GÓP-fréttir
Ferðatorg 
Vaðatal 
Ferðaskrá

Norð-Austurlandið

3.-11. ágúst 2001 - 2.500 km frábær ferð.
Leiðin öll ferluð og fyrir liggja 3 klst á myndbandi.
Færð á leiðum er gjarnan miðuð við það hvort talið er að unnt sé að komast eftir henni á (a) öllum bílum, (b) Subaru eða einungis á (c) jeppum.

3. ágúst
föstudagur
Safnast í Nýjadal á 5 bílum. Klukkan var þó orðin nær 03 þegar tveir þeir síðustu runnu í garð.

Veður var bjart vestan til en skýjað þegar kom inn í landið og lá við rigningu í Nýjadal þó ekki bleytti mikið.
Vegur fyrir alla bíla sem ráða við ána sem rennur úr Nýjadal - og heitir raunar strax þar Fjórðungskvísl á sumum kortum. Hún er ekki illvíg en rétt er að gera ráð fyrir að vatnsdýpi geti verið næstum í hné og eins og venjulega þarf að gæta að hvort steinar eru í botni ef bíllinn er lágur.

4. ágúst
laugardagur
Skýjað og regndropar í fyrstu en þurrt og milt þegar leið á daginn.

Haldið frá Nýjadal austur hjá Tómasarhaga að Gjallanda. Yfir Skjálfandafljót á brúnni og norður með rótum Trölladyngju og síðan áfram norður með Skjalfandafljóti í skálann í Réttartorfu sem er nyrst á Hafursstaðaeyrum. Leiðin fer lengst af um úfin hraun og grýtta mela en blíðkast þegar komið er norður yfir Krossá. Vegur sennilega fær öllum jeppum og þeim jepplingum sem ekki hafa lága sílsa. Þetta er ekki Subaru-vegur.

Fagnar lúi ferðasveins
fínu Réttarkoti
gistir seint í öðru eins
úrvals glæsisloti.

5. ágúst
sunnudagur
Glæsilegt veður með logni og heiðríkju um morguninn og björtu veðri allan daginn. Jarðlitað vatnið úr Grafarlöndunum uppi í Hafursstaðaheiðinni fer með nokkrum galsa í vatnavegi Grafarlandagrófarinnar niður með Réttartorfunni og þylur okkur morgun-niðinn í logninu:

Enn er sól um alla jörð
og af stað við fjúkum
akandi í Axarfjörð
og að Kárahnjúkum.

Úr Réttartorfu um hraun og grófar grjótaleiðir. Framhjá Hrafnabjargafossi og á veg í Bárðardal. Þetta eru ekki Subaru-leiðir. Á sveitarveginum er ekið í norðaustur hjá Stöng og í Mývatnssveit efst í Laxárdal og svo í Skútustaði. Ekið suður og austur fyrir Mývatn. Skoðuð Stóragjá og Grjótagjá, Hveraröndin og Krafla og síðan ekið vestan Jökulsár á Fjöllum að Dettifossi, í Hólmatungur, Vesturdal og að Hljóðaklettum. Komið við í Ásbyrgi og gist í Skúlagarði. Vegurinn um Hólmatungur er grófur og leiðinlegur en fær öllum bílum.

6. ágúst
mánudagur

Hér skiptust
leiðir því
þrír bílar
héldu til
Reykjavíkur.

Himinn skýjaður en yfirleitt bjart. Af Fonti sást þó ekki í Austfirði en fylgst var með skipum á ferð þeirra fyrir nesið.

Frá Skúlagarði á Kópasker, í Hraunhafnartanga, á Raufarhöfn og Þórshöfn, út á Langanes í vitann á Fonti og í Skála og gist að Ytra Lóni. Leiðin út á Font og í Skála er ekki fyrir Subaru og raunar óhemju leiðinleg víða.

Hver sem þetta lúinn les
lyfti huga glaður:
Ytralón við Langanes
er ljúfur gististaður.

7. ágúst
þriðjudagur
Skýjað en bjart. Þoka stutta stund efst uppi þegar farið var suður af Smjörvatnsheiðinni.

Haldið á Þórshöfn og síðan í Bakkafjörð. Þar var skoðaður kaupstaðurinn og svo ekið til Vopnafjarðar. Þar var ekið að Burstafelli og síðan að Hrappsstöðum þar sem spurt var til vegar um Smjörvatnsheiði. Þegar yfir hana var komið var haldið í Fellabæ sem er norðan Lagarfljóts á móts við Egilsstaði. Smjörvatnsheiðin var undir snjósköflum nokkuð víða og ekki fyrir Subaru.

8. ágúst
miðvikudagur
Bjart veður allan daginn og Snæfell yfirleitt hnoðralaust. Herðubreið undir bláhimni og kvöldlitir á himni djúpir og tærir.

Ekið um hádegi í Hallormsstaðaskóg og Atlavík. Síðan innfyrir Löginn og í Skriðuklaustur. Svo farið innundir Eyjabakka og þaðan í Snæfell. Eftir viðstöðu hjá Þóreyju og Dagnýju var haldið í Sauðahnúka og þaðan í Sauðakot og svo norður í Kárahnjúka. Þessi leið er að minnsta kosti fær Suzuki jepplingi því við mættum einum slíkum við Sauðakot. Gilið var skoðað af Sandfelli og einnig af gljúfurbarminu sjálfum. Þaðan er ágæt sýn yfir efri hluta þess. Frá Kárahnjúkum var haldið í Hrafnkelsdal til Sáms bónda.

9. ágúst
fimmtudagur
Glæsilegt veður með logni og heiðríkju um morguninn og björtu veðri allan daginn.

Ekið af stað frá Aðalbóli kl. 08:30 í Kárahnjúka. Farið að gljúfrinu á tveimur stöðum. Sá fyrri var fyrir miðju gilinu og þar hefur verið spöruð vegarlagning til þess – að því er virðist – að neyða komumenn til að ganga niður brattar brekkur og fram á gilbarminn. Í lófa er lagið að gera veg niður á hann. Seinni staðurinn var á móts við efri Kárahnjúkinn efst og þaðan er ekki mikið að sjá.

Ekið var eftir leiðbeiningu landvarðarins inn að Töfrafossi í Kringilsá. Hann er þess virði að skoða hann. Þess ber þó að geta að þarna er uppi hefðbundin landvarðaárátta að láta ferðafólk ganga langar leiðir úr Sauðöldunni í stað þess að leiðbeina um akstur niður eftir ágætri leið niður að ánni og að góðri flöt sem er úrvals bílastæði á gilbarminum. Þessar leiðir ættu að vera færar fyrir Subaru þótt þær séu allgrýttar og leiðin liggi yfir óslétt mýrardrag sem getur verið nokkuð skorið. Við ókum síðan í Laugarvalladal og Sænautasel. Þar var okkur vel tekið eins og öðru ferðafólki:

Í Sænautaseli er næði
og sætt fyrir þá sem vilja
og lummurnar bjóða þau bæði
Bjössi Hallur og Lilja.

Þaðan var farið norður undir Möðrudal á leiðina inn í Kverkfjöll.

10. ágúst
föstudagur
Glæsilegt veður með logni og heiðríkju um morguninn og björtu veðri allan daginn.

Kverkfjallavættir kyrja: Hæ!
kalla á fætur lýði.
Litríkt er hvolf á lognsins bæ
laugar nú sólin gríði.
Sumarið veitir blíðan blæ
bljúgur er andinn þýði.
Rakel og Sirra sitji æ
Sigurðarhús með prýði.

Ókum út að jökulhellinum þar sem Volga kemur út. Áin Skólpa hefur tekið af veginum svo ganga þarf í 20 mínútur að hellinum. Héldum síðan yfir Jökulsá á Fjöllum á brú við Upptyppinga og inn í Drekagil og Öskju. Ókum svo í Herðubreiðarlindir og að Mývatni og um Fnjóskadal í Flateyjardal - í aldeilis einmuna veðri. Allar þessar leiðir eru færar fyrir Subaru - en í Flateyjardal þarf hann þó að vera nokkuð vel vatnsvarinn því þar þarf víða að aka ár og sumar geta verið upp undir hné á dýpt. Sváfum í Heiðarhúsum sem Arnór á Þverá annast.

11. ágúst
laugardagur
Dumbungsveður en þurrt fram undir hádegi. Rigndi síðan nokkuð en þurrt sunnan heiða.

Glaður ég fæturna fer á
- finn mína glöðu lund
veginn svo þræði að Þverá
með þökk fyrir næturstund.

Ekið í Bárðardal og frá Arndísarstöðum upp í heiðina og inn á Brenniás. Sú leið er fjölbreytt og liggur um gróin holt og mýrarsund og um grýttar slóðir. María á Arndísarstöðum sagði að hann nefndist Gullvegurinn því þar hefði forðum verið rekið féð sem keypt var fyrir gull og flutt var til Englands. Gullsjóður hafði glatast á leiðinni - og þaðan er nafnið komið. Sjóðurinn er enn ófundinn ... . Leiðin er ekki fyrir Subaru. Tóftir bæjarins í Brenniási liggja sunnan í Brenniásnum sjálfum. Þær eru óvanalega hreinar - því fjarlægt hefur verið allt timbur og járn og gler. Túnið virðist tilbúið til endurvakningar. Vart er þó von til að svo verði því þetta er svo afskekkt að varla mundi neinn fýsa að setja þar upp sumarbústað - hvað þá að reka þar landbúnað.

>> Síðan var snúið aftur að Arndísarstöðum. Þar er ekið um hlað. Hins vegar virðist unnt að aka ögn innan við bæinn upp að rétt og fara þar um hlið og beint upp hlíðina eftir þessum Gullvegi.

Veður fóru nú að bleyta meira en þurfti til að slá niður rykið og við hurfum heim á leið eftir frábæra ferð um Norð-Austurlandið.

Efst á þessa síðu * Ferðatorgið * GÓP-fréttir-fréttir * Vaðatal * Ferðaskrá