GÓP-fréttir * *
Þórsmerkurferðin

18. - 19. janúar 1997

Öndin kemst á æðra stig
- yndi býr í sinni -
hamingjurnar heiðra mig
hér á Þórsmörkinni.

70 manns í ljúfu veðri

Fjölmenni var í vetrarferðinni og fóru sumir á föstudagskvöldinu en aðrir á laugardeginum. Ritari var í laugardagshópnum og þótti aldeilis frábært að koma í heitan Skagfjörðsskálann í Langadal.

Heiðskírt frostveður og greitt ísafæri

Ferðin gekk fljótt fyrir sig í fögru veðri laugardagsins. Um hádegisbilið var gengið í Stakkholtsgjá og komið í Langadal klukkan 15. Gengið var á Valahnúk og niður að Össu í Húsadal og heim hjá Snorraríki. Enginn snjór var á gönguleiðinni en allir öfunduðu Samma sem hafði innanbæjargadda á teygjubandi utan um skóna sína þegar ganga þurfti ísaflár.

Eldur og kvöldvaka

Um kvöldið kveiktum við eld í logninu undir fullu tungli og sungnir voru álfasöngvar á meðan blysum og flugeldum var brugðið á loft. Á eftir var setið saman á kvöldvöku og síðan skoðaðar stjörnur við Krossá um miðnættið.

15. janúar 1967

Þess var minnst að 30 ár voru liðin frá því að Innstihaus sprakk fram í Steinsholtsjökulinn og olli mögnuðu vatnsflóði. Á sunnudeginum var gengið yfir Suðurhlíðina um gil sem er næst fyrir sunnan Stakkholtsgjá. Gengið var að Steinsholtsjökli og dvalið þar dágóða stund. Þrátt fyrir að göngufærið væri aðgæsluvert tók þetta aðeins tæpan klukkutíma.

Íshellir við Jökullónið

Við Jökullónið var numið staðar og gengið yfir ísinn í vald jökulsins. Þar við rætur hans fundum við magnaðan íshelli þar sem Jökulsáin niðaði í sandi. Þetta var sem ævintýraborg og börnin renndu sér djarflega undir vökulum augum hinna eldri.

Góð heimferð

Góða veðrið entist okkur niður á þjóðveginn og við vorum komin heim um kvöldmatarleytið.

GÓP-fréttir * Ferðaskrár