Framskrið Hagafellsjökuls eystri 18. apr. 1999


GÓP-fréttir forsíða * -
Dagsferð að Hagavatni, gengið að framskriðinu - heima klukkan 22.
Frostbjört veður og frostbjört hugmynd

Næstliðin vika var björt sunnan lands og vestan með nokkru frosti og til varð sú hugmynd að skreppa dagsferð á Suðurjöklana á laugardag eða sunnudag. Atvikin höguðu því svo til að sunnudagurinn varð fyrir valinu þótt hann væri hæpnari með veður.

Til Hagavatns

Veðurspám sunnudagsins bar saman við veðurútlitið frá Selfossi í morgunsárið svo ákveðið var að fresta Suðurjöklum til síðari laugardags með glæsiveðri en halda að Hagavatni að skoða þar framskrið jökulsins sem staðið hefur frá síðastliðnu hausti. Veðrið var bjart og milt að renna uppsveitir Árnessýslu og þegar okkur bar að skálanum við Geysi var honum einmitt upp lokið - en hann opnar klukkan 10 árdegis. Skömmu síðar vorum við á leið upp hjá Gullfossi og á Kjalvegi.

Frosthart færi í vorhlýrri sól

Hjarn og ísar héldu þar sem máli skipti en jafnvel snjódriftir voru harðar og hristu farartækin. Ekkert lá þó á og það tók okkur klukkutíma að aka frá Kjalvegi að Hagavatnsskálanum. Þar snæddum við nestisbita og ræddum bæði staðreyndir og drauma og kl. 13:30 vorum við komin upp á hálsinn við Hagavatnið, norðan við Farið. Þaðan héldum við gangandi inn með vatninu og höfðu þá hálsinn á hægri hönd. Sólin hafði sín áhrif á færið. Hjarnið var yfirleitt ekki ísað og efsta malarlag var aurugt og þurfti að gæta sín að ekki skriplaði fótur.

Ísaldan hrynur að klettóttri strönd

Þegar jökull skríður fram sést ísalda ganga fram með rifinni ísþekju og gríðarlegum jökulbrotum. Þar sem aldan kemur að fjöllum og klettum hrynja ísflykkin og það er eins og maður sjái hrikalegt sjávarbrim í hægvirkustu sýningartækjum - nema einmitt þegar eitthvert ísbjargið hrynur fram. Svo hagar til að Hagavatnið er vestan við hálsinn sem upp á er ekið og sá háls gengur óslitið norður í jökulbrúnina. Vestan hálsins og norðan Hagavatnsins þrengir jökullinn að og að lokum þræddum við gil sem jökulaldan er að brotna í. Við gengum upp undir öldufaldinum og höfðum mikilfenglegt útsýni þar af hálsunum.

Heim eftir hálsinum

Við lögðum heimleiðina eftir hálsinum. Það gaf okkur hæð og yfirsýn en hins vegar var ekki aðlaðandi að fara niður að Hagavatninu aftur. Þessi háls ber tvær verulegar hæðir og við völdum að ganga yfir fyrri hæðina. Þaðan er mikið útsýni. Við sáum bíla koma akandi vestan með Hagavatni, meðfram jöklinum og út að hálsinum þar sem við geymdum okkar bíla. Lengra til suðurs risu tignarleg fjöll. Þar mátti sjá Skjaldbreið gamla, Hlöðufell og Lambahraun og þar suður af í Kálfstind og Högnhöfða. og Sandfellið lyfti sé á Haukadalsheiðinni.

Sólroðinn Hagavatnsskáli

Klukkan var orðin hálf sex þegar við höfðum aftur komið okkur fyrir í hinum ágæta Hagavatnsskál og snæddum nestisbita. Sumum hafði orðið gangan auðveldari en öðrum og það var gott að láta líða úr sér - og þegar við bættum aftur lofti í dekkin baðaði sólin okkur skáhöllum og roðaslegnum geislum.

Heima klukkan 22

Heimferðin gekk mjög vel. Sólbráð dagsins hafði nokkuð aukið aurlagið svo ljóst er að innan skamms kemur að því að vetrarferðir leggjast af og menn bíða af sér fjallavorið. Það er þó ljóst að alltaf má skjótast á Suðurjöklana ef til þess gefast glæsiveður. Það er sökum þess að þar liggja vegir bæði að og frá.

Bestu þakkir fyrir samfylgdina

Í ferðina fóru í einum bíl Bjössi og með honum sat ritari, í öðrum Freyja, Óli og Jóhann Ísak, í þriðja Pétur og Fríða með Eir, Lilju og Þóri og í fjórða þau Þorri og Dóra. Að ferðalokum þökkum við hvert öðru hjartanlega fyrir samfylgdina. Hver einasta fjallferð endurnýjar andann og auðveldar okkur að takast á við tilveruna.

Ritari á Hi8-upptöku af ferðinni.

Efst á þessa síðu * G-vinir / ferðatal * GÓP-fréttir forsíða