GÓP-fréttir 
Ferðatorg 
Ferðaskrá 
Vaðatal


Eyjafjallajökull

Næstum því !!
3. febrúar 2002

Merkis
veður
Mikil veðurhæð hafði verið á landinu öllu en var mun minni þennan morgun - alveg í samræmi við spár. Þær höfðu þó einnig spáð að heldur létti til á Suður- og Suðvestulandi en það fór ekki alveg eftir. Austur allar sveitir var fremur dimmt til lofts og frá Hvolsvelli sást einungis í fjallranann þar sem Seljalandsfoss unir í sínu frjálsa falli. Veðurspárnar höfðu lofað betra veðri síðdegis svo að við vorum seint á ferð - á Hvolsvelli klukkan 13. 
Frá
Háamúla
Við runnum inn Fljótshlíðina til Einars bónda í Háamúla - sem slóst í för með okkur því það fór ekki milli mála að héðan var allt annað að sjá til jökulsins. Strax var ákveðið að fara upp - því þar var aðeins birtu að sjá þótt toppurinn væri ekki alveg skír. 
Yfirsýn
til Eyja
Við ókum fram um Dímon, yfir Markarfljót á nýju brúnni, inn með Seljalandsfossi og Hamragörðum og þar upp á Hamragarðaheiðina. Þarna er enginn snjór. 
Þegar komið er upp í heiðina opnast mikill og gróinn dalur. Héðan er frábært útsýni til Vestmannaeyja og hingað upp er unnt að aka öllum fjórdrifnum bílum - líka fólksbílum. Fyrir ofan verður vegurinn hins vegar grófari og ekki lengur fyrir sunnudagsbíltúrinn á sumardegi. 
Snjó-
leysi
Þegar komið er upp fyrir slóða er landið afar grýtt og gróft og þá er mikil hjálp að því að finna snjó til að aka eftir. Snjórinn lét hins vegar á sér standa að þessu sinni. Við ókum niður í dalverpið frá hinum mikla urðarhálsi sem kemur frá jöklinum til suð-vesturs og frá hægri - suðri - upp eftir hálsinum. Enginn umtalsverður snjór varð til að flýta för okkar fyrr en komið var upp að hryggnum mikla sem liggur vestur frá jökulbungunni. 
Hálka Í snjóleysi þessa vetrar - og samt úrkomu og stundum töluverðum frostum - hefur jökullinn tekið heldur óaðlaðandi breytingum. Alls staðar er flughált hjarn og bílarnir taka að skríða undan halla þegar minnst vonum varir - nema þeir séu á nöglum - en þannig búnir voru aðeins tveir af okkar fimm.
Skemmti-
legt
viðfangsefni
Það var góð æfing að fara upp þessa urðarhálsa og kljást við hálkuna en þar sem við vorum á ferð síðla á stuttum degi febrúarmánaðar var ákveðið að láta gott heita í útjaðri sjálfrar jökulbungunnar þar sem enginn gat fótað sig nema á negldum skófatnaði. 
Nú ókum við til baka og nýttum langa og stundum nokkuð bratta skafla í lægðum til að flyta för okkar niður. Að þessu sinni fylgdum við vestur-hryggnum og síðan melhálsinum sem þar tekur við. Neðan hans ókum við fram á sléttuna, fylgdum henni spölkorn niður eftir og lögðum svo leiðina niður af brún dalverpisins og á slóðina frá því fyrr um daginn. Allt eru þetta leiðir sem mikið hafa verið eknar áður í vetur. 
Birtan
entist
Við vorum komin niður fyrir neðsta skaflinn um það bil sem degi brá og enn var ratljóst eftir að loft var komið í dekkin og klukkan 6:15. Nú var þó ekki lengur þörf að hafa áhyggjur því GPS-tækin geymdu slóðirnar og vegurinn var snjólaus.  
Auðar
sveitir

Enginn snjór er sunnanlands fyrr en komið er í 150 - 200 metra hæð yfir sjó. Vegir eru alauðir og þótt frost geti verið umtalsvert voru hvergi hálkublettir þennan daginn. 

Þetta var skemmtileg ferð og gaman að kljást við Eyjafjallajökul í þessu frábæra veðri - þótt ekki nytum sólar. Ritari þakkar ferðafélögunum ánægjulega samfylgd. 

Efst á þessa síðu * Ferðatorgið * GÓP-fréttir-fréttir * Ferðaskrá * Vaðatal