GÓP-fréttir
FKE-vefurinn

Hörður Zophaníasson, skstj.

Á fundi FKE á Akureyri þann 15. maí 2004 minntist Hörður atvika frá æskuárum sínum á Akureyri.

Ágætu
félagar
Ég er fæddur 25. apríl 1931 hér á Akureyri og hér ólst ég upp. Foreldrar mínir voru Zóphanías Benediktsson og Sigrún Trjámannsdóttir. Móðurafi minn hét Trjámann Príor. Ég veit ekki um annan sem hefur borið það nafn. Foreldrar mínir voru ógift, þegar þau áttu mig og ekki í neinum giftingarhugleiðingum eftir því sem best ég veit.
Ég var tveggja ára, þegar móðir mín giftist Tryggva Stefánssyni skósmið á Lundargötu 1. Hjá þeim ólst ég upp og reyndust þau mér ávallt bestu foreldrar. Þau voru athvarf mitt og skjól og hjá þeim átti ég heima, fyrst í Lundargötu 1 og síðar í Ægisgötu 13. Ég er því Eyrarpúki að ætt og uppruna og er stoltur af því.
1938 Ég hóf skólaferil minn í Barnaskóla Akureyrar vorið 1938. Kennarinn minn var Svava Stefánsdóttir, sem mér féll mjög vel við. Þá var ég sjö ára.
Þá leið tíminn ósköp hægt, rétt silaðist áfram í áttina til fullorðinsáranna. Lítill drengur hlakkar lifandis ósköp til þess að verða fullorðinn.
Fullorðinn maður má allt og getur allt! Hann er ævintýrið sem bíður í hillingum óralangt í framtíðinni.
Nú er öldin önnur, tíminn á harða hlaupum, rokinn út um gáttir og dyr áður en ég veit af. Maður á hvert merkisafmælið af öðru og nær því varla að anda á milli. Svona er lögmálið og lífið skrítið og mismunandi á ýmsum æviskeiðum. Vitundin skynjar tímann með ýmsum hætti.
Örn Snorrason var aðalkennari minn í 3. bekk og tók við bekknum af Svövu. Sigríður Skaftadóttir sá aðallega um okkur í 4. og 5. bekk og Egill Þorláksson í 6. bekk. Snorri Sigfússon var skólastjóri minn öll þessi ár. Allt var þetta úrvals fólk, sem skyldi eftir góðar og ljúfar minningar.
Eiríkur
í
skóla
Stundum vefst það fyrir fólki að leggja út á menntabrautina.
Ég hafði eignast vin í sveitinni, sem Eiríkur hét.
Hann var jafnaldri minn og fluttist til Akureyrar níu ára gamall.
Það var að vori. Svo kom sumarið og síðan haustið- og þá átti hann fara í Barnaskóla Akureyrar og öðlast þar visku og þroska. En þá kom babb í bátinn.
Eiríkur hafði illan bifur á þessari ágætu stofnum og þverneitaði að fara í skólann. Foreldrar hans beittu öllum þeim fortölum sem þau kunnu, reyndu að fá hann með góðu og illu til að fara í skólann. En gersamlega árangurslaust. Eiríki varð ekki haggað. Í skólann færi hann ekki.
Síðasta örþrifaráðið var að leita til jafnaldrans, besta vinar hans, og biðja hann að lokka hann inn á fyrirhugaða menntabraut. Og ég tók málið að mér.

Ég var í skólanum fyrir hádegi, en Eiríkur átti að vera þar eftir hádegi. Dagurinn fyrir fyrsta skóladaginn fór allur í rökræður og bollaeggingar um það, að allir yrðu að fara í skóla. Undan því yrði ekki vikist, enda vistin þar hin besta.
* Að kveldi dagsins hafði náðst samkomulag. Eiríkur ætlaði í skólann daginn eftir með því skilyrði að ég færi með honum.

Daginn eftir hraðaði ég mér úr skólanum og hélt beint heim til Eiríks, en hann átti heima í Gamla – Lundi hér niðri á Eyri.
Og af stað lögðum við, enda þótt Eiríki væri það þvert um hug.
Ferðin gekk hægt, hann maldaði í móinn en ég gyllti fyrir honum það sem biði hans í skólanum.
Við vorum komnir upp í Hafnarstræti, þar sem þá var Akureyrarapótek.
Þá snérist hann á hæli og tók sprettinn heim til sín og ég á eftir honum.
Það sem eftir var dagsins fór í fortölur og svo var komið að kvöldi, að hann ætlaði í skólann næsta dag, að sjálfsögðu í fylgd minni.

Næsti dagur kom. Þá komumst við upp að kirkjutröppunum.
Þar varð ég að sjá á bak vinar míns heim til sín. Þetta var erfið skólaganga.
Fortölur héldu áfram, þriðji dagurinn kom og enn vorum við Eiríkur á leiðinni í skólann. Við vorum komnir inn fyrir skólahliðið. Það var búið að hringja inn í tíma, raðirnar voru að tínast upp tröppurnar. Snorri skólastjóri stóð í tröppunum og gaf okkur vinunum auga.
Þá var það að Eirík brast kjarkinn og hann ætlaði að taka sprettinn heim.
En ég vildi sporna við því. Ég stóð í hliðinu og hélt báðum höndum um hliðarstólpana. Hann skyldi í skólann og ég varnaði honum leiðina um hliðið.
En þá tók Eiríkur til sinna ráða. Hann reiddi upp skólatöskuna sína og lét hana vaða beint í andlitið á mér, sem hafði báðar hendur á hliðarstólpunum. Ég fann mikinn sársauka í andlitinu og blóðið fossaði úr nefinu á mér.
En ég lét engan bilbug á mér finna og stóð sem fastast í hliðinu.
Eiríki féllust hendur, en Snorri kallaði til okkar að láta drenginn fara, ef hann vildi ekki koma í skólann.
Þetta hvorutveggja hafði þau áhrif, að Eiríkur lét sér segjast.
Hann rölti með mér, beygður og lúpulegur sem leið lá í skólann upp stigana alla leið upp á efstu hæð í skólanum.
Þar var bekkurinn hans var til húsa og þar beið kennarinn hans eftir honum.
Ég fylgdi honum inn í kennslustofuna. Þar settumst við saman við borð. Og ég var með honum allan skólatímann þann daginn.
 

  Ég fór líka með honum næsta dag í skólann og sat hjá honum í bekknum uns skóladagur hans var úti.
Þriðja daginn fylgdi ég honum enn í skólann. En þegar við vorum komnir inn í skólastofuna, sagði kennslukonan við mig:
“Hörður. Nú mátt þú fara heim. Eiríkur getur nú komið einn í skólann og séð um sig sjálfur.”
Mikið öskur kvað við, þegar ég sneri við í dyrum skólastofunnar.
Það var vinur minn Eiríkur, sem kom í loftköstum í áttina til mín.
En kennslukonan stóð í veginum fyrir honum, tók hann í fangið og setti hann í sætið sitt.
Þetta voru hörku áflog.
Ég lokaði dyrunum með nokkurri tregðu, því að mig langaði til að sjá hvernig þetta endaði.

Mér þótti þetta allt ævintýri líkast og Eiríkur félagi minn ærið djarfur í baráttunni fyrir frelsi sínu.
En heimleiðis hélt ég og skildi vin minn eftir í fangbrögðum við kennarann.
Þegar Eiríkur kom heim að skólatíma loknum, sagði hann mér að kennslukonan hefði haldið honum föstum í faðmi sér og farið að segja honum sögu. Hann heillaðist svo af sögunni að hann gleymdi sér alveg. Og áður en hann vissi af var kennarinn farinn að kenna, en Eiríkur sat rólegur í sæti sínu og fylgdist með kennslunni.
Og þar með var björninn unninn og Eiríkur sótti skólann rétt eins og önnur börn í skólanum.
En svona getur það nú verið erfitt að hefja göngu sína á menntabrautinni.

Eitt
sinn
skáti
...
Loksins var ég orðinn 10 ára nemandi í Barnaskóla Akureyrar. Það var haust, frímínútur, gleði og gaman, allt á ferð og flugi. Hann hét Tryggvi og var Þorsteinsson, kennarinn sem var úti til eftirlits.

Hann var kvikur í hreyfingum, glettið blik í auga, ákveðinn og hiklaus, íþróttakennari, góður skíðamaður, vinsæll kennari. En þó kannski fyrst og fremst skátaforingi í huga okkar vinanna í 4. bekk.
Hann þótti vera töluverður harðjaxl, strangur og kröfuharður.
Við horfðum til Tryggva með óttablandinni virðingu og aðdáun og skátastarfið sáum við í hillingum ævintýraheima. Við áttum við hann erindi.
Við nálguðumst hann hægt og hikandi.
Hann gaf okkur gætur kíminn á svip, sá að við vildum honum eitthvað.
Jæja, sagði hann hvetjandi. Er það eitthvað sem þið viljið segja mér?
“Já, okkur langar svo til að verða skátar. Getum við það?”
 

* Það lá spurn og eftirvænting í loftinu. Tryggvi virti okkur vandlega fyrir sér, var sýnilega að vega okkur og meta.
“Ég verð að gá betur að hvað er innan í ykkur, áður en ég get svarað því,” sagði hann glottuleitur.
“Er það sárt?” spurðum við. “Þið verðið bara að bíða og sjá til,” sagði hann. “Talið við mig eftir viku, ef þið hafið ennþá áhuga.”
Og vikan leið. Við fundum ekkert fyrir því að Tryggvi væri að gramsa innan í okkur. En það var þó aldrei að vita. Hann gat vel verið göldróttur ofan á allt annað. Loks var niðurstaða fengin. Við máttum koma á fund og gerast ylfingar til reynslu.

Ég man ennþá lokin á fyrsta fundinum.
Við sátum í hring fyrir framan arininn og horfðum á flöktandi logana og hlustuðum á glóðina bresta og braka.
Tryggvi stóð í eldskininu og talaði. Orðin rötuðu inn í hugskot okkar og hafa geymst þar alla tíð síðan. Hann sagði m. a. :

“Það er vandasamt að vera skáti. Það geta ekki allir. Það eru gerðar miklar kröfur til skáta. Þeir þurfa að vera heilir í hverju verki, trúir sjálfum sér, gefast aldrei upp þótt móti blási. Alla sína ævi verður hann að æfa sig og þjálfa, til þess að lifa í samræmi við kjörorð skáta: Ávallt viðbúinn.
Ég veit ekki hvað í ykkur býr. Ég veit ekki hvaða dugur er í ykkur.
Það verður að koma í ljós. En ég vil sjá ykkur duga, sjá ykkur eflast við hverja þraut, sjá ykkur sem skáta verðuga að vera félagar í Skátafélagi Akureyrar. Nú er tækifærið ykkar.
Það verður spennandi að sjá hvernig þið notið það.”

Ég drakk í mig hvert orð. Ég skyldi duga. Hann skyldi sjá það hann Tryggvi, að ég spjaraði mig.
Skáti varð ég og hef verið skáti óslitið hingað til.
Og enn segi ég stundum við sjálfan mig í huganum:
Ég má ekki bregðast; hann Tryggvi skal sjá að ég reyni að standa mig.
Ég má ekki bregðast skátaskyldunum eða öðru því sem mér er trúað fyrir.

Tryggvi Þorsteinsson er genginn.
Jarðneskar leifar hans hvíla í kirkjugarðinum hér á Akureyri.
Ennþá nær röddin til okkar skátadrengjanna hans.
Að leggja sig fram – að duga – að vera sannur í orðum og athöfnum.

Þannig lifir góður skátaforingi í huga og hjarta skátanna sem hann átti samleið með og mótaði á líðandi stundum við æfingar og útilíf í umhverfi vináttu og karlmennsku. Þeir skátar eru ekki tómhentir, sem deildu skátaveröld með Tryggva Þorsteinssyni.
 

Köku-
þjófur
Að lokum ætla ég að rifja upp lítið ævintýri, þegar kökuþjófur var staðinn að verki um miðja nótt.

Ég var orðinn 16 ára og sveitarforingi í Skátafélagi Akureyrar.
Ég og skátabróðir minn, Grétar Melstað, ætluðum að taka sérpróf í kökubakstri.
Við vorum komnir í tímaþröng, því að morguninn eftir ætlaði ég að fljúga til Reykjavíkur og taka þátt í sveitarforingjanámskeiði á Úlfljótsvatni.

Við Grétar stóðum því í bakstri heima í eldhúsinu í Ægisgötu 13. Skátaforinginn okkar Tryggvi Þorsteinsson var væntanlegur undir miðnættið til að dæma um árangurinn og úrskurða hvort við stæðumst prófið. Þá átti hann að hafa lokið þjálfun á einhverjum fimleikaflokki sem hann var að æfa.

Allt gekk þetta eftir. Tryggvi kom á tilteknum tíma.
En við Grétar höfðum ekki alveg lokið því sem við vorum að gera.
Tryggvi beið því í svefnherberginu mínu í 5 eða 10 mínútur á meðan við Grétar lögðum lokahönd á kaffið og kökuborðið.
Síðan kom Tryggvi og mat frammistöðu okkar svo, að við hefðum staðist prófið með mestu ágætum.

Það var komið fram yfir miðnætti.
Veðrið var gott og milt og ég ákvað að fylgja þeim Grétari og Tryggva upp á nyrðri brekkuna, en þar áttu þeir heima.
Eitthvað tafðist ég, þegar við vorum að leggja af stað, því að ég ætlaði aldrei að finna annan skóinn minn. Hann fannst eftir nokkra leit hangandi á króki í loftinu í herberginu mínu. Tryggvi hafði eitthvað þurft að gera sér til dundurs meðan hann beið eftir kaffinu og kökunum.
Nú var haldið af stað út í haustnóttina.

Þegar við vorum komnir þangað sem Grétar átti heima, sagði hann að móðir sín hefði verið að baka forláta smákökur.
Það gæti verið fróðlegt og gaman að smakka á þeim og gera samanburð á þeim og framleiðslunni okkar Grétars.
Þetta fannst okkur Tryggva góð hugmynd.

Heima hjá Grétari var lítil forstofa.
Inn af henni var allstórt rými fyrir fatnað og fleira.
Þar stóð m.a. gamall vefstóll. Þessu rými var lokað með einskonar skáphurð og læsingu, sem aðeins var hægt að opna utan frá.

*
Við förum nú inn í forstofuna og ég segi við Tryggva:
Hefurðu séð vefstólinn, sem er þarna inni? Hann er gamall og vel þess virði að berja hann augum.
Forvitni Tryggva var vakin og hann gekk inn til að skoða vefstólinn betur.
Þá lokaði ég dyrunum að baki hans og þær var ekki auðvelt að opna innan frá. Síðan taldi ég Grétar á að koma með mér í góða gönguferð um miðbæinn og lofa Tryggva að dúsa í skápnum á meðan. Hann myndi hafa hægt um sig, því að hann myndi veigra sér við að gera mikinn hávaða um miðja nótt og vekja húsráðendur.
Grétar tók þessari hugmynd fagnandi og við héldum í bæinn.

Gönguferð okkar tók rúman hálftíma. Þá komum við aftur.
Tryggvi kom út úr prísundinni hálf kindarlegur á svipinn.
En Grétar hélt af stað inn í eldhús til taka toll af smákökum móður sinnar.
Allt í einu hvíslar Tryggvi í eyra mér:
“Öryggin, ljósaöryggin sjáðu. Við tökum ljósin af húsinu.”
Ég bregst snarlega við, þýt inn í skápinn. En þegar ég er að teygja mig til að skrúfa laus öryggin heyri ég hlakkandi hlátur um leið og skáphurðinni er lokað að baki mér.
Nú var hlutverkum skipt og ég lokaður inni í skápnum.

En ég var yngri en Tryggvi og forhertari, því að ég hljóp á skáphurðina þar til hún hrökk upp og ég þeyttist inn í forstofuna.
Þá heyrði ég umgang í húsinu og heyrði slökkviliðsstjórann, Eggert Melstað, föður Grétars kalla:
“Hvað er þetta? Hvað gengur eiginlega á?”
Ég þaut eins og píla út um dyrnar og sá á eftir Tryggva þar sem hann hvarf í loftköstum fyrir næsta húshorn. Ég tók líka til fótanna og kom mér heim.

Síðar frétti ég að Grétar, vinur minn, hefði verið staðinn að verki í eldhúsinu við að stela kökum frá móður sinni um miðja nótt.
En hann brást karlmannlega við þeim aðstæðum og nefndi ekki einu orði um það hvernig við Tryggvi komum þar við sögu.

* Þær eru margar og skemmtilegar minningarnar frá æskudögum á Akureyri. En hér læt staðar numið að sinni.

Ég þakka ykkur áheyrnina.

Efst á þessa síðu * FKE-vefurinn * Forsíða GÓP-frétta