ekki eins þrúgandi og ætla mætti. Það var nokkuð um allskyns ferðalanga sem komu við til að fá gagnlegar upplýsingar um stefnu og leiðir. Í talstöðinni hafði hann oft fréttir af ferðamönnum og ýmsum rannsóknarmönnum víða inni á hálendinu og var oft milligöngumaður í margvíslegum vanda og gat komið skilaboðum í ýmsar áttir.

Að lokinni Jökulheimaveru Péturs gafst okkur og heimilisfólki okkar betra næði til samfunda en oft áður. Oft höfum við, Sigríður kona mín og Guðrún kona Péturs, eytt saman nokkrum frídögum við spil og spjall í Ölfusborgum, á Gjábakka og í Laugardal, bæði að sumri og vetri. Þau hjónin hafa líka tekið okkur með í fjölmargar ferðir, stuttar og langar. Þá kynntumst við til fulls hver frábær ferðamaður Pétur var. Hann var góður og gætinn ökumaður og réði yfir ökumáta sem skilaði okkur drjúgt áleiðis, en bauð aldrei af sér neinn skyndilegan vanda. Hann var vandlátur á það hvernig búið var um farangur og annað sem haft var meðferðis og aldrei kom neitt það fyrir að hann væri ekki undirbúinn að mæta því.

Ég hef ekki farið orðum um ævistarf Péturs, kennsluna. Til þess treysti ég mér ekki enda gæti það orðið langt mál. Hann hefur stundum gert opinberlega grein fyrir ýmsum viðhorfum sínum til þeirra mála og þó áreiðanlega oftar í hópi starfssystkina sinna.

Við hjónin vottum Guðrúnu, börnum þeirra hjóna og barnabörnum einlæga samúð okkar og svo gera börn okkar og barnabörn, því öll eiga þau dýrmætar minningar um Pétur Sumarliðason.

Haraldur Björnsson  

* Aftur í Yfirlit * Til baka í ritstörf Péturs Sumarliðasonar
Baldur Pálmason

(Kristófer
Baldur
Pálmason
útvarps-
maður
og
ljóðskáld
1919-2010)

 

*

Til baka
til
Péturs
Sumar-
liða
sonar

*

Til baka
í ritstörf
Péturs

*

Kveðja

Mér hnykkti við þegar ég heyrði tilkynnt andlát Péturs góðkunningja míns Sumarliðasonar, vissi raunar að hann var ekki sterkur á svelli líkamlegrar hreysti þótt ekki væri hann fyrir að kvarta því hann var hraustmenni í andanum og lét ekki bilbug á sér finna. Mér þykir sennilegt að hann hafi í lengstu lög verið að sinna huglægum málum - t.d. yrkingum eða þýðingum - og ég var að vona að hann færi að ganga frá fyrsta ljóðabókarhandriti sínu til prentunar. Kannski hefur hann náð því. Víst er að margur maðurinn í vinahópi Péturs heitins kýs að eiga bók með ljóðum hans. Hann orti rímað og órímað jöfnum höndum, a.m.k. hin síðari ár. Íslensk náttúra var hvað mest áberandi í vali Péturs á yrkisefnum, enda var hann henni afar handgenginn, dvaldi m.a. allmörg sumur við veðurathuganir í fjallaskála í nánd Vatnajökuls, Jökulheimum. Þar varð til heill ljóðaflokkur.

Kynni okkar Péturs byrjuðu á matstofunni hjá Katrínu Björnsdóttur í Ingólfsstræti 9, þeirri mætu konu. Síðan er liðið nokkuð á fimmta áratug og eftir alllangt hlé fyrst í stað urðu samskipti okkar einkum í tengslum við útvarpið. Pétur kom nokkuð oft fram í útvarpi sem lesari á eigið efni, þýtt og frumsamið, en langoftast þó sem flytjandi þess máls er Skúli Guðjónsson á Ljótunnarstöðum hafði fram að færa við hlustendur. Skúli sendi Pétri pistla sína og gat treyst því að hann kæmi þeim til skila með ákjósanlegasta hætti alla leið inn í hlustir og heilabú landsmanna. Pétur var skýrmæltur og stundum fastmæltur svo að þar fór ekkert á millli mála. Minnti hann mig stundum að því leyti þó nokkuð á mesta úvarpsmann okkar til þessa, Helga Hjörvar.

Meðal mestu áhugaefna Péturs var íslenskt mál og mat hann mikils hina mestu orðsnilldarmenn okkar, ekki síst ef saman ófst fagurt mál og ríkulegur skáldskapur. Einn slíkan snilling dáði hann öðrum fremur, Einar Benediktsson, og kunni fjölda kvæða eftir hann utanbókar. Því er best að Einar eigi hér lokaorðið (þýðing hans):

Ó, fjalladýrð, ó strönd, sem víðisvídd í fjarlægð baðar,
með vötn og fossa og hjörtun trygg, sem elur gamla Frón,
mig flytur hagstætt leiði burt frá ykkur hraðar, hraðar,
en hug minn, hug minn geymir þetta land, sem hvarf mér sjón.

Baldur Pálmason 

* Aftur í Yfirlit * Til baka í ritstörf Péturs Sumarliðasonar
Alfreð Eyjólfsson

 

*

Til baka
til
Péturs
Sumar-
liða
sonar

*

Til baka
í ritstörf
Péturs

*

Kveðja frá Austurbæjarskólanum

Í dag verður til moldar borinn Pétur Sumarliðason, kennari. Við vissum það, samstarfsmennirnir, að hann átti við mikla vanheilsu að stríða síðustu starfsárin og undruðumst það hve honum tókst að láta lítinn bilbug á sér finna. Ugglaust hefur harðræði uppvaxtaráranna skilið eftir sig spor í skapgerðina, að álitlegast væri að láta ekki deigan síga fyrr en fokið væri í öll skjól.

Pétur heitinn var fæddur 24. júlí 1916 í Bolungarvík. Foreldrar hans voru hjónin Björg Pétursdóttir og Sumarliði Guðmundsson, sjómaður. Pétur heitinn var tæplega ársgamall þegar hann missti móður sína og ólst hann upp á fjölmörgum stöðum á Vestfjörðum og við Breiðafjörð. Þegar hann var 15 ára gamall voru dvalarstaðirnir orðnir jafnmargir og árin sem hann átti að baki. Þrátt fyrir mikla fátækt tókst honum með tilstyrk góðra manna að brjótast til mennta og lauk hann kennaraprófi vorið 1940. Lengst af starfsævi sinnar kenndi hann við Austurbæjarskólann í Reykjavík, fyrst 1944-47 og aftur 1957-80. Síðustu árin starfaði hann við bókasafn skólans og vann hann þar gott starf við að byggja safnið upp sem námsmiðstöð nemendanna. Hann kappkostaði að afla handbóka og annarra kennslugagna til nota fyrir nemendur og kennara skólans. Hann var gæddur góðri skipulagsgáfu sem nýttist jafnt í kennslustörfum hans sem í safnvinnunni. Það duldist engum sem í safnið kom að þar fór natinn og snyrtilegur starfsmaður höndum um hlutina. Pétur heitinn átti sæti í stjórn Félags skólabókavarða og hann lét ávallt til sín taka í félagsmálum kennara.

Pétur heitinn var þekktur og vinsæll útvarpsmaður en hann ýmist þýddi og las sögur eða flutti efni eftir sjálfan sig eða pistla frænda síns, Skúla á Ljótunnarstöðum.

Við, samstarfsmenn Péturs Sumarliðasonar, söknum hans úr hópnum og þykir skarð fyrir skildi. Þó er mestur harmur kveðinn að eiginkonu hans, Guðrúnu Gísladóttur, og börnum. Þeim og öðrum vandamönnum hans sendir skólinn sínar innilegustu samúðarkveðjur.

Alfreð Eyólfsson  

* Aftur í Yfirlit * Til baka í ritstörf Péturs Sumarliðasonar
Gunnar M.
Magnúss

(1898-1988)

 

*

Til baka
til
Péturs
Sumar-
liða
sonar

*

Til baka
í ritstörf
Péturs

*

 

Kveðja

Pétur Sumarliðason var góðvinur minn. Hann var Vestfirðingur, eins og ég, fæddur í Bolungarvík. En fundum okkar bar ekki saman fyrr en hér syðra. Hann tók kennarapróf ungur að árum og var kennari og skólastjóri úti á landsbyggðinni, síðar kennari við Austurbæjarskólann í Reykjavík. Síðustu árin var hann bókavörður þar.

Pétur hafði fjölþætta hæfileika. hann var ferðamaður mikill og fróður um sögu lands og þjóðar.

Í mörg sumur að skóla loknum fór hann til fjalla og dvaldi þar sumarlangt. Það var inni í Jökulheimum, þar sem hann var við mælingar og veðurathuganir. Þar orti hann ljóð undir áhrifum frá íslenskri náttúru og minningum bernsku sinnar. Hann birti lítið sem ekkert af ljóðum sínum en er hann var kominn yfir miðjan aldur safnaði hann ljóðastefjum sínum saman. Þau eru enn í handriti en verðugt er að þau komi út í bók honum til virðingar og öðrum til umhugsunar, því að hann vandaði stef sín.

Erlendis koma fram upplesarar sem tileinka sér skáld og rithöfunda og lesa upp verk þeirra. Í Danmörku var framan af þessari öld H. C. Andersen - upplesari sem ferðaðist um og las upp verk skáldsins. Hann varð listamaður á þessu sviði og gerði það að ævistarfi sínu að lesa upp verk Andersens.

Pétur Sumarliðason og blindi ritsnillingurinn Skúli Guðjónsson á Ljótunnarstöðum voru vinir. Pétur varð einka flutningsmaður að verkum Skúla á opinberum vettvangi. Skúli sendi honum handrit sín - t.d. að erindum sem áttu að koma í útvarpinu. Pétur las í útvarpinu tugi erinda og greina eftir Skúla. Hefðu þar fáir gert betur. Pétur hafði rólega og hreina rödd og las svo vel eftir efninu að allt kom til skila sem höfundurinn setti á blað. Þessir menn voru svo andlega skyldir að hvorugur mátti án annars vera á þessu sviði.

En Pétur las einnig og flutti í útvarpinu eigin verk og þýðingar. Það var auðfundið að honum var unun að flytja orðið. Hann er líklega eini Íslendingurinn sem hefur þjónað rithöfundi á þennan hátt.

Pétur naut sín á fjöllunum og heiðlöndunum. Hann var náttúrunnar barn. Og þegar hann var með litlu dóttur sinni í fjallakofa þarna ofar byggðum í vorleysingum og litfögur blóm voru að springa út við ísröndina mun hann hafa lifað dýrlegar stundir.

Pétur var ekki mikill að vallarsýn en hann var vasklegur í framgöngu og vann heilshugar að hverju verki sem hann lagði hug og hönd að. Hann kvæntist Guðrúnu Gísladóttur, læknisdóttur frá Eyrarbakka, en hún er í þriðja lið frá Jakobi Hálfdánarsyni, upphafsmanni samvinnufélaga á Íslandi, góð kona og mikilhæf í störfum. Ég hygg að þau hafi átt saman skap og skylda hæfileika. Þau eignuðust fimm börn sem komin eru á manndómsaldurinn.

Ég sendi þér, Guðrún, og börnum ykkar hlýjar kveðjur í minningu þessa ástvinar ykkar.

Gunnar M. Magnúss 

* Aftur í Yfirlit * Til baka í ritstörf Péturs Sumarliðasonar
Ásmundur
Ásmunds-
son

*

Til baka
til
Péturs
Sumar-
liða
sonar

*

Til baka
í ritstörf
Péturs

*

 

Kveðja

Nú er látinn Pétur Sumarliðason kennari og félagi okkar úr Kópavogi, 65 ára að aldri. Pétur þekkti ég af starfi  í Alþýðubandalaginu. Kynni  okkar hófust er ég var hafður til liðsinnis við undirbúning á sumarferðalagi Alþýðubandandalagsins í Reykjavík einhvern tíma á síðasta áratug. Pétur var þá meðal þeirra sem lögðu á ráðin um allt fyrirkomulag ferðarinnar. Síðan áttum við eftir að kynnast betur í Alþýðubandalaginu í Kópavogi.

Þá sjaldan ég þurfti til Péturs að leita, á þeim skamma tíma sem við þekktumst, þá var þar allt á sömu bókina lært, að heils hugar og skýr voru öll hans orð. Fyrir það kann ég honum innilegar þakkir.

Svo eldheitur sem hann gat verið og baráttuglaður þá fannst mér alltaf að hann hefði langa þjálfun í að taka afstöðu sem sósíalisti, enda virtist mér hann alls óþreytandi í pólitík. Hann var meira en kjósandi og stuðningsmaður. Hann tók afstöðu til þess sósíalisma sem aðrir töldu sig vera að boða. Enda sýnir það sig á afkomendum Péturs og konu hans, Guðrúnar Gísladóttur, að þau hafa öll meðtekið pólitískar hugsjónir þeirra hjóna og lagt mikið af mörkum í starfi fyrir Alþýðubandalagið.

Ég færi fjölskyldu Péturs heitins samúðarkveðjur um leið og ég þakka henni og honum ágætt samstarf.

Ásmundur Ásmundsson 

*

Aftur í Yfirlit * Til baka í ritstörf Péturs Sumarliðasonar

Fjölskyldumyndir
og
Gamlar myndir af fólki í Gamla læknishúsinu á Eyrarbakka

GGí+PS * Efst á þessa síðu * Forsíða