GÓP-
fréttir

FKE-
vefurinn

Lýsið -
sem taka má hvenær sem er
Sendu sögu!
13.02.07 Frá Herði Zophoníassyni

Hagyrðingurinn Kristján Bersi Ólafsson, áður meistari Flensborgarskólans, bauð mági sínum að mæla með honum inn í félagsskap Leirverja en til að öðlast þar inngöngu þurfti Hörður svo sjálfur að kynna sig.

Það gerði hann svona:

Sjálfslýsing fyrir Leirverja

Hörður

sendir

sjálfs-

lýsingu

við

inn-

göngu

í

félag

Leir-

verja

*

*

Þið fyrst skulið vita, ég heiti Hörður,
úr heillandi kjöti og mör er ég gjörður,
en hausinn er grettur og grár.
Ævigönguna andlaus ég þreyti,
ekkert um viskuna hirði né skeyti.
En lifi samt þrjóskur og þrár.

Í höfðuðborg Norðurlands fæddist ég forðum,
fallegri en hægt er að lýsa með orðum,
og utan við hjónabands höfn.
Sem óskapleg lengja óx svo úr grasi,
uppfullur stríðni og margskonar þrasi,
aukandi óknyttasöfn.

Skáti ég gerðist og flæktist um fjöllin,
faðmaði álfa, en glímdi við tröllin,
við útilíf lagði ég lag.
Nú er ég stirður, í fótunum fúinn,
farinn að kalka og andlega rúinn,
við sjónvarpið dotta í dag.

Við kennslu og skólastjórn, kátur ég undi,
kennarar píndust, hver nemandi stundi,
á misjöfnu þrífast börn best.
Karlinn mig, greyin öll, þurftu að þola,
þýðingarlaust var að emja og vola,
eða kvarta við kóng eða prest.

Kornungur, stæltur, í konu ég nældi,
konuna Ásthildi í hjónaband tældi,
þá var nú fagnaðar fjör.
Daga og nætur var gleði og gaman,
gáfuleg börnin við sjö áttum saman,
með “bravör” og brosið á vör.

Auðvelt var tæpast það ungstóð að temja,
aga og siða, skamma og lemja,
því uppeldi vanda skal vel.
Undrun og furða, úr þeim hvað rættist,
afkvæmi þeirra í hópinn minn bættist,
alsæll ég tuttugu tel.

Langafabörnin þau létta mér sporið,
lífga og hressa sem íslenska vorið,
fjögur, - það styttist í fimm.
En glaðir í kringum mig vinirnir vaka,
vanköntum mínum með skilningi taka,
þá örlögin gerast ei grimm.

Og Bersann öll þekkið með bragfiman anda,
í braghríðum kappinn mun teinréttur standa,
karlinn sá mágur er minn.
Fleira og meira ei fáið að vita,
fullbúíð ljóð þetta kostaði svita,
og andlegu átökin stinn.

Hafnarfjörður, með hraun sín og mosa,
sem hamingju veita og glaðlega brosa,
faðmlagið býður mér blítt.
Þar á ég heima og þar vil ég vera,
þar vil ég dauður beinin mín bera, -
og leiði mítt lífgrösum prýtt.

Hratt líður tíminn og enn vil ég yrkja,
andlausu ljóðin, - þau göfga og styrkja,
og gölluð hér ganga við staf.
Þau skjálfa og titra, já, fossa og flæða,
fagnandi hlæja og grátandi blæða, -
og langoftast lifa það af.

Meira ég vil ekki segja að sinni,
sjálfsagt er fleira í lífssögu minni,
sem bitastætt þykir í brag.
Kynningu á mér læt ég svo lokið,
leirfustar allir hér meðtaki sprokið
og lifi við hækkandi hag.

Í hljóðlátri auðmýkt í leirnum nú ligg ég,
frá Leirverjum þakklátur molana þigg ég,
þeir flestallir gera mér gott.
Lengi enn megi þeir leirinn sinn hnoða,
með leirugum höndunum viðhorf sín boða.
Þá lífið er fagurt og flott.

H. Z.

19.02.05 Frá Benedikt Axelssyni:
svangar

Í Hofsstaðaskóla eru fáir karlmenn (sem betur fer) og þess vegna ávarpa fundastjórnendur okkur alltaf í kvenkyni. Fyrir tveimur árum sátum við Eiríkur Ellertsson langan fund en í sárabætur bauð skólinn okkur - stelpunum - kaffi og meðlæti í hálfleik.
Þá var ort.

Í kaffi og kleinu okkur langar
eftir kröftugar ræður og strangar.
Nú hættum við hér,
það heppilegt er
því við Eiríkur erum svo svangar.

Kveðja
Ben. Ax.

Efst á þessa síðu * FKE-vefurinn * Forsíða GÓP-frétta