GÓP-fréttir forsíða
Dagsferð í Mörkina * -
20. mars 1999 - Blíðleg vetrarveður á núllgráðunni
Á laugardagsmorgni klukkan liðlega 8 vorum við tíu saman á fimm bílum á austurleið úr borginni. Í stafrófsröð eftir ökumönnum voru þar á ferðinni Bjössi og ritari, Gunnar og Ásgerður, Hafþór og Sólveig, Rún og Björnar og Þorri og Dóra.
Mild vetrarsýnishorn

Dumbungur var yfir og dropar á stangli á austurleið. Á heiðinni var dálitill renningur - rétt eins og myndrænt vegarskraut en ofankoman var áfram í dropum. Að minnsta kosti tveir fólksbílar nutu aðstoðar við að losna úr skafli og gátu haldið leiðar sinnar með gleði í skrekktu hjarta. Austur Flóa, Holt og Rangárvelli var dimmt til fjalla og Hekla sást ekki - en Bjólfell og Selsundsfjall stóðu skír sunnan við skýjakafið. Úr Landeyjum sást ekki á Eyjafjallajökul, Þórólfsfell hvarf upp í skýin og handan þeirra var Mörkin líka að mestu. Í Básum kom yfir hin þéttasta hríð sem skildi þó lítið eftir sig. Þar og á Þórsmörk var stillilogn og hiti ofan við frostmark. Smám sama létti betur til - ögn og ögn í senn - og á heimleið sást til Heklu, mótaði fyrir Botnsúlum og rauður sólarbjarni var sem aflangt auga hátt í vestri.

Skriðjökullinn hopar - og hopar

Við ókum yfir Jökulsá við lónið - hvað annað. Þar er jökullinn alltaf að hopa og nú er komið sandrif innst í lóninu. Á því rifi var fremsta táin með íshellum sem við gengum í fyrir örfáum árum. Nú eru tugir metra þaðan inn að jökulsporðinum.

Forpáskar í Básum

Við runnum inn í Básana sem heilsuðu okkur með þéttri, fínni snjókornahríð í logni mildu veðri. Þar fengum við okku nestisbita og héldum dálitla páskaeggs-prufu og þar sem engin börn voru í för fengu hinir fullorðnu loksins að borða það sem þá langaði til. Raunar fékk Lady einnig bita. Málsháttur eggsins hljóðaði svo: Engin rós er án þyrna sem virðist nokkuð trúverðugt í eiginlegri merkingu - nema þegar rósin er tekin án stilksins. Þannig var þessi Þórsmerkurferð og þyrnarnir sýnilega á öðru róli.

Viðgerð í Langadal

Húsmeistarar Ferðafélagsins voru að huga að Skagfjörðsskála þegar við komum þangað og þeir tóku hnýsni okkar vel. Þar stóðu hendur fram úr ermum og ljóst að húsið mun taka páskagestum hlýlega.

Húsadalur - Markarfljót

Við héldum nú fram yfir Krossá og Hvanná og niður að Merkureggjum. Þar ókum við aftur yfir Krossá og inn í Húsadal. Snjórinn var lítill og blautur og ísar klökkir. Markarfljótið umdi í sínum tveimur álum og yfir þá ókum við átakalaust.

Hellisbúarnir

Við ókum niður með Fauskheiði og Þórólfsfelli og yfir Gilsá móts við neðsta gilið ofan varnargarðsins. Þórólfsá var blíð og við vorum senn á ferð vestur Fljótshlíðina. Bjössi og ritari voru fremstir og voru því öruggir að beygja norður hjá Tumastöðum - uns þeir hrukku upp við að spjall og upprifjanir höfðu haldið hug þeirra fjarri og Breiðabólstaður var framundan. Þá var snúið við - en konurnar bentu að sjálfsögðu á að karlmenn hugsa aðeins um eitt í senn. Það er auðvitað hellisbúinn sem upphaflega vakti athygli þeirra á þessu og nú taka þær slíkum uppákomum með elskulegum skilningi og stóiskri ró.

Að Gunnarssteini og Keldum

Heldur var blautlegt að sjá til hrossa og kinda í Vatnsdal en lækurinn við rætur Þríhyrnings var í klakaglettu og gjörði okkur síðasta vatnagamanið. Gunnarsstein skoðuðum við hjá Rangá og íhuguðum nokkuð náið hvort hann hafi hugsanlega getað staðið úti í ánni fyrir þúsund árum. Ekki er það útilokað og hefði hann þá verið ákjósanlegt vígi nema fyrir köstum og skotum sem getur verið í góðu samræmi við frásögn Njálu.

Klukkan var liðlega 19 þegar við komum á Selfoss og stuttu síðar vorum við heima eftir ljómandi góða ferð - og þökkum hvert öðru fyrir skemmtilega samfylgd.

Efst á þessa síðu * G-vinir / ferðatal * GÓP-fréttir-fréttir