GÓP-fréttir


 

Nýidalur, Vonarskarð,
Jökulheimar, Breiðbakur

14. - 16. september 1990

Föstudagur

Til
Nýjadals

Til Nýjadals í stífu veðri

Föstudaginn 14.september fóru 65 manns í samtals 16 bílum áleiðis í Nýjadal. Þrettán bílar komu af Stór-Kópavogssvæðinu, einn frá Selfossi, einn frá Sauðárkróki og einn frá Dalvík.

Veðurspár voru af verstu gerð og næturveðrið í Nýjadal undirstrikaði það með sandroki og malarkasti uns tók að rigna með slíkum látum ofan í storminn að minna sleit upp af jarðefnum. Snemma morguns var þoka á nálægum hæðum en engin rigning og minni blástur. Klukkan 7.30 var haldið af stað norður fyrir Tungnafellsjökul og sveigt til austurs við Tómasarhaga. Ekið var austur fyrir TungnafellLangadragi og þaðan eftir veginum norður í átt til Tindafells. Miðsvegar að Tindafelli skiptust leiðir og hélt önnur til suðurs og austurs í Gæsavötn en bílarnir fylgdu hinni til suðurs og vesturs allt að skarði sem er milli malarháls að vestan sem heitir Langháls en Valafells að austan og er það nafn frá Haraldi Matthíassyni komið. Skarðið heitir Gjósta. Þaðan er víðsýnt til suðurs yfir Vonarskarð og útsýni var gott en án sólar það sinnið þó hennar væri farið að njóta á stundum.

Laugardagur

Suður
Vonarskarð

Suður Vonarskarð

Brött brekka er suður úr Gjóstu niður í Vonarskarð. Hún nefnist Gjóstuklif og niður hana reyndist fljótekið. Þar fyrir neðan voru fyrstu sandar undir grunnu vatni þar sem Rauðá flæmist án þess að vita hvert. Eftir þá kom þurr kafli að öðru flæmi þar sem ekið var upp með og síðan yfir á svipuðu 'vaði' en sumir bílanna fóru enn ofar. Þá var komið upp í melhæð eða sléttu norður undan Deili. Stutt var þaðan og þurrt að aka að Svarthöfða þar sem ekið var austur yfir Köldukvísl á góðu vaði með hörðum, grýttum botni. Áin sjálf var naumast mikið yfir hné.

Suður
að Sveðju

Suður með Köldukvíslarjökli

Nú var farið austan Köldukvíslar og fyrst yfir sandlænu með nokkuð mjúkum botni en síðan eftir söndum og hraunum þar til komið var móts við Kvíslarhnúka. Þar var áfram farið yfir sandlæk og um sandbreiður að grjóttungu þar sem lækur fossaði. Leiðin liggur upp brekkuna austan tungunnar og upp á melhæðir sunnan hennar. Eftir þeim er haldið í megindráttum suður og niður uns komið var fram af þessu hálendi og niður á sléttlendið að Sveðju þar sem hún kemur í fossi fram úr gili sínu. Þar var hún ekin allstríð og á nokkuð stórgrýttu vaði með vatn í mitt læri en undanhlaup gott.

Hamars-
fjöll

Um Hamarsfjöll

Haldið var suður með hálendinu sem Haraldur Matthíasson hefur gefið nafnið Mókollar þó það nái lítt að túlka mikilfengleika þess. Þar upp er ein leið best þó fleiri megi komast og er hún einnig best niður af því. Þetta er einstigi en öruggt og engar sandbleytur eða torfærur eins og á leiðinni um Leynidalinn.

Þessi leið finnst ferluð í GPS-safni Sverris Kr. Bjarnasonar.

Rauða-
gígar

Rauðagígar

Vestan í og vestan við þetta hálendi eru margir gígar. Á kortum eru merktir gígarnir Bryðja nyrst en Askar sunnar. Austur af Bryðju er nokkur læna úr jöklinum en sunnan hennar mikill háls sem ekið er upp á efst við jökulinn og síðan niður eftir honum endilöngum. Hann köllum við Grjótháls. Neðan hans eru fagrir gígar sem ætíð eru skoðaðir þegar þarna er farið um.

Bláfjöll

Suður með Bláfjöllum

Við gígana kom í ljós að brotið var augablað í afturfjöður eins bílsins og var hann léttur svo sem unnt var áður áfram var haldið. Síðan var ekið svo sem slóðin liggur nema valin var sú sem fer vestur að Bláfjöllum því hún er mýkri undir hjól en ef ekið er hraunið. Þær koma síðan saman skömmu áður en komið er í skarðið sem við köllum Stafnaskarð þar sem Bláfjöllin teygjast móti Jökulgrindum skammt ofan fossins Fleygis sem nú orðið nær varla lítilli bunu. Áður var hér stór hluti Tungnaár. Hún kom frá Nyrðri Jöklasystur og nefndist Systrakvísl fyrir tuttugu árum. Ekið var áfram suður um Heimabungu og komið í Jökulheima um klukkan 19.

Jökulheimar

Í Jökulheimum

Vatnslaust er í Jökulheimum (ath. 2004: síðan hefur verið lagfærður brunnur sem gefur gott vatn * ath. 2010: um nokkurt árabil hefur vatnsdæla starfað undursamlega í þessu húsi) utan jökulvatn úr Tungnaá en vatn var meðferðis svo ekki kom að sök. Öllum var kært að hvíla sig eftir nokkra samsetu um kvöldið. Daginn eftir voru menn búnir til brottferðar um klukkan 8. Hvítt var úti og þegar komið var að Tungnaá var hún með blíðasta móti. Þó voru sandvíðsjár á bökkum hennar enda rennur hún nú öll um Botnaverið og eys þaðan miklum sandi.

Sunnu-
dagur

Tungnaá
Breiðbakur
Eldgjá

Yfir Tungnaá og suður Breiðbak

Greiðlega gekk að komast yfir ána og upp á Breiðbakinn og nutu ferðalangarnir glæsilegs útsýnis til norðurs af brekkubrúnum. Leiðin til suðvesturs um Breiðbakinn var stundum óglögg en greiðlega gekk þó að fylgja henni. Í einni lausri brekku fóru báðar afturfjaðrir bílsins sem áður var getið og þar var hann skilinn eftir. Haldið var áfram niður að Sveinstindi þar sem Langisjór og Fögrufjöll voru skoðuð af brekkubrún við suðurenda vatnsins. Síðan var aftur ekið vestur um skarðið og niður Faxasund á Fjallabaksveg. Þar skiptust leiðir. Ellefu bílar fóru beint í Landmannalaugar og áfram til síns heima en fimm fóru fyrst austur í Eldgjá þar sem þeir óku upp austurbrún gjárinnar og inn á móts við Ófærufoss. Fyrri hópurinn kom til Reykjavíkur klukkan 19-20 um kvöldið en sá seinni um miðnættið.

>>

500 km

Síðasta bensínstöð í þessari leið var fyrir sunnanmenn í Árnesi og hringurinn reyndist nærri 500 km áður aftur var þangað komið.

>>

Sóttur Ása-bíll

Næsta þriðjudag þann 18. september lögðu tveir bílar upp til að sækja þann sem eftir var skilinn. Veður var illt og þegar samband náðist í Veiðivötn var þar tveggja til þriggja feta snjór og ekkert skyggni í snjókomu og mikilli veðurhæð. Þá var snúið við. Aftur var lagt upp klukkan 7 að morgni laugardagsins 22. september. Þá fór ellefu saman á fjórum bílum. Veður var hið fegursta. Snjór var dálítill í námunda við Veiðvötn en hafði bæði tekið mikið upp og einnig fokið stórlega og voru skaflarnir víða svartir en annars staðar gráir af foksandi.

(Aths. 2004: Í þessu veðri feyktist svo mjög af söndunum undir Ljósufjöllum að mikill jarðvegur færðist í niðurheflaða veginn. Síðan hefur hann verið allt annar og miklu betri. Hann getur varla kallast niðurheflaður lengur og hann er mest megnis sléttur en var áður viðsjárverður með skorningum og grófum grjótum á stangli.)

Greiðlega gekk í Jökulheima og þangað var komið klukkan 11.30 og haldið áfram upp úr 12. Að bílnum á Breiðbaki var komið um klukkan 14 og viðgerð var lokið klukkan 16. Um 17 var hópurinn við Sveinstind og hafði veður verið frábært allan tímann með miklu útsýni. Ákveðið var að ganga ekki á tindinn heldur nýta birtuna til að halda slóðanum niður austan Grænafjallgarðs. Þegar komið var suðvestur að Gretti þar sem Blautalón liggur að rótum hans var snúið þar að og ekið vatnið við bakkann uns leiðin liggur upp úr vatninu. Þessi leið snýr sig umhverfis Gretti og fer síðan niður í Skælinga sem eru austan Gjátinds og áfram uns hún klifrar að lokum upp á slóð þá sem liggur á austurbrún Eldgjár þar sem ekið var inn á móts við Ófærufoss. Þessa leið er liprast að aka í þessa átt því all snarpar brekkur eru niður í Skælingana og um leið glæsilegt útsýni af brekkubrúnum.

>>

Heim um Mýrdal

Við Ófærufoss voru birtubrigði. Þaðan var haldið austur af og niður Skaftártungu í Vík í Mýrdal og komið heim um klukkan eitt eftir miðnætti.

GÓP-fréttir * Ferðaskrár